fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Réttarkerfið brást Sögu: „Hann nauðgaði mér og mér fannst eins og partur innra með mér hafi dáið“

Aníta Estíva Harðardóttir
Fimmtudaginn 31. maí 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Saga Dröfn Haraldsdóttir fór niður í bæ að skemmta sér með vinum sínum þann 17 júní árið 2013 þegar hún var einungis fimmtán ára gömul. Kvöldið endaði hins vegar hörmulega fyrir þessa ungu stelpu og átti lífið ekki eftir að verða henni auðvelt í kjölfarið.

„Ég og vinkona mín fórum á svona sopa fyllerí og núna fara ábyggilega fýlupúkarnir að tjá sig 15 ára að drekka í miðbænum, hvar voru eiginlega foreldrar hennar,“

segir Saga Dröfn í einlægri færslu á Mæður.

Laug að foreldrum sínum

Raunin var sú að Saga hafði logið að foreldrum sínum hvar hún væri og gerir sér fulla grein fyrir því í dag að það hafi ekki verið góð hugmynd.

„En eins og ég tók fram var ég fimmtán ára og var ekki að hugsa um hvað væri sniðugt að gera heldur hvað væri gaman.“

Saga fær símtal frá strák sem hún þekkti og treysti. Sá aðili bauð henni að koma í partý þar sem væri fullt af áfengi og svakalegt fjör.

Saga þegar hún var fimmtán ára gömul

Þau hittast í strætóskýli rétt hjá partýinu þar sem hann lét Sögu hafa töflu.

„Hann sagði að þetta væri ofnæmistafla vegna þess að það var köttur í partýinu, ég tek hana inn og pæli ekkert meira í því.“

Þegar Saga kemur inn í húsið þá var hins vegar ekkert partý í gangi, það sátu fjórir strákar í sófa og fljótlega fóru tveir þeirra.

Vaknaði með hendina inn á nærbuxum hans

„Ég man enn þá fullvel hvernig húsið leit út, ég man eftir mótorhjólinu í eldhúsinu, öllu rykinu, handklæðunum á gólfinu og ég man að ég fann ekki neitt á mér.“

Strákurinn sem bauð Sögu í partýið gaf henni Captain Morgan í RC Cola og man hún vel eftir því.

„Þegar ég er búin að drekka held ég hálft glasið byrjar mér að líða skringilega. Það er þarna sem ég byrja að muna voða lítið. Mér leið ekki eins og ég væri byrjuð að finna á mér, mér leið eins og ég væri ekki í líkamanum mínum, eins og ég væri úti í horni að horfa á.“

Saga datt út og vaknar svo við að hann sé búinn að troða hendinni hennar inn á nærbuxurnar sínar.

„Ég kippi hendinni frá og man svo ekki hvað það leið langur tími en ég þurfti virkilega að fá ferskt loft. Ég fann ekki lengur fyrir höndunum mínum né fótunum og leið eins og ég væri að svífa, eins og ég væri ekki í líkamanum mínum lengur.“

Bauðst til þess að hjálpa henni út en læsti hana inni á baðherbergi

Strákurinn bauðst til þess að hjálpa Sögu út til þess að fá sér ferskt loft en við hliðina á útidyrahurðinni var baðherbergishurðin.

„Hann labbar með mig inn á baðherbergi og ég næ að koma upp úr mér orðunum þetta er ekki út. Eftir að hann lokaði hurðinni man ég sára lítið, ég vildi ekki muna og vill ekki ennþá muna. En ég man hvað hann gerði og ég man tilfinninguna. Hann nauðgaði mér og mér fannst eins og partur innra með mér hafi dáið.“

Saga man ekki hvernig hún komst út af baðherberginu né út úr partýinu.

„Það sem pabbi sagði við mig var að ég hafi hringt í hann og beðið sig um að sækja mig á Aktu Taktu í Garðabæ og hann hafi heyrt að ég hafi verið drukkin.“

Saga hélt nauðguninni leyndri fyrir öllum þar til hún fékk tíma hjá lækni á BUGL nokkrum dögum seinna þar sem hún ákvað að segja henni frá öllu því sem gerðist.

Þurfti að deila reynslunni í smáatriðum fyrir framan ókunnuga

„Ég var alveg viss um að þetta myndi ekki fara neitt lengra, því hún væri bundin trúnaði. En hún sagði mér að hún yrði að segja foreldrum mínum frá þessu.“

Tveimur dögum síðar fór Saga á fund með lækninum og var móðir hennar með í för.

„Hún hjálpaði mér að segja mömmu frá þessu, ég man að mamma fór að hágráta.“

Saga fór í kjölfarið í barnahúsið og mætti reglulega í viðtöl á BUGL. Talað hafði verið við hana um það að skýrslutakan myndi fara fram í Barnahúsi þar sem hún var ekki orðin átján ára en það reyndist ekki rétt.

