fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Borgin mín: Los Angeles „Ég elska hvað borgin og mannlífið eru fjölbreytt“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 17. júní 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnea Björg Jónsdóttir flutti fyrir fimm árum til Los Angeles, nýorðin 19 ára gömul. Að koma þangað hafði verið draumur hennar frá því að hún var lítil. Hún er ekki tilbúin til að flytja aftur heim til Íslands strax, enda segist hún eiga eftir að læra og áorka miklu vestanhafs.

„Árið 2012 var móðir mín að fara í vinnuferð til þess að kenna á naglanámskeiði í Los Angeles. Hún hringdi í mig eldsnemma um morgun þegar ég var í skólanum og kom mér á óvart með ferð til Los Angeles. Ég grét af spenningi þegar við lentum, að koma hingað var búinn að vera draumur frá því að ég var lítil. Ferðin var æðisleg og ég varð ástfangin af borginni,“ segir Magnea, sem á þessum tíma var að vinna fyrir Söru í Júník sem hafði mikið talað um tímann sem hún varði í Los Angeles til að kaupa inn fyrir fyrirtækið, og að njóta lífsins. „Ég og frænka mín ákváðum að sækja um í Santa Monica College, og komumst báðar inn, þá var ekki aftur snúið. Þetta gerðist allt rosalega hratt og ég gerði mér í raun ekki grein fyrir hversu mikill viðsnúningur væri að verða á lífi mínu fyrr en kom að kveðjustund uppi á flugvelli. Þetta var pínu óraunverulegt og er það enn, að hafa verið nýorðin 19 ára að flytja ein í svona stórborg. En þetta hafðist og ég útskrifaðist með AA-gráðu í samskiptafræðum í fyrra. Ég stefni á áframhaldandi nám í haust.

Ég elska hvað borgin og mannlífið er fjölbreytt, ég er búin að kynnast svo mörgu fólki frá öðrum löndum, menningarheimum og trúarbrögðum og þetta hefur kennt mér svo mikið. Lífshraðinn er mikill í Los Angeles, borgin er stútfull af metnaðarfullu fólki að elta draumana sína og markmið sem ég elska að vera í kringum því maður hittir svo margt ástríðufullt fólk sem hjálpar þér og kennir svo marga hluti. Svo má auðvitað ekki gleyma fallegu pálmatrjánum, sólinni og hitanum sem við Kaliforníubúar fáum allan ársins hring.

Ástæða þess að ég hef ekki enn flutt aftur heim til Íslands er einfaldlega sú að ég er ekki tilbúin til þess. Markmiðum mínum hérna úti er ekki öllum náð, og ég á enn eftir að læra og áorka miklu. Ég er í æðislegri vinnu einmitt núna, sem er toppurinn á tilverunni. Eins og kom fram þá stefni ég á að halda áfram í námi og byrja að öllum líkindum í Bachelor of Business Administration í haust. Ég er mjög fróðleiksþyrst, ég elska að rækta ný sambönd og reynslu sem gætu gagnast mér í framtíðinni. Ég elska viðskiptalífið, og langar að læra eins mikið og ég get til þess að geta hrint hugmyndum mínum í framkvæmd, fyrr heldur en síðar.“

