fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2019  |
Bleikt

Árný: „Það rigndi yfir mig hrósum ég fékk boð um að sitja fyrir og karlmenn buðu mér út“

Aníta Estíva Harðardóttir
Þriðjudaginn 5. febrúar 2019 20:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árný Guðjónsdóttir er tveggja drengja móðir sem stundar nám við uppeldis- og menntunarfræði með kynjafræði sem aukagrein. Eftir að Árný eignaðist fyrri son sinn sem er í dag sex ára gamall, byrjaði hún að taka mataræði sitt í gegn á heilbrigðan máta í samstarfi við fjarþjálfara. Fljótlega áttaði hún sig á því að í kjölfar þess sem talan á vigtinni lækkaði því neðar vildi hún ná henni og það hratt.

Áður en Árný vissi af var hún farin að stunda öfgakennda líkamsrækt og taka átköst, þar sem hún svelti sjálfa sig þar til hún gat ekki meira og borðaði svo stanslaust yfir stuttan tíma með þá fullvissu að þegar hún hætti að borða myndi hún losa sig við matinn.

„Stuttu eftir að ég byrjaði í átaki sleit ég samvistum við barnsföður minn og gafst mér þá meiri tími til þess að stunda líkamsrækt. Fólk fór að taka eftir því að ég var að grennast og það var eins og ég hefði unnið Óskarsverðlaunin. Það rigndi yfir mig hrósum og sóttist ég eftir þeim með því að pósta árangursmyndum á samfélagsmiðlum. Ég hélt að ég hefði náð að uppfylla þennan æskudraum um að verða grönn og að nú myndi lífið byrja,“ segir Árný í viðtali við blaðakonu.

Lífið varð æðislegt þegar stelpurnar urðu sætar

Á dögunum deildi Árný erfiðri reynslu sinni frá æskuárunum í stórum hópi á Facebook þar sem rætt er um jákvæða líkamsímynd. Þar opnaði hún sig um þá staðreynd að henni þótti hún vera að missa af öllu skemmtilegu vegna þess að hún var í ofþyngd.

„Ég eyddi miklum tíma í að dagdreyma um daginn sem ég yrði grönn. Ég var í ofþyngd og fannst ég vera að missa af öllu því skemmtilegasta. Strákarnir voru skotnir í grönnum stelpum og ég var alltaf sú sem var á hliðarlínunni. Ég fékk að heyra um allt það sem vinkonur mínar voru að gera með strákum og þær sprönguðu um á bikiníi og nutu lífsins. Ég hataði líkama minn og gaf honum þau skilaboð daglega. Uppáhalds kvikmyndirnar mínar voru myndir á borð við „She‘s all that“ og „Never been kissed“, þær myndir snerust um umbreytingu kvenna sem voru óvinsælar og uppfylltu ekki útlitsstaðla yfir í það að verða vinsælu „sætu“ stelpurnar. Í þessum myndum urðu þær svo glaðar og líf þeirra varð alveg geðveikt eftir umbreytinguna. Þetta hlyti því að gerast hjá mér? Já, ef ég bara missti auka kílóin,“ sagði Árný sem fór í sína fyrstu megrun þegar hún var aðeins ellefu ára gömul.

Skjáskot úr myndinni She’s all that – Stúlkan var talin óaðlaðandi og ekki góður kvennkostur á vinstri myndinni en eftir umbreytingu (á myndinni til hægri) var hún orðin nógu fögur fyrir draumaprinsinn

„Þá labbaði ég fram og til baka göturnar í hverfinu mínu og sleppti máltíðum. Ég kleip í magann á mér daglega og lærin og sagðist hata líkama minn. Í samfélaginu voru engar fyrirmyndir um fjölbreytta líkama. Það var einungis þessi eini líkami sem var viðurkenndur og eftirsóknarverður – hann var grannur en samt með stór brjóst. Já fitan átti bara að vera á „réttum“ stað.“

Skjáskot úr myndinni Never been kissed – Á myndinni vinstra megin var leikkonan talin hallærisleg og litið var niður til hennar. Á hægri myndinni hafi hún tekið umbreytingum og var nú orðin falleg og vinsæl

Þegar Árný hafði breytt lífstíl eftir að hún eignaðist fyrra barn sitt. Fór hún að taka eftir því hvernig samfélagið fagnaði umbreytingunni með henni.

