fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024

10 ómissandi bíómyndir um meðgöngu og foreldrahlutverkið

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 18. ágúst 2018 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Barnsburður og meðfylgjandi foreldrahlutverk, eins náttúrulegt eða hversdagslegt og það ku vera, er ekkert grín!
Spyrjið bara þá (eða sérstaklega þær) sem hafa gengið í gegnum hvort tveggja.

Þá kemur upp sú spurning hvernig slík ferli hafa verið framsett í kvikmyndum, af alvarleika eða kómík.

Hér teljum við upp 10 ómissandi kvikmyndir sem snúa að barnsburði og/eða fyrstu skrefunum í kjölfarið. Athugaðu hversu margar þú hefur séð.

 

Away We Go (2009)

Það eru ýmsar vangaveltur sem fara á flug þegar par á von á sínu fyrsta barni. Í þessari hæglátu en huggulegu gamanmynd kynnumst við þeim Veronu og Burt, ógiftu pari á fertugsaldri. Þegar Verona verður ólétt ákveður parið að eiga barnið þrátt fyrir að efast um foreldrahæfileika sína. Þau flytja í nýja íbúð sem er nær foreldrum hans, til þess að fá aðstoð við uppeldið en þá komast þau að því að foreldrarnir ætla sjálfir að flytja erlendis. Á meðan á atburðarásinni stendur veltir parið fyrir sér stóru spurningum lífsins og sambandinu sem blasir við þeim.

 

What to Expect When You‘re Expecting (2012)

What to Expect When You‘re Expecting vekur upp tilfinningar eins og maður sé að horfa á nokkra ágæta en auðgleymda gamanþætti strengda saman yfir tvo klukkutíma með sameiginlegt þema. Þessa sem eru með þennan sviðsetta og tilgerðarlega fíling þar sem enginn stórleikari fær ljótuna og allir líta út eins og nýklipptir úr tímariti (sem er því miður ekki alltaf raunin þegar meðganga er til umræðu). Það eina sem vantar er bara dósahláturinn. Augljóslega er ekki við öðru að búast þegar bíómynd er í rauninni byggð á þekktustu handbók Bandaríkjanna sem fjallar um meðgöngu og stig hennar frá A-Ö. Persónurnar og söguþræðirnir eru allir frumsamdir, eða teknir af lagernum öllu heldur. En að frátöldum leiðindunum er myndin einkennilega saklaus og kitlar bæði hláturtaugar og rífur í fáeinar hjartarætur þegar hún kemst upp með það.

 

Father of the Bride: Part II (1995)

Hér er komið framhald endurgerðar sem gekk út á það að Steve nokkur Martin var kúgaður í það að fjármagna stjarnfræðilega dýrt brúðkaup dóttur sinnar gegn eigin vilja… og vegna anna tókst honum ekki einu sinni að vera viðstaddur athöfnina. Í framhaldinu léttir aðeins á tilverunni og glímir hinn sami fjölskyldufaðir við gráa fiðringinn á hæsta stigi, sérstaklega í ljósi þess að verða afi auk þess að eiga von á nýju barni sjálfur á svipuðum tíma. Við tekur að sjálfsögðu mikill ærslagangur, aðstæðuhúmor og heimikil áhersla á svefnleysi pabbans, sem stjanar við dömurnar í sínu lífi allan sólarhringinn. Það eru ekki margir sem viðurkenna það, en seinni Father of the Bride myndin er í raun og veru betri en sú fyrri.

 

Rosemary‘s Baby (1968)

Hefur þú einhvern tímann fengið þá tilfinningu að spánýr og komandi arftaki þinn sé í raun og veru barn Djöfulsins? Þá ertu sennilega nær því að skynja ringulreið og martraðarkennda tilveru hinnar hæglátu Rosemary, sem er meistaralega túlkuð af Miu Farrow í þessari klassík.

 

Inside (2007)

Þessi er aldeilis fyrir lengra komna. Inside er frönsk „extrím“-hrollvekja frá árinu 2007 sem öruggt er að segja að sé ekki fyrir klígjugjarna eða viðkvæmar sálir. Þetta er mynd sem spyr spurningarinnar „hvað myndi gerast ef einhver ætlaði að stela frá þér barninu þínu… úr móðurkviðnum, ef þess þarf? Skemmst er að segja frá því að myndin leggur ekki mikið upp úr smekklegheitum og skilur lítið eftir fyrir ímyndunaraflið en á móti kemur taumlaus rússíbani, fullur af adrenalíni, óvæntum uppákomum, mætti móðureðlisins og viðbjóðinum sem getur fylgt afskiptum annarra af þér eða þínu barni. Fullkomin samlíking fyrir foreldrarulluna eins og hún leggur sig, en helst ekki horfa á þessa mynd rétt fyrir svefninn.
En hvað sem þið gerið, forðist endurgerðina.

