fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Jóhanna Bjarndís hefur misst hvert fóstrið á fætur öðru: „Suma daga er ég tilbúin í aðra baráttu en aðra daga ekki“

Aníta Estíva Harðardóttir
Fimmtudaginn 14. júní 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhanna Bjarndís Arapinowicz hefur, ásamt eiginmanni sínum reynt að eignast barn í ellefu ár án árangurs. Telur Jóhanna að þunganirnar séu komnar upp í níu skipti núna og hefur hún misst hvert fóstrið á fætur öðru.

Erfiðleikarnir og sorgin sem par upplifir í erfiðleikum sem þessum eru ólýsanleg. Jóhanna berst daglega við hræðsluna um enn eina höfnunina en þó heldur parið áfram að reyna.

„Það er í rauninni ekki vitað hvað er að en talið er að ég sé með léleg egg. Ekkert hefur fundist athugavert við legið sjálft annað en það að ég er með PCOS [Innsk. Blaðamanns: Fjölblöðru eggjastokka heilkenni],“ segir Jóhanna í samtali við Bleikt.

Ekki alltaf tilbúin í aðra baráttu

Jóhanna og eiginmaður hennar hafa markvisst verið að reyna að eignast barn frá árinu 2009 en hafa þó sleppt því að nota varnir í lengri tíma. Þau hafa einnig farið í fjöldann allan af meðferðum.

„Kostnaðurinn við þetta er hræðilegur, við erum löngu búin með alla þá styrki sem við höfum geta sótt um ásamt allri niðurgreiðslu frá ríkinu. Okkar næsta meðferð verður með gjafaeggi og er kostnaðurinn við hana rúmlega 800.000 krónur. Við eigum góða að og eigum þann pening tilbúinn. Núna bíðum við bara róleg eftir gjafaeggi. Ég er næstum því ekki tilbúin til þess að fara aftur í meðferð út af hræðslu við höfnun. Suma daga er ég tilbúin í aðra baráttu en aðra daga er ég alls ekki tilbúin.“

Það lengsta sem Jóhanna hefur gengið með barn eru tíu vikur.

„Ég hef fengið utanlegsfóstur líka og þá var vinstri eggjaleiðarinn tekinn. Úr því að ég hef bara einn eggjaleiðara þá var stefnan tekin beint í glasafrjóvgun og höfum við nú þegar farið í fjórar þannig og eina uppsetningu á frystum fósturvísum.“

Skortur á þjónustu vegna andlegra erfiðleika

Jóhanna segir þjónustuna fyrir fólk í vandræðum með barneignir hafa skánað mikið síðan að IVF Klíníkin tók við af Art Medica en að aðstoð vegna andlegra erfiðleika skorti þó alltaf.

„Núna heitir þetta reyndar Livio. Þegar maður stendur í svona baráttu þá á manni að vera boðið í gríð og erg að komast í einhverja samtalsmeðferð. Maður er svo búinn á því og hefur enga krafta til þess að leita sjálfur að aðstoð í þeim málum.“

Árið 2017 hóf Jóhanna að skrifa bloggfærslur um ferli sitt og taldi hún að það myndi hjálpa henni að halda sönsum í gegnum erfiðleikana. Jóhanna gaf Bleikt góðfúslegt leyfi til þess að birta hluta úr færslunum í þeirri von um að þeir sem séu að ganga í gegnum svipað ferli og þau finni mögulega huggun í því að vita að þau séu ekki ein. Einnig er mikilvægt fyrir þá sem ekki hafa gengið í gegnum erfiðleika sem þessa að skila hversu erfitt ferlið getur verið og hvað það getur tekið mikið á andlega og líkamlega.

Hér fyrir neðan má lesa hluta af færslum Jóhönnu:

Færsla frá 14. febrúar 2017.

„Nú eru hjólin farin að snúast. Ég var viss um að ég væri ólétt. Búin að googla allt í döðlur, búin að komast að því hvað ég væri komin langt. Las hvað var að gerast líffræðilega séð. Sá dagsetningu komu barnsins. Var næstum því búin að sækja app í símann til þess að mæla meðgönguna. Núna sit ég við tölvuna með stórt L á enninu (Lúser). En svona er þetta og hefur verið hegðun mín í marga mánuði í mörg ár.“

„Valentínusardagur mættur í öllu sínu veldi. Ég elska svona daga þeir krydda aðeins hversdagsleikann. En hugurinn fór að hugsa til baka. Hvernig var þessi dagur fyrir ári síðan? Jú ég fékk óvænt jákvætt! Það festist falleg baun í leginu. Sannarlega besti valentínusardagurinn í heimi. Á áttundu viku gat ég ekki haldið þessu leyndarmáli lengur. Mig langaði helst að setja heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðið ég var svo spennt. Allt leit svo vel út og ég bjó meira að segja til myndasyrpu til þess að setja á Facebook. Það var smá blæðing á þessum tíma en ég var í góðu eftirliti á kvennadeildinni og búin að fara í fyrsta mæðraverndar viðtalið.“

