fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

„Hann notaði son minn til að vefja mér um fingur sér“

Ritstjórn Bleikt
Laugardaginn 20. apríl 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef smá sögu að segja sem ég hef haldið inni í mér í 6 ár, sem sagt síðan sonur minn fæddist. Ég var 21 árs þegar hann fæddist og hann var fæddur í Ástralíu.

Ég vissi það frá fyrstu sekúndu í lífi hans hvað ég elskaði hann mikið. Þetta litla rauða öskrandi kríli sem var skellt ofaná bringuna á mér eftir átta tíma hríðir og tvo tíma sem fóru í það að ýta, þangað til fæðingarlæknirinn tók loks þann stutta með sogklukku. Hann var hraustur stór strákur, með svart mikið hár og falleg pírð blá augu.

Ég var svo hrædd, ég var svo ein, engin mamma, systir eða pabbi til að hjálpa. Faðir sonar míns fór að vinna þremur dögum seinna og ég var ein heima með þann litla. Þegar ég horfði á hann vissi ég að ég myndi fórna lífi mínu með bros á vör fyrir hann. Ég elskaði hann svo mikið. En það var eitthvað sem hræddi mig.

Skrítnar, óbærilegar hugsanir sem píndu huga minn. Ég reyndi að bægja þeim frá mér, en þeim mun meira sem ég reyndi, því verra varð þetta. Ég væri að baða litla fallega drenginn minn og allt í einu myndi þessari hugmyndi skjóta upp í kollinum á mér: „Hvað ef ég drekki honum?“

Ég fékk gæsahúð um allan líkamann og hugsaði að annað hvort væri ég að breytast í skrímsli eða væri orðin kolklikkuð. Þetta varð alltaf verra og verra, hugsanirnar fóru aldrei úr hausnum á mér, ég var farin að vera svo hrædd að vera ein með barninu mínu að ég bað barnsföður minn um að taka sér frí í vinnunni til að vera hjá okkur og hjálpa til, en hann hafði ekki tök á því.

Í sjúkrabíl á geðdeild

Að lokum var ég að gefast upp, ég fór til heimilislæknis og sagði honum allt af létta. Hann tók veikleika minn mög alvarlega, það varð uppi fótur og fit út um allt og sonur minn tekinn úr höndunum á mér en ég sagði við lækninn að þetta væri óþarfi. Hann brást við með því allra hræðilegasta svari sem að ég hafði á ævinni heyrt, enn þann dag í dag fæ ég hroll þegar ég hugsa um þessi orð: „You could kill your son“.

Ég var sett inn í sjúkrabíl ásamt syni mínum og farið var með mig beint á geðspítala, þar sem mín beið fjöldi lækna til að meta aðstæður. Barnsfaðir minn hafði komið úr vinnunni og hann var skelfingu lostinn.

Geðlæknarnir töluðu við mig fram og til baka og komust að því að ég væri með fæðingarþunglyndi og þráhyggju. Ég var sett á lyf. Lyfin gerðu kraftaverk, ég var svo hamingjusöm og naut þess svo vel að vera með nýfædda barninu mínu. Ég var frekar einsömul því ég hafði ekki kynnst mörgu fólki.

Þegar sonur minn var þriggja vikna kom móðir barnsföður míns í heimsókn alla leið frá Evrópu. Hún var himnasending, ég hafði aldrei á ævinni verið eins þreytt og á þessum tíma. Ég þurfti að hætta með barnið á brjósti vegna lyfjanna sem ég var að taka og því var hann á pela, sem olli honum hræðilegum magakveisum. Því svaf ég lítið sem ekkert. En þegar tengdamóðir mín kom breyttist allt, hún rak mig í rúmið og hugsaði um barnið, eldaði, þreif og fleira. Ég var henni svo þakklát, þvílík himnasending.

Ákvað að enda sambúðina

Þegar sonur minn var 6 mánaða fluttum við til Evrópu, til að vera nær vinum og vandamönnum. Ég sjálf var alin upp á Íslandi og hafði því sterkar rætur þangað. Barnsfaðir minn var franskur og fékk góða vinnu í Frakklandi. Því ákváðum við að setjast þar að. Eftir um það bil 6 mánuði var ég farin að vera mjög óhamingjusöm í sambandinu. Við áttum ekki við hvort annað, vorum eins og svart og hvítt.

Ég ákvað að enda sambúðina.

Barnsfaðir minn tók því mjög illa og hótaði öllu illu. Ég hafði keypt flugmiða til að fara til Íslands með son minn, en hann neitaði mér því. Ég því fór ein og var hjá systur minni í skamma stund til að reyna að finna út hvað ætti að gera þegar ég færi aftur til Frakklands.

Þegar ég sneri aftur til Frakklands var barnsfaðir minn mjög hissa og sagði mér að hann hefði haldið að ég kæmi ekki til baka. Hann hafði litla sem enga trú á mér.

Ég hafði hvorki húsnæði né vinnu, ég var allslaus, það eina sem ég átti voru fötin sem ég var í. Barnsfaðir minn var mjög erfiður og þrjóskur. Hann fór með forræðið fyrir dómstóla. Sem betur fer var því frestað þrisvar sinnum til að gefa mér meiri tíma til að finna mér húsnæði og vinnu.

Ég fann vinnu frekar fljótt í eldhúsi, það var mjög erfið vinna en mér gekk vel. Ég var búsett hjá frænku minni sem að var við nám í Frakklandi og hún bjó með tveimur öðrum stúlkum. Þetta var ekki góður staður fyrir barn. Ég leitaði og leitaði, en því miður var leigumarkaðurinn mjög þröngur fyrir manneskju með lágmarkslaun. Það eina sem ég gat fundið voru hálfgerðir skókassar, svo lítið að það var sturta og klósett í eldhúsinu. Dómstólar myndu aldrei samþykja það.

