fbpx
Miðvikudagur 20.mars 2019
Bleikt

Birnu neitað um tryggingar: „Þeir telja mig í of miklum áhættuhópi gagnvart sjálfsvígi“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 16. apríl 2018 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birna Kristín Ásbjörnsdóttir greindist með geðhvarfasýki árið 2015. Henni hafði þó ávallt grunað að sá sjúkdómur væri að plaga hana en upplifði hún ákveðin létti að fá loksins greiningu.

„Það var mikill léttir að fá að vita af hverju ég upplifði svona slæma daga, óeðlilega hraðar hugsanir, undarlegar tilfinningar, geðhæðir og gífurlega vanlíðan á köflum. En léttirinn sem ég fann innra með mér átti ekki eftir að endast,“ segir Birna Kristín sem segist hafa upplifað fordóma eftir greiningu.

Fékk þau skilaboð að þetta væri henni sjálfri að kenna

„Þegar ég fór að segja fólki frá þessu, til þess að útskýra fjarveru frá skóla og annað þá voru viðbrögðin misjöfn. Sumir sýndu þessu skilning en aðrir í ímyndaðri gæsku sinni, fóru að segja mér frá fólki sem hafði þennan sjúkdóm, lifði bara á „Féló“ og að líf þeirra væri ömurlegt. Sumir buðu mér upp á heimasaumaðar kraftaverkalausnir, nýtt mataræði og slökun. Í lang flestum skilaboðum leyndist sá boðskapur að þetta væri mér að kenna. Ég væri bara ekki nógu dugleg að harka af mér og að ég væri að gera eitthvað vitlaust.“

Á þessum tíma var sjálfsmynd Birnu í molum. Hún fékk lyf sem hjálpuðu henni en þó sat þessi hugsun eftir í höfði hennar og magnaðist hægt og rólega.

„Minn eigin heili snerist gegn mér og fór að endurtaka þetta allt sjálfur. Allt það sem fólk hafði sagt við mig og gott betur en það: Það vill enginn vera eins og þú, þú átt aldrei eftir að ná árangri, þú ert óheilbrigð, af hverju ert þú svona? Og þar fram eftir götunum. Það var ekki fyrr en fyrir stuttu síðan að ég leyfði mér að vera reglulega reið yfir öllum þessum röngu skilaboðum sem ég fékk, hætti að taka þau inn á mig og leyfði kollinum ekki að taka þátt í þessu lengur.“

Að eilífu stimpluð í kerfinu

Birna hóf þá vegferð að sætta sig við greiningu sína.

„Að nú sé greiningin að eilífu stimpluð á mig í kerfinu. Ég var búin að sætta mig við þetta ástand. Lífið væri stundum í erfiðari kantinum en það gæti einnig verið fallegra en orð fá nokkurn tíma lýst.“

Nýlega keypti Birna sér bíl og íbúð.

„En því fylgir mikil ábyrgð og og auðvitað tryggingar. Ég hafði samband við tryggingafyrirtækið sem hafði tryggt mína fjölskyldu um árabil. Tryggingafyrirtæki sem hafði reynst okkur vel. Þar fæ ég upplýsingar um að ég þurfi bílatryggingu og innbústryggingu. Til þess að lækka tryggingarnar þurfti ég svo að bæta við einni tryggingu enn. Þar lá auðvitað beinast við að taka líf- og sjúkdómatryggingu. Mér fannst það skynsamlegt þar sem alltaf getur eitthvað komið fyrir og það myndi lækka heildartryggingar umtalsvert. Ég fer í útibúið og sæki um.“

Þegar Birna mætir í tryggingafyrirtækið blasir við henni spurningalisti.

„Ert þú með einhvern sjúkdóm? Ég svara því hreinskilnislega, já. Því það er ekki hjá því komist að hvert sem þú leitar í mína sjúkrasögu er þessi stimpill. Fyrst ég svaraði þessari spurningu játandi, bætast við allskonar auka spurningar. Hversu mikil áhrif þetta hafði á mig, hvort ég hefði verið lögð inn, misst úr vinnu og fleiri persónulegar spurningar. Ég svaraði því enn og aftur mjög hreinskilnislega, já að ég hafi misst úr vinnu vegna andlegra veikinda en að það sé einungis dagur og dagur. Spurningarnar halda áfram að dembast yfir mig. Spurningar sem eiga að geta ákveðið það hversu slæm ég er.“

Neyddist til þess að opinbera sál sína fyrir tryggingaráðgjafa

Birna var niðurbrotin eftir þessa heimsókn í tryggingafyrirtækið þar sem hún hafði neyðst til þess að opinbera sál sína á einhvern pappír.