Mynd sem Jóhanna setti saman til þess að tilkynna þungunina á Facebook

 

„Ég var að bíða eftir 12 vikna sónarnum en átti tíma á kvennadeildinni í létta skoðun á 10 viku. Barnið sást strax, en það hreyfði sig ekki. Læknirinn pikkaði á takka í sónartækinu, hún var að leita að hjartslætti. Ég fann strax að það var ekki í lagi. Læknirinn leit á mig og sagði: „Mér þykir þetta leitt, en það er enginn hjartsláttur lengur.“ Það brotnaði eitthvað inni í mér og ég varð fjarræn.“

„Nei barnið hafði ekkert stækkað síðan síðast. Ég rýndi í skjáinn líka og sá það liggja þarna hreyfingarlaust. Tárin brutust út og mér fannst ég vera að kafna, gat ekki andað, langaði að hlaupa út. Fósturlát staðfest, aðgerð næsta morgun.“

„REIÐ, reið,reið, ég var svo reið. Reið út í almættið að gefa mér líf til þess að taka það aftur. Ég var orðin sátt við það að geta ekki eignast barn án hjálpar. Af hverju var verið að leika sér svona að mér. Gefa og taka. Lífið var óréttlátt, lífið var ljótt, lífið var dauði. Ég reyndi að hugsa hvað ég ætti að læra af þessu. Mér datt ekkert í hug á þessu augnabliki nema að annað hvort var það að duga eða drepast.“

„Ég þurfti að fara tvisvar sinnum í útskaf. Barnið var sent í krufningu en ekkert kom út úr því. Það var heilbrigt, enginn litningagalli og ég fékk að vita að það var drengur. Það var svo sennt í brennslu og ég fékk að leggja það hjá mömmu.“

„Já þessi ellefu ár sem við Rafá höfum verið að reyna að búa til barn þá hef ég nokkrum sinnum haft allt planað. Ég og hann erum löngu búin að ákveða nöfnin á börnin okkar. Ákveða skreytingar í skírninni, nokkrum sinnum búin að sjá aðal skírnartertuna og fleira í þeim dúr. Við eigum nokkrar útgáfur skrifaðar niður um það hvernig við ætlum að tilkynna komu barnanna. Einnig hef ég planað lífið þannig að það er endalaust á „hold“. Ef mig langar að gera eitthvað sem breytir lífinu eitthvað pínu pons þá strika ég það út af því að það læðist alltaf sterk hugsun: HVAÐ EF ÉG VERÐ ÓLÉTT.“

Jóhanna með móður sinni heitinni

„Einnig hef ég safnað að mér allskonar barnadóti. Hef ekkert keypt mér heldur fengið gefins. Kassarnir af fötum, baðbali, rúm, ömmustóll og margt fleira. Ég losaði mig við allt saman fyrir þremur árum síðan og gaf það ungu pari. Var það mikil blessun fyrir þau. Það var mikill léttir að losa ig við allt dótið. Það hékk yfir mér eins og gamall draugur og minnti mig á það sem ég gat ekki eignast.“

Færsla frá 21. mars 2017. Tveggja vikna biðin langa.

„Lengsta bið í veröldinni. Bíða eftir niðurstöðu. Fá að pissa á próf. Reyna að taka einn dag í einu. Ég pissaði á prufu frekar snemma, degi tvö eftir uppsetningu. Fékk þá ogguponsu jákvætt en eftir að ég googlaði þá var ekki séns að fá jákvætt svona snemma. Þetta voru afgangar eftir Hcg sprautuna. Ég hélt ótrauð áfram, tók fleiri próf og öll voru þau neikvæð.“

„Ég varð reið út í mig fyrir að geta ekki beðið, varð reið út í Klíníkina fyrir að hvetja mig til þess að nota mín egg aftur en ekki fara beint í eggjafa. Þetta var mín síðasta niðurgreidda meðferð. Ég yrði að byrja að safna 500 þúsund fyrir meðferðinni og auka 250 þúsund fyrir gjafaegg. Jæja, orðin svartsýn, döpur og vonlaus.“

„15. mars dreymdi mig mömmu. Ég pissaði á strimil. Það próf var neikvætt en ef ég lýsti í gegnum það þá sá ég daufa línu. En það var líklegra að það væri draugalína. 16. mars dreymdi mig mömmu ennþá sterkara. Sá draumur var svo ljóslifandi og ég ákvað að pissa á síðasta strimilinn. Af hverju ekki. Ég fékk sjokk! Sýndi nokkrum af mínum nánustu myndina til þess að vera viss um að augun mín væru ekki að plata mig. Það voru ennþá fjórir dagar í aðal próf daginn! Nú tekur við önnur löng bið og er næsta skref sónar. Þá er spurningarnar: Er fóstur, er hjartsláttur?“

Færsla frá 2. apríl 2017. Það sem drepur þig ekki, gerir þig sterkari?

