fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Ingibjörg hélt að dagar sínir væru taldir: „Uppteknar mæður og konur eiga það til að setja sig í lang síðasta sæti“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 18. júlí 2019 20:00

Ingibjörg Lára Sveinsdóttir ásamt börnum sínum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingibjörg Lára er 26 ára sveitastelpa. Hún er gift tveggja barna móðir og er um þessar mundir í fæðingarorlofi með sex mánaða son sinn og annan tveggja og hálfs árs. Hún er að eigin sögn sterk en viðkvæm, með sterka réttlætiskennd og virkilega ákveðin, stundum þrjósk.

Ingibjörg hélt í mars 2019 að dagar sínir væru taldir. Hún hafði verið rosalega verkjuð og glímt við aðra líkamlega kvilla í rúmlega ár án þess að vita hvað væri að. Hún komst loksins að því að hún væri örmagna vegna langvarandi streitu, álags og svefnleysis, auk þess að glíma við afleiðingar áfalla og bílslyss. Ingibjörg opnaði sig um málið á Facebook og í kjölfarið var hópur fyrir konur, í sömu stöðu og hún, stofnaður.

Við ræddum við Ingibjörgu um upphaf verkjanna, ferðirnar á bráðamótttökuna, tímann sem hún hélt hún myndi deyja og Facebook-stuðningshópinn.

Hélt að eitthvað bráðalvarlegt væri að

Saga Ingibjargar byrjar í mars 2018.

„Þá byrjar mér að líða alveg hræðilega. Orkuleysi, minnisleysi, svefntruflanir, öndunarerfiðleikar, hjartsláttarvesen, sjóntruflanir, meltingartruflanir, doði/dofi í útlimum og andliti og svakalegir verkir í líkamanum og stoðkerfinu almennt, og miklu, miklu meira,“ segir Ingibjörg.

„Þetta hafði mikil áhrif á andlegu hliðina því að ég hélt að það væri eitthvað bráðalvarlegt að. Ég leitaði til læknis um sumarið en það kom ekkert út úr þeim heimsóknum. Ég átti bara að hvíla mig. Sumir dagar voru betri en aðrir. Ég hélt að þetta ástand, hvað sem þetta var, væri nú að lagast,“ segir Ingibjörg.

Hins vegar dugði sú tilfinning stutt. Í mars á þessu ári hélt Ingibjörg Lára að líkami hennar væri að gefa upp öndina.

„Í mars 2019 hrundi allt. Eftir tvær ferðir niður á bráðamóttöku, sem skiluðu litlu, hélt ég í raun og veru að dagar mínir væru taldir,“ segir Ingibjörg Lára.

Við tók mikil rannsóknarvinna til að finna út hvað væri að valda henni svona miklum verkjum og vanlíðan. Allar niðurstöður komu eðlilega út og stóð Ingibjörg eftir með fleiri spurningar en áður.

„Eftir að hafa verið ávísað allskyns pillum og töflum fæ ég nóg og leita til annars læknis. Sá læknir hlustaði á mig og var tilbúin að hjálpa mér og vinna bug á þessum veikindum, finna viðeigandi úrræði og koma hlutunum í farveg,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Lára.

Staðan í dag

Þrátt fyrir að hafa fengið lækni sem var reiðubúinn að hjálpa henni segir Ingibjörg að staðan á henni í dag sé ekki góð. „En hún hefur verið verri,“ segir Ingibjörg.

„Eftir tvær ferðir á Heilsugæsluna í andnauð og eina á Bráðamóttökuna nær meðvitundarlaus í síðastliðinni viku, er ég loksins búin að meðtaka það að ég sé ekki að deyja. Ég er ,,bara“ örmagna. Ég er ,,bara“ komin í þrot. Og ástæðan er langvarandi streita, álag, svefnleysi, áföll og bílslys. Ég vann ekki almennilega úr þessu heldur fór bara í ,,þetta reddast“ gírinn og hélt keyrslunni áfram.“

Ingibjörg segir að þetta hafi ekki einungis áhrif á hana.

„Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á mig og alla þá sem standa mér næst. Ég hef einangrast mikið og ekki getað sinnt nauðsynlegum hlutum eins vel og mér finnst ég ætti að gera. En það sem svíður mest er að geta ekki gert allt fyrir börnin mín öllum stundum og þurfa að þiggja hjálp fjölskyldu og vina,“ segir Ingibjörg.

