fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Glowie átti í félagslegum erfiðleikum: „Ég vissi að ég væri öðruvísi og fannst það ekki jákvætt, mig langaði bara að falla inn í hópinn“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 27. maí 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Söngkonan Glowie ólst upp í Grafarvogi með foreldrum sínum og þremur systkinum. Glowie gekk í þrjá grunnskóla og voru grunnskólaárin henni erfið af ýmsum ástæðum.

„Öll grunnskólaárin voru frekar erfið, aðallega vegna félagslegra erfiðleika. Síðasta árið var mitt uppáhalds en þá gekk ég í Foldaskóla. Þar lenti ég í góðum bekk og eignaðist mikið af vinum,“ segir Glowie í viðtali við Bleikt.

Glowie æfði dans frá 7 ára aldri og þar til hún varð 16 ára gömul. Þegar hún útskrifaðist úr grunnskóla lá leið hennar í Tækniskólann þar sem hún keppti fyrir hönd skólans í söngkeppni framhaldsskólanna og sigraði eins og frægt var.

Varð fyrir kynferðislegu ofbeldi eftir að tónlistarferillinn hófst

„Ég átti líka í félagslegum erfiðleikum í dansskólanum en það sem fékk mig til þess að halda áfram var ástríðan fyrir dansi og tónlist. Þegar ég sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna fékk ég mikið af tækifærum  í kjölfarið og þar hófst tónlistarferill minn. Það var á þessum tíma sem ég varð fyrir kynferðislegu ofbeldi,“ segir Glowie. Það vakti mikla athygli þegar söngkonan greindi frá því í viðtali við Ragnhildi Steinunni í þættinum Ísþjóðin í mars 2017 að hún hefði tvisvar orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á fyrsta ári sínu í framhaldsskóla.

Nokkrum mánuðum eftir að Glowie lenti í þessari örmulegu reynslu kynntist hún Guðlaugi Andra Eyþórssyni og eru þau par í dag.

„Hann hjálpaði mér að takast á við ofbeldið sem ég varð fyrir nokkrum mánuðum áður en við kynntumst. Við erum ekki bara kærustupar heldur erum við líka bestu vinir og vinnum oft saman í allskyns verkefnum.“

Parið hefur verið saman í fjögur ár og stefna þau á að flytja saman til London í júní.

Glowie áttaði sig á því þegar hún var orðin sextán ára gömul að mögulega væri ástæða fyrir því að henni leið alltaf eins og hún væri ekki eins og allir aðrir.

„Ég fann það alltaf sem krakki að ég var mjög sein að fatta ýmsa hluti, skildi stundum ekki það sem var auðskilið fyrir aðra krakka. Ég upplifði mig eins og ég væri heimsk. Ég var rosalega gleymin og átti mjög erfitt með að hlusta á kennarann með fullri einbeitingu sama hvað ég reyndi. Það var eins og ég hefði enga stjórn á huga mínum.“

Var send í sérstaka skólastofu fyrir börn sem þurftu meiri hjálp

Glowie var send í sérstaka skólastofu í skólanum sem var sérstaklega gerð fyrir börn sem þurftu meiri hjálp.

„Ég var send þangað í stærðfræði og bókmenntatímum. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá fannst mér það ekkert hjálpa. Kannski aðallega vegna þess að aðferð kennarans hentaði mér ekki. Af því að mér gekk alltaf svona illa í skólanum þá var ég fljót að missa trúna á sjálfri mér.“

Það sem Glowie vissi ekki var að seinna átti hún eftir að greinast með ADHD. Þá fékk hún loksins svör.

„Ég vissi bara að ég væri öðruvísi og ég upplifði það ekki á jákvæðan hátt. Mig langaði bara að falla inn í hópinn. Mér leið best þegar ég fór heim eftir skóla til þess að æfa mig að syngja. Þar náði ég að njóta mín.“

Árið 2015 fór Glowie í létt greiningarferli þar sem kom í ljós að hún var með ADHD.

„Í desember árið 2017 fór ég aftur í mun ítarlegri greiningu. Í kjölfarið fór ég til geðlæknis og fékk lyf. Að vera með ADHD getur verið nokkuð flókið en það er að sjálfsögðu mismunandi hjá fólki. Það virkar þannig hjá mér að ég get ekki einbeitt mér að neinu nema að vera að gera eitthvað annað á meðan. Til dæmis finnst mér best að hafa háa tónlist og vera að borða eitthvað á meðan ég keyri til þess að ég geti haldið einbeitingu við aksturinn. Ef ég fer á fund eða á langar samræður við fólk, þá verð ég að geta hreyft mig inn á milli og vera með eitthvað í höndunum til þess að fikta með.“

Man varla eftir því að hafa verið á sviði að syngja

Glowie segir að fólk upplifi hana oft sem áhugalausa þegar það talar við hana.

„Ég er í raun að gera þessa hluti vegna þess að ég þarf þess til þess að geta meðtekið það sem fólk segir við mig. Fólk upplifir það oft eins og mér leiðist eða að ég hafi ekki áhuga á því sem það er að segja mér.“

Glowie segir reynsluna aðra þegar hún sé að fara að stíga á svið eða þegar athyglin beinist að henni.

