fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Áslaug Eik uppgötvaði „sannleika lífsins“ og taldi sig útvalda af Guði

Aníta Estíva Harðardóttir
Þriðjudaginn 29. janúar 2019 12:20

Áslaug Eik Ólafsdóttir/ Ljósmynd: Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að ég þurfi bara að vera forseti Bandaríkjanna til að bjarga heiminum í eitt skipti fyrir öll. Því Bandaríkin eru voldugasta ríki í heimi og þá get ég sungið fyrir öll ríkin á sama tíma. Ég veit ekki alveg hvað felst í því að vera forseti Bandaríkjanna, en eitt er víst að ég gef mig alla í það. Viskan sem ég bý yfir, hæfileikinn til að setja sig í spor annarra og fleiri „gifts“ sem ég bý yfir, næmni, hugsanaflutningur, að tala við dýr, sendiboði Guðs og fleira sem verður nefnt síðar. Mig langar að Barack Obama verði hægri hönd mín og Jón Gnarr vinstri, ef þeir vilja. Meira bið ég ekki um í bili.“

Svona hljómar hluti af þeim hugsunum sem Áslaug Eik Ólafsdóttir upplifir þegar hún fer í svokallaða maníu. Áslaug, sem er tuttugu og fjögurra ára gömul, hefur glímt við geðhvarfasýki um nokkurt skeið. Fyrir utan geðhvarfasýkina er Áslaug einnig með fíknisjúkdóm og þegar hún var í hvað mestri neyslu ýttu grasreykingar hennar undir geðrof.

Í gegnum veikindi sín hélt Áslaug úti bloggsíðu þar sem hún skrifaði niður hugsanir sínar og upplifun. Að fara í gegnum síðuna getur verið mjög ruglingslegt, sérstaklega fyrir þá sem ekki þekkja sögu Áslaugar. Lesa má margar færslur, sem sumar hverjar eru skrifaðar þegar Áslaug er ekki veik, en aðrar þeirra eru skrifaðar undir áhrifum geðrofs eða maníu. Áslaug hefur núna ekki upplifað nein alvarleg veikindi í tæplega eitt og hálft ár og var hún tilbúin til þess að koma fram í viðtali við DV. Blaðakona ræddi við Áslaugu um það hvernig líf hennar sé í dag og hvernig hún hefur upplifað það að vera með geðsjúkdóm á Íslandi. Einnig fékk blaðakona leyfi til þess að fara yfir og nota það efni sem Áslaug hefur skrifað í gegnum veikindi sín, til þess að gefa lesendum raunverulega mynd af því hvernig manneskja í geðrofi hugsar.

Áslaug segist hafa kveikt á sjúkdómnum með því að reykja gras / Ljósmynd: Aðsend

Uppgötvaði „sannleika lífsins“ og taldi sig útvalda

„Í lok nóvember 2015 upplifði ég fyrstu maníuna, sem er hluti af sjúkdómnum geðhvarfasýki, en ég fór líka í geðrof sem stundum fylgir maníunum. Það var af því að ég var í neyslu, ég í rauninni kveiki á þessum sjúkdómi með því að reykja gras. Ég hefði mögulega ekki veikst ef ég hefði ekki verið að reykja,“ segir Áslaug í samtali við blaðakonu.

Áslaug hefur í þrjú skipti upplifað það að fara í stórar maníur þar sem hún fyllist miklum ranghugmyndum um sjálfa sig og heiminn.

„Alltaf þegar ég hef lent í svona ástandi þá hef ég ekki viðurkennt að ég sé í maníu, af því að ég var með ranghugmyndir um það hver ég var. Þær maníur sem ég skrifaði um í blogginu mínu … þá vissi ég ekki hvað manía var og ég var bara viss um að þetta væri persónuleikinn minn. Það var svo mikið í gangi hjá mér og margt sem ég var að uppgötva um „sannleika lífsins“ og hélt að ég væri útvalin. Þá taldi ég það bara vera eðlilegt ástand og var því ekki beint í afneitun. Ég taldi þetta eðlilegt og fannst ég geisla af persónutöfrum,“ segir Áslaug og hlær. Hún heldur áfram og segir: „Í dag er ég á lyfjum sem halda veikindunum í skefjum en ég á það til að fara aðeins upp og kallast það hypomania. Það er aðallega í bipolar 2 en ég vil aldrei viðurkenna það, af því að ég elska hypomaníur, þá getur maður haft stjórn. Maður er kærulausari en á sama tíma örari og lífskrafturinn á fullu. En í alvarlegum maníum, sem fylgja bipolar 1, er maður gjörsamlega stjórnlaus.“

Þegar Áslaug hefur upplifað sínar stærstu maníur líður henni eins og allir elski hana og séu jafnvel ástfangnir af henni.

„Ég fæ alveg ótrúlega mikið sjálfsálit, en verð samt ekki hrokafull. Ég upplifi mig sem mjög sérstaka manneskju.“

Ætlar að bjarga heiminum og er með Justin Bieber á heilanum

Í febrúar á síðasta ári fékk Áslaug loks þá greiningu að hún glímdi einnig við fíknisjúkdóm og í mars fór hún í sína fyrstu meðferð.

„Ég hef glímt við að halda mér edrú. Ég náði einhverjum tveimur mánuðum fyrst og datt svo í það. Náði svo aftur einhverjum tíma en datt aftur í það. Ég er núna búin að vera edrú síðan 21. desember og er að fara í fimm vikna göngudeildarmeðferð.“

Áslaug segir maníur fólks vara í mislangan tíma. Í einhverjum tilfellum varir hún í viku eða skemur, jafnvel aðeins nokkrar klukkustundir. En vegna þess að Áslaug er með bipolar 1 þá hafa maníur hennar staðið yfir í að minnsta kosti tvær vikur og allt að tveimur mánuðum.

„Ég ímynda mér hluti sem gera að verkum að ég elti eitthvað óraunverulegt. Ég reyni að bjarga heiminum þegar ég er í þessu ástandi og ég er með Justin Bieber á heilanum. Held að hann sé að tala við mig í gegnum hausinn á mér og segja mér að gera hitt og þetta. Hann segir mér að koma til sín og segist elska mig.“

Justin Bieber á Íslandi, en söngvarinn hefur verið tíður gestur hér á landi.

Úr bloggi Áslaugar frá geðdeild: „Justin er afbrýðisamur af því ég verð skotin í fólki sem ég kann vel við. Hann sér, en ég veit ekki 100% hvernig. Ég held það séu myndavélar úti um allt á geðdeildinni sem tölvuhakkarar eru búnir að hakka sig inn í. Ég held að allir sjái allt sem ég geri og ég er farin að halda að það sé myndavélarlinsa í augunum mínum. En það hljómar eins og geðveiki. Ég finn stundum í maganum fyrir Justin, það finnst mér gott. Oftast finn ég ekki neitt. Numb. Fyrirgefðu Justin, elsku Dominic minn. Mér finnst vont að láta þér líða illa. Ég myndi aldrei halda fram hjá þér eða gera eitthvað sem særir þig, verst er að þú heyrir allar mínar hugsanir og þeim getur maður ekki stjórnað.“

Grasreykingar kveiktu á sjúkdómnum

Áslaug segir grasreykingar sínar í gegnum tíðina tengjast þeim geðrofum sem hún hafi upplifað.

„Þetta tengist klárlega. Ég er ekkert hrædd um að ég muni veikjast ef ég er ekki að reykja. Ég hef aldrei veikst nema þegar ég hef verið að reykja gras.“

Áslaug hefur farið reglulega inn á geðdeild í misannarlegu ástandi. Hún segir að sú aðstoð sem hún hafi fengið vegna veikinda sinna hafi verið til fyrirmyndar. Hún hafi alltaf fengið viðeigandi hjálp og einnig fengið að vera á Laugarási, endurhæfingarstöð fyrir fólk með geðrofssjúkdóma.

„Ég var mjög heppin að komast þar inn. Sérstaklega þar sem ég er ekki með geðklofa eins og flestir þarna. En ég er með bipolar og það er ekki mikið um það í Laugarási, en ég fékk að vera þar í virkni.“

Þrátt fyrir að Áslaug finni fyrir því að hún sé að fara upp í litlar maníur og geti stjórnað því í dag með lyfjum þá hefur hún ekki getað áttað sig á því að hún sé í alvarlegum maníum í gegnum tíðina.

„Ég átta mig ekki á því og held að þetta sé minn sannleikur, sem allir muni komast að seinna. Mér finnst eins og ég þurfi að sanna það fyrir öllum. Ég trúi á þetta en geri mér á sama tíma grein fyrir því að aðrir trúi þessu ekki. En þá hugsa ég: „Vá, þú munt bara sjá, þetta kemur í ljós.“ Þangað til að ég kem kannski til baka eftir tvo mánuði og fer að sjá að þetta sé mögulega aðeins bull hjá mér. Þá eru lyfin byrjuð að hafa áhrif.“

Úr bloggi Áslaugar: „Guð getur talað í gegnum mig og hann mun alltaf geta það. Ég er Villimey Verndun af ætt Ísfólksins. Með hjálp vina og vandamanna ætla ég að taka yfir heiminn og eins og vinkona mín, Selena Gomez, sagði, Kill them with kindness. Ég get vitað svörin við öllu ef ég pæli og einbeiti mér nógu mikið að því. Þess vegna eru framtíðarhorfur mjög bjartar. Ég er eiginlega í smá sjokki sjálf og ég er enn þá að átta mig á hlutunum eins og þið. Ég veit þið eruð bara að bíða eftir mér og hvað ég segi næst en ég er bara mannleg á sama tíma og allt yfirnáttúrulega stuffið er að gerast.“

Upplifir sig ekki öðruvísi en annað fólk

Þegar geðrofsástand Áslaugar gengur til baka upplifir hún alvarlegt þunglyndi sem tekur hana langan tíma að jafna sig á.

„Ég upplifi mikið þunglyndi. Ég var alvarlega þunglynd eftir síðustu maníuna mína. Það fór alveg kannski hálft ár í það að vera mjög þunglynd. Þunglyndi mitt lýsir sér þannig að ég hef ekkert sjálfsálit, mér finnst ég ógeðsleg og skammast mín þegar ég fer út. Kannski er þetta týpískt þunglyndi. Ég á erfitt með að tala við fólk og fer aldrei út. Ég fer alveg inn í mig, sem er ólíkt mér. Ég breyti gjörsamlega um persónuleika.“

Áslaug upplifir sig ekki ólíka öðru fólki / Ljósmynd: Aðsend

Úr bloggi Áslaugar: „Hugarfarið mitt er í rúst. Mér finnst svo margt í mínu lífi ómögulegt. Fyrst og fremst ég sjálf. Mér finnst ég ómöguleg og aumingi. Alltaf með neikvæðar hugsanir.“

Þrátt fyrir þau miklu veikindi sem Áslaug hefur glímt við undanfarin ár upplifir hún sig ekki öðruvísi en hverja aðra manneskju og segist þakklát fyrir allt það sem hún hefur gengið í gegnum.

„Mér finnst ég ekkert öðruvísi í dag, eftir að hafa verið laus við veikindi í eitt og hálft ár. En ég hef heyrt fólk tala um geðsjúkdóma sem einhverja erfiðleika, ég tengi ekki við það. Jú, jú, þetta var erfitt en þetta er aðeins hluti af mér. Þetta er ekki ég, ég er ekki sjúkdómurinn minn. Þetta hefur aðeins áhrif á mig í syrpum. Ég er alveg eins og næsti maður sem er heilbrigður. Ég tel mig vera lánsama manneskju að hafa gengið í gegnum þetta allt og vera komin til baka og vera á frekar góðu róli. Þetta er alveg mögnuð reynsla og ég hef lært margt og þroskast mikið í gegnum þetta.“

Úr bloggi Áslaugar: „Nú er ég búin að vera inni á geðdeild í 23 daga. Nauðungarvistuð í 72 tíma og svo að þeim tíma liðnum í 21 dag. Því lýkur 19. október en þá vilja geðlæknarnir nauðungarvista mig í 3 mánuði til viðbótar. Ég skil ekki alveg af hverju, en rökin þeirra eru þá helst því ég er búin að koma hingað svo oft á stuttum tíma. Mér líður eins og ég sé heilbrigð en ég er búin að vera innilokuð án súrefnis, nema þá í gegnum gluggarifu. Ég fékk að fara í viðrun í fimm mínútur í senn eins og hundur í ól. Ég missti þann rétt vegna þess að ég reyndi að flýja. Ég fann lyktina af frelsi og sturlaðist.“

Mikilvægt að vera opin til þess að losna undan skömm

Síðan Áslaug veiktist hefur hún verið virkilega opin um veikindi sín og segir hún það hafa hjálpað henni mikið. Hún hafi ekki upplifað fordóma gagnvart því að vera með geðsjúkdóm, en í upphafi veikindanna hafi hún fundið fyrir skömm.

„Fyrst þegar ég veiktist þá fór ég að ímynda mér að allir væru að tala um þetta, af því að ég var svo opin með þetta. Þá vissu allir hvað var í gangi í kringum mig og ég upplifði skömm ef ég fór út og mætti fólki. Svo losaði ég mig við skömmina með því að tala um þetta og deila sögunum mínum. Ég frelsaði mig að einhverju leyti frá þessu. Það er ótrúlega mikilvægt að vera opin með þetta til þess að losna undan skömminni.“

Í dag finnur Áslaug fyrir því ef hún er að komast í maníuástand og hefur hún lyf til þess að slá á ástandið.

„Ef það er mikið áreiti, ef ég er kannski í miklum hávaða eða er óvenjuglöð eða spennt þá finn ég að ég er að fara upp. Ég verð svona meira „tens“ og oft þá vil ég ekki viðurkenna það af því að mér líður ótrúlega vel. Ég er þá í góðu ástandi sem myndi þó kannski ekki enda vel ef ég gerði ekki neitt í því. Mér líður eins og ég sé hrókur alls fagnaðar og að fólk hafi meiri áhuga á mér þegar ég er í þessu ástandi. En þetta eru aðeins ranghugmyndir þar sem manni finnst maður vera betri en maður er, upplifir sjálfan sig sem sérstakan. Ég hef alltaf geta stöðvað þetta með lyfjum, nema þegar ég er að reykja gras því þá hef ég enga stjórn. Þá er ég bara í neyslu og er ekkert að spá í þetta. Allt í einu er ég bara komin með ranghugmyndir og get ekkert stjórnað því.“

Ekki geðveik að eilífu

Áslaug hóf að skrifa færslur á bloggið sitt áður en hún veiktist alvarlega og hélt svo áfram að skrifa í gegnum veikindi sín. Hún segist ánægð ef blogg hennar geti hjálpað einhverjum.

„Maður verður að byrja einhvers staðar og ég fagna því bara ef það eru einhverjir tveir sem vilja skoða þetta. Ég er líka að gera þetta fyrir sjálfa mig. Ég skrifaði mjög fljótt um fyrstu tvö maníuköstin, en ég hef ekki skrifað um það þriðja og er því farin að gleyma því aðeins. Fljótlega eftir þau man ég vel hvað ég var að gera. Ég man þetta rosalegasta í smáatriðum en stundum segir einhver við mig að ég hafi gert eða sagt eitthvað og þá er ég bara: „Ha? Gerði ég hvað?“ En ég man svona rauða þráðinn í gegnum þetta og stundum alveg hvað ég er að hugsa. Þetta er eins og að hugsa til baka um eitthvað sem maður gerði áður.“

Úr bloggi Áslaugar, þar sem hún skrifar vinkonu sinni persónulegt bréf: „Nú kemur að kaflaskilum í mínu lífi en ég er að fara til kærasta míns. Scooter er að fara að koma að sækja mig en þau voru að bíða eftir að ljósmyndarar færu frá húsinu. Ég er leyndarmál og verð ekki official kærasta hans í einhvern tíma, ekki á meðan Purpose tónleikaferðalagið er í gangi. Ég verð meðlimur í crewinu þeirra og mjög óáberandi. Þetta verður að vera bara milli mín og þín þangað til allt kemur í ljós í fjölmiðlum. Hvað get ég sagt, ég er ástfangin upp fyrir haus en samt tilfinningalaus. Það er skrítið.“

Áslaug segir að þrátt fyrir að fólk lendi í veikindum líkt og maníu eða geðrofi þá sé það ekki veikt að eilífu.

