fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2019  |
Bleikt

Stjörnuspá vikunnar: Óvæntur elskhugi bankar upp á hjá hrútnum – Afbrýðisemi blossar upp hjá krabbanum

Ritstjórn Bleikt
Sunnudaginn 24. febrúar 2019 21:30

Stjörnurnar hafa ýmislegt að segja.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjörnuspá fyrir vikuna 25. febrúar – 3. mars

Hrútur

11. mars – 19. apríl

Það virðist allt falla í dúnalogn hjá hrútum í vikunni eftir mikið af átökum í vinnunni. Álagið í vinnunni minnkar og vinnufélagarnir virðast vera opnari fyrir því að ekki allt snúist um vinnuna heldur þurfi líka að vera gaman. Því máttu búast við óvæntum gleðskap í vikunni.

Svo er það blessuð ástin. Hún bankar á dyr hjá einhleypum hrútum þegar þeir eiga síst von á, en bara ef hrúturinn opnar hugann aðeins og gerir sér grein fyrir að kannski er týpan sem hann er búinn að vera að leita að ekki týpan fyrir hann. Kannski er manneskjan sem á eftir að fanga hjarta þitt manneskjan sem þú átt síst von á.

Hrútar í sambandi mega einnig eiga von á að maki bryddi upp á nýjungum í heimilislífinu, hvort sem það er í svefnherberginu eða matargerð. Það er allavega ofboðslega bjart framundan hjá hrútunum í þessum heimi.

Lukkudagur: Miðvikudagur
Happatölur: 1, 9, 19

Naut

20. apríl – 20. maí

Svo virðist sem nautið taki nokkur skref aftur á bak í þessari viku og er alltof upptekið af því hvað öðrum finnst um það. Gerðu bara það sem þú vilt og hvað hjartað og heili segir þér, kæra naut. Þú ert á góðum stað og ekki láta utanaðkomandi öfl rústa því.

Góður vinur lætur í sér heyra eftir talsverða fjarveru og tekur nautið honum fagnandi. Þessi vinur á eftir að reynast þér vel og nautinu finnst æðislegt að geta talað við manneskju sem þekkir það betur en flestir. Njóttu tímans með vininum og mundu að oft getur eitt kvöld í góðum félagsskap gert kraftaverk.

Lukkudagur: Laugardagur
Happatölur: 17, 22, 36

Tvíburar

21. maí – 21. júní

Tvíburinn er í stuði í þessari viku og það virðist allt ganga eins og í draumi. Tvíburinn mætir ofur einbeittur í vinnuna og nær að klára alveg ótrúlega mikið magna af verkefnum á stuttum tíma. Hugurinn er skýr og þú gefur þér góðan tíma í að hugsa um sjálfan þig.

Þú kynnist nýrri manneskju sem á eftir að hafa góð áhrif á þig og ögrar þínum vitsmunum. Það er nefnilega ómetanlegt að hafa manneskjur í sínu lífi sem maður getur rökrætt við á vinsamlegan hátt.

Svo færðu einhverja æðislega gjöf í lok vikunnar. Kannski er það efnislegur hlutur eða upplifun og það kemur allt í ljós. Eitt er víst að þessi gjöf á eftir að létta þér lund og skapa frábærar minningar.

Lukkudagur: Sunnudagur
Happatölur: 8, 31, 45

Krabbi

22. júní – 22. júlí

Krabbar í sambandi eiga svolítið erfitt þessa vikuna. Afbrýðisemi lætur á sér kræla án þess að það sé nokkur fótur fyrir því. Þetta er tilfinning sem krabbinn kann ekki á og getur hún haft afskaplega slæm áhrif á sálarlífið. Passaðu þig á þessu. Hugsanlega er komið að því að leita til pararáðgjafa áður en það verður of seint.

Afbrýðisemin og þessar tilfinningar sem þú hefur aldrei upplifað hafa einnig slæm áhrif á afköst þín í vinnunni eða skóla. Enn frekar ástæða fyrir krabbann að taka sig taki, en það getur verið erfitt að horfa í spegilinn og játa uppgjöf.

