fbpx
Laugardagur 23.mars 2019
Bleikt

Safnað fyrir Magneu – greindist 19 ára með krabbamein: „Stelpur, læknirinn var að hringja […] Hvað ef ég er svo með krabbamein eða eitthvað?“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Fimmtudaginn 7. mars 2019 12:00

Magnea berst við sjúkdóminn með jákvæðni að vopni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnea Mist Einarsdóttir verður tvítug þann 17. mars. Tvítugsafmælið er mikilvægur dagur í lífi flestra, en Magnea heldur eilítið öðruvísi upp á þennan merka áfanga en hún hafði séð fyrir sér. Magnea greindist nefnilega nýverið með krabbamein og er í lyfjameðferð.

Send heim með pensilín

Það var í raun tilviljun að Magnea greindist með krabbamein. Hún starfaði sem au pair í Danmörku í lok síðasta árs og vaknaði einn morguninn með undarlega verki.

„Ég vaknaði einn morguninn mjög bólgin hægra megin á öxlinni og alveg upp á háls. Ég ákvað nú að fara ekkert til læknis strax heldur að gefa þessu nokkra daga og athuga hvort það myndi ekki hjaðna bara, sem gerðist ekki. Ég nefndi þetta við konuna sem ég vann hjá og henni leist ekkert á þetta og vildi að ég myndi láta athuga þetta,“ segir Magnea og heldur áfram.

Hér má sjá Magneu ansi marða og bláa.

„Ég fór næsta dag til læknis í blóðprufur og var mér sagt að þetta væru bara bólgnir eitlar sem myndu minnka með pensilíni. Læknirinn vildi samt að ég færi í myndatöku áður en ég færi aftur heim til Íslands þann 19. desember. Hún pantaði fyrir mig myndatöku 17. desember á spítalanum í Vejle og þar fékk ég sömu svörin – að það lægi þarna röð af bólgnum eitlum við viðbeinið og upp að hálsi og að ég ætti að láta skoða þetta betur heima á Íslandi ef bólgurnar væru ekki alveg farnar eftir pensilínskammtinn sem mér var gefinn. Ég hugsaði ekkert meira út í það og bað mömmu mína að panta tíma hjá heimilislækni og fékk ég tíma 2. janúar.“

„Þann 9. janúar greindist ég með 4. stigs Lymphoma Hodgkins“

Þegar Magnea kom heim til Íslands, rétt fyrir jól, voru bólgurnar að mikið til hjaðnaðar. Hún taldi óþarfi að leita til læknis, þar sem þetta væri að jafna sig, en móðir hennar talaði hana inn á að láta lækni athuga þetta betur. Magnea hefði aldrei geta búið sig undir það sem við tók

„Þetta ár byrjaði heldur betur á aðeins öðruvísi máta en ég hefði reiknað með. Ég var látin í fullt af rannsóknum eftir að ég fór til læknis hérna heima og einungis viku eftir að ég heimsótti heimilislækninn minn kom í ljós að það væri mikið og krefjandi verkefni framundan hjá mér,“ segir Magnea. „Þann 9. janúar greindist ég með 4. stigs Lymphoma Hodgkins, eða eitilfrumukrabbamein. Ég var samdægurs send í staðdeyfingu og sýni tekin úr eitlum. Síðan tók við lyfjameðferð sem hófst 25. janúar. Ég er búin að fara annan hvern fimmtudag síðan þá. Fjórða lyfjagjöfin mín er því í dag,“ bætir hún við. Óljóst er hve lengi hún þarf að vera í lyfjameðferð.

„Þegar ég var nýgreind var reiknað með að lyfjameðferðin yrði um það bil sex til átta mánuðir. En þegar ég fékk niðurstöðurnar úr jáeindaskannanum sem ég fór í þann 23. janúar kom í ljós að það eru bólgnir eitlar víða í líkamanum og einnig æxli í öðru lunganu, lifrinni, miltanu og kviðarholinu. Ég fer því í jáeindaskannann aftur 18. mars til að sjá hvernig ég er að svara meðferðinni. Í framhaldinu af þeim niðurstöðum mun koma betur í ljós hvort lyfjameðferðin sé næg eða einhverjar breytingar þurfi að gera á henni, hvort þurfi að lengja hana eða mögulega láta mig í geislameðferð.“

Sjúkdómurinn tekur á.

Sá stressið koma yfir móður sína

En hvernig var að greinast með krabbamein aðeins nítján ára gömul?

„Um morguninn þegar ég greindist vaknaði ég við símtal frá heimilislækninum mínum. Hún sagði mér að hún þyrfti að fá að tala við mig og að ég ætti helst að koma niður eftir með foreldri með mér. Sem betur fer var mamma mín ekki lögð af stað í vinnuna. Ég sagði henni hvað læknirinn hafði sagt og ég sá bara stressið sem kom yfir hana. Á þessum tímapunkti eftir að ég sá viðbrögðin hennar varð ég rosalega stressuð og tók upp símann og sendi vinkonum mínum Snapchat þar sem ég sagði: „Stelpur, læknirinn var að hringja og vill að ég fái mömmu með mér að tala við hana. Hvað ef ég er svo með krabbamein eða eitthvað?“,“ rifjar Magnea upp, en auðvitað var snappið sent meira í gríni en alvöru, enda gat henni ekki órað fyrir hvað tæki við þegar til læknisins væri komið.

Magnea var au pair í Danmörku þegar að hún vaknaði einn morgun með miklar bólgur.