„Nokkrir dagar líða og ég fæ reikninga fyrir tryggingunum. Í kjölfarið fæ ég símtal um að þeir þurfi að hafa samband við heilsugæsluna mína og að svo muni koma niðurstaða. Ég fann það strax á mér að sú niðurstaða yrði mér ekki hliðholl en ákvað samt að vera bjartsýn. Þeir gætu ekki farið að hafna mér á þeim grundvelli að það væri einhverjum örfáum prósentum líklegra að ég þyrfti á þessari tryggingu að halda heldur en aðrir. Nei, var á endanum svarið. Ég var miður mín.“

Ástæða þess að tryggingafyrirtækið neitaði Birnu var vegna þess að hún þykir vera í áhættuhópi.

„Til hvers eru þeir að láta mig svara þessum svakalega spurningalista sem margir upplifa niðurlægjandi ef þeir ætla svo hvort eð er ekki að tryggja mig? Þeir telja mig í of miklum áhættu hópi til þess að taka mitt eigið líf eða að brotna svo gjörsamlega niður að ég geti ekki unnið. Hvaða skilaboð sendur það mér? Jú að ég sé eitthvað biluð. Óæskileg. Óheilbrigð. Ég var bálreið og sár, rétt eins og fjölskylda mín sem ekki grunaði að mér yrði mismunað svona af því að ég er með greiningu. Greiningu sem á, undir eðlilegum kringumstæðum, að hjálpa mér að fá rétta þjónustu.“

Birna ákvað að grennslast fyrir um tryggingamál og kom þá í ljós að það er ekki einungis fólk með geðhvarfasýki sem fær neitun.

Tryggja þá sem ekki leita sér hjálpar

„Þeir tryggja þig ekki ef þú ert búinn að fara í meðferð við fíkn, eitthvað sem er eitt skynsamlegasta skrefið sem þú getur tekið ef þú glímir við fíkn. Þeir tryggja virka alkóhólista, en ekki þá sem hafa verið það sterkir að þeir hafa lokið meðferð og snerta jafnvel aldrei fíkniefni eftir það. Auðvitað á að tryggja bæði þá sem eru virkir, sem og óvirkir. Báðir hópar eiga jafn mikinn rétt á tryggingu. Erum við þá bara einhver olnbogabörn af því að við leituðum okkur hjálpar? Af því að við ákváðum að leggja traust okkar á heilbrigðiskerfið og þau úrræði sem eru í boði.“

Birna segist miður sín vegna mismunarins sem hún hefur orðið fyrir.

„Í dag þegar tryggingafyrirtæki hringja í mig og lofa mér gulli og grænum skógum þá segi ég þeim að ég sé með geðsjúkdóm. Þá svara þeir fljótt: Ó, afsakið ónæðið, bless bless. Ég vil ekki skilja fjölskyldu og jafnvel komandi niðja mína eftir með ekki neitt ef ég skildi hverfa frá fyrir aldur fram. Ef svo illa skyldi verða að ég fengi krabbamein eða slíkt, þá er ég hreinlega ekki tryggð fyrir því.“

Birna hvetur fólk til þess að deila sinni sögu um neitanir frá tryggingafyrirtækjum undir myllumerkinu : #lífmitterekkitryggt

„Árið er 2018 og þessi mismunun er ekki í boði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Fór í fitusog 12 ára gamall: „Þetta er rót allrar depurðar minnar“

Fór í fitusog 12 ára gamall: „Þetta er rót allrar depurðar minnar“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Móðir tók ótrúlegar myndir þegar hún fæddi son sinn

Móðir tók ótrúlegar myndir þegar hún fæddi son sinn
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Þetta er ástæðan fyrir því að konur eru pirraðar: Allar þessar buxur eru í sömu stærð

Þetta er ástæðan fyrir því að konur eru pirraðar: Allar þessar buxur eru í sömu stærð
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Irpa Fönn hefur sent syni sínum tölvupóst síðustu ár: „Á 18 ára afmælisdaginn hans verður þetta gjöf frá mér“

Irpa Fönn hefur sent syni sínum tölvupóst síðustu ár: „Á 18 ára afmælisdaginn hans verður þetta gjöf frá mér“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.