Lukkudagur: Mánudagur
Happatölur: 6, 50, 77

Ljón

23. júlí – 22. ágúst

Stundum finnst ljóninu eins og lífið verði alltaf eins. Að það gerist aldrei neitt spennandi. Hugsanlega þarf ljónið aðeins að opna augun í vikunni til að sjá fegurðina og einbeita sér fyrst og fremst að ástvinum sínum með hugulsemi að vopni.

Ljónið er efins í sínu ástarsambandi en fær staðfestingu um að það sé á réttri leið í þessari viku. Einhleypa ljónið er alls ekki leitandi og hefur ekki áhuga á ástinni eins og er. Því leggur einhleypa ljónið allan sinn metnað í að rækta vinskap sem á eftir að koma sér vel alla ævina.

Í vinnunni er lítið að frétta, fyrir utan vinnufélaga sem þarf á hjálp þinni að halda. Vegna þess að þú ert svo yndislega hjartahlýtt kæra ljón þá auðvitað svarar þú kallinu.

Lukkudagur: Miðvikudagur
Happatölur: 24, 31, 68

Meyja

23. ágúst – 22 .september

Þú hefur ekki náð að hugsa nógu vel um þig meyjan mín og þú veist það. Mataræðið hefur verið óttalega slæmt að undanförnu og borðar þú annað hvort alltof lítið eða alltof mikið. Þú þarft að finna jafnvægið og finna þig. Þú prófar nýja íþrótt eða hreyfingu í vikunni sem þú átt algjörlega eftir að falla fyrir. Þegar þú ert ánægð veistu nákvæmlega hvernig þú átt að hugsa sem best um þig sjálfa.

Það rofar líka til í huga þínum. Þú ert ekki stanslaust að velta þér upp úr smámunum. Þú hefur ekki endalausar áhyggjur af því sem skiptir ekki máli. Þú ert bara í núinu í þessari viku. Mundu þá tilfinningu því þú átt eftir að vilja endurgera hana viku eftir viku eftir viku.

Meyja sem er í sambandi er óvenju ástríðufull í vikunni og lætur makann klárlega vita hvers virði hann er. Mundu þá tilfinningu líka því maki sem finnur ekki fyrir ástinni nennir ekki að stoppa lengi við.

Lukkudagur: Þriðjudagur
Happatölur: 29, 33, 75

Vog

23. september – 22. október

Þvílík vika hjá voginni. Það eru ofboðslega spennandi tímar framundan og þú ert á leið í ferð sem á eftir að gera þér óskaplega gott.

Þú finnur nýjan lífsvilja í vikunni og nærð að taka margar erfiðar ákvarðanir sem þú ert búin að láta sitja á hakanum. Þá er þér svo óskaplega létt og finnst eins og heimurinn liggi að fótum þér. Það er ótrúlegt hvað gerist þegar maður tekur á vandamálunum, mundu það.

Það hringir í þig gamall vinur og segir þér miklar gleðifréttir. Tíðindin gætu jafnvel þýtt að þú ert á leiðinni í annað ferðalag mjög bráðlega. Eins og ég segi – þvílík vika!

Lukkudagur: Fimmtudagur
Happatölur: 4, 10, 27

Sporðdreki

23. október – 21. nóvember

Sporðdrekinn er búinn að vera duglegur að vera einn með sjálfum sér og gera bara hluti sem hann langar virkilega til að gera. Það er mjög gott. En mundu að enginn er eyland og stundum þarf maður að gera eitthvað sem maður er ekki til í til að gera ástvini ánægða. Það gerist nákvæmlega í þessari viku.

Það hafa verið einhver ósætti í fjölskyldunni sem þú tengist ekki beint en þú þarft samt að taka á honum stóra þínum og miðla málum. Vera sáttasemjari. Þú ert góður í því hlutverki. Það verður auðveldara en þú heldur, enda ert þú mjög góður í láta fólk setja sig í spor annarra.

Lukkudagur: Sunnudagur
Happatölur: 6, 48, 65

Bogmaður

22. nóvember – 21. desember

Vikan byrjar á geggjuðu tækifæri. Eiginlega fullkomnu draumatækifæri. Þú þarft að vinna fyrir því að fá þetta tækifæri en þú ert góður í kjaftinum og færð þínu fram, allt á vinsamlegum nótum samt.