„Við brunuðum niður eftir og hún sagði mér að ég væri með krabbamein. Nema ég var róleg yfir þessu og bara áttaði mig ekki alveg á þessu, þar ég spurði einhverra spurninga, sem ég man ekki hverjar eru núna. Þá brotnaði ég gjörsamlega niður. Það er erfitt að trúa því að maður sé með krabbamein og það tekur langan tíma að átta sig almennilega á því.“

Þarf stundum að ganga með grímu

Magnea í sinni fyrstu lyfjagjöf.

Magnea var í 100% starfi áður en hún greindist. Hún minnkaði við sig um 50% í byrjun febrúar og vinnur nú 25% vinnu. Hún segir líðan sína þokkalega frá degi til dags, þó lífið sé ansi breytt frá því sem áður var.

„Lyfjameðferðin gerir það að verkum að ég er með bælt ónæmiskerfi og þarf því að passa mig að hafa hreint í kringum mig, vera dugleg að spritta mig, eins og fólkið í kringum mig, og passa mig að verða ekki veik. Á þeim dögum sem ónæmiskerfið er sem bældast er ég beðin að vera ekki mikið í fjölmenni eða að ganga með grímu, sem hylur nef og munn, ef ég vil vera í fjölmenni. Það truflar mig svolítið mikið að þurfa að hafa þessa grímu í fjölmenni þar sem mér líður eins og fólk muni lita á mig sem meiri sjúkling en ég tel mig vera. En það er kannski bara af því að mér finnst ég ekki eins veik og ég í raun er,“ segir Magnea og heldur áfram.

„Hingað til hafa lyfjagjafirnar haft lítil sem engin áhrif á mig og hef ég ekki fengið neinar aukaverkanir nema eitthvað smávægilegt sem líður hjá, líkt og hausverk, hitaköst og eymsli í líkama, eins og ég sé einn stór marblettur. Annars er þreytan mest áberandi og er ég mjög þakklát fyrir það. Ég hef verið mjög mikið með vinkonum mínum og fjölskyldu sem standa þétt við bakið á mér. Ég er rosalega heppin með vinkonur og fjölskyldu. Það er mjög mikilvægt að eiga góða að í þessu ferli.“

„Þú ert heppin að hafa fengið akkúrat þetta krabbamein“

Magnea á einmitt gott stuðningsnet og hefur verið dugleg að leita sér hjálpar og þjónustu hjá stuðningsfélögunum Krafti og Ljósinu. Hún segir félagsskapinn sem hún finnur í þessum félögum vissulega hafa hjálpað.

„Ég er alveg rosalega jákvæð með þetta. Í fyrsta lagi hjálpaði það mér bara strax þegar læknirinn sagði: „Þú ert heppin að hafa fengið akkúrat þetta krabbamein, þó þú sért auðvitað óheppin að hafa fengið krabbamein“. Bara það að vita að í flestum tilfella læknast þetta. Og það er líka hægt að lifa með þessu. Það er einnig búið að hjálpa mér mikið að heyra frá öðrum sem hafa greinst með sama krabbamein og ég og eru bara eldhressir einstaklingar í dag og eiga jafnvel barn. Frjósemin var nefnilega mjög mikið áhyggjuefni hjá mér og ég reyndi að láta framkvæma eggheimtu þó svo að það séu einungis tíu prósent líkur á að maður verði ófrjór eftir lyfjameðferðina sem ég er í.“

Auðvitað er ósanngjarnt að vera með krabbamein

Sjúkómi eins og krabbamein fylgja mikil fjárútlát. Ekki bætir úr skák að Magnea var búin að missa veikindaréttindi hjá fyrrum vinnuveitenda og stéttarfélagi þegar hún greindist þar sem hún flutti til Danmerkur síðasta haust. Það er því þröngt í búi hjá þessari ungu konu, en aðstandendur hafa hafið söfnun fyrir hana svo hún nái að standa undir kostnaði.

Magnea á spítalanum.

„Það var löngu búið að stinga upp á að gera svona söfnun fyrir mig, en ég vildi geyma það aðeins þar til ég væri búin að sjá hver kostnaðurinn yrði og hvort þetta myndi hafa afleiðingar á mig fjárhagslega séð. En ég er núna búin að sjá það, eftir að ég þurfti að lækka starfshlutfall mitt, að þetta mun hafa fjárhagslegar afleiðingar, bæði vegna tekjutaps og alls kyns kostnaðar sem fellur til í tengslum við veikindin. Ég hef alltaf unnið fyrir mínu ásamt því að vera í námi og hafði safnað mér sparifé sem ég ætlaði mér að nota í framtíðaráform, svo sem að ferðast og fara í háskólanám næsta haust, en ég hef þurft að ganga á það fé síðan ég greindist,“ segir Magnea, sem finnst miður að sjúklingar þurfi að hafa áhyggjur af fjárútlátum um leið og þeir berjast við illvíga sjúkdóma.

„Mér finnst auðvitað alveg glatað að fólk sem greinist með krabbamein, eða aðra sjúkdóma, þurfi að ganga í gegnum veikindin, allt sem þeim fylgja og mögulega standa í erfiðleikum fjárhagslega líka. Að vísu eru Sjúkratryggingar sem betur fer að greiða slatta niður. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta væri ef svo væri ekki,“ segir Magnea, sem reynir að líta á björtu hliðarnar þrátt fyrir allt. „Auðvitað er mjög ósanngjarnt að lenda í þessu og mér finnst það, en á sama tíma lít ég á þetta þannig að „sem betur fer“ var það ég; ung, hraust og jákvæð stelpa sem greindist, en ekki lítið barn, eða einstaklingur með verri líkamlega og andlega heilsu.“

Þeir sem vilja styrkja Magneu er bent á þennan reikning:

0322-26-170392
kt. 170399-2779

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.