fbpx
Þriðjudagur 25.júní 2019
Bleikt

Amanda aðhyllist ruslminni lífsstíl: „Allir geta gert eitthvað“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 16. febrúar 2019 22:00

Amanda da Silva Cortes lifir í sátt við dýr og umhverfi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Amanda da Silva Cortes er íslenskur bloggari, grænkeri og umhverfissinni, og starfar sem lyfjafræðingur. Amanda heldur úti vinsælum Instagram-aðgangi, @amandasophy, þar sem hún deilir með fylgjendum sínum ýmsum ráðum um hvernig hægt sé að lifa í sátt og samlyndi við dýrin og umhverfið og valda sem minnstum skaða.

DV ræddi við Amöndu um umhverfisvæna lífsstíllinn. Hún gefur lesendum sjö einföld og góð ráð til að byrja að minnka við sig ruslið.

Bæði á veraldarvefnum og erlendis er þessi lífsstíll þekktur sem „zero waste,“ en Amanda segist ekki nota það hugtak því það sé nær ómögulegt að skilja eftir sig ekkert rusl.

„Ég kalla þetta ruslminni lífsstíl sem er ekki alveg „zero waste,“ en margir telja ekki hægt að kalla þetta „zero waste“ því samfélagið hreinlega býður ekki upp á það. Þetta heiti býr til óraunhæfar kröfur og leiðir til þess að fólk þorir ekki að prófa sig áfram því það verður aldrei fullkomið. Ruslminni lífsstíll snýst um að skapa minna rusl. Við lifum í einnota samfélagi þar sem allt þarf að gerast svo hratt, fólk hendir hlutunum strax og það kaupir nýja. Þau sem aðhyllast ruslminni lífsstíl vilja breyta því,“ segir Amanda.

Amanda safnar alls konar krukkum utan af mat sem hún endurnýtur.

Að flokka er ekki lausn

Hvenær byrjaðir þú að aðhyllast þennan lífsstíl?

„Ætli ég hafi ekki gert það fyrir alvöru fyrir um einu ári. Ég var byrjuð að spá í þetta fyrr og taka þessi fyrstu skref, eins og að fara með fjölnota poka í búðir og nota fjölnota kaffimál. Ég byrjaði að flokka rusl almennilega, en að flokka er ekki lausn, einungis plástur á sárið. Við þurfum að minnka sorpið sem fer í endurvinnslu,“ segir Amanda.

Af hverju ákvaðst þú að fylgja ruslminni lífsstíl?

„Þetta gerðist frekar hægt og rólega. En ég held þetta hafi gerst meðfram grænkeralífsstílnum,“ segir Amanda, en hún hefur verið grænkeri í um eitt og hálft ár. „Ég var að fræðast umhverfisáhrif dýraafurðaiðnaðarins og í leiðinni datt ég inn á hvað allt er í raun fjöldaframleitt. Samhliða því að fara að spá í allt plastið og ruslið sem endar í hafinu, fór ég að spá í allan fatnaðinn sem lendir í urðun og er ekkert pláss fyrir úti í heimi.“

Hvað var erfiðast þegar þú byrjaðir?

„Ætli það hafi ekki verið erfiðast að finna út hvar ég gæti verslað án þess að fá allar þessar umbúðir. Það tók smá stund að skapa nýja rútínu. Maður er vanur ákveðinni rútínu og það tekur tíma að búa til nýjar venjur. Það er talað um að það taki allt að 21 dag að venja sig á eitthvað. Ég, til dæmis, gleymdi ítrekað fjölnota pokum þegar ég fór að kaupa í matinn, en þá gekk ég með allt í fanginu út í bíl,“ segir Amanda og hlær.

Hvað kom þér á óvart? Hvað var auðvelt?

„Ég miklaði fyrir mér að fara í Matarbúr Kaju sem er á Akranesi. Þar er hægt að kaupa baunir, hrísgrjón og alls konar þurrvöru í lausu. Ég var alltaf að fresta því að fara þangað og hélt að það væri vesen. En þetta var lítið mál. Maður tekur einhvern vin með sér og er enga stund að sinna þessu. Starfsfólkið þar er mjög hjálpsamt og þetta er ótrúlega þægilegt. Ég kaupi yfirleitt tveggja til þriggja mánaða birgðir af umbúðalausum baunum í hverri heimsókn,“ segir Amanda.

Aðspurð hvort það sé erfitt að elda baunirnar, frekar en að kaupa tilbúnar í dós, svarar Amanda neitandi. Hún segir það mikilvægt að muna eftir því að leggja baunirnar í bleyti í hálfan sólarhring áður en þær eru eldaðar. Einnig eldar Amanda yfirleitt mikið magn í einu, skiptir upp í krukkur eða box og geymir í frysti. Að sögn hennar er þá álíka einfalt að grípa í baunirnar og dósirnar.