Þú skalt passa þig í einkalífinu kæri bogmaður. Einhleypi bogmaðurinn kynnist manneskju sem er alls ekki góð fyrir hann. Manneskja sem gæti haft afskaplega slæm áhrif á samband bogmannsins við fjölskyldu og vini. Bogmaður í sambandi lendir einnig í slæmri lífsreynslu sem hann getur ekki ímyndað sér að vinna úr. En það tekst. Þú þarft bara að vega og meta líf þitt án manneskjunnar og taka ákvörðun.

Lukkudagur: Mánudagur
Happatölur: 11, 12, 18

Steingeit

22. desember – 19. janúar

Jæja, steingeitin mín kæra. Hættu nú að skipta þér af annarra manna málum. Þú ert búin að troða þér ofan í fjármál annarra upp á síðkastið og nú þarf það að hætta. Stundum þarf fólk að misstíga sig til að læra og þú verður að leyfa því að gera það.

Einbeittu þér frekar að þér sjálfri og gerðu það sem þér finnst skemmtilegt. Heimurinn er svo risastór og kannski þarftu að gera eitthvað algjörlega út úr karakter til að sjá fegurðina í kringum þig.

Það er mikið í lán í kortunum hjá steingeitinni. Þú ættir huganlega að spá í því að kaupa þér happdrættismiða. Það er ótrúlegt hvað manni líður vel þegar að heppnin er með manni, þó ávinningurinn sé ekki alltaf risastór.

Lukkudagur: Föstudagur
Happatölur: 7, 17

Vatnsberi

20. janúar – 18. febrúar

Þú færð risastórt atvinnutilboð í þessari viku sem þú mátt ekki líta framhjá. Óöryggið vaknar og þú telur að þú getir þetta ekki. Ekki hugsa svona. Það er ástæða fyrir þessu tilboði og hún er sú að þú getur þetta alveg.

Í einkalífinu er örlítil lægð hjá vatnsberanum og einhleypir vatnsberar þrá að finna ástina en ekkert gengur. Það er kannski kominn tími á að slökkva á Tinder í nokkra daga og vera ekki með ástina á heilanum endalaust. Þetta kemur allt þegar þú ert tilbúinn. Einbeittu þér frekar að því að uppgötva nýja hæfileika sem fylgir þessu geggjaða atvinnutilboði.

Lukkudagur: Þriðjudagur
Happatölur: 13, 18, 49

Fiskar

19. febrúar – 20. mars

Mér finnst eins og samfélagsmiðlapressan sé að ná þér fiskurinn minn. Þú ert stanslaust með hugann við hvernig aðrir sjá þig á samfélagsmiðlum fremur en að horfa inn á við. Farðu af netinu og út í raunverulega lífið.

Það kemur nefnilega eitthvað upp á á netinu sem sýnir þér að það er ekki hægt að skrifa hvað sem er án þess að lenda í bobba. Í kjölfarið ferðu í mikla sjálfsskoðun og endurskipuleggur þitt stafræna líf ef svo má segja. Af þessu leiðir að þú hefur meiri tíma fyrir fjölskyldu og vini sem allir fagna því þú ert svo skemmtilegur fiskur sem hefur hæfileika til að blása lífi í steindauðustu partíin. Vertu þú sjálfur – gerðu það sem þú vilt – ekki það sem aðrir halda að þú eigir að gera.

Lukkudagur: Laugardagur
Happatölur: 67, 91

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Bættu baðherbergið

Bættu baðherbergið
Bleikt
Fyrir 4 dögum

„Hún fyllir mig innblæstri á hverjum degi“

„Hún fyllir mig innblæstri á hverjum degi“
Bleikt
Fyrir 1 viku

Kylie Jenner svarar samfélagsmiðlastjörnu sem sakar hana um að hafa hermt eftir sér

Kylie Jenner svarar samfélagsmiðlastjörnu sem sakar hana um að hafa hermt eftir sér
Bleikt
Fyrir 1 viku

Undraverðir hlutir sem börn gera í móðurkviði

Undraverðir hlutir sem börn gera í móðurkviði

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.