fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024

Ekki til neitt grátt svæði í kynlífi: „Vissi innst inni að það hefði verið brotið á mér“

Ritstjórn Bleikt
Fimmtudaginn 7. febrúar 2019 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef byrjað á þessum pistli hundrað sinnum og hætt við hann jafn mörgum sinnum. Ástæðan er einföld. Mig langar svo, ég VERÐ að koma þessu rétt frá mér. Mér finnst það skipta gríðarlegu máli. Þetta málefni skiptir mig gríðarlegu máli. Ég verð að leiðrétta þessi röngu skilaboð sem ég fékk á sínum tíma.“

Svona byrjar bréf sem Bleikt fékk aðsent fyrir fjórum árum síðan. Bréfið er átakanlegt en virkilega mikilvægt í baráttunni gegn ofbeldi. Undanfarið hefur kynferðisofbeldi verið mikið í umræðunni hérlendis og þá hafa konur sérstaklega mikið verið að opna sig um þá erfiðu reynslu sem þær hafa gengið í gegnum. Staðreyndin um það hversu kynferðislegt ofbeldi er algengt í samfélaginu er sorgleg en raunveruleg. Því er það mikið hugrekki þegar fólk stígur fram og deilir sinni sögu. Þrátt fyrir að þessi saga hafi borist Bleikt fyrir fjórum árum síðan á hún enn þá við daginn í dag. Því endurbirtum við bréfið hér:

Er þetta nauðgun?

Ég skundaði, alheilbrigð á sál og líkama að mér fannst, á fund stelpnanna á Stígamótum með eina spurningu í farteskinu: „Er þetta nauðgun?“ Þetta er ekki grín. Ég þurfti að fá að vita það. Í mínum huga var mér auðvitað ekki nauðgað en vegna góðlátlegs þrýstings frá vinkonu minni og einhverri gríðarlegri vanlíðan sem hafði verið að hreiðra um sig í mér undanfarna mánuði þá ákveð ég að slá til. Ég meina, þjónustan var frí, engin þurfti að vita að ég hefði farið og það sakaði ekki að fá að heyra frá fagaðila að hún, vinkona mín, hefði rangt fyrir sér. Mér var ekki nauðgað, ég var bara eitthvað miður mín þessa dagana.

Nauðgun er svo hryllilega hræðilegur glæpur. Ég meina, maður veit alveg hvenær manni er nauðgað. Það fer ekkert á milli mála! Þessari vinkonu minni hafði eitt sinn, á sínum fyrstu árum unglingsáranna verið nauðgað. Ég hryllti mig við tilhugsunina. „Djöfulsins ógeð var þessi maður,“ „réttdræpt kvikindi“ og „Ef ég sæi hann þá myndi ég sko berja hann til óbóta“ voru setningar sem ég hafði látið falla þegar vinkona mín sagði mér frá því. Ég hugsaði margt verra. Hún yfirleitt yppti bara öxlum þegar ræðurnar mínar byrjuðu:

„Já, já. Ég reyni bara að hugsa sem minnst um þetta. Er ekkert að velta mér upp úr þessu. Tek bara á því þegar ég þarf, annars er ég bara góð.“

Góð?! Þvílík sjálfsblekking hjá greyið stelpunni. Hvað ég vorkenndi henni. Hún hafði lent í höndunum á ógeðslegu skrímsli. Hún yrði aldrei heil aftur, aldrei. Hún var brotin, að eilífu. Afleiðingarnar myndu fylgja henni í gröfina. Guð, hvað ég fann til með henni. Hún gæti aldrei stundað eðlilegt kynlíf aftur, aldrei átt heilbrigt samband við maka sinn. Allt út af einhverjum viðbjóði. Alltaf þegar umræðurnar fóru út á þessa braut þá hlustaði hún. Hún varð aldrei reið, aldrei pirruð. Hún leyfði fólki að mala um sitt. „Já, hann er ógeð. Já, hann er fífl. Já, hann er réttdræpur,“ svaraði hún en svo fylgdi alltaf ábending um að fórnarlambið ætti kannski að leita sér hjálpar. Það væri betra, fyrir fórnarlambið.

