fbpx
Laugardagur 16.febrúar 2019
Bleikt

Dr. Helgi leyfði manni að lifa og konu að deyja

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 23. janúar 2019 21:00

Helgi Jóhannesson læknir. Samsett mynd/Pexels/imperial.nhs.uk

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fyrir nokkrum vikum hélt ég fyrirlestur fyrir hóp 17 ára nemenda við Mossbourne-skólann. Ég verð taugaóstyrkur við að halda svona fyrirlestra, hugsanlega meira en fyrir hóp lækna á ráðstefnu. Kannski er það ótti við að vera dæmdur leiðinlegur af táningum, en kannski er það ábyrgðin að geta haft áhrif á hugsun þeirra á einn eða annan hátt, mun meira en fyrir hóp af eldra fólki. Ég vildi gefa þeim smá áskorun og vekja þau til umhugsunar þannig að ég valdi að ræða um eitthvert forboðið umræðuefni, ég var ekki að fara að tala við þau um kynlíf þannig að ég ræddi við þau um dauðann.“

Svona hefst pistill dr. Helga Jóhannssonar, sérfræðings í svæfingalækningum, sem starfar í Lundúnum, sem hann skrifar á bloggsíðuna Trauma gas doc. Þar lýsir hann því hvers vegna það er mikilvægt að ræða um dauðann við fjölskyldumeðlimi.

„Ég sagði þeim frá tveimur sjúklingum, öðrum sem ég tel að ég hafi brugðist og öðrum sem ég tel að ég og samstarfsmaður minn höfum séð vel um í erfiðum aðstæðum. Ég tek það fram að ég breytti nokkrum smáatriðum til að tryggja nafnleynd, en sagan er sú sama.“

Varanlegar minningar af afa að deyja hægt

Fyrri maðurinn, sem Helgi telur sig hafa brugðist, kom til hans frá öðru sjúkrahúsi í alvarlegu ástandi. Ástandi sem getur hæglega verið lífshættulegt. „Aðgerðin til að laga þetta er risastór og mikil hætta á að viðkomandi láti lífið á skurðarborðinu eða á gjörgæslu eftir aðgerðina. Hann var á níræðisaldri, reykti enn þá, fór sjaldan út úr húsi og var greindur með alls kyns kvilla sem gerðu hættuna enn meiri. Það voru nánast engar líkur á að hann gæti aftur farið heim til sín, ef hann lifði af væru allar líkur á að hann myndi eyða ævinni á hjúkrunarheimili.“

Maðurinn var búinn að ræða við samstarfsmann Helga sem var búinn að útskýra stöðuna. Maðurinn var hins vegar búinn að heyra að það væri ekki víst að hann myndi deyja. „Lífsþrá hans var svo sterk að hann var alveg viss um að hann vildi fara í aðgerðina. Þrátt fyrir að ég væri mjög hreinskilinn við hann um lífslíkurnar þá var ekki hægt að sannfæra hann. Fjölskylda hans var líka mjög bjartsýn, sagði að hann væri baráttumaður sem myndi alltaf hafa betur þrátt fyrir litlar líkur.“

Helgi framkvæmdi aðgerðina og maðurinn lifði. „Því miður lést hann tveimur vikum síðar á gjörgæsludeild, enn þá meðvitundarlaus í öndunarvél. Hann var bólginn og marinn. Fjölskyldan hans heimsótti hann. Það sást hvað þau voru uppgefin og slegin yfir því að horfa upp á hann deyja hægt án þess að komast til meðvitundar.“

Helgi segir að hann hafi brugðist manninum með því að leyfa honum að fara í tilgangslitla aðgerð. Aðgerð sem hafi komið í veg fyrir að maðurinn gæti látið lífið hratt og með reisn. „Við gáfum fjölskyldu hans varanlegar minningar af honum að deyja hægt, myndir af mörðum föður þeirra og afa, tengdum við öndunarvél, fullkomlega háðan öðrum til að halda lífi.“

Lést í faðmi fjölskyldunnar

Hin sagan er um 82 ára gamla konu sem var að laga te fyrir eiginmann sinn þegar hún datt niður stiga á heimili þeirra. Eiginmaður hennar fann hana neðst í stiganum, ófæra um að hreyfa hendur eða fætur. Helgi segir að það fyrsta sem hún hafi sagt var: „Ég vil þetta ekki.“ Það var alveg ljóst hvað hafði komið fyrir, hún hryggbrotnaði og skaðaði mænuna. „Það var alveg ljóst að hún myndi aldrei geta náð fyrri hreyfigetu og yrði ávallt háð öðrum.“

Konan var lögð inn, henni voru gefin lyf og sneiðmyndataka staðfesti það sem Helgi og samstarfsmenn hans vissu. „Sonur hennar og dóttir voru þá komin til hennar. Það var augljóst að þau höfðu áður átt samtal um dauðann og aðstæður sem þessar. Við útskýrðum stöðuna fyrir konunni, með eiginmann hennar og börn viðstödd, og tókum sameiginlega ákvörðun um að hætta allri meðferð og leyfa henni að deyja.“

Þetta átti sér allt stað á svæði ætluðu til endurlífgunar þegar mikið var um að vera á slysadeildinni. „En þrátt fyrir það náðum við að skapa nánd. Þegar við hættum að gefa henni blóðþrýstingslyf varð hún sífellt þreyttari. Á næsta hálftímanum lést hún í rólegheitum umkringd fjölskyldu sinni.“

Helgi segir að það hefði verið lítið mál að spelka á henni hálsinn og tengja hana við öndunarvél. Þannig hefði hún getað lifað á gjörgæsludeild í marga daga, vikur eða jafnvel mánuði. „Hún hefði ekki getað gert neitt og dauðinn dregist á langinn. Hún var búin að ræða við fjölskyldu sína um dauðann og það skipti sköpum þegar kom að ákvörðuninni um að hvað ætti að gera fyrir hana.

Börn hennar voru búin að hugsa um hvað þau myndu gera í þessum aðstæðum. Það leikur enginn vafi á því að við tókum rétta ákvörðun og ég tel að við höfum veitt henni frábæra meðferð síðustu klukkustundirnar.“

Þegar Helgi ræddi við ungmennin í Mossbourne-skólanum þá vildi hann gefa þeim eitthvað til að hugsa um, eitthvað sem skoraði á þau að hugsa um lífið. Helgi segir að lokum: „Ég velti því fyrir mér hvort fyrri sjúklingurinn hefði gengið í gengum það sama ef 17 ára barnabarn hans hefði heyrt lækni tala um góðan dauðdaga í skólanum og rætt það við hann?“

Ari Brynjólfsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 2 dögum

Sam Smith viðurkennir að hann hafi svelt sig: „Það mun alltaf vera barátta fyrir mig að horfa í spegil“

Sam Smith viðurkennir að hann hafi svelt sig: „Það mun alltaf vera barátta fyrir mig að horfa í spegil“
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Sannleikurinn um samband Jennifer Aniston og Brad Pitt

Sannleikurinn um samband Jennifer Aniston og Brad Pitt
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Hugh Jackman gerði bráðfyndna auglýsingu fyrir Ryan Reynolds – Sjáðu myndbandið

Hugh Jackman gerði bráðfyndna auglýsingu fyrir Ryan Reynolds – Sjáðu myndbandið
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Aníta Rún: „Mikilvægt að geta sagt nei við börnin sín og standa við það“

Aníta Rún: „Mikilvægt að geta sagt nei við börnin sín og standa við það“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.