„Já ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt þessa setningu. En ég er þreytt á vonbrigðum. Hvenær er minn tími kominn? Á ég að sætta mig við það að geta ekki gengið með barn?“

„Ég fæ mjög oft spurninguna, af hverju ættleiðið þið ekki? Það er bara ekki í boði fyrir okkur og ég get ekki farið út í af hverju. Við myndum svo sannarlega vilja það, það eru mörg börn í heiminum sem eiga bágt.“

„Ég er búin að vera með slæma verki. Verki sem ég kannast við. Verkir sem boða ekki gott. Ég fór í skoðun og samkvæmt útreikningum þá var ég gengin fimm vikur og fimm daga. En fóstursekkurinn var bara fjórar vikur að stærð, sem er ekki gott því þá er hann hættur að vaxa. Verkirnir voru mest hægra megin. Það voru settar upp tvær blúndur [Innsk. Blaðamanns: Fósturvísar] og það getur gerst að önnur blúndan sogast upp í eggjaleiðara. Ég er bara með einn, þann hægri og verkurinn er þar.“

„Við tók bið, endalaus bið. Með puttann á púlsinum átti ég að vera viðbúin að hafa samband við kvennadeildina ef verkirnir yrðu meiri yfir helgina. Ég er með bullandi einkenni, ógleði aum brjóst og fleira. Næsta skoðun er á miðvikudaginn og þá verður tekin ákvörðun um framhaldið. Ég er búin að biðja til Guðs og allra að ég fái kraftaverk. Að það sé allt í lagi. Að ég fái góðar fréttir á miðvikudaginn, verkirnir hætti og allt verði gott. Þetta er mikill rússíbani og ég er þreytt. Ég vill fá já eða nei. Ég get ekki þessa óvissu.“

Færsla frá 23. apríl 2017. Aðgerðardagurinn

„Ég var hissa þegar ég vaknaði þennan föstudagsmorgun, að ég hafði sofið alla nóttina. En ég var nú fegin því. Ég byrjaði á því að setja upp tvær töflur sem byrja á því að undirbúa ferlið. Ég stóð í þessu ferli þennan apríl mánuð fyrir ári síðan. Hafði nú engu gleymt…“

„Við vorum mætt á kvennadeildina 7:15og var okkur fylgt á sex manna stofu. Ég var beðin um að afklæðast, fara í slopp og spítalasokka. Þá tók ég eftir því að töflurnar voru byrjaðar að virka, blæðing var hafin. Nú er ekki aftur snúið og þetta var orðið raunverulegt. Allt í einu helltist sorfin yfir mig, þessi erfiði óvissutími var búinn. Þessar tvær löngu vikur skiptust í góðar og slæmar fréttir, mér var efin von og hún svo tekin aftur. Nokkrum sinnum.“

„Barnið átti að koma í nóvember. Já ég var búin að sjá fyrir mér jólin með mánaðargamalt barn. Búin að skoða vagna og allskonar dót, lesa fæðingarsögur á netinu og Guð má vita hvað fleira.“

„Ég var sett á vöknun þar sem svæfingarhjúkka tók á móti mér, hún byrjaði á því að leita að æð til þess að setja æðalegg, hún var fantur og gekk illa. Svo var mér rúllað á skurðstofuna. Hann var mjór bekkurinn sem ég lagðist á, fannst þetta bara vera spíta. Svo voru handleggirnir mínir settir á aðrar mjóar spýtur og bundnar. Já ég leit út eins og Jesú á krossinum.“

„Í fyrra kom ég af skurðstofunni í nærbuxum með bleiu, núna var ég bara með undirbreiðslu. Ég fann að ég var blaut og þegar Rafá lyfti sænginni upp var allt í blóði. Rúmið, sængin og ég. Hann fylgdi mér á klósettið, þreif mig og klæddi mig í nærbuxur. Við Rafá höfum gengið í gegnum margt saman, það kemur mér alltaf á óvart hversu sterkur hann er. Hann er kletturinn minn.“

Þessi hluti úr færslum Jóhönnu sýna vel hversu þung byrgði liggur á einstaklingum sem eiga í vandræðum með að eignast börn. Sorgina, reiðina og uppgjöfina má auðveldlega lesa á milli línanna og er þetta þó einungis brot úr hugarheimi Jóhönnu sem hefur staðið í sömu sporunum í ellefu ár. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið