fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Íslenskar konur lýsa fyrsta árinu sínu sem móðir: „Gleymdi honum í strætó og Bónus“ – „Ég kúgaðist og hló til skiptis“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 24. mars 2019 20:00

Íslenskar mæður segja frá sinni reynslu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er magnað að verða móðir í fyrsta skipti. Það er erfitt, yndislegt, skrýtið og allt þar á milli. Reynsluheimur kvenna er ólíkur eins og hann er misjafn þegar kemur að móðurhlutverkinu. Sumar mömmur upplifa samstundis tengingu við barnið sitt meðan hjá öðrum tekur það lengri tíma. Sum börn fá magakveisu og gráta úr sér lungun fyrstu mánuðina meðan önnur gera lítið annað en að sofa, borða og kúka fyrstu mánuðina.

Til að gefa mæðrum og verðandi foreldrum betri innsýn í hið fjölbreytta móðurhlutverk bað DV íslenskar mæður um að lýsa fyrsta árinu sem þær urðu mömmur. Eftirminnanleg atvik, fyndnar sögur, eitthvað sem kom á óvart og annað sem stóð upp úr:

Nafnlaus frásögn:

„Ég man hvað það gekk brösulega að læra að baða strákinn. Fyrsta baðið átti að vera svona kodak moment. Við vorum með myndavélina klára og allt skipulagt. Maðurinn minn var í sturtunni og vorum með bala á gólfinu. Það fór þó ekki betur en svo að þegar kallinn tók við barninu til að slaka honum í baðið missti hann takið á honum því hann var svo sleipur og missti hann í baðið. Krakkinn verður náttúrulega skíthræddur og öskrar eins og hann eigi lífið að leysa svo við náðum engum myndum í þeirri baðferð enda bæði í sjokki yfir að hafa misst barnið. Næsta baðferð gekk ekki mikið betur. Þar sem baðherbergið okkar var pínulítið þá klæddi ég strákinn úr í öðru herbergi og bar hann svo inn á bað þar sem pabbinn beið aftur tilbúinn í sturtunni og ákveðinn í að missa hann ekki. En snillingurinn ég hitti ekki betur en svo í gegnum dyrnar að ég sló hausnum á barninu í hurðarkarminn svo við tók önnur háöskrandi baðferð og engar myndir náðust þá heldur. Þegar ég sagði frá þessu í ungbarnaverndinni (hafði áhyggjur af hausnum á honum) fékk ég að heyra þetta yndislega pepp: „New babies are made for new parents“ og var fullvissuð um að þetta væri allt í lagi.

Í annað skipti var verið að skipta á bleyju. Það var búið að vara okkur við að börnin gætu rúllað sér af skiptiborðinu og því mættum við ekki fara frá, ekki einu sinni áður en barnið lærir að velta sér. Það var hins vegar enginn búinn að segja okkur að barnið gæti spyrnt sér framan af endanum sem hann gerði. Heppnin var með okkur samt því við endann á borðinu stóð opin ruslatunna hálffull af bleyjum og drengurinn stakkst á hausinn beint ofan í tunnuna. Bleyjurnar tóku af honum mesta fallið svo honum varð ekki meint af en ég gleymi aldrei hvað ég varð hrædd og ég fæ enn hroll af að hugsa til þess hvað hefði gerst ef tunnan hefði ekki verið þarna.

Fyrsta mömmuárið mitt byrjaði því með alveg merkilega miklum klaufaskap.“

Karen Helga og sonur hennar.

Karen Helga Karlsdóttir:

„Eitt sinn kom svona svakaleg veisla í bleyjuna og upp eftir öllu bakinu og ég hafði ekki glóru hvernig ég ætti nú að fara að því að skipta á barninu an þess að klína öllu um allt. Needless to say þá var eitt kúka partí inni á baði, í hárinu á honum, útum ALLT og ég kúgaðist og hló til skiptis. Ég var í svitabaði eftir herlegheitin. Daginn eftir frétti ég af þessari leyndu hönnun í samfellunum, samskeytin á öxlunum til að draga þær niður en ekki upp fyrir haus. Ég á meira segja myndband af þessu, frænka mín sá um það að við myndum aldrei gleyma þessu.“

Kolbrún Ólafs:

„Þegar ég hringdi með fyrirspurn var ég oftast spurð hvort þetta væri fyrsta barn. Þar sem það var svo var mér sagt að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur væri örugglega ekkert bara smá pest. Ég fékk tilfinningu fyrir því að þeim fyndist ég móðursjúk. Þegar ég átti seinna barnið þá var alltaf sagt mér að koma með barnið til að láta líta á það, því þá gat ég svarað að þetta væri annað barnið mitt. Frekar heimskuleg viðbrögð og hefur alltaf pirrað mig, þó svo að það séu liðin 13 ár“

Birna Eik Benediktsdóttir:

„Fyrsta árið = upplifun mín sem mjólkurkú.“

Rakel Sara.

Rakel Sara Ríkharðsdóttir:

„Ég á þrjú börn. Fyrsta barn átti ég 17 ára. Fyrirburi og langveikt. Ég var þessi fullkomunaráráttu mamma; spritt, spritt og meira spritt! Elsku barnið. Mamman GLEYMDI því eitt sinn í strætó og Bónus. Já án djóks. Þegar ég var 21 árs kom sonur minn skæruliðinn. Guð hjálpi mér! Frá fyrsta degi hefur hann látið hafa fyrir sér og gerir enn. Mér er þó efst í huga fyrsta árið allar tilraunirnar hans. Hann var ekki orðinn sjö mánaða og var farinn að rífa botninn á rimlarúminu og skríða fram.

Þegar ég vaknaði um miðja nótti við lögregluna, barnavernd og nágrannann berjandi á hurðina. Jú sonur minn var HANGANDI út um eldhús gluggann með hausinn á undan! Náttfatasamfestingur bjargaði honum. Þarna var hann tíu mánaða.

Eitt sinn vaknaði ég við rennandi vatnshljóð. Fór fram og steig ofan í vatn. Kveikti ljósin og þar  situr hann búinn að rífa sig úr samfestingnum og bleyjunni í ísköldu vatni flæðandi um alla íbúð sem kom úr eldhúskrananum. Eldhúsinnréttingin skemmdist og ekki nóg með mína þá lak líka niður á næstu hæð og skemmdist sú innrétting líka.

Leikskólinn týndi honum, hann gróf sig út eða klifraði yfir. Hann opnaði allar barnalæsingar! Sem og þrjár læstu útidyrnar og stakk af ítrekað. Hann opnaði bílinn og læsti sig inni.

Hann var eins og mús á næturnar. Enginn varð var við hann þessi skipti og allir héldu að ég væri ekkert að fylgjast með honum. Ó jú. Hann var í extra háu rimlarúmi, var með barnahlustunartæki og allt heimilið læst. Hann var og er rosalega ofvirkur eldklár hugsunarmaður.

Vanhæf móðir… ææ bíttu í þig.

Þegar ég var 29 ára kom þriðja barnið. Draumur í orðsins fyllstu merkingu. Mér fannst ég ekki vera með „neitt“ að gera fyrst um sinn. Ég naut þess að vera með hreint heimili, einstæð með þrjú börn og geta sinnt þeim öllum án afbrýðissemi eða vandræða.

Fyrst núna er hann farinn að sýna skapið enda nýlega byrjaður í leikskóla og þreyttur eftir sinn dag. 21 mánaða núna.“

Brynja Sóley Stefánsdóttir:

„GUBB!! ENDALAUST GUBB ÚT UM AAAAALLT!“

Soffía Ósk ásamt börnum sínum.

Soffía Ósk Kristinsdóttir:

„Það varaði mig enginn við því hversu langt og mikið svona pínku litlir kroppar geta gubbað, ég hringdi grenjandi í ljósuna mína.“

Dircelene Gomes:

„Þegar minn yngri var nokkurra mánaða þá hafði hann verið mjög slæmur í maganum og var aðeins brenndur á rassinum. Var dugleg að hafa hann bleyjulausan til að lofta um. Ég lét pabba hans taka hann yfir í sófann til sín a meðan ég talaði í símann. Svo heyrði ég bara óhljóð frammi og pabbi hans kom labbandi með hann, hélt honum uppi fyrir framan sig. Báðir ALLIR í kúk. Þá hafði barnið auðvitað fengið niðurgang (og ekkert lítið) yfir allan sófann, púðana, teppi og pabba sinn. Ég hló svo mikið að ég þurfti að skella á og hjálpa honum að þrífa. Það sem gerði þetta enn fyndnara er að pabbi hans er mjög pjattaður og viðkvæmur fyrir öllu svona.“

