fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2019  |
Bleikt

Ingibjörg er í rafstuðsmeðferð við geðhvarfasýki: „Margir halda að þetta sé enn notað sem pynting eða refsing“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 25. júní 2019 11:55

Ingibjörg Eyfjörð og fjölskylda hennar sem stendur þétt við bak hennar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingibjörg Eyfjörð er tveggja barna móðir og bloggari á Öskubuska.is. Hún er með geðhvarfasýki og er nú í rafstuðsmeðferð við sjúkdómnum. Ingibjörg er ófeimin að opna sig um veikindin, hvort sem það er við fjölskyldu sína, fylgjendur sína á Instagram eða lesendur á Öskubusku.is.

DV ræddi við Ingibjörgu um geðsjúkdóminn, rafstuðsmeðferðina og hvernig það er að vera móðir í þessu öllu saman.

Gott að fá nafn á sjúkdóminn

„Ég var fyrst greind með þunglyndi og kvíða sem unglingur. Var lengi vel á þunglyndislyfjum en fann aldrei að þau hentuðu mér,“ segir Ingibjörg.

„Það var svo ekki fyrr en í september í fyrra sem ég leitaði á bráðadeild geðdeildar á Akureyri og komst þar í samband við frábæran geðlækni sem hjálpaði mér og benti mér á geðhvarfasýki. Lífið fyrir greiningu var erfitt vægast sagt, ég vissi alltaf að það væri eitthvað að en gat aldrei bent á hvað það var, ég var aldrei í tilfinningalegu jafnvægi og það virtist aldrei vera neinn millivegur hvernig mér leið. Það að fá loksins nafn á þetta hjálpaði mér meira en ég get lýst, það að vita að þetta var ekki bara í hausnum á mér.“

Ingibjörg segir að vissu leyti hafi henni ekki fundist erfitt að leita sér hjálpar.

„Mér fannst ekkert að því að vera með geðsjúkdóm eða þurfa að vera á lyfjum. Það er og hefur alltaf verið partur af mér að vera svona en það sem mér fannst verst var að ég var ekki að finna jafnvægið á milli sjúkdómsins og svefnleysisins sem fylgdi fæðingu dóttur minnar og mér fannst ég vera að missa tökin á öllu í framhaldi af því en það var það sem ýtti mér loksins í það að leita mér hjálpar,“ segir Ingibjörg.

Trúa ekki að hún sé veik

Ingibjörg er það sem kallað er „high-functioning bi-polar“, eða virk í daglegu lífi með geðhvarfasýki. Hún útskýrir það nánar hvað það þýðir:

„Það þýðir að ég fer út úr húsi, ég fer fram úr á morgnanna og með krakkana í skólann, ég fór lengi vel í vinnu, tók til heima, eldaði og svo framvegis. Ég sinnti, og sinni flestu því sem húsmóðir „á“ að sinna. Það virðist þýða að fólk trúir því ekki að ég sé veik – staðalímyndin af andlega veiku fólki er sú að það hugsi ekki um umhverfið sitt eða sjálft sig en það er ekki hægt að alhæfa, það eru allir mismunandi,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Eyfjörð.

Maníur, þunglyndi og kvíði

„Minn geðsjúkdómur lýsir sér í maníum, þunglyndi og miklum kvíða,“ segir Ingibjörg.

„Þegar ég var unglingur reyndi mamma að benda mér á að ég gæti verið með geðhvarfasýki en ég neitaði alltaf að hlusta á það. Eftir að ég varð svo fullorðin og fór að spá í að þessu sá ég þetta maníu munstur sem fylgir. Það tók mig langan tíma að sjá hversu mikil áhrif geðsjúkdómurinn hafði í raun og veru á lífið mitt. Hlutir sem mér fannst fullkomlega eðlilegir í hita augnabliksins voru oft langt frá því að vera eðlilegir.“

Geðdeild

Ingibjörg hefur lagst einu sinni inn á geðdeildina á Akureyri, þegar hún byrjaði í rafstuðsmeðferð.

„Það var ótrúlega notalegt að vera þar. Allt starfsfólkið var yndislegt og það var fyrir mig mjög gott að fá frið frá áreitinu sem fylgir heiminum. Ég var þó ekki bundin geðdeild en eftir að ég kláraði mína meðferð á morgnanna fékk ég að fara og koma eins og mér sýndist svo ég eyddi dögunum með fjölskyldunni minni,“ segir Ingibjörg.

