fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Eva Rún varð ólétt 14 ára gömul og varð fyrir hrottalegu einelti í kjölfarið: „Eitthvað inni í mér hvarf þennan dag“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 4. júní 2018 12:00

Var kölluð „litla, feita druslan“ í skóla eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu eldri drengs.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva Rún Hafsteinsdóttir varð ólétt að sínu fyrsta barni þegar hún var einungis fjórtán ára gömul. Í kjölfarið varð hún fyrir hrottalegu einelti þar sem hún var meðal annars beitt líkamlegu ofbeldi af skólafélögum sínum.

Í dag er Eva orðin tuttugu og þriggja ára gömul, tveggja barna móðir sem búsett er á Akranesi ásamt unnusta sínum. Erfið æska Evu hefur mótað líf hennar og segir hún starfsmenn grunnskólans hafa brugðist henni.

„Skólinn hafði ekki hugmynd um hvernig hann átti að taka á hlutunum þannig að ég fékk heimakennslu út níunda og tíunda bekk. Skólinn brást mér,“ segir Eva Rún í viðtali við Bleikt.

Misnotuð kynferðislega sumarið fyrir fyrsta bekk

Eva ólst upp í Breiðholti þar sem hún gekk í Hólabrekkuskóla. Þar var hún lögð í mikið einelti alveg frá upphafi.

„Ég var öðruvísi en hinir krakkarnir, stór miðað við aldur og þybbin. Ég var misnotuð kynferðislega, sumarið fyrir fyrsta bekk, af strák sem var þremur árum eldri en ég. Hann gekk í sama skóla og ég og montaði sig af því að hafa misnotað mig. Eftir það var ég kölluð litla, feita druslan.“

Eineltið hafði mikil áhrif á Evu og grátbað hún móður sína á hverjum degi um að senda hana ekki í skólann.

„Ég bað hana að segja að ég væri lasin af því að ég gat ekki meira. Mig langaði frekar að deyja en að þurfa að mæta einn dag í viðbót.“

Eignaðist kærasta sem var fimm árum eldri

Þegar Eva var að byrja í fimmta bekk flutti fjölskyldan til Selfoss þar sem lífið virtist loks ætla að fara upp á við.

„Loksins fannst mér tilvist mín vera þess virði. Við vorum öll jöfn, það var öllum alveg sama þótt þú værir ekki grönn, æfðir ekki fótbolta og ættir ekki nýjustu fötin. Ég átti fjölda vina og loksins leið mér eins og barni á að líða.“

Rúmlega tveimur árum síðar flutti fjölskylda Evu til Hafnarfjarðar þar sem hún fór í Víðistaðaskóla. Þar eignaðist Eva strax góða vini og vinkonur og ekkert einelti átti sér stað, á þeim tímapunkti.

„Ég kynnist barnsföður mínum í mars árið 2009 og hófum við fljótlega samband. Hann var fimm árum eldri en ég og það sjokkeraði fólkið í kringum mig. Á svipstundu var ég orðin ógeðsleg hóra fyrir að vera með eldri strák. En ég lét það ekki stoppa mig, litla hvolpaástin.“

Sannfærð um að hún væri með heilaæxli

Um leið og Eva hóf samband með barnsföður sínum lét móðir hennar hana byrja á pillunni en hún telur líklegt að hún hafi þá þegar verið orðin ólétt og því hafi pillan ekki virkað sem skyldi.

„Í október sama ár fór ég að taka eftir því að glær vökvi var farin að leka úr brjóstunum á mér. Eftir mikla leit á Netinu greindi ég sjálfa mig með góðkynja heilaæxli því ég var sko alls ekki ólétt. Ég hafði þegar tekið fimm þungunarpróf sem komu öll neikvæð út og vildi afleysingalæknir meina að blæðingarnar væru óreglulegar út af pillunni. Þarna var ég búin að sannfæra mig algjörlega um að ég væri með heilaæxli og sagði mínum nánustu vinkonum að ég væri á leiðinni til læknis vegna gruns um það. Aldrei hefði mér dottið í hug að þegar ég gengi út frá lækninum væri ég komin 22 vikur á leið og væri að fara að eignast barn.“

Eva segist vera heppin hvað foreldrar hennar hafi verið sterkir því þeir hafi hjálpað henni í gegnum allt ferlið.