„Vá, þú lítur svo vel út, vá hvað þú ert orðin grönn. Allt í einu bauðst mér að vera á ljósmyndum fyrir verslun, karlmenn buðu mér á stefnumót í hrönnum og þar fram eftir götunum. Ég var loksins viðurkennd. En hvernig leið mér? Mér leið eins og áhorfanda úr eigin líkama. Ég var enn þá sama manneskjan en mér fannst heimurinn vera ógeðslegur og yfirborðskenndur. Ég upplifði enga gleði yfir þessum nýja líkama heldur fann ég bara aðra hluti til þess að líða illa yfir. Mér leið alveg eins, jafnvel verr og ég grenntist bara meira og meira. Allt sem kvikmyndirnar og þættirnir höfðu sýnt um umbreytingar var lygi. Allt varð ekki geðveikt og ég var ekki glöð. Það var ekki fyrr en ég varð veik af átröskun og stóð grátandi í eldhúsinu heima, tróð í mig mat sem ég vissi að ég ætlaði að kasta upp, að ég gerði mér grein fyrir því að allt sem auglýsingarnar reyna að selja manni er falskt. Ekkert krem, engin megrun og engin ákveðin kílóatala gefur manni hamingju. Því heilbrigði mælist ekki í holdafari. Ég þrái ekkert heitar en að ungar stelpur eigi fleiri fyrirmyndir sem gefa þau skilaboð.“

Átröskunin færði henni samfélagslega viðurkenningu

Fljótlega komst Árný því að því að öfgakennd hegðun hennar gerði hana ekki hamingjusama heldur gerði það að verkum að hún var síþreytt og máttlaus.

„Ég hafði litla orku til þess að stunda námið mitt og leika við strákinn minn, en á þessum tíma gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta væri orðið vandamál. Eitt skipti þegar ég dróg sjálfa mig á æfingu þrátt fyrir að vera mjög þreytt, endaði ég á því að fá aðsvif og missti lyftingalóð á ennið á mér.“

Árný segist ekki hafa áttað sig á alvarleika málsins fyrr en hún fór að fá átköst og var orðin mjög svelt.

„Þá borðaði ég stanslaust yfir stuttan tíma en ég vissi að ég ætlaði að losa mig við matinn. Það er mjög erfitt að gera þetta bæði líkamlega og andlega, þarna fann ég uppgjöf. Ég leitaði mér hjálpar hjá átröskunarteymi Landspítalans. Þar hitti ég ráðgjafa en þetta voru þung spor. Ég var ekkert viss um að mig langaði að skilja við átröskunina þar sem hún hafði í raun fært mér samfélagslega viðurkenningu og var orðin mér kær vinkona.“

Þrátt fyrir að Árný hafi skuldbundið sig lítið við verkferla átröskunargeymisins áttaði hún sig á því hvernig hugarfar hennar var orðið.

„Ég fór að sjá svart á hvítu hvernig forgangsatriði mín voru skekkt. Í forgrunni var að viðhalda þessu holdafari og fókusinn ekki á þá hluti sem skiptu mig raunverulega mestu máli. Ég þurfti að endurhugsa mín forgangsatriði, læra að vera þakklát aftur fyrir líkama minn og það sem hann gerði fyrir mig. Það er afleitt að halda að maður geti stjórnað honum alfarið og í raun þurfti ég að kúpla mig út úr megrunar-menningunni.“

Eigum langt í land gagnvart virðingu allra líkama

Árný brá á það ráð að hætta að fylgjast með fólki á Instagram sem lét henni líða illa með sjálfa sig. Fann sér fyrirmyndir sem höfðu góð skilaboð fram að færa, ásamt því að lesa sér til um vísindin að baki næringarinnar.

