fbpx
Miðvikudagur 20.mars 2019
Bleikt

Björn Hlynur glímdi við lotugræðgi og lystarstol: „Ég var á leiðinni í gröfina og var alveg sama“

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 8. júlí 2018 09:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Hlynur Pétursson er fyrsti karlmaðurinn á Íslandi sem var lagður inn á göngudeild Landspítalans fyrir átröskunarsjúklinga. Frá unga aldri átti hann í erfiðleikum með sjálfsmynd sína og tók það sinn toll á andlegri og líkamlegri heilsu hans í áraraðir. Hann skammaðist sín fyrir að vera í yfirþyngd og glímdi við lotugræðgi og lystarstol.

Blaðamaður settist niður með Birni þar sem hann fór yfir reynslusögu sína, sem að hans sögn er hlaðin sorg en í senn ákveðinni gleði. Segir hann að það sé algengur misskilningur að halda því fram að sjúkdómar af þessu tagi snúist um að þola ekki mat. Í hans tilfelli var það þveröfugt.

„Ég elska mat, en ég kunni mér ekki hóf vegna lotugræðginnar,“ segir Björn og fullyrðir að oft hafi komið fyrir á þessum tíma að hann hafi keypt sér sextán tommu pitsu og tvo lítra af ís, sem var hvort tveggja borðað á skömmum tíma. Þá segir hann að búlimían hafi komið inn í myndina og var matarreikningurinn farinn að slaga upp í verulega háa tölu. Svo ældi ég þessu öllu strax eftir að ég borðaði.“

Kennarinn hlustaði ekki

„Mín hlið á þessu átröskunardæmi er að þetta er mynstur sem allir með svona geðröskun upplifa,“ segir Björn og að þetta skiptist í nokkra flokka. „Þetta er lotugræðgi, þetta er anorexía og þetta er búlimía og oftar en ekki helst þetta allt í hendur. Þú tekur kannski eitt ár í einu, eitt ár í öðru, nokkra mánuði í þessu en mynstrið er alltaf eins.“

Um tólf ára aldurinn var Björn greindur með ofvirkni, þunglyndi og kvíða. Þá var hann í kringum 110 kíló að þyngd. Líf hans átti eftir að versna til muna og hófst það allt með lyfjunum sem læknar skrifuðu á hann.

„Þessi lyf breyttu mér og ég fann fyrir miklum aukaverkunum,“ segir hann. „Ég var í skólanum einn daginn og sagði við kennarann að mér væri flökurt og ég þyrfti að æla. Kennarinn hlustaði ekki á það þannig að ég ældi á gólfið og borðið fyrir framan alla í bekknum.“

Í framhaldi af þessu var Björn alltaf spurður hvort ekki væri allt í lagi ef hann setti upp einhver svipbrigði. Honum fannst það óþægilegt og það leiddi til þess að hann vildi ekki fara í skólann. Hann fór á slæman stað á þessum tíma en hann tekur fram að síðar hafi hann sæst við kennarann.

Sífellt „dröggaður“ og nálægt gröfinni

„Með tímanum fór mér að finnast ég laða að mér geðraskanir. Ég var með bullandi ADHD og kvíðaröskun og fer í úrræðismeðferð tengda þessu þegar ég var í kringum tvítugt,“ segir hann. „Ég fór að vilja flottan og heilbrigðan líkama og vildi gera eitthvað í málunum. Ég setti mér fyrst það markmið að vera 90 kíló og svo 80 kíló, en ég var aldrei sáttur,“ segir hann. „Ég byggði upp vöðvamassa og náði góðum árangri, svo fór ég í öfgana, fór að kötta út fæðutegundir og mæta í ræktina í allt að fimm klukkutíma í senn, sem er auðvitað ekki eðlilegt. Ég bara stoppaði ekki.“

Samkvæmt Birni stýrðist ýmislegt í lífi hans af ótta, þá sérstaklega ótta við höfnun. Hann reyndi að hylja ástand sitt fyrir öðrum, sérstaklega fyrir foreldrum sínum. Hann skammaðist sín mikið fyrir allt sem hann lét ofan í sig og hélt að hann myndi þyngjast við það eitt að drekka vatn.

Borðaði ekki mat í heila viku

Jafnframt tekur hann fram að komið hafi fyrir að heil vika hafi liðið án þess að hann borðaði nokkurn mat. „Foreldrar mínir voru farnir að fylgjast vel með mér þegar ég fór á klósettið, á því tímabili þegar geðröskunin var sem verst. Ég leysti það með því að æla ofan í stútinn á kókflöskum. Svo faldi ég flöskuna á bakvið rúmið eða einhvers staðar. Þetta var ekki einsdæmi bara hjá mér. Þetta er líkt og fíkill sem setur birgðir af draslinu sínu til hliðar og finnur það síðar,“ segir hann.

„Ég var alltaf tilbúinn til þess að segja við sjálfan mig: „Ég býst við því versta en ég vona það besta.“ Ég átti rosalega erfitt með að treysta fólki. Það var bara eins og óttinn stjórnaði öllu hjá mér. Það fór mjög illa í mig að sjá hvernig fjölskyldu minni leið, ég var uppfullur af ranghugmyndum, laug að fólki og meira að segja trúði ég sjálfur lyginni í mér. Þráhyggjan var mikil, ég kannski var að reyna setja á mig belti í allt upp í korter, taldi skrefin niður stigann og bakkaði alltaf um eitt þegar ég steig tvö niður. Þráhyggja er afleiðing kvíða. Lífið var í algeru rugli og mér fannst ég stundum vera fyrir utan líkama minn. Ég var sífellt „dröggaður“ á lyfjum sem læknarnir gáfu mér. Ég man eftir Rítalín, Konserta, Lyrica, róandi og nokkrum fleirum. Svo var lífsviljinn orðinn svo lítill að ég var farinn að taka þetta allt. Ég var á leiðinni í gröfina og var alveg sama,“ segir hann.

Björn Hlynur á yngri árum.

„Þegiðu og taktu þetta svo við getum umgengist þig“

Að sögn Björns er hann á móti lyfjameðferðum í dag. „Ég var á rosalega mörgum lyfjum og læknarnir sögðu við mig að ég gæti ekki hætt á lyfjunum því að þá yrði ég ekki í eðlilegu fari. Ég var búinn að vera á lyfjum síðan ég var tólf ára og ég hætti þeim öllum þegar ég varð tvítugur. Öllum. Ég var kannski að taka í kringum níu sortir af lyfjum. Puttarnir mínir voru nánast orðnir gulir af lyfjanotkun,“ segir hann.

„Það eru margar ástæður fyrir því að ég vil síður taka lyf við mínum geðröskunum. Þau hafa farið illa í mig, ég hef fengið slæmar aukaverkanir og oftast hefur mér fundist þau ekki virka á mig. Í dag er ég í meðferð hjá geðlækni sem gefur mér þunglyndislyf. Þau virka ekki á mig en ég er samt að taka þau, aðallega vegna þrýstings frá aðstandendum. Ég held að ég þurfi að komast í meðferð hjá góðum sálfræðingi en það er ekki séns að maður geti það á meðan tíminn er á um 15 þúsund kall.“

Um leið og Björn ákvað að hætta á öllum lyfjunum fann hann fyrir litlum rafkippum í hausnum á sér, sem hann lýsir sem fráhvörfum. Eftir erfitt tímabil voru hlutirnir farnir að breytast til hins betra. Honum leið betur og fann að hann var jarðbundnari. Hann fékk leið á óttanum og setti sér það markmið að hugsa um sig sjálfan. „Það er ótrúlega þreytandi að vera kvíðinn, hnúturinn er svo stór inni í manni og bara mikill sársauki. En ég hef náð að halda átröskuninni í skefjum. Ég er í kjörþyngd í dag, en ég hef aldrei náð að mastera mataræði mitt. Það er hægt að lifa með þessu þetta, en þetta verður alltaf partur af þér og það er stutt á milli þess að borða „rétt” eða fara út í eitthvað rugl.“

Svaf bara klukkustund á sólarhring allar helgar

Björn fór reglulega til lækna en fannst þeir aldrei gera neitt gagn. „Mér leið eins og ég væri eitthvað vandamál sem væri ekki hægt að leysa. Ég var ekki tilbúinn til að láta lækna segja mér hvað ég átti að gera. Ég var ekkert tilbúinn til að sleppa lífi mínu en í rauninni lifði ég bara í blekkingu því ég var ekki að lifa lífinu. Ég var fangi sjúkdóms, sem gerði það að verkum að ég átti ekkert eðlilegt líf. Ég vildi ekkert stíga út úr því, því mér leið illa með sjálfan mig. Ég var alltaf að klípa í undirhökuna mína, ég var alltaf að finna gallana, en gallinn var bara inni í heilanum á mér. Ég trúði því á þeim tíma að stelpur vildu bara granna stráka, það er bara ekki þannig. Alvöru strákar vilja ekkert bara grannar stelpur þótt ég þekki nokkra þannig. Þetta virkar ekki svoleiðis.“

Í gegnum árin þróaði Björn með sér mikla félagsfælni sem leiddi til þess að hann reyndi sem mest að halda sér uppteknum í starfi. Á einum tímapunkti vann hann í þremur störfum og svaf oft bara í klukkutíma í senn allar helgar, í heilt ár. Hann segir að það hafi gengið prýðilega með aðstoð róandi lyfja.

Góðir læknar oft leiðinlegir

Dag einn hitti Björn svo lækni sem gaf honum tvo valkosti. „Hann sagði við mig: „Ef ég er bara að eyða tímanum við að reyna að hjálpa þér og þú kannt ekki að meta það, þá máttu drulla þér út.“ Um leið og hann sagði þetta við mig hugsaði ég: „Ókei, þú ert kúl!“ Þetta er það sem ég fíla. Ég vil hafa lækna sem geta svarað þér og ef þeir þurfa að vera leiðinlegir við þig, þá veistu að þeir gera það því þeir eru góðir í vinnunni sinni. Það vantar meira af því hérna á Íslandi,“ segir hann.