„Ef ég hugsa til baka þá var pabbi líklega á barmi taugaáfalls og mamma sagði mér að henni hefði liðið eins og lest hefði keyrt yfir hana. Ég vil meina að ástæðan fyrir því að ég græt lítið í dag sé sú að ég grét öllum tárunum mínum inni á heilsugæslunni þennan dag. Eitthvað inni í mér hvarf þennan dag og ég varð gjörsamlega dofin. Ég man að pabbi sagði við mig alla leiðina heim að þetta myndi reddast og við myndum gera þetta saman. Svo grét í ég í fanginu á mömmu.“

Fékk áfall þegar þungunin var staðfest

Eva segir að tímabilið eftir að hún fékk þær fregnir að hún væri með barni hefði verið mjög undarlegt enda hefði hvorki hún né barnsfaðir hennar áttað sig almennilega á stöðunni.

„Við vissum hvorugt hvað við áttum að segja og hvernig við áttum að láta. Ég var fjórtán ára og hann nítján ára. Við lágum uppi í rúmi alla nóttina og sögðum ekki orð. Hvernig gerðist þetta eiginlega? Vinkonur mínar vissu ekki hvort þær ættu að óska mér til hamingju eða ekki en ég bað þær um að segja ekki orð fyrr en ég væri búin í sónar.“

Í sónarnum var staðfest að Eva væri gengin 22 vikur, ætti von á strák og væri sett þann 16. febrúar árið 2010.

„Í kjölfarið þurfti ég að tilkynna þetta því ég gat ekki falið bumbuna. Það var eins og ég hefði kastað banvænum sjúkdómi inni í skólastofu og lokað dyrunum á eftir mér. Það þorði enginn að tala við mig heldur töluðu allir um mig í staðinn. Kannski vissu þau ekki hvernig þau áttu að bregðast við, en ég veit að ég átti þetta ekki skilið. Það á enginn skilið að láta lemja sig eða að skitið sé í poka og hann settur inn í skápinn manns, vera eltur heim úr skólanum, gerð símaöt í, eggjum sé kastað í heimili manns og svo framvegis.“

Fullorðnar konur hneyksluðust á Evu og fjölskyldu hennar

Áður en Eva vissi af var hún á milli tannanna á öllum.

„Það voru reglulega umræður um mig inni á Barnalandsspjallinu þar sem fullorðnar konur hneyksluðust á mér og sérstaklega fjölskyldu minni fyrir að hafa leyft mér að verða ólétt. Ég varð fyrir stöðugu áreiti hvert sem ég fór og það endaði með því að ég einangraðist mikið, varð mjög þunglynd, kvíðin og glímdi við mikla félagsfælni.“

Enn þann dag í dag lifir Eva með afleiðingum eineltisins og telur hún ekki líklegt að hún muni nokkurn tímann ná að vinna almennilega úr því.

„Ég þarf alltaf að þóknast öðrum, pæli mikið í hvað öðrum finnst, reyni að vera eins og fólk vill að ég sé, á virkilega erfitt með að svara símanum og á mínum slæmu dögum þá held ég mig bara innandyra.“

Einelti drepur

Eva telur að starfsfólk skólans hefði getað sýnt henni meiri stuðning á sínum tíma og að best hefði verið ef rætt hefði verið við gerendurna í staðinn fyrir að loka hana af.

„Fræðsla hefði líka gert skólanum gott. Draumurinn minn er að geta haldið fyrirlestur í skólum til þess að forðast að önnur stelpa lendi í því sem ég lenti í.“

Eva biðlar til þeirra sem leggja aðra í einelti um að velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem þau sjálf myndu vilja lenda í.

„Ef þú ert gerandi eineltis, stoppaðu þá. Það hefur sýnt sig að einelti drepur og þú vilt ekki vera með það á samviskunni að manneskja hafi svipt sig lífi út af asnaskap í þér.“

Hægt er að fylgjast með Evu á Snapchat og Instagram undir notandanafninu: evarun95

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Fögnuður Óskars í Noregi vekur mikla athygli – Af hverju var þetta lag undir?

Fögnuður Óskars í Noregi vekur mikla athygli – Af hverju var þetta lag undir?
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Þetta eru leikirnir sem liðin í titilbaráttu eiga eftir – Hvar endar sá stóri?

Þetta eru leikirnir sem liðin í titilbaráttu eiga eftir – Hvar endar sá stóri?
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Um átta af hverjum tíu óánægð með að Bjarni hafi sest í stól forsætisráðherra

Um átta af hverjum tíu óánægð með að Bjarni hafi sest í stól forsætisráðherra
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Hefur fulla trú á sínu liði gegn ógnarsterkum andstæðingi – „Þurfum að horfa á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá“

Hefur fulla trú á sínu liði gegn ógnarsterkum andstæðingi – „Þurfum að horfa á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.