fbpx
Föstudagur 23.ágúst 2019  |

Tekjublað 2019  Sjá allt

Bleikt

Pálína Ósk setti óraunhæfar kröfur á líkama sinn: „Að geta staðið upp fyrir sjálfum sér er rosalegur sigur“

Aníta Estíva Harðardóttir
Laugardaginn 8. september 2018 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pálína Ósk Ómarsdóttir er 27 ára sveitastelpa úr Skagafirðinum. Hún er menntaður snyrtifræðimeistari og starfar sem slíkur á sinni eigin snyrtistofu á Sauðárkróki. Pálína er í dag ólétt að sínu fyrsta barni, heldur úti vinsælum lífsstíls reikningi á Instagram og lifir hamingjusömu lífi með kærasta sínum. En því miður hefur líf Pálínu ekki alltaf verið dans á rósum og hefur hún gengið í gegnum marga erfiðleika sem mótað hafa líf hennar í gegnum árin.

„Ég vil segja frá sögunni minni í stuttu máli. Ekki til þess að láta vorkenna mér heldur vegna þess að ég er viss um það að það eiga fleiri svipaða sögu að baki sér,“ segir Pálína í viðtali við Bleikt.

Var fimmtán ára í ofbeldissambandi

„Ég var ekki gömul þegar sjálfstraustið fór að hrynja hjá mér. Ætli ég hafi ekki verið um 15 ára gömul þegar byrjaði. Þá var ég í ofbeldissambandi með strák sem beitti mig andlegu og líkamlegu ofbeldi og hélt framhjá mér með bestu vinkonu minni. Eðlilega þá fór ég strax að ásaka sjálfa mig um að vera ekki nógu góð eða flott. Það hlyti að vera ástæðan fyrir því hvernig sambandið fór.“

Í kjölfar sambandsslita Pálínu við manninn sem beitti hana ofbeldi gekk hún inn í nokkur sambönd með karlmönnum sem gerðu lítið úr henni og héldu framhjá henni.

„Ég sóttist í það að fara að keppa í módel fitness þar sem mig langaði til þess að líta vel út. Það leiddist út í miklar öfgar og ennþá meira sjálfshatur. Mér fannst ég alltaf vera feit þrátt fyrir að ég hafi verið sjúklega grönn sem ég sé í dag. Ég gat ekki einu sinni farið í afmæli hjá bestu vinkonu minni af því að mér fannst ég ekki passa í neitt út af maganum á mér.“

Kastaði matnum jafnóðum upp

Pálína lokaði sig af félagslega og gaf sér aldrei tíma til þess að hitta vini sína og fjölskyldu.

„Ég gat helst ekki sleppt ræktinni þótt að fjölskylda mín væri í heimsókn. Ég var virkilega öfgafull í mataræðinu og ef ég svindlaði, þá fannst mér ég hafa fitnað um tíu kíló. Ég fór þá á æfingu til þess að brenna það af, sama þótt klukkan væri að ganga miðnætti og ég væri að fara á morgunbrennslu líka morguninn eftir.“

Fljótlega var Pálína orðin virkilega veik í höfðinu og tók hún til þess að borða endalaust og kasta því svo jafnóðum upp.

„Ég fann hvað ég var orðin veik í höfðinu og mér fannst þetta ekki eðlilegt. Fjölskyldan mín var farin að hafa miklar áhyggjur af mér og ég var alltaf pirruð í skapinu og það eina sem ég hugsaði um var fitnessið.“

Pálína fór á þessum tímapunkti í meðferð hjá Hvítabandinu þar sem hún var í ár.

„Ég var vigtuð vikulega til þess að fylgjast með þyngdinni og ég þurfti að skrifa matardagbók alla daga og skila inn. Ég byrjaði einnig að æfa kraftlyftingar og aflraunir sem mér fannst æðislegt. Þar fékk ég að vera ég sjálf og var ekki undir neinni pressu að líta vel út. Þá fyrst fór ég að ná jafnvægi og var rosalega góð andlega á meðan.“

Var nauðgað tvisvar sinnum á tveimur árum

Það var svo árið 2013 þegar Pálína lenti í virkilega slæmri lífsreynslu sem átti eftir að breyta lífi hennar.

„Þá lenti ég í nauðgun sem ég sagði engum frá. Ári seinna lenti ég svo aftur í nauðgun sem ég kærði og vann fyrir hæstarétti. Það ferli tók sinn toll á mér og sjálfstraustið fór alveg. Það er nefnilega ekki bara verið að nauðga manni heldur er tekinn hluti úr manni sem maður fær ekki til baka.“

Á þessum erfiða tíma í lífi Pálínu lenti hún í bílslysi sem gerði það að verkum að hún var að hætta að æfa kraftlyftingar þar sem hún varð bakveik eftir slysið.

„Þá var ég rosalega þunglynd og í miklum andlegum rússíbana. Mér fannst ég endalaust feit og var endalaust að byrja í þjálfun til þess að koma mér í form sem gekk auðvitað ekkert því ég var farin í bakinu og sprakk alltaf í mataræðinu. Mér leið rosalega illa með sjálfa mig og fannst ég aldrei vera nógu góð. Þarna fór ég að bera mig saman við aðrar stelpur og fannst ég verða að vera með magavöðva og grannan og stinnan líkama til þess að vera einhvers virði.“

Setti óraunhæfar kröfur á sjálfa sig

Pálína setti óraunhæfar kröfur á sjálfa sig og dæmdi útlit sitt daglega.