Fékk fyrstu íbúðina leigða á traustinu einu saman

Magnea hefur búið á nokkrum stöðum í Los Angeles, ýmist ein eða með íslenskum eða erlendum vinkonum. „Það er mjög erfitt fyrir útlendinga að finna íbúðir hérna í Bandaríkjunum því við erum til að byrja með ekki með Social Security-númer, ekkert „credit score“ sem er eiginlega svona traustverðugleika/lánshæfismat, og engar bakgrunnsupplýsingar liggja fyrir, sem setur okkur í ákveðinn áhættuflokk fyrir leigusala. Þegar ég flutti fyrst til Los Angeles bjuggum ég og frænka mín í Culver City í tveggja herbergja íbúð. Við leituðum lengi að íbúð og vorum mjög heppnar með fyrstu leigusalana okkar sem voru tilbúnir til þess að treysta okkur og hjálpa okkur. Ég heyri svipaðar sögur frá öðrum Íslendingum sem hingað flytja, að margar fyrstu íbúðir koma til út af heppni og góðmennsku. Við frænka mín bjuggum þar saman í um fjóra mánuði þangað til leiðir okkar skildi og við þurftum að flytja í sitt hvoru lagi. Þá flutti ég í Brentwood/Santa Monica sem er mjög flott hverfi nálægt ströndinni. Ég bjó í fimm mánuði með þremur stelpum, ein, sem ég deildi herbergi með var frá Sviss, og tvær sem deildu hinu herbergi íbúðarinnar voru frá Tyrklandi og Úkraínu. Sumrinu eftir fyrsta árið mitt í skólanum eyddi ég á Íslandi í að safna pening, vinnandi á lagernum hjá Ölgerðinni. Þegar skólinn byrjaði aftur flutti ég inn með stelpu sem var mín fyrsta vinkona hér í Los Angeles, hún er frá Rússlandi og ég flutti inn með henni og franska kærastanum hennar í aðra íbúð í sömu blokk. Við bjuggum þar saman í ár þangað til við ákváðum að flytja. Þau fengu sér íbúð saman og ég flutti til Marina Del Rey með tveimur íslenskum stelpum, en það er æðislegt hverfi með fram ströndinni og nálægt skólanum mínum. Eftir útskrift fluttum við svo í miðbæ Los Angeles og þar erum við búnar að vera í næstum því ár. Þetta er mjög spennandi staður til að búa á en pínu skítugur, mikið af heimilislausu fólki og loftmengun. Eins og sést hef ég búið víða, og uppáhaldsstaðurinn minn til að búa á hlýtur að vera Brentwood/Santa Monica. Þar er svo fallegt, mikill gróður, mjög hreint og alltaf góð sjávargola. Ef ég gæti flutt í hvaða götu sem er þá myndi ég klárlega flytja á Mulholland Drive í Hollywood Hills. Ótrúlega falleg gata uppi í hæðunum með glæsivillum úti um allt.“

Útsýni yfir Los Angeles frá Mulholland Drive.

Sushi í salatformi er uppáhalds

Aðspurð um eftirlætis veitingastaði, bæði hversdags og til hátíðarbrigða stendur ekki á svörum hjá Magneu. „Ég er mjög vanaföst með mat og fæ mér yfirleitt alltaf það sama á sömu stöðunum. Ég fer vanalega á sömu staðina út að borða og fæ mér það sama alltaf. Uppáhaldsmaturinn minn er pítsa og ég er fastagestur á Blaze Pizza, þar borgarðu eitt verð ($10) og mátt setja eins mikið á pítsuna þína og þú vilt. Ef ég er í stuði fyrir sveittan, feitan hamborgara þá fer ég vanalega á In-n-Out Burger sem er algjört „möst“ að prófa ef maður kemur til Kaliforníu, þar sem þeir staðir eru bara hér og á örfáum stöðum í Nevada og Arizona. Stundum fer ég líka á The Habit Burger þar sem hún Bryndís Rut, vinkona mín, er fastagestur. Fyrir bestu kjúklingavængina er Wingstop númer 1, 2 og 3! En það er klárlega uppáhaldsskyndibitinn í Bandaríkjunum.

Hamborgarinn hjá In-n-Out Burger er svo sannarlega girnilegur.

Ef ég er að reyna að borða í hollari kantinum þá elska ég Tender Greens eða „poke bowl“, sem er klárlega einn af mínum uppáhaldsréttum, en það er sem sagt sushi í salatformi. Mæli klárlega með því!

Síðan er líka „möst“ þegar þú kemur til Los Angeles að koma við á „taco truck“ og fá þér „al pastor tacos“ (svínsrass). Mexíkóskur matur er klárlega vinsælastur hér enda mikið um mexíkóskan kúltúr í þessari borg. Korean BBQ er líka skemmtilegt, hlaðborðsstemning og maður má borða eins mikið og maður vill, og maður eldar matinn sjálfur á borðinu sínu!

Ég elska líka að elda heima og ég er með algjöra dellu fyrir einni matvöruverslun sem heitir Trader Joe’s. Sú búð selur einungis sína eigin vörulínu, hágæðavörur, lífrænar, GMO-lausar.

Ég fer voða lítið „fancy“ út að borða sjálf en ef ég fer þá mæli ég með Catch LA, þú munt alltaf sjá einhvern frægan þar inni. BOA Steakhouse í Beverly Hills er geggjað steikhús með besta sesarsalatið í bænum. Katana í Beverly Hills tekur besta sushiið og síðan elska ég TAO í Hollywood.

Uppáhaldskaffihúsið mitt er Urth Café, það er mjög rólegur og „fancy“ kaffistaður. 85 Degrees Bakery er líka geggjað, það er asískt bakarí og kaffihús með endalaust úrval af girnilegum kökum og brauðum. Það minnir mig svolítið á íslensk bakarí en það er ekki mikið um bakarí eins og við þekkjum þau hér úti.“

Á Catch LA má alltaf treysta á að sjá einhvern frægan.