„Ég unfollowaði allt á Instagram sem lét mér líða illa, þar á meðal þar sem mjög einsleitir líkamar komu fyrir og ráð til þess að öðlast þá. Ég las mér til um vísindin að baki næringar þar sem margar ranghugmyndir um getu mína til þess að stjórna þyngdinni voru byggðar á rangfærslum. Hugmyndum sem viðgangast í „megrunarbransanum.““

Telur Árný samfélagið í dag eiga langt í land með það að veita öllum líkömum jafna virðingu og að samfélagsmiðlar spili þar stórt hlutverk.

„Samfélagsmiðlar eru stórtækir og herja á mann auglýsingum um megrunarte og aðrar misæskilegar leiðir til þess að léttast. Ég tel að því miður eigum við langt í land með að veita öllum líkömum jafna virðingu. Það er þó margt gott við tilkomu samfélagsmiðla og hafa nú fleiri rödd á opinberum vettvangi. Við höfum aðgang að fjölbreyttum hópi fólks en við gætum samt þurft að leita til þess að sjá það. Þeir sem eru hvað vinsælastir eru oft þeir sem græða á því að selja vörur sem eiga að gefa ákveðið útlit, sem dæmi Kardashian systurnar. Við erum í raun oft að bera okkur saman við 5% af líkömum heimsins, í stað þess að horfa í kringum okkur til dæmis í sundi og sjá að líkamar eru allskonar. Ég held að við lokum augunum og höldum að hamingjan komi með þessum svokallaða „fullkomna“ líkama.“

Árný elskar líkama sinn í dag / Mynd: Aðsend

Elskar líkama sinn í dag

Árný segist ánægð með hugsun ungra stúlkna í dag og að margar hverjar séu með gjörbreytt hugarfar gagnvart líkama sínum heldur en tíðkaðist áður fyrr.

„ Mér finnst ungar stelpur í dag magnaðar! Þær eru sterkar og fullar af réttlætiskennd, ég sé mun fleiri ungar stelpur fagna líkama sínum en þegar ég var yngri. Mér finnst það æðislegt og ég vona að það sé þróun sem er komin til að vera.“

Segir hún mikilvægt að fólk fari að endurskoða orðræðu sína gagnvart líkömum sínum og annara.

„Ég tel að við gefum okkur leyfi til þess að tala um líkama annarra bæði í þeirra návist og ekki, án þess að gera okkur grein fyrir þeim áhrifum sem það hefur. Við þurfum að vanda okkur betur og sérstaklega hvernig við tölum um okkur sjálf og líkama okkar í návist barna og unglinga. Einnig vona ég innilega að „Hollywood“ taki við sér og sýni fjölbreyttari líkama en hefur viðgengist. Það að vilja stunda líkamsrækt og hugsa vel um sig er frábært. En hugsum aðeins um það af hverju okkur langar til þess? Það ætti ekki vera til þess að refsa sjálfum sér heldur frekar fagna því sem líkaminn er fær um að gera og líða vel. Ég elska minn líkama í dag. Hann hefur staðið með mér í gegnum allt og hann er fallegur, mjúkur og krumpaður. Það er barátta að búa í samfélagi sem hampar þessum umbreytingum stöðugt og það er erfitt að standa gegn straumnum. Mig langaði að gefa brot af minni sögu í von um að einhver lesi og sjái að hamingjan er ekki fólgin í ögun út frá sjálfshatri í von um betri líðan.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Giftist æskuástinni og urðu bæði ástfangin af sömu konunni: „Þetta er ekki kynlífskölt“

Giftist æskuástinni og urðu bæði ástfangin af sömu konunni: „Þetta er ekki kynlífskölt“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

True stelur senunni

True stelur senunni

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.