fbpx
Laugardagur 23.mars 2019
Bleikt

Þetta er nokkurra vikna gamall sonur minn og hann er kannski með mislinga: „Og ég er reið. Öskureið“

Ritstjórn Bleikt
Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður liggur nú í einangrun á Landspítalanum með mislinga.  Maðurinn kom með flugi frá Filippseyjum 14. febrúar og ferðaðist með vélum Icelandair (FI455) frá Lundúnum og síðan Air Iceland Connect (NY356) frá Reykjavík til Egilsstaða 15. febrúar.

Í ljósi þessara tíðinda birtir Bleikt á ný frásögn konu sem fór með son sinn í hefðbundna skoðun og í ljós kom að hann var með mislinga. Frásögn konunnar var fyrst birt fyrir nokkrum árum en fór aftur á flug á þessu ári á hinum ýmsu samskiptamiðlum. Gefum Jennifer orðið:

„Þann 9. febrúar fékk ég símhringingu frá heilbrigðisyfirvöldum, þar sem mér var tilkynnt að sonur minn, ég og móðir mín gætum hugsanlega verið smituð af mislingum eftir að við fórum með hann í hefðbundna læknisskoðun þegar hann var 15 daga gamall þann 27. janúar. Ég fékk að vita að manneskja, sem greindist síðar með mislinga, hafi verið á biðstofunni á sama tíma og við.

Það fylgdi sögunni að þessi manneskja hefði verið á biðstofunni  einni til einni og hálfri klukkustund áður en við komum. Ég fékk einnig að vita að mislingar eru taldir geta smitast með lofti og geti verið í loftinu og á yfirborði hluta í allt að tvær klukkustundir eftir að sýktur einstaklingur hefur verið á svæðinu.

Ég var spurð hvort ég hefði verið bólusett við mislingum. Það hef ég.

En sonur minn, Griffin, hann hefur ekki verið bólusettur vegna aldurs.

Mér var ráðlagt að vera ekki nærri litlum börnum. Ef ég ynni nálægt börnum ætti ég ekki að fara til vinnu. Ég vinn nálægt börnum alla daga, heima hjá mér. Nú sit ég heima með Griffin og 3 ára systur hans, Aurelia, sem hefur aðeins fengið eina MMR bólusetningu enn sem komið er. Tæknilega séð þá er hún einnig í hættu á að fá mislinga. Við eigum að halda okkur heima og fylgjast með hugsanlegum sjúkdómseinkennum: Hita, hósta, nefrennsli. Ef við fáum eitthvert þessara einkenna eigum við að hringja í læknirinn okkar og skipuleggja komu okkar til hans. Við verðum að vera heima í einangrun þar til 17. febrúar en þá eru þeir 21 dagar sem mislingar geta hugsanlega brotist út á liðnir.

Griffin er því nú barn Schrödingers. Bæði með mislinga og ekki. Þar til hann sýnir einkenni smits eða þar til 7 dagar til viðbótar eru liðnir. Annað hvort.

Og ég er reið. Öskureið.

Ég er ekki reið við fólkið í biðstofunni og kenni því ekki um. Ég hefði líklega gert það sama . . . maður verður veikur og fer til læknis. Ég hef enga hugmynd um hver saga þeirra er og mun aldrei vita. En ég veit eitt:

Ef þú hefur valið að láta ekki bólusetja barnið þitt eða þig, þá kenni ég þér um.

Ég kenni þér um.

Alltof lengi hefur þú hamlað sameiginlegum vörnum okkar. Við höfum veitt þér þau FORRÉTTINDI sem fylgja bólusetningum. Í staðinn gafst þú mér þessa viku. Viku í helvíti. Viku, þar sem ég veit ekki ef SMÁBARNIÐ mitt fær sjúkdóm sem getur hugsanlega valdið DAUÐA.

DAUÐA!

Skoðum þetta nánar. Leggjum spilin á borðið.

Þú hefur ENGA HUGMYND um hvað þessi „hugsanlega útkoma“ þýðir. ENGA HUGMYND. Ég veit það. Því miður veit ég það.

Heldur þú að þú sért að vernda barnið þitt fyrir einhverju smotteríi? Það ertu ekki að gera. Það er ekki bólusett við því.

Heldur þú að þú sért að vernda þau fyrir einhverfu? Þú ert ekki að því. Það eru engin, engin, vísindaleg rök sem sanna tengsl bólusetninga og einhverfu. Ef þú vilt frekar nota Google en vísindi skaltu gúggla „prove me wrong“ og ég skal þá með ánægju kalla þig fávita og illa upplýstan.

Heldur þú að þú sért að vernda þau með seyðum og hómópatíu og jákvæðum hugsunum og með því að dansa við kertaljós þegar tungl er fullt? Það ertu ekki að gera. ÉG VERNDA BARNIÐ ÞITT. Við verndum barnið þitt. Með því að vera umhyggjusamir heimsborgarar sem er annt um okkur sjálf, samborgara okkar og þá sem eru veikastir fyrir. Þess vegna bólusetjum við okkur sjálf og börnin okkar.

Heldur þú að þú sért að vernda þau með því að leyfa þeim að borða skóflur fullar af mold og með því að takmarka notkun sýklalyfja og með því að borða lífrænan mat? Það ertu ekki að gera. Sem óbólusettur einstaklingur ertu aðeins verndaður með góðum gjörðum okkar. VIÐ LEYFUM ÞÉR AÐ NJÓTA FORRÉTTINDA vegna vilja okkar til að láta bólusetja okkur og börnin okkar.

Veistu hverju bóluefni vernda börnin þín fyrir? Verkjum. Þjáningum. Óbætanlegu tjóni. Dauða.

Þú myndir vera fyrstur til að skrá þig í bólusetningu ef þú hefðir minnstu hugmynd um hvernig það er að missa barn. Þú myndir skríða um götur og biðja, BIÐJA um bóluefni handa dýrmætu börnunum þínum því það er það sem ég hefði gert, ef ég hefði getað, til að bjarga dóttur minni.

Staðreyndin er að það var ekkert bóluefni fyrir hana. Ekki fyrir sjúkdóminn sem hrjáði hana. Og hún dó. Hún lést aðeins fimm og hálfs árs gömul og hún er farin.

Ég sé þessum röksemdum dreift á Facebook og Twitter þar sem vitnað er í fölsuð vísindi og „rannsóknir“ sem er löngu búið að sýna fram á að voru ekki marktækar. En þessu linnir ekki og Jenny McCarthy segir „Þetta er MITT val“ um að láta ekki bólusetja . . . og ég hugsa með mér . . . hvað hefðir þú gert ef barnið þitt lægi fyrir dauðanum? Myndir þú gefa því bóluefni sem er vísindalega sannað að er öruggt og áhrifaríkt og taka áhættuna á þeim agnarlitlu aukaverkunum sem það getur haft? Eða myndir þú frekar láta það deyja, vitandi að barnið myndi þá örugglega ekki verða einhverft (sem þau myndu hvort sem er ekki verða)?

Þú skalt ekki DIRFAST að segja mér að þú myndir ekki bólusetja þau. Ekki dirfast. Þú hefur enga hugmynd um hvernig það er að ganga í gegnum það sem við gerðum.

Svo, horfðu á Griffin. Segðu mér af hverju hann þarf að gjalda fyrir heimsku þína og ófyrirleitinnar misnotkunar þinnar á vörnum okkar hinna? Segðu mér það.

Sjö dagar til viðbótar þar ég veit að barnið mitt er óhult. Sjö dagar til viðbótar.

Hvernig er vikan ykkar annars, þið sem eruð á móti bólusetningum?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.