fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Stefán með mikilvæg skilaboð: „Hættum að gefa hvert öðru óþarfa í jólagjöf“ – Eigum öll betra skilið

Ritstjórn Bleikt
Mánudaginn 19. nóvember 2018 12:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nú fer í hönd sá tími ársins þegar fólk kaupir hvað mestan óþarfa, þ.e.a.s. alls kyns varning sem kaupandinn þarf ekki á að halda. Sumt er keypt til að gefa það einhverjum öðrum sem hugsanlega þarf heldur ekkert á því að halda. Satt best að segja fer núna í hönd sá tími ársins sem öllum öðrum tímum fremur einkennist af fyrirhyggjulausu kaupæði sem sviptir fólk að óþörfu hluta af tímanum sem það fékk í vöggugjöf og á sinn þátt í að svipta komandi kynslóðir heimilinu sem þær eiga rétt á að fá,“ segir Stefán Gíslason í pistli sínum sem Rúv birti fyrir skemmstu.

Pistillinn hefur vakið mikla athygli og þykir mörgum boðskapurinn eflaust góður, jafnvel nauðsynlegur.

Í lagi að kaupa ódýrar vörur ef fólk þarf á þeim að halda

Segir Stefán öllu því fólki sem sogast inn í þetta fyrirhyggjulausa kaupæði vera vorkunn og að til þess að synda á móti þeim straumi sem greinilega liggur í átt að meiri neyslu þurfi fólk virkilega að hafa forgangsröðina á hreinu.

„Tilboðin eru allt um kring og hver neysluhátíðin rekur aðra. Dagur einhleypra var t.d. síðasta föstudag. Sá dagur hefur á örfáum árum náð að verða einn mesti verslunardagur ársins víða um heim. Svo er svartur föstudagur í næstu viku og netmánudagur skömmu síðar. Alla þessa daga gengur ólíklegasta fólk berserksgang til að kaupa sem mest af ódýrum varningi.“

Stefán segist ekki hafa neitt á móti því að fólk kaupi ódýrar vörur svo lengi sem þau þurfi á þeim að halda og séu búin að ganga úr skugga um að vörurnar skaði hvorki umhverfið né samfélagið.

„Ef þörfin er ekki til staðar verður svarið hins vegar allt annað og því má reyndar í aðalatriðum skipta í tvennt. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að hafa það hugfast að í hvert sinn sem maður kaupir óþarfa er maður að gefa frá sér hluta af tímanum sem maður fékk í vöggugjöf. Óþarfi sem kostar 20 þúsund krónur rænir mann heilum degi úr lífinu. Það tekur meðal Íslendinginn nefnilega um það bil einn vinnudag að vinna sér inn tuttugu þúsund kall sem hægt er að kaupa eitthvað fyrir. Í öðru lagi er nauðsynlegt að hafa það hugfast að í hvert sinn sem maður kaupir óþarfa er maður að skerða möguleika barnanna sinna og barnanna þeirra til að lifa á þessari jörð – og þá er alveg sama hvort maður ætlar að eiga óþarfann sjálfur eða gefa einhverjum hann.“

Óþarfi eykur aldrei lífsgæði

Segir Stefán að óþarfi auki aldrei lífsgæði og að allar vörur hafi einhver neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag.

„Kannski var níðst á börnum við framleiðsluna. Kannski dóu einhverjar verkakonur í fjarlægu landi við að búa þetta til. Kannski drápust órangútanapar þegar heimilum þeirra var eytt til að hægt væri að vinna hráefni í óþarfann. Kannski skildi framleiðslan eftir eiturefni í drykkjarvatni fólks í fjarlægu landi. Kannski liggur einhvers staðar heilt tonn af úrgangi þó að óþarfinn sjálfur sé ekki nema 100 grömm. Og kannski, já reyndar ekki kannski heldur alveg örugglega, jók framleiðsla og flutningur þessa óþarfa á loftslagsvandann, sem var þó ærinn fyrir.“

Þá segir Stefán að ekki sé nóg að keyra aðeins minna, fara aðeins sjaldnar til útlanda eða að nota aðeins sjaldnar einnota burðarpoka úr plasti heldur þurfi fólk að kaupa miklu minna af óþarfa.

„Auðvitað er sjálfsagt að reyna að kaupa einhvern hlut á hagstæðu verði ef mann á annað borð vantar þennan hlut. En ef mann vantar hann ekki er ástæðulaust að kaupa hann.“

Telur Stefán fólki og umhverfi fyrir bestu að láta ekki glepjast af gylliboðum enda séu þau engin góðgerðarstarfsemi heldur sé verið að plata fólk. Dagar eins og „Svartur föstudagur“ og „Net mánudagur“ séu ekki „einstök tækifæri.“

„Öll þessi „einstöku tækifæri“ koma aftur – og aftur.“

Látum ekki stela dögum úr lífinu okkar

Segir Stefán sótt að fólki úr fleiri áttum en tilboðsdögum og að leynivinaleikir og skógjafir barna séu meðal þeirra.

„Fólk keppist við að gefa vinnufélögunum óþarfa sem engan vantar. Og svo eru jólasveinarnir sjálfsagt að hugsa um að troða fullt af óþarfa í skó barnanna þegar jólin nálgast og við munum vafalaust líka keppast við að gefa hvert öðru óþarfa í jólagjöf. Óþarfi er ekki góð gjöf, hvorki fyrir þann sem gefur, þann sem þiggur, náttúruna eða börnin okkar.“

Hvetur Stefán fólk til þess að hætta að taka þátt í þessu rugli eins og hann orðar það.

„Hættum að gefa leynivinum óþarfa. Komum skilaboðum til jólasveinanna um að hætta að gefa börnum óþarfa í skóinn. Hættum að gefa hvert öðru óþarfa í jólagjöf. Við eigum nefnilega öll betra skilið. Látum ekki stela dögum úr lífinu okkar. Gefum heldur hvert öðru og börnunum okkar þessa daga, gefum ánægjustundir og gefum upplifanir. Það er misskilningur að það okkar standi uppi sem sigurvegari sem á mest af drasli þegar það drepst. Sigurvegarinn verður sá sem hefur gefið sjálfum sér og sínum nánustu flestar gæðastundir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Megrunarlyf á að stöðva dauðaferli heilafruma – „Þetta lofar góðu“

Megrunarlyf á að stöðva dauðaferli heilafruma – „Þetta lofar góðu“
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Þess vegna áttu ekki að sofna yfir sjónvarpinu

Þess vegna áttu ekki að sofna yfir sjónvarpinu
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Ísraelskar konur hafa gert þetta í 70 ár

Ísraelskar konur hafa gert þetta í 70 ár