Kjúklingabaunir, hrísgrjón og kínóa er meðal þess sem hægt er að finna í hillunni hjá Amöndu.

Verslar ekki oftar en einu sinni í viku

Hvar, fyrir utan Matarbúr Kaju, finnst þér best að kaupa í matinn? 

„Ég fer bæði í Bónus og Krónuna. Verslanirnar eru mjög mismunandi. Stundum er til plastlaust brokkolí í Bónus en ekki Krónunni og öfugt. Ég versla aldrei oftar en einu sinni í viku. Ég reyni að kaupa í matinn aðra hverja viku og klára matinn sem ég á til í ísskápnum,“ segir Amanda. Hún segist vilja fá deild í matvöruverslanir þar sem hægt væri að mæta með sín eigin ílát og kaupa þurrvöru í lausu.

Hvaða ástæðu gefur fólk þér fyrir því að það lifi ekki ruslminni lífsstíl?

„Fólk á erfitt með að brjóta vana og hefðir. Fólk á erfitt með að trúa að einn einstaklingur geti haft áhrif og leitt til einhverra breytinga. Einn einstaklingur framleiðir svo ótrúlega mikið af rusli, eins og fatnaði sem er hent og tíðavörur. Ein manneskja hefur áhrif,“ segir Amanda. „Um leið og einstaklingur er opinskár varðandi þetta, tekur hann oftar eftir því sem hægt er að gera betur. Fólk getur verið feimið við að vera öðruvísi. Ég legg mig fram um að mæta með mitt eigið ílát á skyndibitastaði eða bakarí og sýna það öðrum til að sýna að það er ekkert mál,“ segir Amanda

Sanngjarn og umhverfisvænn fatnaður

Amanda kaupir vandaðar, sanngjarnar (e. fair trade) og umhverfisvænar vörur. En hún segir að þótt hún velji umhverfisvænar flíkur þá verði það seint umhverfisvænt að yfirfylla fataskápinn. Amanda ákvað að hefja sex mánaða fataverslunarföstu í byrjun janúar sem gengur vel.

Hvar er hægt að kaupa sanngjarnan og umhverfisvænan fatnað á Íslandi?

„Það eru tvær verslanir sem bjóða upp á sanngjarnan fatnað á Íslandi, Verslunin Ethic.is og Org Reykjavík. Þær eru bæði með fatamerki sem eru siðferðislega sanngjörn fyrir einstaklingana sem framleiða flíkurnar og framleiða textílinn í flíkurnar. Svo er auðvitað mjög gott að kaupa notaðar flíkur, eins og í Kolaportinu, Rauða krossinum, Spúútnik  og Gyllta kettinum, eða af einstaklingum sem eru að selja notaðar flíkur á netinu,“ segir Amanda og bætir við að Barnaloppan sé frábær kostur fyrir börn.

Amanda segir að allir geti gert eitthvað fyrir jörðina okkar.

Þörf á fræðslu

Líður þér aldrei eins og þú sért ein í ómögulegri baráttu?

„Ég er alltaf að fara að nenna þessu. En jú, ég verð stundum óþolinmóð og vil að þetta gangi hraðar. Ef ég tek eitt dæmi þá var ég að hlusta á FM957 á leið í vinnuna á mánudaginn. Strákarnir voru að ræða um umhverfisvænan lífsstíl og sagðist einn þeirra ekki ætla að fljúga í nokkra mánuði. Síðan spurðu þeir hvað meira þeir gætu gert til að verða umhverfisvænni og þá kom vandræðaleg þögn. Ég átti erfitt með mig, það er svo margt hægt að gera! Það er klárlega þörf á meiri fræðslu varðandi hvað fólk getur gert til að gera betur við umhverfið,“ segir Amanda.

Hvað getur fólk gert?

„Breyta öllu sem er einnota yfir í fjölnota. Nota fjölnota poka og kaffimál, kaupa það grænmeti sem kemur plastlaust, nota fjölnota grænmetispoka en ekki litlu glæru plastpokana, keyra minna og taka strætó oftar, hjóla og ganga þegar veður leyfir og borða meira af heilnæmu plöntufæði. Dýraafurðaiðnaðurinn mengar meira en allar samgöngur heimsins samanlagt. Það er rosalega stórt skref að minnka dýraafurðir,“ segir Amanda.

Í sambúð með kjötætu

Amanda og kærasti hennar, Birgir, hafa verið saman í fjögur ár og eru í sambúð. Birgir er hvorki grænkeri né umhverfissinni eins og Amanda. Aðspurð hvort það skapi togstreitu í sambandinu segir Amanda að það geti verið erfitt.

„Í fullri hreinskilni þá er að finna plastpoka heima hjá mér. Hann reynir að muna eftir fjölnota poka en kaupir stundum plastpoka. Mér finnst svo mikilvægt að fólk átti sig á því að það geti alveg verið grænkerar og stundað ruslminni lífsstíl þótt hinir í fjölskyldunni geri það ekki. Hver manneskja sem tekur sig á skiptir máli,“ segir Amanda og bætir við: „Ég vil sýna fólki að þetta sé hægt. Ég geri það sem ég get og það smitar út frá sér til annarra.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?

„Allir geta lagt eitthvað til málanna. Allir geta gert eitthvað. Taktu þetta í skrefum og byrjaðu á einhverjum tveimur, þremur atriðum. Þegar þú ert orðin örugg með það getur þú byggt ofan á það. Þannig verður þetta að rútínu. Það er það sem ég gerði og í dag er þetta hvernig ég hugsa,“ segir Amanda.

„Jörðin færir okkur fæði, súrefni og skjól. Við höfum alls ekki langan tíma til að komast hjá því að það fari allt í rugl.“

Amanda segir það einfalt að taka fyrstu skrefin. Hún gefur lesendum sjö góð ráð.

Sjö einföld ráð Amöndu til að minnka rusl:

  1. Fjölnota í stað einnota. Pokar, mál, ílát, bómullarskífur, hnífapör, rör, tíðavörur og fleira er til fjölnota.
  2. Eldaðu meira heima og útbúðu nesti fyrir vinnuna eða skólann.
  3. Notaðu bílinn minna, vertu samferða einhverjum, taktu strætó og hjólaðu eða gakktu meira.
  4. Borðaðu meira af heilnæmu plöntufæði.
  5. Farðu með ílát þegar þú ert að kaupa mat til að taka með á veitingastöðum og bakaríum. Amanda er alltaf með fjölnota poka og nestisbox á sér.
  6. Kauptu meira notaðar flíkur og vörur.
  7. Skiptu plastvörum út fyrir náttúrulegar trefjar þegar kostur er á. Til dæmis bambustannbursta og viðaruppþvottabursta í stað plastbursta.

Amanda mælir með þessum heimildamyndum: (Allar á Netflix)

  • Cowspiracy
  • The True Cost
  • A Plastic Ocean

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Krúttlegu feðgarnir sem bræddu hjörtu um allan heim leika í auglýsingu – Sjáið myndbandið

Krúttlegu feðgarnir sem bræddu hjörtu um allan heim leika í auglýsingu – Sjáið myndbandið
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Myndirnar sem ferðaskrifstofurnar sýna þér ekki

Myndirnar sem ferðaskrifstofurnar sýna þér ekki
Bleikt
Fyrir 1 viku

„Ég vil vera þessi glaða, félagslynda og góða mamman sem elskar lífið og tilveruna“

„Ég vil vera þessi glaða, félagslynda og góða mamman sem elskar lífið og tilveruna“
Bleikt
Fyrir 1 viku

Áhrifavaldar á Instagram biðja fylgjendur um að borga ferðalagið sitt: „Fáið ykkur vinnu og borgið sjálf fyrir litlu hjólaferðina ykkar“

Áhrifavaldar á Instagram biðja fylgjendur um að borga ferðalagið sitt: „Fáið ykkur vinnu og borgið sjálf fyrir litlu hjólaferðina ykkar“
Bleikt
Fyrir 1 viku

Alexander og Sandra komin í 5 manna úrslit Nordic Face Awards

Alexander og Sandra komin í 5 manna úrslit Nordic Face Awards
Bleikt
Fyrir 1 viku

Arnhildur Anna gengur til liðs við Trendnet – Kisumamma í lyftingum

Arnhildur Anna gengur til liðs við Trendnet – Kisumamma í lyftingum
Bleikt
Fyrir 1 viku

Blæðingar eru ekkert grín, eða hvað?: „Hins vegar hef ég aldrei fengið STANDPÍNU út af borði“

Blæðingar eru ekkert grín, eða hvað?: „Hins vegar hef ég aldrei fengið STANDPÍNU út af borði“
Bleikt
Fyrir 1 viku

Einkaþjálfari Jennifer Aniston segir henni að gera þetta fyrir æfingar

Einkaþjálfari Jennifer Aniston segir henni að gera þetta fyrir æfingar

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.