Nafnlaus frásögn:

„Kom mér á óvart hvað maður er ótrúlega viðkvæmur fyrir öllu fyrstu vikurnar. Frænka mín tók barnið mitt upp, þegar það var þriggja vikna, bara því hún vildi halda á honum en ég var búin að gefa það í skyn að ég vildi ekki trufla svefninn hans. Ég trompaðist! Haha hef enn þann dag í dag ekki fyrirgefið henni þetta og gat þar af leiðandi ekki notað fötin sem hún prjónaði á barnið því það minnti mig alltaf á þetta atvik! Úff maður á svo virkilega að hlusta á nýbakaðar mæður og hlýða ÖLLU sem þær segja og alls ekki taka barnið þeirra fyrstu vikurnar nema vera búin að fá leyfi fyrir því.“

Anna Karlsdóttir og sonur hennar.

Anna Karlsdóttir:

„Brosa, taka brjóstið út, brosa, þykjast geta allt sjálf og ein, brosa, finna ekki fyrir þessari ‚móðursýki,‘ heldur vera nánast sama en muna samt að brosa. (Upplifun móður með fyrsta barn, fyrsta árið). Enginn sagði mér að manni gæti liðið svona heldur bara með að allt yrði fullkomið og frábært.“

Eva Rut Guðmundsdóttir:

„Ég var alltaf að týna símanum mínum þegar elsti fæddist. Fann hann á ótrúlegustu stöðum, eins og inni í ísskáp, frysti, í brauðpoka og fullt af öðrum stöðum.“

Hulda M. Halldórs

„Ég var vör við þegar ég átti drenginn minn fyrir 14 árum síðan að þeir eiga gjarnan til að pissa á mann þegar skipt er á þeim. Ég passaði mig sérstaklega vel á því. Eitt skiptið var ég að skipta á honum, ég lyfti honum (með að tosa í fæturna) til að smeygja bleyjunni undir svo var hann bara rennblautur í framan, þá datt mér ekki i hug að hann gæti nú líka pissað í hina áttina sem sagt á sjálfan sig.“

Kristbjörg Ólafsdóttir:

„Ég á tvö börn sem eru bæði ættleidd. Dóttir mín, sem er eldri, var 18 mánaða þegar hún kom fyrst í mömmu fangið og það sem ég man helst eftir er að vilja gera allt 100 prósent og að fara ein á klósettið var lúxus.“

Hjördís ásamt syni sínum.

Hjördís Ólafsdóttir:

„Ég mun sennilega ekki gleyma tilfinningunni að keyra grátandi í vinnuna fyrsta dag eftir fæðingarorlof (eftir 3 mánuði) og svo tilfinninguna að koma aftur heim til hans eftir vinnu. Vildi ekki sleppa honum. Fyrsta árið hans er annars ekki búið og ég ætla að njóta þess.“

Perla Benediktsdóttir:

„Brjóstaþokan. Ég fór út í búð, setti svo barnið í bílinn og fór heim, kallinn kom heim stuttu seinna og spurði hvort að ég hefði ekki verið að koma úr búðinni, og þá hvar vörurnar væru. Ég hafði ég skilið pokana eftir í körfunni fyrir utan bónus.“

Allar framfarirnar hjá barninu sem sagt öll fyrstu skiptin; Fyrsta brosið, hláturinn, velta sér í fyrsta skipti, borða graut í fyrsta skipti, byrja að skríða og svo labba.“

Steiney Ninna:

„Tilfinningin að þrá mömmufrí en geta það síðan ekki. Vera of háð barninu.“

Matthilda Maria Eyvindsdóttir Tórshamar:

„Fæðingarþunglyndið. Vissi ekkert hvað var að mér og fannst ég ömurleg móðir. Þetta var fyrir 28 árum síðan og ekkert talað um þessi mál á þessum tíma.“

Elísabet Ásta ásamt börnum sínum.