„Í aðstæðum þegar ég er að fara að stíga upp á svið eða þegar ég er að tala fyrir framan fólk, jafnvel þótt það sé bara fjölskyldan mín þá set ég ósjálfrátt svo mikla pressu á sjálfa mig að hausinn á mér nær ekki utan um það sem er að gerast. Þá myndast mikið stress og ég frýs eiginlega bara. Þegar ég syng á sviði þá er stormur í hausnum á mér og líkamsminnið tekur stjórnina til þess að koma mér í gegnum flutninginn. Svo man ég varla eftir því að hafa verið á sviðinu þegar ég hef róað mig niður baksviðs.“

Glowie segir hug sinn vera mjög ofvirkan og að nauðsynlegt sé fyrir hana að breyta til mjög reglulega.

„Mér finnst mjög gott að skipta um föt svona tvisvar sinnum á dag og að breyta um hárgreiðslu þrisvar á dag. Ég breyti oft um fatastíl, annað hvort gef ég eða sel fötin mín og kaupi mér svo ný.“

Upplifði nýtt líf þegar hún fékk lyf

Glowie hefur verið á lyfjum við ADHD núna í rúma þrjá mánuði og segist hún vera að upplifa algjörlega nýtt líf.

„Allt í einu get ég setið kyrr í þrjá klukkutíma í senn og spjallað við fólk með fulla einbeitingu allan tímann. Jafnvel þótt það séu allskonar hljóð og hreyfingar í kringum mig sem vanalega hefðu truflað mig. Ég er miklu opnari, glaðlegri og með mikið betra sjálfstraust. Ég er orðin einhver glæný útgáfa af Glowie.“

Síðan Glowie var ung stúlka hefur hana alltaf dreymt um að verða söngkona og dansari.

„Ég var 11 ára þegar ég söng í fyrsta skipti fyrir framan fólk á bekkjarkvöldi í skólanum mínum. Eftir Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2014 hófst svo söngferill minn sem Glowie. Ég gaf út lögin „No more“, „Party“, „One day“, og „No lie“. Það var alltaf planið að fara út fyrir landsteinana en það var bara spurning hvenær ég yrði tilbúin til þess. Þetta er ansi djúp laug að stökkva út í enda er tónlistarmarkaðurinn stór og flókinn.“

Mörg plötufyrirtæki erlendis sýndu Glowie áhuga og í mars árið 2017 skrifaði hún undir mjög stóran plötusamning við Columbia Records í Bretlandi og RCA í Bandaríkjunum.

„Mikill undirbúningur hefur verið í gangi síðan þá. Það tekur tíma fyrir fólk að kynnast og finna taktinn í því að vinna saman í svona stóru verkefni. Góðir hlutir gerast hægt,“ segir Glowie ánægð og spennan fyrir komandi tímum leynir sér ekki.

Velgengni er ekki sjálfgefin

Glowie hefur alltaf stefnt hátt í listaheiminum en fyrst og fremst vill hún fá að vinna við það sem henni þykir skemmtilegt.

„Mig langar að hanna fatnað, taka myndir og mála málverk. En þetta verður að sjálfsögðu allt að koma í ljós. Velgengni er ekki sjálfgefin en peningar og frægð er ekki mitt markmið, ég vil bara fá að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt að gera. Ég hef enga hugmynd um hvað ég mun vera að gera eftir tíu ár og mig langar ekki að vita það. Mér finnst gott að lifa í núinu og leyfa lífinu að gerast.“

Glowie er að fara í myndatökur og upptökur á myndbandi við fyrsta lagið sem gefið verður út í sumar.

„Nú er loksins allt að fara í gang og þess vegna er ég að flytja til London. Það verður mikið að gera hjá mér á þessu ári og það er mikið af spennandi verkefnum framundan.“

Glowie segir að ADHD geti bæði verið versti galli einstaklinga en jafnframt besti kosturinn.

„Það fer eftir því hvernig þú horfir á sjálfan þig. Ég væri ekki söngkonan Glowie í dag ef ég væri ekki með ADHD. Ofvirknin hefur keyrt mig áfram í að elta uppi drauma mína og gefast ekki upp. Fólk á að gera það sem því þykir skemmtilegt. Ekki lifa lífinu eins og að hamingja sé einhver staður í framtíðinni sem þú munt komast á. Hamingja er hugarfar okkar, hvernig við ákveðum að líta á lífið. Eins og góð vinkona mín, Sara Dís Gunnarsdóttir segir oft: „Maður veit aldrei hvað gerist á morgun. Lífið er núna, dragðu djúpt andann og hoppaðu út í djúpu laugina. Eltu drauma þína.“

Hægt er að fylgjast með ævintýrum Glowie á instagram undir notandanafninu: itsglowie

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Karl-remba KR-inga í Morgunblaðinu vekur nokkra athygli – Segja aðra borga betur

Karl-remba KR-inga í Morgunblaðinu vekur nokkra athygli – Segja aðra borga betur
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Sancho klár í að snúa aftur til United ef þetta gerist

Sancho klár í að snúa aftur til United ef þetta gerist
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Er efstur á óskalista Manchester United fyrir sumarið

Er efstur á óskalista Manchester United fyrir sumarið

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.