fbpx
Laugardagur 23.mars 2019
Bleikt

Stjörnuspá vikunnar: Peningar streyma til hrútanna – Tvíburar fá símhringingu sem breytir lífinu

Ritstjórn Bleikt
Sunnudaginn 3. mars 2019 22:01

Rýnt í stjörnurnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjörnuspá fyrir vikuna 4. – 10. mars

Hrútur

11. mars – 19. apríl

Það er allt stútfullt af peningum hjá fólki í hrútsmerkinu og nýtt tækifæri býðst hrútunum sem gefur vel af sér í aðra hönd. Hrútar sem eru í fastri vinnu ættu kannski að velta því alvarlega fyrir sér hvort sjálfstæð vinna sé málið þar sem verkefnin koma mjög ört þessi dægrin.

Þú ert búinn að vera að takast á við persónulegt vandamál sem er búið að hafa mikil áhrif á þig en í þessari viku nærðu að leysa þetta vandamál og færð meiri ró í sálina. Þungu fargi er af þér létt og það smitar út í allt sem þú gerir.

Það er búið að vera mikill asi í þínu lífi upp á síðkastið og það er kominn tími á að þú einbeitir þér að því að finna áhugamál sem nær að friða hugann, þó ekki væri nema augnablik.

Happadagur: Þriðjudagur
Lukkutölur: 10, 23, 39

Naut

20. apríl – 20. maí

Vinirnir eru í forgrunni hjá nautinu í þessari viku og einhverjir samskiptaörðugleikar láta á sér kræla. Ekki samt lesa of mikið í orð eða gjörðir vina þinna. Þeir meina vel og stundum er bara betra að tala um hlutina en að láta þá magnast upp í huganum.

Í vinnunni standa yfir einhverjar breytingar sem þú telur þig standa fyrir utan, en svo kemur á daginn að þú gegnir veigamiklu hlutverki í þessum breytingum. Taktu því fagnandi. Þetta er frábært tækifæri fyrir þig að láta ljós þitt skína. Nú mun fólk loksins vita hvers þú ert megnugur.

Happadagur: Fimmtudagur
Lukkutölur: 6, 9, 77

Tvíburar

21. maí – 21. júní

Það hafa ansi mörg verkefni setið á hakanum hjá þér en nú er komið að þér að bretta upp ermarnar og ganga í verkin. Þannig að það verður nóg að gera hjá þér í þessari viku en ekki missa móðinn – það er ljós handan verkefnastaflans og þér á eftir að líða svo vel þegar þetta er allt búið.

Þú ert nýkominn úr skemmtilegu fríi og algjörlega óvænt hefur góður vinur samband við þig og stingur upp á vinaferð á næstunni. Þú stekkur á tækifærið og byrjar að skipuleggja næstu gleðiferð. Það gefur þér afskaplega mikið.

Svo færðu símhringingu sem á eftir að breyta lífi þínu. Fylgstu vel með því, þú fattar það kannski ekki strax en þessi símhringing er mjög mikilvæg.

Happadagur: Miðvikudagur
Lukkutölur: 11, 27, 45

Krabbi

22. júní – 22. júlí

Þetta er klárlega lukkuvikan þín, þá sérstaklega í einkalífinu. Það blómstrar. Einhleypir krabbar geta átt von á því að vonbiðill úr óvæntri átt hafi samband. Hugsanlega framtíðar förunautur hér á ferð. Lofaðir krabbar eiga mikla ástarviku þar sem rómantíkin er í hámarki og svífa um á bleiku skýi. Mundu þá tilfinningu og reyndu að halda þessum neista logandi eins lengi og þú getur.

Í vinnunni ertu hrókur alls fagnaðar og nærð að leysa ótrúlegustu verkefni. Jafnvel verkefni sem enginn á undan þér hefur geta gert. Þú ljómar elsku krabbi og þegar að áran þín er svona góð gerast æðislegir hlutir. Njóttu þess!

Happadagur: Sunnudagur
Lukkutölur: 13, 28, 68

Ljón

23. júlí – 22. ágúst

Það er búið að vera erfitt heima fyrir upp á síðkastið og þú ert búinn að sofa frekar illa. Það er allt að fara að breytast. Allt í einu fellur allt í ljúfa löð og þú tekur eftir því að það er mun léttara yfir þér en áður.

Hreinskilni er rosalega mikilvæg kæra ljón og þú hefur verið frekar óhreinskilinn upp á síðkastið. Eða réttara sagt, þú hefur ekki sagt allan sannleikann. Það er gríðarlega mikilvægt að þú opnir þig, talir um hvað þú vilt og hvað þú vilt ekki, hvort sem það varðar vinnutengd málefni eða það sem gerist í svefnherberginu.

Gamall fjölskylduvinur þarf á hjálp þinni að halda og hjálpsama ljónið segir að sjálfsögðu já. Þú færð hjálpsemina margfalt borgaða til baka.

Happadagur: Mánudagur
Lukkutölur: 20, 30, 55

Meyja

23. ágúst – 22 .september

Meyjur sem eru nýlega byrjaðar í sambandi þurfa að vara sig. Gamall elskhugi skýtur upp kollinum og gæti eyðilagt mikið fyrir meyjunni sem veit ekkert í hvorn fótinn hún á að stíga. Ekki láta drauga fortíðarinnar trufla þína tilveru, eins og þeir hafa gert margoft áður. Spurðu sjálfa þig hvað þú í rauninni vilt og ekki ganga gegn eigin sannfæringu.