Leitaði ráða á Mæðra Tips

Ingibjörg leitaði ráða í Facebook-hópnum Mæðra Tips og fékk mikil viðbrögð. Aðspurð af hverju hún ákvað að leita þangað segir hún: „Ég fékk bara algjörlega nóg af endalausri vanlíðan og hrikalegum verkjum. Ég ákvað að skammast mín ekki fyrir að líða illa og langaði að athuga hvort einhverjar mæður/konur hefðu upplifað eitthvað í líkingu við þetta sem ég er að glíma við. Ætli ég hafi ekki viljað fá staðfestingu á því að ég væri ekki ein.“

Viðbrögðin við færslunni létu ekki á sér standa.

„Ég fékk ótrúleg viðbrögð. Það voru gríðarlega margar konur sem svöruðu mér og buðu mér að spjalla við sig í skilaboðum. Konur sem hafa lent í þroti og örmögnun vegna mikillar streitu og áfalla, meðal annarra áhrifaþátta. Ég vil kalla þetta góð viðbrögð, þó að umfangsefnið sé hræðilegt. Þetta á ekki að vera ,,tabú“ frekar en önnur veikindi,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir að viðbrögðin hafi komið henni á óvart. „Ég bjóst kannski við að þrjár, fjórar konur myndu svara mér en athugasemdirnar létu ekki á sér standa. Það sem kom mér mest á óvart var kærleikurinn og viljinn til þess að hjálpa. Það var ómetanlegt að fá að senda þessum sterku konum skilaboð og upplifa það að maður sé ekki einn í þessari gríðarlegu erfiðu baráttu við daglegt líf og athafnir. Það gefur auga leið að þetta er því miður algengt ástand hjá nútíma konum. Skilningurinn sem ég mætti var algjör,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Lára ásamt börnum sínum.

Nýr hópur stofnaður

Nýr Facebook-hópur var stofnaður í kjölfarið fyrir konur eins og Ingibjörgu.

„Hópurinn er mjög nýr en ég vona að hann verði virkur og veiti stuðning. Hópurinn hefur klárlega hjálpað mér og ég er viss um að hann hafi gert öðrum gott,“ segir Ingibjörg og bætir við að það fjölgi hratt í hópnum.

„Þessi tiltekni Facebook hópur er eingöngu fyrir konur þar sem langvarandi streita, álag og áföll hafa haft áhrif á þeirra heilsu. Þar á algjör trúnaður að ríkja svo að konur geta deilt sinni reynslu, úrræðum sem hafa virkað fyrir þær og sýnt hvor annarri stuðning.“

Hefur lært mikið

Ingibjörg segir að hún hafi lært ýmislegt í þessu öllu saman. „Ég hef lært að treysta eigin innsæi. Ég hef lært að það sé allt í lagi að leita sér aðstoðar og biðja um hjálp. Ég hef lært að ég þurfi ekki að sætta mig við að líða illa og reynt að stjórna þeim hlutum sem ég get stjórnað. Ég hef lært að pillur bjarga ekki öllu einn, tveir og þrír. Maður þarf sjálfur algjörlega að taka til í sínu lífi,“ segir Ingibjörg.

„Uppteknar mæður og konur eiga það til að setja sig í lang síðasta sæti. En það mikilvægasta sem ég hef gert mér grein fyrir er það, að ég hef fullan rétt á því að líða eins og mér líður, jafnvel þó aðrir eigi miklu meira bágt en ég.“

Mikilvægt að hafa góðan lækni

Ingibjörg bendir á að það séu allskonar námskeið og meðferðir í boði fyrir fólk í sömu stöðu og hún.

„Það sem er gríðarlega mikilvægt er að vera með góðan lækni sem hlustar og þig og er tilbúinn til að hjálpa þér út úr þessum vítahring með viðeigandi úrræðum. En því miður er oft löng bið að komast í einhvers konar meðferð eða endurhæfingu. Þess vegna er mikilvægt að hefja ferlið sem fyrst um leið og fagaðilar eru vissir að um örmögnun sé að ræða.“

Næstu skref

Næstu skref fyrir Ingibjörgu eru að bíða eftir að Virk hafi samband við hana og vonandi bjóði henni að byrja í endurhæfingu.

„Það getur verið svolítill tími í það. Á meðan verð ég bara að taka einn dag í einu og bíða eftir að minn læknir og sjúkraþjálfari koma úr fríi til þess að taka upp þráðinn aftur. Það er nefnilega ekkert grín að vera veikur yfir sumartímann. Ég er orðin langþreytt á því að vera send heim sárkvalin, svo ég reyni að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að gera dagana bærilegri,“ segir Ingibjörg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta