fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Biggi lögga, Ugla Stefanía og Eva Ruza sitja fyrir svörum – Jólahefðir, skötuát og nýársheit

Aníta Estíva Harðardóttir
Föstudaginn 21. desember 2018 15:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að jólin eru á næsta leiti. Marglit ljós í gluggum landsmanna lýsa upp skammdegið og jólaandinn er mættur í öllu sínu veldi. Jákvæðni, náungakærleikur og gleði virðist umlykja allt ásamt stressuðum foreldrum og spenntum börnum sem fara á fætur fyrir allar aldir. Búðirnar fyllast af fólki sem keppist við að kaupa gjafir handa ástvinum sínum og margir eru nú þegar búnir að baka nokkrar sortir af smákökum. Það er bara eitthvað við jólin sem gerir það að verkum að við teljum niður í þessa hátíð ár eftir ár. Bleikt hafði því sérstaklega gaman af því að heyra í nokkrum vel völdum einstaklingum og spyrja þá út í þeirra jólahefðir.

Bigga löggu þarf vart að kynna en Biggi hefur verið áberandi í fjölmiðlum í dágóðan tíma. Biggi starfar, eins og nafnið gefur til kynna, sem lögreglumaður. Hann er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og er fljótur að taka upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín. Biggi hefur verið löghlýðinn allt sitt líf og segir hann jólasveininn aldrei hafa haft tilefni til þess að gefa honum kartöflu í skóinn:

Borðar þú skötu á Þorláksmessu?

Já, ég borða skötu ef ég kemst í hana. Núna verð ég á vaktinni en vonandi næ ég að slafra í mig nokkrum vel kæstum stykkjum. Vonandi þó ekki þannig að ég flagni allur í kjaftinum eins og síðast.

Hvað verður í matinn á aðfangadag?

Birgir Örn Guðjónsson: Biggi lögga

Ég ólst upp við purusteik en síðustu ár hef ég haft kalkúnabringur. Það verður líka á borðum þessi jól.

Hverju finnst þér að megi alls ekki sleppa á jólunum?

Jólin snúast um hefðir og því er í raun frekar erfitt að svara þessari spurningu. Ég hef samt líka komist að því að jólin koma alltaf, sama hverju maður sleppir. Til að velja eitthvað þá vel ég samt heimagerða ísinn og heitu súkkulaðisósuna. Það er svona punkturinn yfir jólin.

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín?

Að fara upp í hreint rúmið á aðfangadagskvöld með glænýja bók. Það er eitthvað við það.

Eftirminnilegustu jólin?

Þar sem jólin snúast um hefðir þá eru eftirminnilegustu jólin sennilega þau sem brjóta upp þessar hefðir. Ég hef nokkrum sinnum verið erlendis um jól og það eru allt eftirminnileg jól. Ég var t.d. skiptinemi í Bandaríkjunum eitt árið og þá ákvað fjölskylda mín þar á síðustu stundu að setjast bara niður á aðfangadagskvöld, opna pakkana og halda íslensk jól mér til heiðurs. Mér fannst það voða sætt af þeim. Önnur jól var ég í heimsókn í Bandaríkjunum og var fárveikur allan tímann. Mér tókst þá meðal annars að láta líða yfir um miðja nótt á leiðinni á klósettið og vaknaði hálfur ofan í blómapotti morguninn eftir. Ofan á það þá fékk ég ofeldað nautakjöt með bragðlausri sósu í jólamatinn. Það var hressandi.

Hvert er uppáhaldsjólalagið þitt?

Það er fullt af klassískum og mishallærislegum jólalögum sem ég held upp á. Svo bætist venjulega eitthvert nýtt lag við um hver jól. Þessi jól er það Noel með Lauren Daigle. Þið getið heyrt það í flutningi Ingu Maríu Björgvinsdóttur og kór Fíladelfíu á aðfangadagskvöld á stöð 2. Mæli með því.

Hefur þú fengið kartöflu í skóinn?

Ég var fáránlega þægur krakki þannig að jólasveinarnir spáðu aldrei í að gefa mér kartöflu. Lofa.

Hvort finnst þér aðfangadagur eða gamlárskvöld skemmtilegri?

Aðfangadagur. Ekki spurning. Það er hugsanlega ákveðið merki um að maður sé farinn að eldast.

Ætlar þú að strengja áramótaheit?

Ég hef aldrei strengt áramótaheit og mér finnst frekar ólíklegt að ég breyti út af þeim vana þetta árið. Maður reynir bara alltaf að læra af mistökunum, gera betur, verða betri og njóta meira. Lífið er núna.

Eva Ruza Miljevic er líklega ein hressasta kona landsins. Það eru að minnsta kosti ekki miklar líkur á því að þú náir að grípa Evu í vondu skapi enda virðist hún hafa endalausa orku og gleði til þess að leysa út. Eva starfar sem skemmtikraftur, kynnir, veislustjóri, Hollywood-expert og áhrifavaldur. Ekki virðist vera auðvelt að múta Evu með háum fjárhæðum þar sem hún segist ekki ætla að borða skötu þótt hún fengi greidda milljón:

Skemmtikrafturinn Eva Ruza

Borðar þú skötu á Þorláksmessu?

Ég get alveg sagt þér það að þótt ég fengi borgaða milljón þá færi skata ekki inn fyrir mínar varir. Mamma og pabbi hafa alltaf haft skötu fyrir jól, en þau hafa þurft að kaupa ýsu fyrir mig, litla barnið. Ég fæ líkamlega verki af skötulykt, ég get svarið fyrir það og mæti bara í skötuboð því félagsskapurinn er svo asskoti skemmtilegur. En ég þori varla að viðurkenna næstu setningu … ég hef eiginlega aldrei smakkað skötu samt. Mamma hefur reynt að pína mig til að smakka en það er bara ekki séns. Ég er samt tiltölulega nýbyrjuð að borða sveppi, sem var mikill sigur fyrir minn heittelskaða eiginmann, þannig að kannski næ ég andlegum þroska í skötuna áður en ég fer á elliheimili.

Hvað verður í matinn á aðfangadag?

Sveppasúpa ala mamma, sem er mitt uppáhald. Og já, ég veit að ég sagðist vera tiltölulega nýbyrjuð að borða sveppi, og þess vegna finnst mér smá vandræðalegt að koma strax með næstu játningu. Þegar ég var yngri og borðaði ekki sveppi, þá sigtaði mamma súpuna á disk fyrir mig. Þegar ég varð eldri þá veiddi ég sveppina mjög fagmannlega frá, þangað til ég fékk sveppaþroskann og gat loksins sullað þessu öllu í mig. Svo er það hamborgarhryggur og með’ðí.

Hverju finnst þér að megi alls ekki sleppa á jólunum?

Jólin eru komin um leið og ég fer úr sparifötunum, skipti yfir í kósígallann strax eftir mat og heyri þá mömmu segja: „Eva Ruza í alvöru.“ Það er eiginlega möst að heyra mömmu segja hver einustu jól við okkur systur, hvort við getum í alvörunni ekki verið ein jól í sparifötunum heilt kvöld. Við frussuhlæjum alltaf upphátt að þessari eilífu baráttu hennar við okkur og sparifötin. Mig grunar sterklega að hún haldi að hún vinni ein jólin. Ég rita það hér með á prenti: „Elsku mamma, það mun aldrei gerast.“ #alltaf5ára

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín?

Á jóladagsmorgun breytist ég í Mörthu Stewart í eldhúsinu og hristi fram svo stórfenglegan brunch að annað eins hefur hvergi sést á Íslandi. Ég tjalda öllu til á náttfötunum, kveiki á vini mínum Michael Bublé og dansa djassspor í sloppnum um leið og ég kasta skonsunni sem er á pönnunni upp í loftið. Eggin snarkla á hinni pönnunni, beikonið í ofninum og ferskir ávextir komnir á disk. Ef þið eruð að ímynda ykkur mig núna eins og ég sé í danssöngleikjamynd, þá er þetta nákvæmlega þannig. Það eru eflaust einhverjir sem þrá að komast í jóladagsbrunch hjá mér núna við lesturinn, sem ég skil vel. Þetta er mín uppáhaldshefð og ég hefði aldrei trúað því þegar ég hóf feril minn í eldhúsinu að ég gæti multitaskað svona svakalega mikið án þess að brenna allt til grunna.

Eftirminnilegustu jólin?

Ætli hlaupabólujólin miklu flokkist ekki undir slæmu jólin. En þegar tvíburarnir okkar Sigga voru þriggja ára helltist yfir þau svona svakaleg hlaupabóla að ég hef aldrei vitað annað eins. Þessi jól einkenndust af kartöflumjölsböðum, hinum ýmsu aðferðum til að lina kláða, froðukremum og andvökunóttum. Hlaupabólan lagðist yfir litlu kroppana þeirra eins og sæng á Þorláksmessu og hékk yfir þeim öll jólin, áramótin og þrítugsafmælið mitt. Ég á „btw“ afmæli 5. janúar ef einhver er áhugasamur um að senda mér kveðju. Fyrstu jólin okkar Sigga míns þegar ég var 17 ára og hann 20 ára eru jól sem ég verð hrikalega væmin við að hugsa um. Ég man að ég hugsaði „baby, I’m home.“ Enda erum við að eiga jól nr. 19 saman í ár og ég myndi hvergi annars staðar vilja vera en þar sem hann er.

Hvert er uppáhaldsjólalagið þitt?

Ef ég nenni með Helga Björns er alveg gjörsamlega geggjað. Bublé vinur minn slær heldur ekki feilnótu og spila ég jólalögin hans alveg í drasl yfir jólin. Það er eitthvað svo seiðandi við röddina hans Michaels Bublé. Fæ fiðring í hnén þegar ég hlusta á hann.

Hefur þú fengið kartöflu í skóinn?

Ójá, ég fékk einu sinni kartöflu i skóinn og henni mun ég aldrei gleyma. Mestu vonbrigði lífs míns var þessi bölvaða kartafla. Ég vaknaði eins og alla morgna rétt fyrir jól að tryllast úr spenning yfir hvað væri í skónum, löngu búin að gleyma frekjukastinu sem ég tók 9 ára gömul á mömmu og pabba daginn áður. Kartafla beið mín og ég man að þetta var hrikalegur skellur. Ég laumaðist inn á bað og henti henni í ruslið þar og fór svo inn í eldhús og sagði mömmu þegar hún spurði hvað ég hefði fengið, að ég hefði ekki fengið neitt. Mamma sagði ekki orð. Um kvöldið var svo fiskur og kartöflur í matinn og mamma spurði mig eftir mat hvort kartöflurnar hefðu ekki verið góðar. Ég jánkaði því. Þá sagði mamma að þetta hefði verið THE kartafla. Ég man að ég roðnaði ofan í maga og strunsaði inn í herbergið mitt. Mjög dramatískt kartöflumál. En ég hef ekki fengið kartöflu síðan, enda ofboðslega góð og prúð stúlka.

Hvort finnst þér aðfangadagur eða gamlárskvöld skemmtilegri?

Mér finnst eins og ég þurfi að gera upp á milli barnanna minna núna. Ég elska stemminguna í kringum báða dagana og það er mismunandi ást sem bærist innra með mér þegar ég hugsa um þá. Ég elska ekkert meira en að mæta askvaðandi inn til mömmu og pabba á aðfangadag með pakkaflóð í eftirdragi og fyllast spenningi með börnunum. Gamlárskvöld er svo aftur á móti mun afslappaðra … eða þangað til sprengjukóngarnir í fjölskyldunni fara á stjá. Þá fer allt á milljón. Ég elska báða dagana jafn mikið. Það er lokaniðurstaðan.

Ætlar þú að strengja áramótaheit?

Ég hef ekki verið mikið í því að strengja eitthvert sérstakt áramótaheit. Ég vakna bara alla 365 morgna ársins og tek ákvörðun um að vera glöð. Hefur heppnast í ca. 97% tilfella. Ég ætla að dansa inn í 2019 eins og diskókúla og halda áfram að glitra Evu Ruzu glimmerinu í allar áttir.

Ugla Stefanía/ Mynd: Oddvar Hjartarson

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir er aðgerðasinni í þágu transfólks, sem reynir að breyta heiminum með róttækum hætti. Nýlega gaf Ugla út bókina Trans Teen Survival Guide ásamt maka sínum Fox Fisher sem er einnig aðgerðasinni í þágu transfólks. Eftirminnilegustu jól Uglu voru þegar hún deildi því með fjölskyldu sinni að hún væri orðin grænkeri. Fjölskyldan brást ekki vel við þeim fréttum og sagði hana hafa eyðilagt jólin:

Borðar þú skötu á Þorláksmessu?

Nei, ég borða ekkert með augu! (Ekki heldur krossfiska, sem eru víst ekki með augu).

Hvað verður í matinn á aðfangadag?

Ég mun útbúa smjördeigshnetusteik, ásamt öllu öðru gómsæta meðlætinu eins og brúnuðum kartöflum, grænum baunum, rauðrófum, salati og alls konar. Svo mun ég líka drekka öll uppsöfnuðu tárin sem ég hef safnað á þessu ári frá hvítu, gagnkynhneigðu, sís-kynja, ófötluðu karlmönnunum sem hata mig.

Hverju finnst þér að megi alls ekki sleppa á jólunum?

Tja, þau koma nú alltaf fyrir mér. Mér finnst hins vegar alveg mega sleppa því að byrja að spila jólalög í október, ég er löngu komin úr jólaskapinu áður en desember kemur.

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín?

Að pakka saman jólatrénu.

Eftirminnilegustu jólin?

Þegar ég sagði fjölskyldu minni að ég væri grænkeri. Þau brugðust verr við því en þegar ég sagði þeim að ég væri trans, og sögðu að ég hefði eyðilagt jólin.

Hvert er uppáhaldsjólalagið þitt?

The Grinch Who Stole Christmas-lagið.

Hefur þú fengið kartöflu í skóinn?

Jájá. Mér fannst það samt bara rosa fínt því ég elska kartölfur út af lífinu.

Hvort finnst þér aðfangadagur eða gamlárskvöld skemmtilegri?

Aðfangadagur. Heima í sveit er það rosa einmanalegt að skjóta upp flugeldum, og hræðir dýrin, og fyrir sunnan er það eins og að stíga út á vígvöll að fara upp að Hallgrímskirkju. Flugeldar eru rosalega ofmetnir og óumhverfisvænir í þokkabót.

Ætlar þú að strengja áramótaheit?

Til hvers að troða frekari væntingum á sig í þessu svakalega kapítalíska samfélagi? Fólk sem strengir áramótaheit er annaðhvort búið að horfa á of marga bandaríska sjónvarpsþætti eða svona týpur sem monta sig af því á samfélagsmiðlum að það fari í ræktina. Óþolandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

KR fékk miðjumann úr sænsku úrvalsdeildinni

KR fékk miðjumann úr sænsku úrvalsdeildinni
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Mjólkurbikarinn: Víkingar lentu óvænt undir en svöruðu vel fyrir sig – KA áfram eftir framlengingu

Mjólkurbikarinn: Víkingar lentu óvænt undir en svöruðu vel fyrir sig – KA áfram eftir framlengingu
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.