„Skýrslutakan fór fram á lögreglustöð, inn í litlu herbergi með myndavél í andlitið á mér og hljóðupptökutæki á borðinu sem ég átti að tala skýrt í. Ég þurfti að segja frá öllu í eins miklum smáatriðum og ég gat fyrir framan nokkrar manneskjur sem ég hafði aldrei á ævi minni hitt!“

Frásagnir hans breyttust með hverjum degi

Strákurinn sem nauðgaði Sögu fór einnig í skýrslutöku en frásagnir hans breyttust með hverjum deginum sem leið.

„Í fyrstu sagði hann að ég hafi viljað þetta, að við höfum farið saman inn í svefnherbergi og að ég hafi verið algjör drusla sem var utan í honum allan tímann. Í annarri útgáfunni sagði hann að ekkert hafi gerst og að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann sagði fyrri söguna. Í þriðju útgáfunni sem fór fyrir dóm sagði hann að við höfum farið saman inn á baðherbergi þar sem hann hafi beðið um leyfi og þegar hann hafi verið búin hafi ég grátbeðið um meira.“

Saga greindist með áfallastreituröskun, þunglyndi og kvíða og fékk lyf fyrir því. Lyfin virkuðu hins vegar lítið fyrir hana og var hún lögð nokkrum sinnum inn á BUGL þar sem hún vildi ekki lifa lengur.

Tók of stóran skammt af lyfjum og endaði á spítala

Í eitt skiptið þurfti að leggja Sögu inn á spítala með mótefni í æð þar sem hún hafði tekið allt of stóran skammt af lyfjum.

Saga þegar hún lá inn á spítala

„Þennan dag hélt ég að þetta væri búið fyrir mig, að ég þyrfti aldrei að hugsa um þetta aftur, aldrei að finna fyrir þessum hnút í maganum og aldrei að gráta yfir þessu aftur. En ég var heppin.“

Það var ekki fyrr en þremur árum seinna sem málið var tekið upp í dómssal þar sem Saga þurfti enn eina ferðina að segja frá öllu sem gerðist í eins miklum smáatriðum og hún gat.

„Ég fékk kvíðakast þegar ég labbaði inn í dómssalinn og grét nánast allan tímann sem ég þurfti að segja frá þessu.“

Verjandi stráksins sem nauðgaði Sögu reyndi allt til þess að slá þær mæðgur út af laginu og spurði meðal annars móður hennar hvort hún vissi að Saga væri tvíkynhneigð þegar móðir hennar mætti fyrir dóminn.

„Skiptir kynhneigð fólks í alvörunni máli þegar nauðgun hefur átt sér stað? Átti ég þetta meira skilið því ég laðast líka að stelpum? Nei kynhneigð mín tengist því ekkert af hverju mér varð nauðgað, alveg núll!“

Gerandi Sögu var dæmdur í fangelsi en réttarkerfið brást

Að lokum var strákurinn dæmdur í tvö og hálft ár í fangelsi og létti Sögu mikið þar sem hún taldi að nú væri málinu lokið. En þá átti Saga eftir að komast að því að réttarkerfið myndi bregðast henni.

„Hann hafði fjórar vikur til þess að ákveða sig hvort hann vildi fara með þetta til hæstarétts eða ekki, í lok þriðju viku ákvað hann að fara með málið til hæstarétts þar sem hann var að lokum sýknaður. Fjórum árum eftir að þetta fór fyrst í kerfið, ári eftir að hann fékk dóminn á sig var hann sýknaður! Af hverju?“

Talið var að ekki lægju fyrir nægilega miklar sannanir þrátt fyrir vitni í húsinu. Strákurinn sem nauðgaði Sögu breytti framburði sínum þrisvar sinnum, Saga var undir lögaldri en hann var yfir lögaldri og samt var hann sýknaður.

„Ég mun samt aldrei láta þagga niður í mér.“

Saga hefur í dag með mikilli vinnu og hjálp frá fjölskyldu sinni og vinum náð að komast yfir nauðgunina með því að tala um hana og telur hún að það versta sem hún gerði var að halda henni leyndri líkt og hún ætti einhvern þátt í henni.

„Nauðgun er ekki kynlíf, það er meira hægt að líkja nauðgun við líkamsárás nema sárin sem hefðu sést á hörundinni eru falin í sálinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Staðfestir að hann sé ekki hættur – Endurkoma á næstunni

Staðfestir að hann sé ekki hættur – Endurkoma á næstunni
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Væri enn bestur í deildinni 80 ára gamall

Væri enn bestur í deildinni 80 ára gamall
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.