Guð, hvað hún var sterk, þessi vinkona mín. Ég gjörsamlega dáðist að þessari sterku manneskju. Hún hlaut að þjást gríðarlega á hverjum degi. Hún átti alla mína samúð. Hvernig fór hún að þessu? Fallega, sterka vinkona mín sem myndi aldrei verða heil. Sárin á sálinni hennar voru of djúp, of mikil. Þau gætu aldrei gróið að fullu. Ég þyrfti að vera henni til staðar, alltaf, að eilífu. Nauðgarar voru ógeðsleg skrímsli sem þyrfti að afmá af þessari plánetu. Ég var búin að sjá hvernig henni leið þegar hún þurfti að tjá sig um málin. Þegar hún fékk „flash back“ eða dreymdi eitthvað tengt sínum máli. Ómannlegar rottur! Þeir gengu hérna um drepandi sálirnar í konum. Djöfull skildi ég brenna þá alla með tölu. Ógeð!

Blaut tuska í andlitið

Jæja, aftur að deginum sem ég fór til þess að fá vissu mína. Ég hlammaði mér í sófann hjá viðtalskonunni minni, taugaveikluð, vissi í raun ekkert hvað ég átti að segja. Ég ákvað að segja henni frá öllu, útskýra allar hliðar, enda málið mitt flókið með endemum. Ég bjó í litlum smábæ út á landi. Smábæir eiga það til að gera allt svona lagað miklu, miklu flóknara. Gerandinn var í þokkabót félagi minn. Þetta var flókið mál og ekki hægt að henda allri ábyrg yfir á hann. Ef ég færi nú að kalla hann nauðgara (sem hann auðvitað var ekki, að mér fannst) þá væri lífið hans búið. Ég gæti ekki borið ábyrgð á því.

Ég sagði henni alla söguna án þess að vera dramatísk – ég passaði mig á því. Ég reyndi meira að segja að draga úr heldur en að bæta í til þess að koma því að, að mér hefði ekki verið nauðgað. Augnaráðið frá henni er mér minnisstæðast. Ég vissi um leið og ég leit framan í hana að ég var í klandri. Ó, hvað hún hafði séð þetta oft. Stelpur í afneitun, stelpur með troðfulla tösku af afsökunum, réttlætingum og sjálfsásökunum. Hún sá í gegnum mig. Hún vissi nákvæmlega hvað hafði skeð.

Þannig þegar ég spurði „Er þetta nauðgun?“ var svarið „Já, ég myndi kalla þetta nauðgun.“

Ísköld rennandi blaut tuska beint í smettið.

Ég átti ekki von á þessu. Svarið var svo hreint og beint, svo skýrt, svo afgerandi. Ég átti von á „nei“ eða jafnvel „sko, þetta er náttúrulega erfitt mál. Hans hlið og þín hlið. Mögulega var þetta misskilningur. Líklega var þetta misskilningur.“

Ég reyndi eins og ég gat að snúa þessu upp í eitthvað annað. „Var þetta ekki bara grátt svæði í kynlífinu? Ha?“ og „Hann var samt bólfélagi minn, hann hefur örugglega bara misskilið mig eitthvað.“

„Við vorum að stunda kynlíf þegar þetta gerðist, hann hefur örugglega ekki ætlað að gera þetta!“

Augnaráðið frá viðtalskonunni minni. Eins og ég sagði, þá hafði hún örugglega séð þetta í hundruð skipta. Þrátt fyrir að ég reyndi að öllum mætti að loka á þennan sannleik þá vissi ég innst inni að það hafið verið brotið á mér. Það væri ekki eðlilegt að líða illa eftir kynlíf. Það væri ekki til neitt sem heitir grátt svæði í kynlífi. Ég hafði lent í höndunum á ógeðslegu skrímsli og núna væri ég komin í hóp þeirra sem myndu alltaf þurfa að glíma við afleiðingarnar af því. Ég gæti aldrei jafnað mig. Sálin í mér væri dauð. Ég var dauð. Ég væri ekki fær um að finna til sannrar gleði, ást og hamingju aftur. Núna þyrfti ég bara að þrauka, þangað til ég myndi deyja.