Ég þurfti tveggja herbergja íbúð í nágrenni við barnsföður minn, en hann bjó í einu ríkasta úthverfi Parísar. Ég missti forræðið og fékk að sjá son minn aðeins á sunnudögum fyrst, en svo fann ég ágætis stúdíó íbúð. Þegar ég flutti þar inn fékk ég að hafa son minn aðra hvora helgi og helming allra frídaga, svo lengi sem ég væri ekki með hann í stúdíó íbúðinni allt fríið.

Notaði son minn til að vefja mér um fingur sér

Barnsfaðir minn fór að setja helling af sínum eigin reglum. Reglum sem gerðu mér lífið leitt og erfitt. Hann notaði son minn mikið til að stjórna mér. Ég þorði ekki annað en að fara eftir öllu sem hann sagði því ég vildi ekki eiga á hættu að missa þennan litla umgengnisrétt sem ég hafði.

Ég var ekki að lifa til að njóta, ég var að tóra til að fá að sjá son minn þessa 6 daga í mánuði. Hann er mér allt. Ég var farin að halda að barnsfaðir minn vonaðist til þess að ég myndi gefast upp á París og flytja aftur heim í rólegheitin og allt sem er auðvelt.

En ást mín á barninu mínu var svo sterk, hann þurfti á mér að halda, tekinn frá mér sem ungabarn og eftir stóð ég með tómar hendur. Barnsfaðir minn var farinn að vera vondur, hann notaði son minn sparlaust til að vefja mér um fingur sér, hann hótaði mér iðulega, sagði oft að ég væri heimsk og vond móðir, beitti mig eitt sinn ofbeldi fyrir framan barnið – passaði sig samt að kýla mig undir rifbeinin svo ekkert sæist á mér, en ég missti andann.

Þetta gerðist sama dag og kom til að sækja son minn í helgarfrí og hann spurði mig hvort að ég gæti tekið hann í páskafríinu. Því miður þá hafði ég ekki tök á því vegna þess að ég mátti ekki hafa son minn lengur en tvo daga í íbúðinni og ég hafði eytt meira en helmingi launa minna í að borga leigu, símreikning og lestarkort til að komast í og úr vinnu.

Ég hafði lítinn sem engan pening til að fara og vera á hóteli með son minn, og því miður þurfti ég að neita því að hafa hann í páska fríinu. Þá byrjaði hann með ásakanir um hversu léleg móðir ég væri, að ég tæki hann aldrei í fríum, (ég hafði verið með hann í þrjár vikur á Íslandi yfir jólatímann), og að ég væri of heimsk til að skipuleggja mig samkvæmt dagatalinu.

Hann kallaði mig nöfnum eins og hóru og vitleysing. Hann var vondur maður á þessum tíma. Svo fullur af reiði, biturð og afbrýðisemi. Egóið hans var í molum og hann tók það út á mér. Hann sakaði mig um að vera með of mörgum mönnum og að ég væri skítug. Ég og sonur minn fengjum kláðamaur frá annað hvort dagmömmu sonar míns eða frá íbúðinni sem ég bjó í á þeim tíma, en þar voru 5 stelpur. Barnsfaðir minn sakaði mig um að hafa gefið syni okkar kynsjúkdóm, mér leið viðbjóðslega, mér fannst ég vera skítug og ógeðsleg og ekki hafa rétt á því að hafa son minn lengur. En ég barðist áfram því hann þurfti á mömmu sinni að halda.

Áður en langt um líður

Barnsfaðir minn hafði kynnt son minn fyrir þremur konum og ein þeirra hafði flutt inn. Ég held að hvert samband hafði enst í um það bil fjóra til fimm mánuði. Seinasta kærastan var núna fyrir nokkrum mánuðum, góð stúlka og var góð við son minn, ég spurði hann hvernig honum liði með það að stúlkan væri farin og það eina sem hann sagði var „leiður“.

Ég hafði verið í þremur samböndum, en kynnti son minn einungis fyrir einum manni, og það er maðurinn sem að ég er með í dag. Ég er lánsöm, hann er yndislegur, hjálpsamur, góður við barnið mitt og trúverðugur.

Núna loksins búum við í þriggja herbergja íbúð, sonur minn hefur sitt eigið herbergi og fullt af leikföngum. Við erum hamingjusöm og ég segi bara að ég veit áður en langt um verður fæ ég helminginn af forræðinu.

Og áður en langt um líður kemst ég aftur heim á litlu fallegu eyjuna mína.

Móðirin skrifar þessa grein undir nafnleynd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Naby Keita settur í bann og fær væna sekt – Neitaði að mæta í leik og fór heim

Naby Keita settur í bann og fær væna sekt – Neitaði að mæta í leik og fór heim
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Segja að Valur verði að vera með plan B klárt – „Af hverju taka Tryggvi og Jónatan ekki hlaup inn fyrir?“

Segja að Valur verði að vera með plan B klárt – „Af hverju taka Tryggvi og Jónatan ekki hlaup inn fyrir?“
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Jökull fékk á baukinn í beinni fyrir tilraunir sínar í vetur – „Ekki gera það fyrir framan sjónvarpsvélar“

Jökull fékk á baukinn í beinni fyrir tilraunir sínar í vetur – „Ekki gera það fyrir framan sjónvarpsvélar“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Adam ákærður fyrir stórfelld brot

Adam ákærður fyrir stórfelld brot
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Eftir að hafa talað við vin sinn þá segir hann frá þeim vandræðum sem United er í utan vallar

Eftir að hafa talað við vin sinn þá segir hann frá þeim vandræðum sem United er í utan vallar
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“