„Ég var komin með bullandi kvíða, þunglyndi og stress eftir öll áföllin. Ég hef verið í sálfræðimeðferðum meira og minna síðan árið 2012. Ég fór í Hvítabandið, á Klepp hjá sálfræðingi í sérhæfðri aðstoð fyrir kynferðisþolendur, Stígamót í styrkingarhóp, Lausninni í pararáðgjöf með fyrrverandi kærasta og gekk sjálf til konu sem var sérhæfð í áföllum. Enn þann dag í dag er ég í sálfræðimeðferð hjá sálfræðisetrinu. Ég gæti í rauninni sagt að í dag sé ég sérhæfð í því að skilja tilfinningar mínar, hugsun, hegðun og líðan í dag. Það er í alvörunni virkilega magnað. Þetta hefur gert mig að sterkari manneskju og ég læt ekki bjóða mér neitt rugl.“

Pálína segir meðferðina hjá Lausninni hafa gert mikið fyrir sig og þar hafi hún náð virkilega góðum bata.

„Að geta staðið upp fyrir sjálfum sér er rosalegur sigur. Það er örugglega það fyrsta sem hjálpaði mér að komast á þann stað í dag að geta elskað mig eins og ég er. Konan sem ég var hjá tók mig í hugleiðslu meðferðir og bað hún mig um að ímynda mér sjálfa mig í minningu þegar ég var ung og glöð. Þá bað hún mig að segja sjálfri mér það sem ég myndi vilja segja við „litlu Pálínu“. Það tók virkilega á þar sem það er ekkert auðvelt að segja við sjálfa sig að maður eigi eftir að lenda í hrottalegri nauðgun en að ég yrði að vera sterk. Svo spurði hún mig hvort ég hefði einhvern tímann talað niður til mín eða sagt eitthvað ljótt um mig sem ég svaraði játandi. Ég hafði endalaust sagt viðbjóðslega hluti við sjálfa mig. Ég vaknaði svo upp þegar hún spurði mig hvort ég myndi segja þessa hluti við ungu „litlu Pálínu“. Ég áttaði mig á því að það myndi ég aldrei gera.“

Stendur upp fyrir sjálfri sér

Síðan Pálína fór í þessa meðferð hefur hún velt þessu mikið fyrir sér og hefur ekki talað niður til sín né annars fólks.

„Ég stend frekar upp með mér og öðru fólki. Líf mitt umturnaðist og ég fór að spá í lífinu og sjálfri mér á allt annan hátt. Hætti að finna gallana mína og fór að horf á kostina. Út frá þessu fór mig að langa til þess að hjálpa fleiri stelpum að komast á þennan stað. Ég fór að fylgjast með stelpum á Instagram sem hafa sömu sín og ég á þessa hluti og þær blómstra eins og þær eru. Fullkomnar á allan sinn hátt.“

Pálína tók því ákvörðun um að reyna að hafa góð áhrif á aðrar stelpur í svipuðum sporum og hún í gegnum Instagram reikning sinn.

„Ég fór úr því að vera 53 kíló, hata sjálfa mig og finna endalausar leiðir til þess að vera grönn í það að elska mig eins og ég er sama hvað. Þvílíkt frelsi sem það er. Allar stelpur ættu að fá þetta frelsi og verða sterkari því lífið er ekki gefins. Við fáum eitt líf og getum kosið hvernig við ætlum að eyða því. Það getur engin annar ákveðið það fyrir okkur. Þótt það koma erfiðir dagar, þá eru þeir verkefni ti þess að leysa og það er mikilvægt að halda í jákvæðnina.“

Þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem Pálína hefur gengið í gegnum þá myndi hún ekki vilja breyta neinu í dag.

„Ég hef upplifað margt sem fólk ætti ekki að þurfa að upplifa en það væri ekkert sem ég myndi vilja breyta því annars væri ég ekki jafn sterk og ég er í dag og ég væri ekki sama manneskjan. Ég er þakklát fyrir að vera ég og ég elska lífið mitt eins og það er. Ég er í heilbrigðu sambandi með manni sem kemur vel fram við mig og á von á barni í nóvember. Ég gæti ekki beðið um meira.“

Hægt er að fylgjast með Pálínu á Instagram með því að ýta hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Með VivoBook í veskinu
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Fegrunaraðgerðir Love Island-stjarna – Sjáðu fyrir og eftir myndirnar

Fegrunaraðgerðir Love Island-stjarna – Sjáðu fyrir og eftir myndirnar
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Móðir notaði förðunarbursta vinkonu sinnar og lamaðist: „Læknar sögðu mér að kveðja“

Móðir notaði förðunarbursta vinkonu sinnar og lamaðist: „Læknar sögðu mér að kveðja“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Maður deilir furðulegri beiðni sem hann fékk eftir stefnumót: „Hlauptu eins langt og þú getur“

Maður deilir furðulegri beiðni sem hann fékk eftir stefnumót: „Hlauptu eins langt og þú getur“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Nektarmynd óléttrar Ashley Graham tekið fagnandi

Nektarmynd óléttrar Ashley Graham tekið fagnandi

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.