„Ég öðlaðist mikla þekkingu og reynslu í gegnum allt þetta tímabil. Ég sá að þetta er sama vandamálið, en það er mismunandi hvernig einstaklingar takast á við það. Þar af leiðandi þarf að komast að rótinni; hvernig einstaklingur ert þú? Hvað er það sem þú ert að gera í daglegu lífi? Hverjar eru þínar skoðanir? Ég átti tvo möguleika; annað hvort myndi ég taka á þessu eða enda sex fetum undir einhverri torfu. Það vildi ég ekki. Ég vildi ekki fara út í einhverja glæpi eða neitt slíkt, þannig að ég ákvað bara að taka á þessu.“

„Ég bara reddaði þessu“

„Við náum aldrei að skilja lífið í botn,“ segir Björn, „og eitt er víst að einn daginn endar það.“ Aðspurður hvort honum þyki fólk hugsa almennt fullmikið í hindrunum frekar en lausnum er svarið játandi. „Já, ég held það. Við Íslendingar erum oft miklir kvartarar. Ef ef eitthvað er að í lífinu, þá leitast maður við að gera eitthvað til að laga það.  Það er ömurelgt að líða alltaf illa,“ bætir hann við.

Sem barn var ég mjög kraftmikill, keppti í júdó, knattspurnu og körfubolta en allt kom fyrir ekki, ég náði ekki að fá nægilega útrás. Ég var Íslandsmeistari í Júdó í flokki sjö ára.  Ég var hugmyndaríkur og talaði mikið, var mjög viðkvæmur og sætti mig ekki við að sagt væri nei við mig.  En mér leið alltaf illa, alltaf kvíðinn og óöruggur.  Það var djöfulleg líðan.

Þá rekur Björn söguna af því þegar hann spurði foreldra sína hvort hann mætti frá 200 krónur til þess að fara í sjoppu og kaupa nammi. Í þetta skiptið fékk hann neitandi svar.

„Þá fór ég í 10-11 og hélt þangað sem tepakkarnir voru. Ég greip mér tvo, labbaði með þá út, kom svo aftur inn í búðina og sagði  „mamma var að kaupa þetta rétt áðan, get ég nokkuð fengið peninginn aftur því hún þurfti þá ekki?“ Þeir endurgreiddu mér peninginn, ég fór þá beint út í sjoppu, keypti nammi og kom heim með fullan poka. Mamma spurði mig þá hvar ég fékk þetta og svaraði ég þá: „Heyrðu, ég bara reddaði þessu.““

Lykilatriði að hlusta á móti

„Fyrir mér er átröskun bara hluti af mínum geðröskunum. Ég var mjög slæmur vegna þessara veikinda í mörg ár en svo lagaðist það sem betur fer. Þegar maður borðar ekki eða kastar upp í sífellu fer líkaminn að þorna upp. Það finnst af manni ákveðin lykt sem líkaminn gefur frá sér og þá er maður ekki á góðum stað. Það þarf að tala um vandamálin og segja frá líðan sinni. Það er bataferli. Lykilatriðið er að hlusta þá líka á ráðleggingar þeirra sem maður treystir.

Björn telur sig vera á betri stað í lífinu í dag og segist hafa fundið góðan lífsförunaut. „Þegar ég kynntist konunni minni, þá breyttist lífið alveg,“ segir hann. „Ég fann minn besta vin og maka. Ég á auðveldara með að treysta fólki. Konan mín styður mig í öllu og einu og með henni ætla ég að ná fullum bata. Það er enn langt í land en ég ætla mér að ná bata.“

Björn segist finna mikið til með fólki sem glímir við átröskun og öllum vandamálunum sem þeim sjúkdómi fylgja og talar þar sérstaklega um stráka. „Það lifir enginn annar lífinu fyrir mann,“ segir hann. „Með hverjum degi læri ég eitthvað nýtt og reyni að nýta mér það, mér er farið að þykja vænna um sjálfan mig og ég pæli sífellt minna í hvað öðrum finnst um mig.“

Ljósmynd: DV/Hanna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Fór í fitusog 12 ára gamall: „Þetta er rót allrar depurðar minnar“

Fór í fitusog 12 ára gamall: „Þetta er rót allrar depurðar minnar“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Móðir tók ótrúlegar myndir þegar hún fæddi son sinn

Móðir tók ótrúlegar myndir þegar hún fæddi son sinn
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Þetta er ástæðan fyrir því að konur eru pirraðar: Allar þessar buxur eru í sömu stærð

Þetta er ástæðan fyrir því að konur eru pirraðar: Allar þessar buxur eru í sömu stærð
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Irpa Fönn hefur sent syni sínum tölvupóst síðustu ár: „Á 18 ára afmælisdaginn hans verður þetta gjöf frá mér“

Irpa Fönn hefur sent syni sínum tölvupóst síðustu ár: „Á 18 ára afmælisdaginn hans verður þetta gjöf frá mér“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.