En hvað er eiginlega rafstuðsmeðferð?

„Þetta er röð meðferða þar sem krampar eru framkallaðir í heilanum með því að leiða rafstraum í gegnum heila sjúklings og er þetta meðferð við alvarlegu þunglyndi, kvíða og öðrum kvillum. Það er eitthvað við þessi flog sem getur snúið við einkennum ákveðinna kvilla,“ segir Ingibjörg og bætir við að það þurfi meiri fræðslu um meðferðina að hennar mati.

„Ég myndi segja að þetta væri mjög misskilin og vanmetin meðferð. Fólk virðist vita að það er eitthvað til sem heitir raflostmeðferð en samt sem áður halda margir að þetta sé enn notuð sem pynting eða refsing þegar staðreyndin er sú að þetta getur bjargað lífum. Fræðslan þarf bara að vera meiri.“

Ingibjörg ásamt fjölskyldu sinni.

Að vera veik móðir

Aðspurð hvernig það er að vera móðir í þessu öllu saman og hvaða áhrif það hefur á hana segir Ingibjörg:

„Það hefur auðvitað áhrif, ég er ekkert almennilega til staðar fyrir börnin mín suma daga. Þau skilja það samt yfirleitt furðulega mikið miðað við aldur, en ég hef aldrei veigrað mér frá því að segja þeim hvernig mér líður. Svo er ég ótrúlega heppin að maðurinn minn er einn sá besti og hefur frá upphafi hvatt mig til að leita mér hjálpar og hefur síðan þetta byrjaði gert allt sem hann getur til að gera mér lífið auðveldara.“

Börn Ingibjargar eru þriggja ára og sjö ára. „Þau vita að ég er veik „í hausnum mínum“ og ég þurfi að vera mikið hjá læknum. Þegar ég fór í rafstuðsmeðferðina fyrst og gisti uppi á geðdeild fengu þau að koma og sjá herbergið mitt og svona. Ég hef alltaf verið mjög opin við þau um þetta enda engin ástæða til annars,“

Opin um sjúkdóminn

Ingibjörg er bloggari og vinsæl á samfélagsmiðlum. Hún er ófeimin að tjá sig um geðsjúkdóminn og hvað sé í gangi í lífi hennar að hverju sinni.

„Ég hef alltaf verið mjög opin með lífið mitt, ekki bara á samfélagsmiðlum. Ég ákvað um leið og ég byrjaði að blogga að ég myndi vera jafn opin og ég mögulega gæti ef það væri séns að mín reynsla gæti hjálpað öðrum,“ segir Ingibjörg.

„Auðvitað eru alltaf neikvæðar raddir alls staðar, það er áhættan við að opinbera einhvern part af sér en stuðningurinn og jákvæðu viðbrögðin vega svo miklu, miklu þyngra og ég er svo ævinlega þakklát fyrir öll fallegu skilaboðin og allar jákvæðu raddirnar sem ég hef heyrt í gegnum þetta.“

Hægt er að lesa meira um rafstuðsmeðferð Ingibjargar á Öskubuska.is eða með því að ýta hér. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 2 dögum

Kylie Jenner deilir nektarmynd úr fríinu

Kylie Jenner deilir nektarmynd úr fríinu
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Stjörnuspá vikunnar: Slúður og baktal – Ástarsorgin setur sitt mark á lífið

Stjörnuspá vikunnar: Slúður og baktal – Ástarsorgin setur sitt mark á lífið
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Sara deilir myndum þar sem hún sýnir muninn á Instagram og raunveruleikanum

Sara deilir myndum þar sem hún sýnir muninn á Instagram og raunveruleikanum
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Svona gerði Hildur Hlín upp pallinn – Sjáðu myndirnar

Svona gerði Hildur Hlín upp pallinn – Sjáðu myndirnar
Bleikt
Fyrir 1 viku

Brúðkaupsstjórar deila hryllingssögum úr bransanum: „Móðir brúðarinnar sló hann utanundir“

Brúðkaupsstjórar deila hryllingssögum úr bransanum: „Móðir brúðarinnar sló hann utanundir“
Bleikt
Fyrir 1 viku

Kim Kardashian segir frá versta sársauka sem hún hefur upplifað – Tengist ekki barneignum

Kim Kardashian segir frá versta sársauka sem hún hefur upplifað – Tengist ekki barneignum

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.