fbpx
Miðvikudagur 20.mars 2019
Bleikt

Bjarney lýsir einelti og brotinni sjálfsmynd í gegnum tónlist – „Mig langar að fólk hafi von um að hlutir geti orðið betri“

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 28. júlí 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er með vandamál í sálinni, eins og flestir. Ég hef marga komplexa, hef upplifað ýmislegt og ekkert liðið alltof vel í eigin skinni, en ég held að allir upplifi komplexa að einhverju marki,“ segir Bjarney Anna Jóhannesdóttir, 26 ára gömul tónlistarkona frá Akureyri sem gengur undir listamannsnafninu Fnjósk.

Bjarney hefur sérlega gaman af tónlistarlegum tilraunum og óhefðbundinni sköpun með einlægum hætti. Nýlega gaf hún út plötuna Who are You? sem hún segir koma beint frá hjartanu og sé mikið ævintýri, enda eru undirliggjandi þemu laganna um brotna sjálfsmynd, einelti og sjálfsuppgötvun, svo dæmi séu tekin, og sækja í margar erfiðar minningar sem tónlistarkonan hefur tekist á við.

„Mér finnst auðveldara að tjá mig með tónlist en hefðbundnum orðum,“ segir Bjarney. „Stundum veit ég ekki hvort ég sé hreinlega þess virði að vera til. Þá fer ég að semja lög og þá líður mér eins og það sé þess virði. Eins og með svo margt annað í tónlist, annaðhvort líkar fólki það sem ég hef að segja með tónlistinni eða ekki. Fólk tengir sig annaðhvort við þetta eða ekki. Ég fór ekki í tónlistina vegna þess að mig langaði til þess að vera fræg, heldur því mér fannst ég þurfa að gera hana. Það er bara stór hluti af því hvernig ég er, að gera tónlist.“


Tengir sig ekki við meginstrauminn

Bjarney var í kringum fimmtán ára aldurinn þegar hún byrjaði að sýna tónsmíði áhuga. Hún hefur þróað sinn stíl og eigin rödd síðan en segir ýmislegt hafa breyst á þessum tíma. Árið 2013 gaf hún út diskinn Rat Manicure undir nafninu Sockface og hélt þá einnig listsýningu um plötuna. En listakonan segist alveg vera á þrotum hvað lýsingu varðar ef hún ætti að skýra hvaða tónlistarstefnu hennar stíll tilheyrir.

„Það er svo mikil sjálfsúrvinnsla og tjáning sem fer í tónlistarsköpunina að það er erfitt að setja tónlistina í einhvern dálk. Ég þekki ekki nógu mikið á sjálfa mig til þess að setja mínar tilfinningar í hólf,“ segir Bjarney.

„Tónlistarstefnur eru svo afmarkaðar, en mér finnst gott að gera tilraunir og prófa nýja hluti. Ég reyni að leggja mikið í textasmíðina, þannig að hún hafi mikla þýðingu í tónlistinni. Það skiptir mig máli að textinn sé ekki bara ástarlag til engrar manneskju. Fólki finnst yfirleitt þægilegt að hlusta á tónlist sem fylgir ákveðnum stefnum, en það á ekki við um mig þótt ég væri til í það. Ég bara get það ekki.“

Bjarney segir það alls ekki vera meðvitaða ákvörðun um að synda á móti straumnum en telur sig ekki geta samið lög sem allir eða hver sem er nær samstundis tengingu við. „Ég er rosalega léleg í því, því það lenda ekkert allir í sömu upplifun,“ segir hún.


Á slæmum stað með líkamslýtaröskun

Bjarney lýsir nýju plötunni sem „naflaskoðunarævintýri“, þar sem lögunum er raðað upp eftir ákveðnum tilfinningum. Til að mynda er síðasta lagið á plötunni, sem ber heitið Enough, samið um erfitt tímabil þegar Bjarney, eins og hún segir, var komin langt niður vegna líkamslýtaröskunar. Að hennar sögn komu ýmsir komplexar hennar til vegna þess að ýmis hlutföll í andliti hennar voru bjöguð.

„Ég var bara veik og komin með sjálfsmorðshugleiðingar vegna hlutfallanna á milli kjálkans og gagnaugnanna. Það lagðist þungt á mig og mér leið eins og skrímsli, því ég var með stóran kjálka. Hausinn var kominn lengst út í þessar hringrásarhugsanir og ég var komin á slæman stað út af þessu,“ segir hún.

„Það eru mjög óvísindalegar aðferðir að reyna og reyna án þess að breyta neinu,“ segir hún og rekur söguna af verstu tímum sjálfstraustsins og sjálfsímyndarinnar, sem voru einn helsti kveikiþráður titillagsins Who Are You? „Mér fannst ég svo oft föst á sama stað á meðan allir sem ég þekkti voru komnir áfram í lífinu. Mér fannst ég alltaf reyna að láta líta út fyrir að ég væri betri en ég er, með því að gabba sjálfa mig í stað þess að vera ánægð með mig eins og ég er. Titillagið fjallar svolítið um að taka sig sjálfan í sátt, að vera sinn eigin vinur.“

Þegar Bjarney samdi svo lagið Enough áleit hún það vera visst spark í rassinn, áminning um að gera eitthvað í hennar málum. „Ég gerði mér grein fyrir að þótt ég gæti ekki alltaf treyst öðru fólki, þá gæti ég ekki heldur alltaf treyst mínum eigin haus. Og ég verð að nota rökhugsunina eins mikið og ég get.“

Það er ástæða fyrir því að Enough er seinasta lag plötunnar að sögn Bjarneyjar: „Því sagan sem þetta lag segir endar vel. Öll platan er í rauninni eins og ævintýri, en það er leiðinlegt að lesa ævintýri sem endar síðan illa. Mig langar að fólk, sérstaklega fólk sem tengir við plötuna, hafi von um að hlutir geti orðið betri og verði betri.“

Auðvelt skotmark fyrir einelti

Bjarney segir marga áheyrendur og fylgjendur sína hafa tengt sérstaklega við eitt tiltekið lag á nýju plötunni hennar, Ég fann krossfisk, sem fjallar lauslega um einelti. „Af einhverjum ástæðum hafa mjög margir Íslendingar lent í einelti í æsku,“ segir hún.

„Ég er fædd holgóma og glímdi við vissa erfiðleika í tali, þannig að ég varð að mjög auðveldu skotmarki fyrir krakka sem vildu hefja sig upp með því að ýta einhverjum öðrum niður,“ segir hún. „Ég ber samt engar slæmar tilfinningar til þessara einstaklinga í dag og í fullkomnum heimi hefðu kennarar eða aðrir fullorðnir gripið inn í, en við búum auðvitað ekki í fullkomnum heimi. Heimurinn er ekki svo einfaldur að fullorðnir geti lagað allt. Það sem ruglar mig þó kannski mest er að margir þeirra sem lögðu mig í grimmt einelti urðu að frekar indælu, fullorðnu fólki í samfélaginu með allt sitt á hreinu og engar afleiðingar. Þá kemur oft þessi tilfinning að ég sé gamalt tyggjó eða eitthvað svoleiðis. Það þýðir að ég þurfi þá bara að vinna meira í mínum málum, því ég er að burðast með fleiri vandamál en þetta fólk.“

Þá segir Bjarney að leiðin að ástríðu hennar, tónlistarsköpun, hafi verið þyrnum stráð sökum tveggja innri radda sem komu hvor með sín skilaboðin. „Ég hef átt mér stóra drauma og önnur röddin í hausnum á mér segir mér að það sé möguleiki að eltast við þá en svo kemur hin sem segir að ég geti það ekki,“ segir hún. „Í raun ákvað ég að ég ætlaði að eltast við þessa drauma og yfirstíga hindranirnar, vonandi svo aðrir þyrftu ekki að glíma við neikvæðu röddina, til að sýna að þetta væri hægt. Því, ef ég á að segja alveg eins og er, þá er þetta mjög pirrandi rödd, þessi neikvæða.“

Plötuna segir Bjarney almennt taka á þungum málefnum en tekur fram að lagið sem ber einfaldlega heitið Lag um allt, sé síst í þeim dúr og gangi meira út á orðaleik. Texti lagsins kemur að skilaboðum um léttúðugar lausnir á alvarlegum málum. „Stundum, ekki alltaf, eru hlutirnir bara jafn alvarlegir og þú gerir þá.“


Fleiri tónleikar í „kjötheimum“

Þegar Bjarney semur ekki tónlist föndrar hún einnig við myndlist og akrýlmálverk sem hluta af útrás sköpunargleðinnar en hún segist eiga þann draum að halda fleiri tónleika. Hún hefur haldið þá nokkra í beinum útsendingum á veraldarvefnum en langar að halda fleiri „í kjötheimum“, eins og hún orðar það hress. Hún segir hindrunina vera skort á frumkvæði í að bóka eigin tónleika, en bætir við að hún sé að vinna í því.

„Ég hef mjög gaman af fólki og þegar mér gengur vel þá líður mér vel, en ég hef átt slæma tónleika þar sem ég stóð mig ekki. Það var ekki gaman, en ég þurfti bara að minna mig á að það koma aftur tónleikar og ég get alltaf gert betur seinna.“

Tónlist Bjarneyjar hefur að öðru leyti hlotið ýmsa gagnrýni og segir hún að fólk hafi átt til að gagnrýna framburð hennar. „Sumum finnst ég tala með of þykkum íslenskum hreim, sem mörgum finnst óþægilegur, en hann losna ég ekki við,“ segir hún. „Það þarf þó ekki öllum að líka við hann, það er bara þannig. En svo lengi sem ég hef pláss í heiminum til að gera það sem mig langar til að gera, þá erum við bara góð.“

Að sögn tónlistarkonunnar er hún á jákvæðum stað í dag auk þess sem hún bíður spennt viðbragða við nýju plötunni og hún segir allt ganga frekar vel. „Það er líka lykilatriði að vinna sig að velgengninni og vellíðan, því hún er ekki bara eitthvað sem við fáum í hendurnar,“ segir Bjarney.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Fór í fitusog 12 ára gamall: „Þetta er rót allrar depurðar minnar“

Fór í fitusog 12 ára gamall: „Þetta er rót allrar depurðar minnar“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Móðir tók ótrúlegar myndir þegar hún fæddi son sinn

Móðir tók ótrúlegar myndir þegar hún fæddi son sinn
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Þetta er ástæðan fyrir því að konur eru pirraðar: Allar þessar buxur eru í sömu stærð

Þetta er ástæðan fyrir því að konur eru pirraðar: Allar þessar buxur eru í sömu stærð
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Irpa Fönn hefur sent syni sínum tölvupóst síðustu ár: „Á 18 ára afmælisdaginn hans verður þetta gjöf frá mér“

Irpa Fönn hefur sent syni sínum tölvupóst síðustu ár: „Á 18 ára afmælisdaginn hans verður þetta gjöf frá mér“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.