Næturklúbbarnir eru sérhæfing Magneu

Magnea vinnur á mörgum næturklúbbum við að fá fólk til að koma inn á staðina, svokallaður „host“ og á hún því auðvelt með að segja hvaða klúbbar eru vinsælastir: „Næturklúbbarnir eru svo örugglega mín aðalsérhæfing – ég er „host“ á mörgum klúbbum, sem felst í því að ég fæ fólk til að koma á klúbbinn og útvega þeim þá þjónustu sem fólkið vill fyrir kvöldið og þess háttar, sel svo sem flöskuborð og tek prósentur af minni sölu, og þekki margt fólk í þeim bransa. Í Los Angeles eru allir vikudagar djammdagar, og á flestum skemmtistöðunum er aðallega spilað hip-hop. 1OAK er bestur á fimmtudögum og laugardögum. Á mánudögum er gaman að fara á Ace of Diamond sem er klúbbur og strippklúbbur. Á sunnudögum á sumrin eru dagpartí mjög vinsæl, til dæmis á The Penthouse. Aðrir staðir sem vert er að nefna eru Hyde, Poppy og Warwick. Ég elska líka að kíkja á bari, ef maður er í stuði fyrir góða margarítu mæli ég með Cabo Cantina sem er mexíkóskur, svo má ég til með að nefna Taco Madera sem er vinsæll bar/veitingastaður í West Hollywood. Svo er æði að kíkja á þakbarinn á W Hotel í drykk!“

10AK, smekklegur og töff næturklúbbur.

Uber er klárlega málið þegar Magnea keyrir ekki um á lúxusbifreið

Í stórborg eins og Los Angeles eru margs konar samgöngumátar í boði og Magnea er búin að prófa þá flesta og segir Uber vera þann besta. „Þegar ég var nýflutt til Los Angeles þá ferðaðist ég með strætó. Almenningssamgöngurnar hérna eru ekki upp á marga fiska en það hefur breyst aðeins til hins betra, fínt lestarkerfi til dæmis. Ef ég er ekki á bíl þá er Uber klárlega málið. Okkur vantar klárlega Uber á Íslandi.

Í dag felst mín vinna í því að reka lúxusbílaleigu í Beverly Hills sem heitir Royal Exotic Car Rental. Ég vinn alla daga vikunnar, 24/7, þannig að ég keyri yfirleitt um á einum af vinnubílunum, en úrvalið hjá okkur hefur að geyma bíla eins og Lamborghini, Rolls Royce, Ferrari, Maybach, G Wagons, Bentley og fleiri sem ég hef til afnota, sem er náttúrlega bara skemmtilegt,“ segir Magnea og er líklegt að margir öfundi hana af þeim farkostum.

Magnea elskar að taka að sér hlutverk leiðsögumanns

Það er ljóst að af nægu er að taka í Los Angeles fyrir ferðamann í borginni, en hvenær mælir Magnea með að borgin sé heimsótt og hverju mælir hún með til afþreyingar? „Besti tíminn til að upplifa borgina er á sumrin. Það getur orðið svolítið mikið heitt en ótrúlega fallegt. Ef ég fæ gesti í heimsókn þá er ég vanalega búin að plana vel fram í tímann það sem ég vil gera með fólki, en ég elska að bregða mér í hlutverk leiðsögumanns og sýna fólki um.

Ég mæli með að tekinn sé heill dagur á Venice Beach og Santa Monica. Þá er hægt að byrja á að röltu um Venice og skoða, þar er Muscle Beach, hjólabrettapallar, fjöldi búða og margt götulistafólk. Síðan að leigja hjól/línuskauta/hlaupahjól/rafmagnshjól og hjóla með fram ströndinni til Santa Monica. Þar er bryggjan fræga sem birtist í mörgum kvikmyndum og mjög gaman að ganga þar um. Rétt hjá er svo verslunargatan Third Street Promenade. Þar er aragrúi af flottum búðum, margir túristar, nóg af börum og veitingastöðum og heilmargt að gera fram eftir kvöldi.

Hin fræga Santa Monica bryggja.