 

Knocked Up (2007)

Það eru eflaust ófáir sem tengja sig við þessar aðstæður; að þurfa ekki bara að ganga með barn ókunnugs vitleysings, heldur einnig að þurfa að bíða eftir að sá vitleysingur þroskist og æxli ábyrgð þá mikilfenglegu níu mánuði sem fylgja skeiðinu? Knocked Up er hin stórfurðulega en merkilega einlæga blanda „hasshausamyndar“ og rómantískrar kómedíu um lífið, ábyrgð og sambandsdýnamík í sinni náttúrulegustu mynd, ef svo mætti segja. Myndin er fjarri því að vera stutt seta en hún býr yfir viðkunnanlegu stefnuleysi (rétt eins og persóna Seth Rogen í myndinni) og leynir helling á sér eftir því sem á líður. Margir saka myndina um að vera langdregna, en meðgöngustigið hefur nú reyndar aldrei verið skammt ferli.

 

Children of Men (2006)

Dramatryllir með vísindaskáldsöguívafi – og þrumugóð „eftirheimsendamynd“ í þokkabót. Á sama tíma er erfitt að segja að þetta sé hin dæmigerðasta meðgöngumynd, en ófrísk kona spilar risastóra rullu í söguheimi þar sem mannkynið getur ekki lengur fjölgað sér. Ástæðan er ekki gefin upp en barnshafandi flóttakona verður fyrsta manneskjan í um 18 ár til þess að bera barn undir belti en hún lifir í veröld þar sem kaos og manía ræður ríkjum. Spegilmyndir samfélagsins eru skýrar en myndin er vönduð, vel gerð og skilur ýmislegt eftir sig. Hið fínasta mótvægi við hinar sykurpúðamyndirnar á listanum.

 

Fools Rush In (1997)

Hefur Matthew Perry nokkurn tímann getað leikið einhvern annan en Chandler Bing? Er Salma Hayek spænsk gyðja með ómældan sjarma og kynþokka? Er hægt að flýta sér hægt? Þessum spurningum er svarað í bíómynd sem best skal lýsa sem auðmeltum sykurmola en ekki skal horfa framhjá duldum töfrum hennar. Fools Rush In fer eftir öllum klisjum bókarinnar en stundum er það bara í fínasta lagi. Hún hefur jákvæðan boðskap og eru eflaust margir sem finna eitthvað til að tengja sig við í henni, þó það sé ekki nema Friends-nostalgían eða afturhvarf til tíma þar sem Hayek var ein umtalaðasta heilladísin í bænum.

 

Bridget Jones‘s Baby (2016)

Hún Bridget Jones er alltaf söm við sig, sem sagt algjör aulabárður – sama hvort málið snýr að karlamálum eða kúnstinni að halda andlitinu á vinnustað. Þess vegna má aðeins ímynda sér hvernig hún tekst á við (fremur óvænta) óléttu, eða jafnvel fylgjast með því. Bridget Jones‘s Baby var stórvinsæl þegar hún kom út árið 2016 (einum 12 árum á eftir síðustu mynd) og sýnir hvernig aðeins Bridget ein getur flækt fyrir sér aðstæðum eins og meðgöngu á jafn kómískan og farsakenndan hátt og henni fylgir. Hjá henni er það aukaatriði eða seinni tíma vandamál hver faðir barnsins er, sérstaklega þegar liðsauki tveggja myndarlegra karlpunga er til staðar. Stórfyndin og ljúf froðumynd sem kemur öllum í betra skap. Emma Thompson ætti einnig að sjá til þess að grípa nokkur aukaglott.

 

Tully (2018)

Tully er nýjasta myndin úr smiðju handritshöfundarins Diablo Cody, sem gerði garðinn frægan með myndum eins og Juno, Young Adult og þáttaröðinni United States of Tara. Charlize Theron leikur tveggja barna móður að nafni Marlo sem á von á þriðja eintaki sínu, en lífið er ekki alveg að spilast út eins og best mætti fara að. Þá fær Marlo þá hugmynd í hendurnar um að ráða næturfóstru þegar líður að nýjasta krílinu, til þess að gera lífið auðveldara og vonandi ná einhverjum svefni fyrir næstu áramót. Í kjölfarið hefst atburðarás sem hefur afleiðingar og uppgötvanir í för með sér sem Marlo gat ómögulega séð fyrir. Tully er beinskeytt, lágstemmd en ofar öllu frábær saga um hið ósagða í móðurhlutverkinu. Enn fremur gengur myndin út á þá ofurhetjukúnst sem fylgir því að sinna bæði eigin þörfum og andlegri heilsu ásamt afkvæmunum.

 

FLEIRI GÓÐAR: She’s Having a Baby (1988), Look Who’s Talking (1989), Saved! (2004), Junebug (2005), Waitress (2007)

 

Eru einhverjar myndir sem þér finnst vanta?
Láttu okkur vita í athugasemdum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Kemur vel til greina að fyrrum stjóri United taki við Bayern – Einum færri á blaði eftir fréttir dagsins

Kemur vel til greina að fyrrum stjóri United taki við Bayern – Einum færri á blaði eftir fréttir dagsins
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.