Elísabet Ásta Eyþórsdóttir:

„Í mínu tilfelli kom mér það mest á óvart hvað þetta var auðvelt. Mín svaf svo vel og var eiginlega ekkert lasin. Sorry að vera þessi gella.“

Elísabet Ólafsdóttir:

„Hvað dauðir hlutir skipta mig engu máli og ég steinhætti að taka sjálfsmyndir.“

Rannveig Tenchi:

„Til að minna mig á það þegar mitt elsta var lítið, að það ætti heima á „mínu“ heimili – setti ég Spiderman límmiða á gægjugatið á hurðina. Þannig að í hvert sinn sem ég var að koma heima þá rak ég augun í þennan límmiða. Með þessu vildi ég kenna sjálfri mér og minna mig á að það væri hið besta mál að dót væri sýnilegt á heimilinu, að tilvist hans í mínu lífi og á heimilinu væri augljós og væri jákvæð sýn.“

Hugrún Ásta ásamt syni sínum.

Hugrún Ásta:

„Ég er búin að vera mamma í tæpt ár. Síðastliðna ár er búið að vera ótrúlega skemmtilegt, lærdómsríkt og krefjandi.

Ef ég ætti að vera hreinskilin þá fannst mér mjög gaman að vera ólétt. Ég átti frekar auðvelda meðgöngu. Alla vega miðað við margt sem ég heyrði. Ég var mjög hraust fyrir utan ógleðina fyrsta hlutann, það var örugglega það erfiðasta. Svo þegar það tímabil var búið tók við spennan að fá litla krílið í hendurnar. Ég er heppin með það að vera umkringd mjög jarðbundnum og sterkum konum. Þær hafa alltaf verið mjög hreinskilnar með sínar meðgöngur þannig ég hef heyrt alls konar sögur af þessari reynslu. Ég mæli með fyrir allar verðandi mæður að tala opinskátt um þetta allt saman við einhverja konu sem er náin þeim svo þær fái raunverulega mynd af þessari reynslu. Biðja um að fá að heyra allar slæmu og allar góðu sögurnar. Mín reynsla var sú að oft fannst mér konur sem ég talaði við ekki ræða góðu hlutina. Sem sagt ef þær áttu góða meðgöngu, var auðvelt að fara í gegnum fæðingarferlið og þess háttar.

Við eignuðumst barnið okkar á settum degi sem var mjög gaman. Ef ég ætti að lýsa þessari reynslu þá á ég svo erfitt með að lýsa þessu. Af því það hefur sannast oft að engin kona upplifir nákvæmlega eins fæðingu. Ég upplifði fæðinguna þannig að hún gekk hratt. Allur dagurinn áður fór í einhverja verki, ég notaði alls konar heima trix til að gera verkina bærilegri. Svo kom að því að ég vildi fara upp á deild og var tilbúin að láta senda mig aftur heim. Þegar við komum á fæðingardeildina og búið að taka á móti okkur kom í ljós að ég var komin með 8 sentimetra í útvíkkun og þá var ekkert hægt að fara aftur heim. Þetta var í kringum miðnætti, kl 05:05 mætti drengurinn í heiminn. Þetta að taka við barninu sínu er ótrúlega skrítin tilfinning. Við foreldrarnir vorum í nokkra daga að átta okkur á þessu. Að við ættum hann og hann væri ekkert að fara , hann var kominn til að vera.

En það að upplifa mömmu hlutverkið er ótrúlega skrítið. Þú ert að þjónusta þessa litlu mannveru sem getur verið mjög ákveðin og ef hann fær ekki hlutina strax getur hann orðið fokillur. Samt er svo fyndið hvað maður er fljótur að gleyma þegar það verður smá erfitt. Maður núllar það út með öllu þessu góða. Þegar það koma góðir dagar, þar sem barnið sefur vel, borðar mikið og er bara glaður, þá er allt svo gott. Svo þegar erfiðu dagarnir koma þá þarf maður alltaf að muna að þessi dagur kemur ekki aftur, sem er hughreystandi. Eins og aðrir foreldrar finnst mér barnið mitt það fyndnasta og skemmtilegasta í heiminum. En hann er svo mikið foreldra sjúkur að hann vill ekki sjá annað fólk nema við séum ekki á staðnum. Það er virkilega að vera svona ómissandi hjá þessari litlu manneskju sem er alltaf glaður þegar þú mætir á svæðið. Maður skilur alveg þegar einhverjir tala um að það að eignast barn hafi bjargað þeim.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona