fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2019  |
Bleikt

Átröskunin stjórnaði lífi Guðrúnar Helgu: „Mér fannst ég aldrei nógu grönn“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 1. október 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Helga í dag

Guðrún Helga Fossdal Reynisdóttir hóf að þróa með sér átröskun þegar hún var einungis tíu ára gömul. Segir hún erfitt að greina frá því nákvæmlega hvenær röskun hennar hófst þar sem margir hlutir spiluðu inn í og tímabilið jafnvel lengra heldur en hún gerir sér sjálf grein fyrir.

„Ég byrjaði snemma á kynþroskaskeiðinu. Var fyrst í skólabekknum til þess að fá brjóst og hár á viðkvæma líkamsparta og það má vel vera að það hafi haft einhver áhrif á þróunina ásamt fleiru í umhverfinu,“ segir Guðrún í viðtali við Bleikt. Þegar Guðrún var tólf ára gömul var hún byrjuð að hata sjálfa sig og líkama sinn.

„Ég var strax komin í samanburð við aðra og var aldrei ánægð með það sem ég sá í spegli. Ég man að um fermingaraldur þá keypti ég mér krem sem ég sá í Hagkaupsbækling sem átti að fjarlægja appelsínuhúð. Ég fékk það sent heim með póstlagningu og faldi það fyrir öllum fjölskyldumeðlimum.“

Tók sjálfa sig upp á myndband til þess að skoða öll sjónarhorn og grét

Þegar Guðrún var orðin fjórtán ára gömul fór líkami hennar að fitna og grennast til skiptis og þegar hún var orðin sextán ára gömul var hún komin með mjög slæma búlimíu og orðin hættulega grönn.

„Ég kastaði upp eftir hverja máltíð og ég gerði það í laumi. Ég var búin að uppgötva að ef ég skilaði öllu beint í klósettið þá skildi það eftir sig leyfar og að sturta niður einu sinni til tvisvar var oft ekki nóg. Þarna fóru klósettferðirnar alltaf að lengjast og lengjast því það var alltaf meira og meira sem mér tókst að skila af mér. Við það kviknuðu spurningar hjá fjölskyldumeðlimum og ég var orðin uppiskroppa með lygar. Ég varð því að finna aðra leið til þess að koma þessu frá mér.“

Guðrún þróaði með sér tækni þar sem hún náði að beita þindinni á ákveðinn hátt og tókst henni þannig að stjórna hversu miklu hún skilaði í einu.

„Ég var byrjuð að nota baðkarið og vaskinn og ég var búin að þjálfa líkamann svo vel í að skila frá sér mat að ég var hætt að þurfa að stinga fingrinum niður í kokið á mér. Með því að stjórna þindinni gat ég stjórnað magninu sem ég skilaði og þannig tókst mér að skila matnum frá mér í pörtum niður í vaskinn þannig að hann stíflaðist ekki. Þetta tók mig örskamma stund því ég var orðin svo þjálfuð í þessu þannig að spurningarnar hættu, en afleiðingarnar ekki. Ég var komin í óheilbrigt líkamsástand og það var í raun ekkert sem gat falið það. Ég man að mér fannst ég aldrei nógu grönn á þessu tímabili. Ég eyddi oft mörgum klukkustundum á dag í að taka sjálfa mig upp á myndbandsupptökuvél til þess að skoða mig frá öllum sjónarhornum og stundum grét ég því ég var ekki ánægð með það sem ég sá.“

Kastaði upp mat sem vinkonu hennar reyndu að koma ofan í hana

Á þessum tímapunkti voru allir nákomnir Guðrúnu orðnir virkilega hræddir um heilsu hennar en það var alveg sama hvað sagt var við hana, hún gat ekki hætt.

„Ég man að vinkonur mínar tóku mig á tal á tímapunkti sem ég þverneitaði að hlusta á. Þær reyndu að koma mat ofan í mig sem ég sá svo eftir að ég fór beint inn á salerni að kasta honum frá mér. Þá var fjölskyldan komin í málið og ég var komin á endapunkt. Það var sagt við mig að annað hvort hætti ég þessu eða ég yrði lögð inn á geðdeild. Þar sem ég vildi ekki fara inn á deild þá ákvað ég að hætta. En ég hætti ekkert. Í staðin þróaði ég með mér átköst. Ég kom stundum heim beint eftir skóla eða í hádeginu og tróð í mig einum til tveimur kexpökkum og losaði mig svo við þá. Við þetta bætti ég smám saman á mig en ég var aldrei búin að takast almennilega á við átröskunina. Fólk hætti þó að skipta sér af mér því ég var ekki lengur of grönn.“

Árin liðu og leið Guðrúnu eins og hún væri ekki lengur með átröskun þar sem hún fór að bæta vel á sig og var á tímabili komin vel yfir kjörþyngd.

„Ég var ennþá í baráttu við sjálfsmyndina og leið mjög illa. Ég reyndi að fara á marga megrunarkúra en ekkert virkaði. Ég reyndi meira að segja að prófa að svelta mig. Ég lá uppi í rúminu mínu í niðurrifi og hugsaði að ef ég myndi ekki borða munnbita í viku þá myndi ég ekki lengur vera svona ógeðslega feit og ekki líða svona ógeðslega illa með sjálfa mig. Ég reyndi þetta og náði að borða ekkert í næstum því tvo sólarhringa en þá var næstum því liðið yfir mig og ég varð að borða eitthvað á endanum. Líkaminn sigraði þrjóskuna í þetta skiptið.“

Átröskunin nærðist á hrósum

Dag einn fékk Guðrún nóg af sjálfri sér og tók ákvörðun um að létta sig og fann hún sér lausn sem hentaði henni vel.

Guðrún Helga þegar hún taldi sér trú um að henni liði vel

„Eftir að vera búin að reyna marga af þessum kúrum sem voru allir jafn heimskulegir þá ákvað ég að byrja að skrá niður í hvað ég var að borða í eina viku í matardagbók. Næstu vikuna helmingaði ég svo skammtana og bætti hægt og rólega hreyfingu við á hverjum degi. Mér leið svo illa með sjálfa mig að ég vildi ekki vera á meðal fólks á æfingu vegna truflunar á því hvað þeim myndi finnast um mig og fann ég mér því æfingar sem ég gat gert heima. Mánuðirnir liðu og þetta markmið mitt var að virka. Ég skóf af mér kílóin og það besta var að fólk í kringum mig var farið að taka eftir því og hrósa mér fyrir það úr öllum áttum, sem ég elskaði að heyra. Mér leið eins og að í fyrsta skiptið á ævinni þá væri ég loksins að gera eitthvað rétt. Ég var byrjuð að mæta á meðal fólks og hreyfa mig og ég var farin að verða ánægð með það sem ég sá í speglinum. Ég var byrjuð að borða eðlilega og allt leit vel út, en ég var ennþá að kljást við röskunina inn í mér.

Segir Guðrún átröskunina vera klóka að finna sér leið til þess að nærast og birtast, jafnvel þótt hvorki einstaklingurinn sjálfur né neinn aðrir í kringum hann taki eftir því.

„Á þessum tímapunkti lék allt í lyndi. Ég var farin að borða eðlilega, leit betur út og leið betur. Eða það var það sem ég hélt. En ef við skoðum það aðeins betur þá var ástæðan fyrir því að ég var farin að borða eðlilega vegna þess að ég var skíthrædd við það að fitna aftur. Það var ekki mikið sem ég leyfði mér umfram hollan mat. Ég nærðist á hrósi frá utanaðkomandi aðilum og ég vildi ríghalda í athyglina sem ég fékk fyrir það að grennast. Mér leið alls ekki betur þrátt fyrir að það var það sem ég hélt en á bak við brosið var ótti og kvíði við það að fitna aftur. Ég fór að taka hreyfingu fram yfir margt annað í lífi mínu og átti hún alltaf að ganga fyrir. Ég var svo hrædd við að fitna að ég gat ekki misst úr líkamsræktartíma.“

Skipulagði líf sitt út frá hreyfingu og lokaði sig af

Guðrún fór að skipuleggja líf sitt út frá því að komast á æfingu og var henni orðið sama um allt annað. Það var á þeim tíma sem hún leiddist út í Fitness og varð aftur virkilega veik.

„Þetta var aldrei nóg, ég var aldrei að borða nógu hollt, hreyfa mig nógu mikið og mér fannst ég alltaf geta grennst meira. Ég leiddist út í Fitness og þá varð ég virkilega veik aftur. Átröskunin mín elskaði Fitnessið, ég fékk allt sem ég vildi og var að leitast eftir. Endalausar hreyfingar, ekkert félagslíf og ég hafði alltaf löggilda afsökun fyrir því að geta ekki farið í matarboð eða að borða tertuna sem var í eftirrétt. Ég var sko í niðurskurði fyrir mót og mátti alls ekki borða óhollt. Niðurskurður var svarið mitt við öllu. Nei ég kemst ekki í afmælisveislu til þín, ég þarf að vakna snemma fyrir morgunbrennslu. Nei ég get ekki farið út að borða með ykkur í kvöld það er ekki svindldagur hjá mér. Nei ég kemst ekki á kaffihús eftir vinnu, ég þarf að fara beint á æfingu.“

Smám saman útilokaði Guðrún sig frá öllum vinum og ættingjum og var henni orðið alveg sama um allt nema Fitnessið. Þegar hún var nýbúin að taka þátt í móti ákvað hún að keppa strax aftur.

„Ég vildi ekki fitna aftur, ég gat ekki tekist á við það og því var betra að fara bara beint aftur í niðurskurð. Ég man að ég horfði oft á mig í spegli og kleip í mig og hugsaði með mér að þetta yrði allt í lagi því niðurskurðurinn væri alveg að fara að byrja. Það róaði kvíðann minn. Eftir annað mótið mitt var ég orðin enn verri í hugsunum og líðan. Ég steig oft á vigtina á dag og var farin að mæla mittismálið mitt. Eitt skiptið tók ég eftir því að ég hafði þyngst um þrjú kíló sem endaði með því að ég hágrét og reif mig niður fyrir það. Mér fannst ég vera aumingi sem átti ekki skilið að lifa, ég gat ekki gert neitt rétt. Svona atvik gátu eyðilagt heilu dagana fyrir mér og jafnvel vikur.“

Hætti á blæðingum og beinin stóðu út

Guðrún Helga stundar eðlilega hreyfingu í dag og ofgerir sér ekki. Hér er hún með kærasta sínum.

Guðrún var með þyngd sína á heilanum og hafði það mikil áhrif á andlegu líðan hennar. Það sem hún áttaði sig ekki á var að líkami hennar var hægt og rólega að koma sér í sitt eðlilega form, það form sem honum líður best í.

„Með niðurskurðinum var ég búin að koma mér í ónáttúrulegt form fyrir mína líkamsbyggingu og líkami minn var að koma sér aftur í eðlilegt ástand og auðvitað þyngdist ég við það. En ég vildi ekki sjá þetta form. Ég vildi halda áfram að vera í keppnisformi því þar leið mér svo ótrúlega vel. Þar passaði ég í minnstu buxnastærðina, þar sást í öll beinin á mér og þar var ég hætt á blæðingum sem mér fannst vera jákvætt á þeim tímapunkti. Þegar blæðingarnar komu aftur leið mér illa því þá fannst mér eins og ég hefði gert eitthvað rangt.“

Guðrún minnist þess að þegar hún var í keppnisformi hafi hún verið svo ánægð með líkama sinn að hún lét alla vita af því. Fór hún meðal annars í sund bara til þess að ganga um og sjá hvernig fólk horfði á líkama hennar.

„Ég veit að þetta hljómar asnalega en átröskunin nærðist á þessari athygli. Ég hef enn ekki getað farið í sund í dag og líklega er það út af þessu, því núna vill ég alls ekki að neinn horfi á mig. Ef einhver lítur á mig þá hugsa ég strax til þess að manneskjan sé að setja eitthvað út á mig og líkamsform mitt. Ég er ennþá að komast yfir þessa áráttu. Ég hef ekkert á móti Fitness en það að fara út í þessa íþrótt með svona veikan hug eins og ég hafði getur eyðilagt þig og sjálfsmynd þína.“

Enn að vinna í sjálfsmynd sinni

Sjálfsmynd Guðrúnar er enn þann dag í dag mjög brotin og er stutt í niðurrif hjá henni.

„En ég man að það var tímapunktur fyrr á þessu ári þar sem ég fékk gjörsamlega nóg og áttaði mig á því að átröskunin var að stjórna lífi mínu. Því sótti ég mér hjálp. Ég komst inn á dagdeild hjá Hvíta Bandinu og er svo þakklát öllu því sem starfsfólkið þar hefur gert fyrir mig. Ég er útskrifuð í dag en ég er enn að vinna í því að koma átröskunar hugsunum frá mér. Þær eiga eflaust aldrei eftir að hverfa endanlega en ég finn það að ég er að verða sterkari og reyndari í að takast á við þær og snúa þeim við. Hvíta Bandið gaf mér tæki og tók til þess að takast á við þetta og líða betur með sjálfa mig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

„Kærasti minn vill að ég kúki fyrir framan sig til að sanna að ég sé ekki að halda framhjá“

„Kærasti minn vill að ég kúki fyrir framan sig til að sanna að ég sé ekki að halda framhjá“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Giftist æskuástinni og urðu bæði ástfangin af sömu konunni: „Þetta er ekki kynlífskölt“

Giftist æskuástinni og urðu bæði ástfangin af sömu konunni: „Þetta er ekki kynlífskölt“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

„Hún fyllir mig innblæstri á hverjum degi“

„Hún fyllir mig innblæstri á hverjum degi“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Heimilið að hætti Marie Kondo: Sjáðu myndbandið

Heimilið að hætti Marie Kondo: Sjáðu myndbandið
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Sjóðheitar á sundfötum

Sjóðheitar á sundfötum
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Deilir bossamyndum á Instagram og þénar 37 milljón krónur á ári – Segir foreldra sína vera „ótrúlega stolta“

Deilir bossamyndum á Instagram og þénar 37 milljón krónur á ári – Segir foreldra sína vera „ótrúlega stolta“
Bleikt
Fyrir 1 viku

Undraverðir hlutir sem börn gera í móðurkviði

Undraverðir hlutir sem börn gera í móðurkviði
Bleikt
Fyrir 1 viku

Stendur þyngdartapið í stað? – Svona brutu þessar konur múrinn

Stendur þyngdartapið í stað? – Svona brutu þessar konur múrinn

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.