Meyjur sem hafa hins vegar verið lengi í sambandi finna að þær eru rórri í huga og hjarta og hamingjusamar á þeim stað sem þær eru. Þær horfa yfir farinn veg og sjá svart á hvítu hve mikið þær hafa þroskast og hve langt þær hafa náð.

Happadagur: Laugardagur
Lukkutölur: 8, 42, 80

Vog

23. september – 22. október

Vikan byrjar með hvelli og þú ert uppáhalds manneskja allra. Það vilja allir vera í kringum þig. Þá er mikilvægt fyrir þig að forgangsraða og einbeita þér að því mikilvægasta – ekki láta toga þig í allar áttir.

Þú finnur nýja ástríðu þegar kemur að hreyfingu og heilbrigði. Þér líður svo miklu betur í sálinni og finnst þú geta sigrað heiminn með þessu nýja þoli og nýjum styrk.

Í vinnunni er eitthvað mjög spennandi að fara að gerast og þú átt stóran part í því. Mundu að klappa þér á bakið. Þú átt það skilið.

Happadagur: Miðvikudagur
Lukkutölur: 3, 31, 73

Sporðdreki

23. október – 21. nóvember

Þú ert svo listrænn kæri sporðdreki og í þessari viku færðu mikla útrás fyrir hugmyndaflugið. Þú ert að skipulegga stóra veislu og tekur að þér alltof mörg verkefni. Þú hefur smá áhyggjur af því, en það er óþarfi. Þú skilar þínu með glæsibrag.

Svo gerist eitt sem er mjög fallegt hjá einhleypum sporðdrekum. Allt í einu sérðu góðan vin í nýju ljósi. Rómantísku ljósi. Ekki henda þessum hugsunum í burtu heldur spáðu aðeins í þessu. Gæti þetta verið framtíðarmakinn? Hugsanlega…

Happadagur: Föstudagur
Lukkutölur: 66, 71, 100

Bogmaður

22. nóvember – 21. desember

Þú ert búinn að vera að kanna nýja leið til að hreyfa þig eða hugsa um þig og hún er að skila þér mikilli ánægju. En þú þarft meira. Þá er gott að þú spyrjir þig hvort þú þurfir meira frá öðrum eða sjálfum þér. Líklegt er að þú þurfir meira frá þér sjálfum og þurfir að rækta þína sál til að gefa þig öðrum.

Það hleypur á snærið hjá einhleypum bogmönnum og þeir finna aðila sem lætur þá hugsa öðruvísi um lífið og tilveruna. Þetta er ekki framtíðar samband, en skemmtilegt er það.

Svo er það blessuð vinnan. Hún er eitthvað að flækjast fyrir þér. Þér finnst þú ekki passa inn í. Taktu þessar hugsanir alvarlega og hugsaðu þinn gang.

Happadagur: Þriðjudagur
Lukkutölur: 36, 50, 73

Steingeit

22. desember – 19. janúar

Það er rosalega mikið að gera hjá þér í vikunni því þú segir já við öllum verkefnum. Hugsanlega ertu búin að segja alltof oft já því þú ert pínulítið að bugast. Þú verður að taka helgina frá og hafa það huggulegt. Annars springurðu á limminu.

Það eru erfiðleikar heima fyrir og einhver á heimilinu er að valda þér miklum kvíða. Talaðu um það. Ekki láta hugsanirnar sliga þig heldur talaðu um vandamálið og reyndu að leysa það. Það gæti komið þér á óvart hve einföld lausnin er í raun.

Happadagur: Sunnudagur
Lukkutölur: 4, 14, 27

Vatnsberi

20. janúar – 18. febrúar

Þú ert að jafna þig á áfalli í fjölskyldunni, eitthvað sem gerðist fyrir tiltölulega löngu síðan en sem þú hefur aldrei gert upp. Nú er komið að skuldadögum og þér finnst þú loksins tilbúinn til að vinna í þínum málum. Það er mjög gott.

Í kjölfarið birtir yfir einkalífinu því þú ert opnari og ánægðari með þig sjálfan. Þér finnst þú aftur vera manneskjan sem þú varst áður en áfallið dundi yfir.

Síðan ættirðu að kaupa þér happdrættismiða. Það eru allar líkur á að þú vinnir því það er mikil heillastjarna yfir þér. Vinningurinn verður ekki stór en það er alltaf gaman að vinna, er það ekki?

Happadagur: Þriðjudagur
Lukkutölur: 19, 28, 41

Fiskar

19. febrúar – 20. mars

Þetta er góð vika fyrir fiska. Þú færð óvæntan frídag og nýtir hann út í ystu æsar – en bara fyrir þig sjálfan. Þessi dagur snýst um þig og þú gerir allt sem þig hefur dreymt um að gera í svo langan tíma.

Einhleypir fiskar ættu að hafa varann á þegar kemur að stefnumótalífinu. Það er eitthvað leiðinlegt í vændum sem tengist stefnumótaforritum og samfélagsmiðlum. Varaðu þig á manneskjum sem þú þekkir ekki neitt.

Happadagur: Miðvikudagur
Lukkutölur: 7, 25, 67

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.