Vonlaus um bata mætti ég reglulega í Stígamót. Babblandi um sama hlutinn aftur og aftur. Einstaka skipti fóru í að þegja aðallega. Þá var ég svo þreytt út af svefnleysi. Ég dró fórnarlambskrossinn á eftir mér í marga, marga mánuði. Hann var svo þungur. Ég rétt réði við hann. Hvernig átti ég að hefja nýtt og betra líf eftir þetta? Það gerðist ekkert.

Í nokkur skipti sagði ég henni frá því að mér þætti ekkert að ske. Jú, það var nú kannski ekki rétt hjá mér. Ég var komin í annað samband með heilbrigðum manni (vottað frá stígamótum takk fyrir pent). Svo var eitt og annað sem hún benti mér á. Ömurlega lítil hænuskref, að mér fannst. Mér leið enn þá illa. Ég fékk enn þá martraðir. Í nokkur ár mætti ég reglulega til þeirra. Stundum leið langur tími, stundum stuttur. Ég mætti alltaf. Ég hætti aldrei að vinna í mér. Það var svo margt sem ég þurfti að læra upp á nýtt, hugsa upp á nýtt. Mikið ofboðslega var ég beygluð á sálinni.

Þolandans val hvort þeir leyfi vanlíðaninni að stækka

Það hefði verið svo margt sem ég hefði viljað vita áður en ég lenti í þessu. Það eru svo mörg röng skilaboð úti í samfélaginu. Það er tilgangurinn með þessum pistli. Að fræða þig, lesandi góður. Svo ég byrji einhvers staðar, þá vil ég byrja á því að láta þig vita að það er til mjög gott og hamingjuríkt líf eftir kynferðislegt ofbeldi. Það er okkur (þolendunum) í sjálfval sett hvort við setjumst i sófann og leyfum vanlíðaninni að stækka innra með okkur eða hvort við rífum okkur upp og tæklum hana. Leiðin að betra lífi eftir svona glæp er yfirleitt ekki auðveld, enda oft á tíðum margar og flóknar tilfinningarblöndur sem þarf að leysa úr. Stuðningurinn er til staðar og er Stígamót eitt af þeim.

Ef þær henta þér ekki þá er ég viss um að þær séu til í að beina þér annað sem gæti hentað betur. Maður þarf bara að falast eftir hjálpinni sjálfur. Við þurfum að stíga fyrsta skrefið og það er að segja frá. Dagurinn sem ég uppgötvaði að ég þyrfti ekki að vera brotin að eilífu var dagurinn sem mér byrjaði að batna.

Reiði eru eðlileg viðbrögð. Flestir verða reiðir þegar talað er um níðingsverk. Það sést einna best í athugasemdarkerfunum á Internetinu. Allir verða öskubrjálaðir, enda ekki skrítið. Nauðganir eru viðbjóðsleg verk og nauðgarar aumkunarverðir. Nú ætla ég að hætta mér á eldfimt svæði og segja að reiðinn er skiljanleg og stundum gagnleg, en heykvíslabrjálæðið sem blossar upp skaðar meira en hjálpar.

Ég man hversu ljúfur söngur það var í mín eyru að heyra hversu mikið nauðgarar ættu ekkert gott skilið í lífinu. Þeir ættu allir skilið að brenna, drepast, vera fláðir lifandi. Áður en ég lenti í þessu sjálf, söng ég sama sönginn.

„Ristum á þá blóðörninn, ristum á þá blóðörninn.“

Það var viss huggun að heyra það að ég væri ekki ein sem væri reið út í gerendur. Mér fannst ég hafa eitthvað vald í höndunum. Mér leið eins og ég gæti sigað trylltum lýðnum að húsi gerandans og horft á þegar hann væri rifin í sundur, bara með því að opna á mér trantinn. Til skamms tíma var þetta mér gagnlegt. Reiðin gaf mér orku til þess að fram úr rúminu á morgnana. Ég komst í gegnum daginn því ég var alveg frussandi geðveik úr reiði. Eftir nokkra mánuði af stanslausri reiði var ég orðin tætt.