„Maður festist ekki í því ástandi. Það þýðir ekki að maður sé veikur að eilífu. Ég get stundað lífið alveg jafn vel og næsti maður. Ég finn ekki fyrir þessu í dag þótt ég þurfi að passa mig kannski betur, passa hvað ég geri og passa að vera vör um mig ef eitthvað gerist. En fólk hugsar stundum að ef það veikist einu sinni af geðsjúkdómi þá sé það bara geðsjúkdómurinn. Þá sé það geðveikt að eilífu, en það er ekki þannig. Það er fáfræði í samfélaginu og opna þarf á þá umræðu.“

Hélt að Justin Bieber myndi senda leyniþjónustuna að sækja hana

Hér fyrir neðan má svo lesa hluta af bloggi Áslaugar sem hún skrifaði um geðrof sitt eftir að hún komst úr því ástandi:

„Það var á GayPride, fyrstu helgina í ágúst sem fjörið byrjar fyrir alvöru. Ég ætlaði í fyrstu ekki
að drekka áfengi en ákvað að slá til og fagna með vinkonum mínum. Ég fer niður í bæ og hitti þar vin minn, við spjöllum lengi saman og hann býður mér e-töflu þegar líður á kvöldið. Ég tek hana inn og við förum svo saman til hans í eftirpartý að reykja jónu og hlusta á tónlist. Allt í einu klikkar eitthvað enn einu sinni í hausnum á mér. Enn einu sinni talaði Spotify til mín. Mér fannst þetta yfirþyrmandi og segi við hann: „Þetta var þá satt!“ Hann virtist vera ráðvilltur en ég var viss um að hann vissi hvað var í gangi. Ég tek yfir tölvuna og fer að hlusta á albúmið hans Justin enn einu sinni. Já! Hann var að syngja til mín. Ég var sérstök, útvalin. Þarna var ég enn einu sinni komin hinum megin við línuna, á hvíta svæðið, í himnaríki, þar sem heimurinn var svo fallegur og ég var sérstök. Ég fór heim morguninn eftir og fór beint á Twitter. Ég fann aftur belieber21256. Hann followaði mig til baka og við fórum aftur að spjalla saman. Justin var með 17 ára kærustu sem hét Sofia en ég vissi að það væri bara cover. Ég mátti ekki vera opinberuð af því ég var leyndarmálið hans. Þegar við vorum búin að tala saman í nokkra daga þá er Justin með pop up tónleika í Japan. Já! Ég var að fara með til Japans. Ég segi við hann að ég sé ready til að fara en segi við hann að ég sé að fara á fótboltaleik um kvöldið. Á fótboltaleiknum hitti ég vinkonu. Við fórum út í bíl til hennar og ég sagði henni frá Justin og að ég væri að fara til Japans yfir helgina. Hún var mjög efins en ákvað að trúa mér á endanum. Ég sagðist ætla að senda henni snap af mér og Justin syngja Boyfriend og ég ætlaði að taka rapp partinn. Þetta var á fimmtudegi. Ég hlaut að vera að fara daginn eftir. Ég labba út á Klambratún og það er grenjandi rigning. Ég var að bíða eftir að vera sótt af leyniþjónustunni. Enginn kemur og ég bíð og bíð. Ég sé
mann vera að tína rusl, hann var fatlaður. Mér fannst ég vera frelsari fatlaðra, mig langaði að tala þeirra málstað. Fatlaðir voru sérstakir eins og ég. Gátu heyrt raddir sem voru í raun fólk sem var að tala við það, hugsanaflutningur.“

Fékk kvíðakast þegar Justin mætti ekki á flugvöllinn

Á þessum tímapunkti fannst Áslaugu hún upplifa þau skilaboð að hún ætti að fara frá Klambratúni, hún gekk um Reykjavík, fór á kaffihús og í Hallgrímskirkju þar sem hún hélt áfram að bíða eftir að verða sótt. Að lokum ákvað hún að fara heim:

