fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Lára fékk blóðtappa: „Ég gerði mér enga grein fyrir því að pillan væri orsök veikinda minna“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 7. ágúst 2019 13:00

Lára Ingólfsdóttir og sonur hennar Arnbjörn Ingi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rétt rúmlega ári, þann 2. ágúst 2018, greindist Lára Ingólfsdóttir með blóðtappa í báðum lungum. Lára var 34 ára, ung og hraust. Hvernig gat þetta gerst?

„Í mínu tilfelli var ég ein af þeim fimm til sjö konum af 10.000 á hverju ári sem geta fengið blóðtappa af völdum getnaðarvarnartöflunnar Microgyn,“ segir Lára.

Í samtali við DV segir Lára að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að getnaðarvarnapillan væri orsök veikinda hennar. „Einmitt þess vegna vil ég vekja athygli allra þeirra sem eru að taka inn hormónalyf og hvetja þær til að kynna sér hvaða áhættur geta fylgt því,“ segir Lára.

Fékk blóðtappa eftir flug

Lára segist hafa byrjað mjög ung á getnaðarvarnarpillu þar sem hún var alltaf mjög slöpp í hverjum mánuði þegar hún var á blæðingum.

Hún segir okkur frá því hvernig blóðtappinn myndaðist.

„Ég var að koma úr fjögurra tíma flugi að utan í byrjun maí. Þá myndaðist tappi í bláæð í hægri fótlegg. Í nokkra daga fann ég fyrir verk sem leiddi upp innanverðan hægri fótlegg ásamt smá roða. Verkurinn leiddi síðan alveg upp í nára en síðan hvarf verkurinn,“ segir Lára.

„Stuttu eftir að verkurinn hvarf fór ég að finna fyrir þyngslum yfir brjóstkassa. Ég hélt að ég væri komin með mjög slæma vöðvabólgu. Verkurinn náði yfir brjóstkassa, bak, háls og kjálka. Mér leið eins og ég væri að bera hundrað kíló á herðum mér,“ segir Lára.

Þrjóskan við stjórnvöllinn

„Eitt kvöldið var ég gjörsamlega búin á því og fann fyrir dofa í vinstri handlegg. Ég hugsaði í smá stund hvort það gæti verið að ég, 34 ára kona, væri að fá hjartaáfall. En á þessum tíma var þrjóskan búin að ná völdum og röddin í hausnum var að segja mér að hætta þessum aumingjaskap. Á þessum tímapunkti var blóðtappinn byrjaður að hafa áhrif á blóðflæði til hjartans.“

Næstu dagar voru Láru mjög erfiðir. „Mæði og hóstaköst bættust ofan á þyngslin fyrir brjóstinu. Næturnar fóru að vera erfiðar. „Aldrei á ævinni hef ég tekið jafn mikið af verkjalyfjum til að þrauka dagana,“ segir Lára.

„Ég var í fullri vinnu, með barn og heimili. Ég reyndi að gera allt til að losa mig við þetta „kvef“ og þessa „vöðvabólgu“ sem ég hélt að hefði hellst svona yfir mig. Ég fór í göngutúra og reyndi meira að segja að fara út að hlaupa. En alltaf hljómaði ég eins og stórreykingamanneskja.“

Lára fékk blóðtappa í lungun.

Skreið fram úr rúminu

Einn sunnudag, tíu dögum fyrir rétta greiningu, vaknaði Lára og náði varla andanum.

„Það var eins og ég væri súrefnislaus. Ég vissi ekki hvað var að gerast. Ég hélt kannski að ég væri að fá eitthvert risakvíðakast. Ég skreið fram úr og rétt náði í poka til að ná andanum. Þá hefur blóðtappinn líklega skotist frá hjartanu og yfir í lungun,“ segir Lára.

En áfram var þrjóskan við stjórnvölinn og Lára fór ekki til læknis. „Mæðin var í hámarki. Ég gat varla gengið nokkur skref og ég skreið upp tröppur. Ég man takmarkað eftir þessum dögum. Ég veit ekki hvernig ég náði að drösla mér áfram,“ segir Lára.

Læknisheimsóknir

Lára fór nokkrum sinnum til læknis meðan á veikindunum stóð.

„Ég fór tvisvar sinnum þegar ég var með verkinn í fætinum,“ segir Lára. Hún fékk sýklalyf og verkjatöflur eftir þær læknisheimsóknir.

„Svo fór ég til læknis þegar mæðin og hóstaköstin byrjuðu. Læknirinn hlustaði mig og setti mig í hjartalínurit og blóðprufu en ekkert kom úr því. Hann taldi mig vera með einhvern vírus sem gæti tekið nokkrar vikur að lagast og ég fékk einhver verkjalyf,“ segir Lára.

Margir í kringum Láru voru með frjókornaofnæmi á þessum tíma og voru líka með mæði. Hún ákvað að prófa að taka ofnæmistöflur en ekkert virkaði. Yfirmanni Láru leist ekkert á hana og sagði henni að fara til Guðmundar Benediktssonar læknis.

„Ég var svo lánsöm að hitta á Guðmund. Hann sagði við mig að ég fengi ekki að fara fyrr en við kæmumst að því hvað væri að hrjá mig. Að heyra hann segja það var svo mikill léttir, því þrjóskan var alveg búin að ganga frá mér og mig var farið að gruna að þetta væri eitthvað meira en bara aumingjaskapur,“ segir Lára.

„En aldrei bjóst ég þó við því að ég yrði greind með blóðtappa í báðum lungum. Ég var talin mjög heppin að blóðtapparnir voru ekki komnir í stóru slagæðarnar, því það hefði getað endað illa.“

Getnaðarvarnarpillan sökudólgurinn

Eftir að Lára fékk loks rétta greiningu fékk hún að vita hver sökudólgurinn væri, getnaðarvarnarpillan Microgyn. „Ég las fylgiseðilinn fyrir pilluna og ég ætlaði ekki að trúa því hversu margir áhættuþættir geta fylgt henni. Ég gerði mér einnig grein fyrir því að það getur ýmislegt komið fyrir ungt fólk, alveg óháð líkamlegu eða andlegu ástandi þess,“ segir Lára.

„En það sem kom mér í gegnum þetta var að ég hafði alltaf hugsað vel um sjálfa mig, var í nokkuð góðu líkamlegu standi og umvafin yndislegu fólki.“

Vill vara aðrar konur við

Lára vill vekja athygli á málinu og vara aðrar konur við.

„Mig langar að vekja athygli allra kvenna, sérstaklega þeirra sem eru að byrja í fyrsta skipti á getnaðarvarnarpillu, og hvetja þær til að ræða vel við sinn lækni um alla þá áhættu sem getur fylgt ákveðnum pillum. Ert þú reiðubúin til að taka þessa áhættu?“ spyr Lára.

„Ég veit að getnaðarvarnarpillur hafa hjálpað mörgum konum í gegnum tíðina. En fræðslan um þessi hormónalyf er mjög lítil og ég held að margar stelpur og konur geri sér enga grein fyrir því hvaða aukaverkanir geta fylgt þeim. Ég skil mjög vel að margar konur vilji vera á þessum pillum, en fræðsla er nauðsynleg.“

Blóðsegarek til lungna hjá unglingsstúlku

Árið 2011 kom 17 ára stúlka á bráðamóttöku barna eftir að hafa verið óglatt og með verki í brjóstkassa í tvær vikur. Greint var frá þessu í Læknablaðinu sama ár.

Stúlkan hafði fengið mígreni en var annars hraust og hafði engin lyf tekið nema Mercilion-getnaðarvarnartöflur í hálft ár.

Kom í ljós að stúlkan væri með blóðsegarek til lungna og fór hún í opna hjartaskurðaðgerð. Blóðseginn var fjarlægður.

Í Læknablaðinu kemur meðal annars fram að:

„Ýtarlegar rannsóknir voru gerðar á segahneigð en engin orsök fannst önnur en hugsanlega getnaðarvarnartaflan.“

Og: „Sýnt hefur verið að samsettar getnaðarvarnarpillur auka líkur á myndun blóðsega.“

Það var framkvæmd rannsókn og innlagnir unglinga á sjúkrahús yfir 15 ára tímabil voru skoðaðar. Rannsóknin sýndi að nýgengni blóðsegareks til lungna var 78 af hverjum 100 þúsund unglingum. Stúlkur reyndust tvöfalt fleiri en drengir í þessari rannsókn.

Aðaláhættuþættirnir voru notkun getnaðarvarnartaflna og fóstureyðing hjá stúlkum (75 prósent) og slys/áverkar hjá drengjum (67 prósent).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.