Svo mæli ég með heilum degi í Hollywood. Það er hægt að byrja daginn á að fara í „fjallgöngu“ eða „hike“ upp að Hollywood-skiltinu. Fara síðan á Hollywood og Highland gatnamótin þar sem stjörnugangstéttin er, vaxstyttusafnið og nóg af búðum og öðru í kring. Ef þú ert á bíl (ef ekki geturðu keypt miða í Starlines-rútu) geturðu keyrt Mulholland Drive og séð öll flottu húsin og útsýnið yfir alla borgina. Þaðan geturðu farið í Griffith Observatory-safnið og skoðað og lesið og lært. Síðan endað daginn á Hollywood og Highland aftur á staðnum Dave and Busters í bjór, borgara og leiktækjum.

Á sunnudögum er gaman að ganga hjá Melrose og Fairfax. Ef þú ert mikið fyrir „street fashion“ og „custom made“ föt þá er það staðurinn fyrir þig. Á sunnudögum er líka risastór markaður með heilmikið af „vintage“-fötum. Þaðan er hægt að rölta í Bape-búðina, Round Two (sölu/skiptibúð fyrir dýrar vörur) Supreme-búðina, Cool Kicks (vinsælir og einstakir strigaskór) og Flight Club. Þaðan mæli ég með að farið sé á Rodeo Drive sem er vinsæla verslunargatan með öllum dýru merkjabúðunum eins og Louis Vuitton, Gucci, Chanel, Versace, Saint Laurent og fleira.

Ef þú ert að koma til Los Angeles til þess að versla mæli ég með Citadel Outlets. Það er risa „outlet“ með búðum eins og Armani, Nike, Adidas, Tommy Hilfiger, Coach og fleira. Stærsta verslunarmiðstöðin í Los Angeles heitir síðan Westfield Topanga Mall í Calabasas (þar sem Kardashians og Drake búa). Ég elska mest að versla á fyrrnefndu Third Street Promenade ásamt Westfield-verslunarmiðstöðvakeðjunni. Svo er gaman að fara í miðbæinn í Santee Alley í „Fashion District“-inu. Það er stór og langur markaður með föt frá búðum eins og Fashion Nova, Pretty Little Things, Júník og Maníu. Hellingur af sólgleraugum, töskum og skóm.

Skemmtilegir og áhugaverðir hlutir til að gera í Los Angeles að mínu mati eru að fara á línuskauta í World on Wheels, Pinch Bowling Alley í keilu á miðvikudögum ef þú vilt hitta rappara. Ef þig langar í kúltúrsjokk farðu á „Skid Row“ þar sem heimilislaust fólk hópast saman og býr í tjaldborgum (EKKI fara fótgangandi). Þá sérðu skýrt hvað við höfum það til dæmis gott á Íslandi, en þetta er ekki fyrir alla að sjá. Það eru asískar matvörubúðir úti um allt með mjög skrýtnum og skemmtilegum mat, til dæmis í Chinatown, Koreatown, Little Tokyo. Karókístaðirnir eru mjög skemmtilegir. Ef þú ert á bíl geturðu keyrt með fram ströndinni og upp í Malibu, getur tekið „hike“ að „The Wisdom Tree,“ prófað Jewish Shabbat Meal á föstudögum og kynnst fleiri trúarbrögðum og fjölbreyttari menningu þar í kring, þar sem það er nóg að læra og skoða.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Vonar að United tapi 5-0 eftir hegðun eins leikmanns – ,,Hann ætti að skammast sín“

Vonar að United tapi 5-0 eftir hegðun eins leikmanns – ,,Hann ætti að skammast sín“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Liverpool þarf að taka stóra ákvörðun í sumar: Er hann ekki nóg fyrir liðið? – ,,Þurfum að spyrja spurninga“

Liverpool þarf að taka stóra ákvörðun í sumar: Er hann ekki nóg fyrir liðið? – ,,Þurfum að spyrja spurninga“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Fyrrum stjóri Manchester United staðfestir viðræður

Fyrrum stjóri Manchester United staðfestir viðræður
433
Fyrir 17 klukkutímum

Mjólkurbikar karla: Valur burstaði FH – KR lenti undir en vann stóran sigur á Ásvöllum

Mjólkurbikar karla: Valur burstaði FH – KR lenti undir en vann stóran sigur á Ásvöllum
433
Fyrir 18 klukkutímum

Enska úrvalsdeildin: Liverpool fór langt með að stimpla sig út úr titilbaráttunni – United þurfti að hafa fyrir sigrinum

Enska úrvalsdeildin: Liverpool fór langt með að stimpla sig út úr titilbaráttunni – United þurfti að hafa fyrir sigrinum

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.