„Þetta var búið að vera erfiður tími með miklum mótvindi, enginn vildi hlusta á mig, öllum fannst ég rugluð, veik. Ég talaði við Justin á Twitter og skrifaði til hans „I’m waiting!“ Svo sagði ég „no wait! Maybe you are waiting for me!“ Ég legg af stað niður á Reykjavíkurflugvöll.“

Þar fann Áslaug ekki Justin og fór aftur út og inn í leigubíl. Hún sagðist vera að fara á Keflavíkurflugvöll:

„Þar vissi ég ekki hvert ég átti að snúa mér. Ég endaði á að standa við vegg þar sem á skilti stóð „meeting point“. Þar var ungur maður með möppu augljóslega að bíða eftir fólki. Ég byrjaði að
elta hann og tala við hann á fullu á meðan hann var ráðvilltur varðandi mig. Á endanum benti hann mér á að fara þar sem „komur“ voru. Justin Bieber var jú á leiðinni til landsins til að sækja mig og fara með mig til Japans.“

Aldrei kom Justin að sækja Áslaugu þrátt fyrir langa bið:

„Ég var orðinn mjög pirruð. Ég var farin að fokka upp í loftið. Ég var að fokka á þá sem voru að fylgjast með mér í myndavélunum og ég var að fokka á Guð. Ég var orðin uppgefin.“

Áslaug fékk kvíðakast á flugvellinum og átti hún erfitt með andardrátt. Að lokum kom sjúkrabíll sem keyrði með hana í bæinn:

„Mér hefur aldrei liðið jafn illa. Mig langaði bara að fara að sofa en ég gat það ekki. Ég fór á sjúkrahúsið í Fossvoginum. Því næst lá leið mín heim og svo beint upp á geðdeild Landspítalans.“

Beið í tvo klukkutíma úti í kuldanum eftir Justin en endaði á geðdeild

Stuttu síðar losnar Áslaug af Landspítalanum en er þó enn í geðrofi. Á þessum tíma var Justin Bieber með tónleika á landinu og fór Áslaug á þá:

„Alla tónleikana var ég að tala við Justin í gegnum hausinn og hann var alltaf að segja mér að þegja því hann var að syngja. Ég var alltaf að afsaka mig og segja sorry en ég hafði bara ekki stjórn á hugsunum mínum út af því að ég var freðin. Justin er alltaf að segja mér í hausnum að við munum hittast á eftir. Ég redda mér fari heim. Justin segir mér að fara út með allan farangurinn minn og bíða þar. Ég bíð í tvo klukkutíma úti í nístandi kulda. Að lokum fer ég inn aftur til að sofa. Á endanum kemur mamma að sækja mig og ég fer heim. Ég hélt áfram að reykja og fór út á kvöldin að berjast
við drauga með því að syngja. Svo fer mamma með mig í viðtal á geðdeild, ég var freðin og sættist á að leggjast inn. Þar enda ég á að vera í meira en mánuð.“

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að lesa færslur Áslaugar og kynna sér hugarheim einstaklings með geðhvarfasýki má benda á síðu hennar: aslaugeik.wordpress.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Var agndofa þegar Schweinsteiger lýsti framkomu Mourinho hjá United – „Mér var bara sparkað út úr klefanum“

Var agndofa þegar Schweinsteiger lýsti framkomu Mourinho hjá United – „Mér var bara sparkað út úr klefanum“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Leikmaður Arsenal ákærður – Varðhundur hans á að hafa bitið nuddarann í háls og hendi

Leikmaður Arsenal ákærður – Varðhundur hans á að hafa bitið nuddarann í háls og hendi
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Netverjar hafa tekið eftir atviki sem sást ekki í sjónvarpi – Hafði líklega mikil áhrif á úrslit gærkvöldsins

Netverjar hafa tekið eftir atviki sem sást ekki í sjónvarpi – Hafði líklega mikil áhrif á úrslit gærkvöldsins
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

„Það er eiginlega mannréttindabrot að neita sjúklingum á Íslandi um þetta“

„Það er eiginlega mannréttindabrot að neita sjúklingum á Íslandi um þetta“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.