fbpx
Laugardagur 16.febrúar 2019
Bleikt

Katrín Helga fékk nóg af því að vera óánægð með sjálfa sig og breytti um lífsstíl

Aníta Estíva Harðardóttir
Föstudaginn 25. janúar 2019 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Helga Daðadóttir tók ákvörðun um að breyta lífsstíl sínum í mars árið 2017 þegar hún fékk nóg af því að vera alltaf óánægð með sjálfa sig. Þá hafði hún þegar misst 25 kíló en átti enn langt í land.

„Ég hafði ekkert lagað til í hugsunum mínum og þar af leiðandi gerðist lítið sem að breytti mínu viðhorfi til sjálfs míns. Ég ákvað að nú væri komið gott af því að vera alltaf óánægð með sjálfa mig og fór að íhuga það hvernig ég gæti breytt því,“ segir Katrín Helga í viðtali við blaðakonu. Katrín er í dag tuttugu og fimm ára gömul, menntuð sjúkraliði og stundar nám við viðskiptafræði í fjarnámi við Háskólann á Akureyri.

Katrín Helga með dóttur sinni Amelíu Daðey

Erfiðleikarnir ná henni ekki þegar hún hleypur

Síðan Katrín tók þá ákvörðun að breyta lífsstílnum hefur hún náð góðum árangri bæði líkamlega og andlega. Blaðakona fékk að forvitnast hvað það var sem Katrín gerði til þess að bæta líf sitt.

„Í fyrsta lagi áttaði ég mig á því að það getur engin breytt því hvernig mér líður og hvernig ég lít út nema ég sjálf. Sömuleiðis getur engin breytt því hvernig ég horfi á sjálfa mig nema ég sjálf. Því þegar upp er staðið er það fyrst og fremst okkar álit sem á að skipta okkur máli. Ég ákvað að gera hreyfingu að skemmtilegu áhugamáli, einhverju sem mig langaði til þess að gera. Eitthvað sem ég þurfti ekki að gera fyrir einhvern annan. Þar af leiðandi píni ég mig ekki þegar kemur að hreyfingu og ég geri ekki æfingar sem mér finnst leiðinlegar heldur reyni ég að breyta þeim á þann hátt að mér finnist þær skemmtilegar.“

Katrín fann sjálfa sig í hlaupinu og segir hún ekkert jafnast á við það.

„Ég skráði mig fyrst í kvennahlaupið 2017 og hljóð þá sex kílómetra. Nú hef ég farið í fimm hlaup síðan og sú líðan sem ég fæ eftir að hafa afrekað að hlaupa nokkra kílómetra jafnast ekki á við neitt annað. Ég get ekki beðið eftir því að hafa efni á að skrá mig í næstu þrjú hlaup sumarsins en ég ætla í kvennahlaupið, miðnæturhlaup Suzuki og Reykjavíkurmaraþonið– ef fjárhagur leyfir. Það er það sem mig dreymir um og það er það sem að lætur mér líða vel. Maður er eitthvað svo frjáls þegar maður er að hlaupa – svona eins og erfiðleikarnir geti ekki náð manni akkúrat á þeirri stund. Ég vona bara það besta um að ég hafi efni á því,“ segir Katrín sem missti vinnuna í nóvember á síðasta ári og hefur staðið í ströggli síðan þá.

„Þegar ég missti vinnuna sigldi ég svolítið niður á við og hafði einungis orku til þess að hugsa um sjálfa mig, barnið mitt og skólann. Ég kláraði önnina og náði öllum áföngum. Ég er með öllu tekjulaus núna og það er alls kostar ekki auðvelt og ég veit ekkert með framhaldið. En ég finn og ég veit að það er alltaf leið upp úr erfiðleikunum aftur.“

Andleg og líkamleg heilsa helst í hendur

Katrín segir það mikilvægt að taka á andlegri heilsu sinni jafnt sem þeirri líkamlegu og að hún hafi breytt viðhorfi sínu og hugsunum algjörlega með nýjum lífsstíl.

„Ég breytti viðhorfi mínu og hugsunum, allt annað fylgdi svo með og er enn að þróast með mér í rétta átt. Þegar manni er farið að líða betur og maður er farinn að hreyfa sig og er léttari á sér, þá fer maður að velja hollari kosti, borða minna og hugsa hvað það er sem að maður lætur ofan í sig. Þú rærð ekki bát með einni ár, þetta helst allt saman í hendur.“

Katrín segir að það erfiðasta við ferlið hafi verið að læra að hugsa fallega til sín og að hún hafi barist við hugsanir sínar sem börðu hana niður ef hún fór út af sporinu.

„Ég þurfti að hætta að berja sjálfa mig niður til dæmis fyrir að borða súkkulaði. Það kemur alltaf nýr dagur og kannski mögulega borða ég ekkert súkkulaði þá og þá er það bara minn sigur. Ef mig langar í súkkulaði eða eitthvað annað þá fæ ég mér það og held síðan áfram þar sem frá var horfið í átt að mínu marki. Ég þurfti að læra að einblína ekki á að allt erfiði væri farið til einskis og að ég gæti allt eins farið til baka í sama horf og áður. Það er ekki þannig. Það er fátt auðvelt við það að breyta um lífsstíl að mínu mati. Maður verður að hefja hvern dag fyrir sig sem nýtt tækifæri til þess að gera betur en í gær. Það verður auðveldara að halda áfram með hverju markmiðinu sem þú nærð. Ég passa mig bara á að horfa til baka og minna mig á alla þá sigra sem ég hef náð til þess að komast akkúrat þangað sem ég er í dag. Það gefur mér drifkraft til þess að halda áfram.“

Segir Katrín mikilvægt að standa alltaf upp aftur ef erfiðleikar banki upp á og að það sé mikilvægt að hlúa að sjálfum sér, andlega og líkamlega.

„Það er mikilvægt að minna sig á að þú ert hérna núna, þú ert ekki í fortíðinni, þú ert ekki í framtíðinni heldur hér og nú. Þú getur ekki breytt því sem að hefur gerst og getur ekki stjórnað því sem fram undan er. Ég hef átt erfitt með kvíða og er það minn helsti ókostur – eða kostur, það fer auðvitað eftir því hvernig á það er litið. En ég þarf oft að minna mig á að ég er hér og nú. Með því að hreyfa mig þegar ég get, passa ég upp á líkamlega heilsu. Ég reyni að velja hollari kostinn og ég reyni alltaf mitt allra besta. Það er það besta sem að ég get gert fyrir mig. Á það líka við andlegu heilsuna og svo margt annað í lífinu.“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 2 dögum

Sam Smith viðurkennir að hann hafi svelt sig: „Það mun alltaf vera barátta fyrir mig að horfa í spegil“

Sam Smith viðurkennir að hann hafi svelt sig: „Það mun alltaf vera barátta fyrir mig að horfa í spegil“
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Sannleikurinn um samband Jennifer Aniston og Brad Pitt

Sannleikurinn um samband Jennifer Aniston og Brad Pitt
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Hugh Jackman gerði bráðfyndna auglýsingu fyrir Ryan Reynolds – Sjáðu myndbandið

Hugh Jackman gerði bráðfyndna auglýsingu fyrir Ryan Reynolds – Sjáðu myndbandið
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Aníta Rún: „Mikilvægt að geta sagt nei við börnin sín og standa við það“

Aníta Rún: „Mikilvægt að geta sagt nei við börnin sín og standa við það“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.