fbpx
Föstudagur 19.apríl 2019
Bleikt

Karen upplifði mikinn kvíða og óttaðist að missa tengsl við raunveruleikann: „Mér leið eins og fanga í eigin líkama“

Aníta Estíva Harðardóttir
Föstudaginn 9. nóvember 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karen Lind Harðardóttir var hamingjusamt barn sem velti ekki fyrir sér áliti annara. Hún hafði mikinn áhuga á söng og hafði gaman af því að koma fram. Þegar Karen varð eldri fór hún að finna til kvíða og upplifði stöðuga baráttu við sjálfa sig.

„Ég braut sjálfa mig niður að því marki að mér leið eins og ég væri að horfa á bíómynd. Ég væri einungis augun á mínum eigin veruleika. Eins og ég væri raunverulega ekki á staðnum. Allt á autopilot. Kinkaði kolli og brosti þó svo að ég heyrði ekki, né tengdi við það sem var verið að segja við mig,“ segir Karen í einlægri færslu sinni á bloggsíðu sinni Andlega hliðin.

Upplifði mikla þráhyggju gagnvart sjálfri sér

Karen hóf að upplifa mikla baráttu og þráhyggju og var hún á stöðugu varðbergi gagnvart öllu.

„Stöðugt að reyna að vera einu skrefi á undan mér. Ég vildi vera besta útgáfan af sjálfri mér sem ég gat orðið að. Fyrir alla aðra en sjálfa mig. Bara til þess að lifa af. Bara til þess að tilheyra. Bara til þess að fá samþykki. En það var aldrei nóg. Mig langaði alltaf að vera söngkona. Því ég var meira ég sjálf í söngnum heldur en nokkurs staðar annars staðar. Ég elskaði tilfinninguna að syngja langt áður en ég vissi að það hljómaði vel. Þegar söngurinn fór að verða eitthvað sem ég kveið fyrir, þá mölbrotnaði ég. Ég reyndi að þvinga röddina út, sem vildi ekki heyrast. Frosin. Leið eins og ég gæti ekki komið frá mér hljóði, leið eins og ég væri að kafna og ég hágrét því ég missti það sem ég elskaði að gera meira en allt.“

Undanfarin tíu ár hefur Karen reynt að vinna í sjálfri sér en það var ekki fyrr en nýlega sem hún áttaði sig á því að hún hafði farið vitlaust að því allan þennan tíma.

„Ég var ekki að vinna að því fyrir mig, fyrst og fremst ég var að því fyrir alla aðra. Ég var stöðugt að leita að samþykki utan sjálfrar mín því ég fann það ekki innra með mér. Myndi allt loksins verða í lagi ef ég mótaði mig að þeirri manneskju sem myndi alltaf gera allt rétt? Myndi alltaf vera til staðar, upp að þolmörkum, fyrir alla aðra en sjálfa mig. Myndi alltaf biðjast afsökunar fyrir það að geta ekki farið yfir þolmörkin. Ég man enn þá eftir því þegar mér leið eins og ég gæti ekki tekið djúpan andardrátt lengur. Ég var stíf, gat ekki leyft mér að vera. Sama hvað ég reyndi þá gat ég ekki tekið djúpan andardrátt. Mér leið eins og fanga í eigin líkama ég þráði að tala en gat það ekki. Ég þráði að hreyfa mig en gat það ekki. Það var allt frosið, ég þráði að vera en gat það ekki.“

Hrædd við að missa tengslin við raunveruleikann

Vanlíðan Karenar var orðin svo mikið að hún hætti að geta mætt til vinnu.

„Ég var svo hrædd um að missa tengslin við raunveruleikann í vinnunni. Hvað ef eitthvað alvarlegt kæmi fyrir og ég gæti ekki brugðist við? Ég varð dofin, hætti að keyra, hætti að fara á staði, lokaði mig af og hætti að vera.“

Það var ekki fyrr en Karen áttaði sig á því að hún þurfti að vera til staðar fyrir sjálfa sig fyrst og fremst áður en hún gæti verið til staðar fyrir aðra sem henni fór að líða betur.

„En það var erfitt, mér fannst ég vera versta manneskja í heiminum fyrir það að hugsa um mig. En ég veit núna að þetta er það besta sem ég hefði getað gert fyrir sjálfa mig. Skoða hvaðan allar þessar hugsanir og hugmyndir koma. Af hverju hugsaði ég svona til mín og af hverju finnst mér þetta. Ég hef oft heyrt að maður eigi ekki að lifa í fortíðinni heldur eigi að sleppa tökunum en ég varð að horfast í augu við fortíðina. Því það sem ég var að gera, í fullri hreinskilni þá held ég að ég hafi verið að drepa mig. Ég var ađ missa allan lífsvilja og ég gat ekki gert þetta lengur. Eitthvað í fortíðinni var að valda því að ég fór þessa leið og ég varð að horfast í augu við það. Um leið og ég sagði við sjálfa mig: það eina sem ég veit, er að ég veit ekki neitt. Þá gerðist eitthvað.“

Lítur til fortíðar og endurskoðar hugsanir sínar

Karen tók sér því tíma til þess að endurskoða hugsanir sínar um sjálfa sig og heiminn og smám saman fór hún að tengjast sjálfri sér aftur.

„Smám saman skildi ég allt miklu betur, vissi hver ég væri og að ég var nóg. Það sem ég upplifði í kjölfarið var of kraftmikið til þess að ég deildi því ekki með heiminum. Það var eitthvað innra með mér sem hvatti mig til þess að hækka rödd mína, fyrir andlega líðan. Fyrir þá sem tengdu við það sem ég hefði að segja. Allt sem ég er að gera, er ég að gera í fyrsta lagi fyrir mig. Ég veit að það besta sem ég get gert fyrir þá sem ég elska er einmitt bara það að vera ég og ég elska mig. Ég fæ enn þá alltaf smá kjánahroll í hvert sinn sem ég hrósa eða segi eitthvað jákvætt um sjálfa mig. Hversu steikt er það? Ég má svoleiðis rakka sjálfa mig niður og það eru klappstýrur á hliðarlínunni en um leið og ég segi eitthvað falleg um sjálfa mig þá vil ég ekki horfast í augu við það.“

Segir Karen að til þess að geta lifað af þá þurfi fólk að læra að elska sjálft sig.

„Sjálfselska er svo ótrúlega neikvætt orð í almennri umræðu. Sjálfsást. Að elska sjálfan sig. Að vera sáttur í eigin skinni. Er það ekki það sem við erum öll að leita að? Af hverju notum við þá orðið í neikvæðri merkingu? Við gerum það þegar við fæðumst. Annars myndum við ekki lifa af. Það er bara á einhverjum tímapunkti sem við lærum að við séum ekki nóg eins og við erum. Að við þurfum eitthvað meira eða minna til þess að fá að tilheyra. Þetta er æfing, og ég er að æfa mig. Ég veit að það eru einhverjar myndbandsupptökur að spilast í undirmeðvitundinni minni, sem fá mig til þess að eltast við gömlu leiðina. Sýna mótspyrnu við það að búa til nýja leið. Sýna mótspyrnu við að læra nýja færni og nýta þær. Þetta tekur tíma, miklu lengri tíma en ég óskaði. En ég þarf að minna mig á að halda áfram að skora á mig.“

Leyfir hræðslunni að taka yfir og upplifir hana

Karen segist vera heppin að eiga mann sem hefur mikla þolinmæði og ást að veita henni.

„Sem tekur í höndina á mér, horfir í augun mín og sýnir því fullan skilning og umhyggju þegar líkaminn vill ekki halda áfram. Þegar hræðslan tekur yfir, þegar ég brýst í gegnum hana, hágræt og byrja að ofanda í aðstæðum sem ofsahræðslan passar ekki við. En þetta er allt partur af ferlinu. Að brjótast í gegn. Eina leiðin út er í gegn. Þegar þetta gerist. Leyfðu öllu að gerast. Sýndu því öllu skilning. Taktu eftir öllu. Reyndu að sleppa taki á því að reyna að stjórna því sem er að gerast í líkama og hug. Leyfðu önduninni að koma. Af sjálfu sér. Slepptu. Allt sem er ađ gerast er ekki óvinur þinn. Ekki horfa á þađ þannig. Allt sem er ađ gerast er ađ reyna ađ hjálpa þér á einhvern hátt. Leyfðu því að gerast. Ég lofa, þetta líður hjá. Fylgstu með því gerast. Haltu svo áfram að búa til pláss fyrir nýju leiðina. Elskaðu allt sem er að gerast. Allt sem þú ert að upplifa. Allt sem þú ert. Notaðu það til þess að halda áfram að læra, byggja þig upp og nýta nýja færni. Þú ert og hefur alltaf verið nóg.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Stjörnuspá vikunnar: Fiskurinn finnur draumamakann – Afbrýðisemi heltekur nautið

Stjörnuspá vikunnar: Fiskurinn finnur draumamakann – Afbrýðisemi heltekur nautið
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Eina sem hún vildi voru augabrúnir – Nú situr hún eftir – Einhleyp og í sárum

Eina sem hún vildi voru augabrúnir – Nú situr hún eftir – Einhleyp og í sárum

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.