Dómgreindin ekki upp á sitt besta. Ég var farin að hata karlmenn. Allir karlmenn voru fífl. Fólk var fífl. Vinnufélagarnir voru fífl. Heimurinn var fífl. Ég var fífl. Reiðin mín sljóvgaði hugann, ég gat ekki hugsað skýrt, gat ekki séð að ég væri eingöngu að skaða sjálfa mig með því að byrgja alla þessa reiði inni. Gerandinn fann ekkert fyrir því hversu ofboðslega reið ég var. Hann fann ekki fyrir flaumnum af fúkyrðum sem ég lét rigna yfir tölvuskjáinn þegar ég las eitthvað tengt ofbeldi. Bara ég fann fyrir því og það sem verra var, að maðurinn minn þurfti að horfa upp á mig rifna í sundur af bræði. Dagurinn sem ég áttaði mig á því að það gerir engum gott að halda svona í reiðina var dagurinn sem sárin gátu byrjað að gróa.

Fæstar nauðganir gerast eins og í bíómyndunum. Mér fannst alltaf að nauðgun þyrfti að fylgja líkamlegt ofbeldi, barsmíðar og slagsmál. Læti. En það var ekkert um þetta – engin læti, engin öskur, slagsmál eða neitt því um líkt, ég einhvern veginn fraus bara og hann fékk það sem hann vildi. Þrátt fyrir að hann hafi margoft spurt og ég alltaf sagt nei, nei og aftur nei, þá fannst mér þetta ekki vera nauðgun.

Ein athöfn getur orðið að glæp ef ekki fæst óþvingað samþykki

Það að fá ekki samþykki fyrir kynlífi getur þýtt nauðgun. Þó einhverjir einstaklingar stundi kynlíf þýðir það ekki að allar athafnir séu leyfilegar. Maður þarf ekki að fýla allt. Maður þarf ekki að prófa allt. Maður getur lent í því að vera nauðgað í miðju kynlífi, eins furðulegt og það kann að hljóma. Ein athöfn (t.d. munnmök, endaþarmsmök, handjob, rough kynlíf o.s.frv.) getur orðið að glæp ef ekki fæst óþvingað samþykki fyrir því. Óþvingað samþykki er samþykki án þess að fara í fýlu, verða reiður, suða, hóta, lemja, slá, gera lítið úr aðilanum fyrir að vilja ekki eitthvað, beita líkamlegum yfirburðum, þagga niður í o.s.frv.

Ég hafði lokað augunum fyrir því að þetta hefði getað komið fyrir mig. Ég réttlætti það fyrir sjálfri mér að hann (gerandinn) hafi ákveðið að taka nei-ið mitt ekki gilt og ákveðið að fá sínu fram. Dagurinn sem ég skildi það að hann hafði nauðgað mér var dagurinn sem ég byrjaði að sættast við sjálfan mig.

Það síðasta sem ég læt fylgja þessum pistli er það nauðgari er ekkert annað en venjulegur maður. Nauðgari er ekki skrímsli. Skrímsli eru ekki mannleg. Með því að hugsa um gerendur á þennan hátt erum við einfaldlega að auka ótta þolandans við gerandann. Ef við tökum af þeim mannlega stimpilinn erum við að taka af þeim ábyrgðina. Þeir sem nauðga eru ekkert annað en venjulegt fólk. Það sem skilur okkur að frá þeim sem nauðga er ekkert nema verknaðurinn.

„Það er hvorki stjórnlaus kynhvöt, sjúklegir eiginleikar né utanaðkomandi aðstæður, sem fá karla til að nauðga. Nauðgun er í eðli sínu ofbeldi, sem miðar að því að lítillækka, niðurlægja og kúga þann sem er nauðgað. Nauðgun undirokar konur á hrottafullan hátt undir vilja karla og vitundin um hættuna á nauðgun er ógn sem takmarkar og heftir frelsi allra kvenna.“

Þú mátt hrista hausinn eins og þú vilt, lesandi góður, en þetta er sannleikurinn. Ég lít á þetta sem jákvæðar fréttir. Jú, sjáðu til. Ég var logandi hrædd við gerandann minn og hvað myndi gerast af gerandi minn myndi frétta af því að hann hefði nauðgað mér. Sjáðu vitleysuna sem myndaðist í hausnum á mér. Frétta af þessu! Auðvitað var hann búin að frétta af þessu, hann var á staðnum. Þeir vita alveg hvað er kynlíf og hvað er ofbeldi. Dagurinn sem ég uppgötvaði það að gerandi væri mannlegur sá ég að ég þurfti ekki að óttast hann. Fólk sem nauðgar er ekki óstöðvandi náttúruafl. Dagurinn sem ég fattaði þetta var dagurinn sem ég hætti að óttast geranda minn.

Nú hef ég gengið langan veg og er komin á mun betri stað í lífinu. Hugur minn er skýr. Ég er hamingjusöm með mína fjölskyldu og þessi atburður dvelst í fortíðinni. Ég kýs að vera hamingjusöm. Ég kýs að gera afleiðingarnar af þessum ömurlega glæp jákvæðar. Ég kýs að vera ekki reið mínum geranda. Ég kýs að tækla allar þær tilfinningar sem koma upp með ást og kærleika.

Hættu að haga þér eins og aumingi og taktu ábyrgð

Með þessari ómetanlegu hjálp frá Stígamótum, manninum mínum og vinkonu minni hef ég komist á betri stað. Með þeirra hjálp er ég sterkari og hamingjusamari en ég hef nokkru sinni verið. Ég hefði aldrei getað þetta ein. Ég hefði aldrei komist á þennan stað í lífinu sem ég er í dag án þeirra. Núna beini ég orðunum mínum að þér, gerandi (karl eða kona):

Þú þarft að leita þér aðstoðar. Þú ert byrði á samfélaginu. Það er þér að kenna að allt þetta heykvíslabrjálæði hefur myndast. Hættu að haga þér eins og aumingi og taktu ábyrgð á því sem þú gerir. Hættu að fela þig. Hættu að afsaka þig. Hættu að réttlæta þig.

Þú veist alveg hvað er rétt og hvað er rangt. Þú kýst að gera rangt. Þjófar vita að það er rangt að stela, morðingjar vita að það er rangt að myrða, nauðgarar vita að það er rangt að nauðga! Það er ekkert „já, en“ í kynlífi. Það er engin misskilningur. Það eru engin grá svæði. Þolandinn átti þetta ekki skilið. Þú réðir alveg við þig. Þolandinn ögraði þér ekki. Þú getur ekki spilað spilinu við mig að þú sért veikur í hausnum. Þú átt ekki bágt. Þú ert einfaldlega slæm manneskja. Þú kaust að beita aðra manneskju ofbeldi og það er það sem þú tekur ábyrgð á.

Rífðu þið upp af rassgatinu, taktu út þína refsingu og leitaðu þér leiða til þess að vera betri maður.

Hvað ætlar þú að gera?

Takk fyrir mig.

Kveðja,

Sú-sem-gerir-gerandann-ábyrgan-fyrir-ofbeldinu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Ólýsanleg sjón blasti við 10 ára dreng þegar hann vaknaði – Allir í fjölskyldunni látnir

Ólýsanleg sjón blasti við 10 ára dreng þegar hann vaknaði – Allir í fjölskyldunni látnir
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Fluttur með hraði á sjúkrahús með verk fyrir brjósti

Fluttur með hraði á sjúkrahús með verk fyrir brjósti
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Oddviti Viðreisnar hyggst segja sig úr bæjarstjórn Garðabæjar

Oddviti Viðreisnar hyggst segja sig úr bæjarstjórn Garðabæjar
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Eiginkonan umdeilda tjáði sig í gærkvöldi – Hefur áður kallað eftir brottrekstri

Eiginkonan umdeilda tjáði sig í gærkvöldi – Hefur áður kallað eftir brottrekstri
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Konur lýstu hegðun hans á Facebook – Nú krefst hann bóta

Konur lýstu hegðun hans á Facebook – Nú krefst hann bóta

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.