fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Svava segir frá reynslu sinni eftir tæknisæðingu: „Það var ótrúleg gleðistund þegar ég fékk jákvætt út úr blóðprufunni“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 30. apríl 2018 11:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einhleypar konur sem kjósa að eignast barn geta í dag farið í tæknisæðingu, sem aðeins var í boði fyrir pör fyrir nokkrum árum. Í viðtali við DV segja fjórar konur sögu sína; ein sem nýbyrjuð er í ferlinu og þrjár sem eignast hafa börn með gjafasæði. Þær reifa ástæðu þess að þær völdu þessa leið, forvitnina og fordómana sem þær hafa mætt og spjalla um börnin sem þær elska meira en allt.

 Svava S. Steinarsdóttir er 46 ára gömul, móðir tveggja barna, Hildu Margrétar, sem er fædd 1993, og Stefáns Sölva, sem er fæddur 2011. Eftir fæðingu dótturinnar langaði hana alltaf í fleiri börn, en rétti maðurinn lét bíða eftir sér og að lokum valdi hún að fara í tæknisæðingu.

„Ég var í ferli árin 2010–2011 hjá Art Medica, fór í fimm tæknisæðingar sem ekki lukkuðust og fór þá í glasafrjóvgun,“ segir Svava. „Fyrsta uppsetning tókst ekki, en næst voru settir upp tveir fósturvísar sem ég átti í frosti og þá kom sonurinn.“

Svava kemur úr stórri fjölskyldu og eignaðist Hildu Margréti þegar hún var 21 árs gömul. „Mig langaði alltaf að eignast fleiri börn. Því miður fann ég aldrei rétta manninn, árunum fjölgaði og ég taldi mig ekki geta beðið lengur og valdi því þessa leið.“

Hafði heyrt hryllingssögur, en fór í gegnum ferlið með jákvæðu hugarfari

„Ég var afar bjartsýn þegar ég hóf ferlið. Ég sagði ekki öllum frá þessu strax, aðeins nánustu vinum og einni systur. Þegar hver meðferðin á fætur annarri bar ekki árangur leið mér ekki vel en hóf þá næstu með jákvæðu hugarfari. Það var ótrúleg gleðistund þegar ég fékk jákvætt út úr blóðprufunni. Mér fannst erfiðast að þurfa að mæta í margar skoðanir til að meta hvenær rétti tíminn væri fyrir meðferð. Þegar kom að glasafrjóvguninni kom mér á óvart hversu allt gekk vel, lyfjagjöf og eggheimta. Ég hafði heyrt margar hryllingssögur og mér létti því verulega þegar upplifunin var allt önnur,“ segir Svava og bætir við að hún hefði viljað betri upplýsingagjöf og ráðgjöf, þrátt fyrir að hún hafi mætt góðu viðmóti alla leið.

Svava segist ekki hafa lent í fordómum, þvert á móti hafi fólk tekið þessu vel og stutt ákvörðun hennar. „Fólk er vissulega mjög forvitið um þetta. Það vill heyra um ferlið, hvernig sé að vera ein með barn og hvað ég viti um gjafann.“

Myndirðu mæla með þessari aðferð við aðra?

„Já, ég myndi mæla með því að fara þessa leið, en aðeins að vel ígrunduðu máli,“ segir Svava, en segist sjálf orðin of gömul til að eignast fleiri, aðspurð hvort hún myndi gera þetta aftur.

Sæðisgjafinn er lokaður gjafi með víkkaðan prófíl. Þannig er hægt að fá upplýsingar um fjölskyldu hans, áhugamál, hægt að sjá niðurstöður persónuleikaprófs, viðtal við gjafann, myndir frá barnsaldri og fleira. Hins vegar getur Stefán Sölvi ekki fengið nafn gjafans og getur þannig ekki haft upp á honum þegar hann nær 18 ára aldri.

Svava fékk númer sæðisgjafans hjá Art Medica og skráði það á vefsíðuna Donor Sibling Registry. „Ég vissi að sonur minn gæti aldrei hitt föður sinn, en hann gæti fundið hálfsystkini ef þau væru til,“ segir Svava.

Svava hefur haft samband við mæður barna með sama gjafa, og hún og Stefán Sölvi hafa hitt hluta hópsins, sem nú telur 30 börn.

„Stefán Sölvi veit að hann er gjafabarn, ég hef alltaf verið hreinskilin við hann með það.“

Það getur verið lýjandi að vera bara ein

Hvernig er að vera eina foreldrið og sinna báðum hlutverkum, að fá aldrei pásu frá því að vera foreldri?

„Það getur stundum verið lýjandi að vera bara ein. Sérstaklega þegar kemur að því að púsla saman fríum, svo sem vegna veikinda, skólafría og starfsdaga. Það er þó ekki óyfirstíganlegt en þarfnast meiri skipulagningar. Það er líka hægt að koma að smá mömmutíma á kvöldin þar sem maður getur slakað á og gert eitthvað fyrir sig.

Og ég er afar heppin að eiga fjórar systur sem hafa reynst mér afskaplega vel og fjölda vina sem hafa stutt mig og aðstoðað,“ svarar Svava aðspurð hvort hún fái stuðning frá vinum eða ættingjum. „Ég er með stórt stuðningsnet.“

Einstakar mæður veita stuðning.

Svava vill benda konum í þessum hugleiðingum, og eins þeim sem hafa eignast börn á þennan hátt, á Félag einstakra mæðra. „Í þeim hópi er öflugt félagsstarf og hægt að fá svör við öllum spurningum sem kynnu að kvikna í ferlinu og þegar barnið er komið í heiminn. Heimasíðan er einstakarmaedur.wordpress.com.“

En hvað er tæknisæðing? Tæknisæðing er einfaldasta formið af tæknifrjóvgun og hana er aðeins hægt að framkvæma ef eggjaleiðarar eru opnir.
Sáðfrumum er sprautað inn í leg konunnar gegnum leghálsinn með þunnum, mjúkum plastlegg. Þetta er hægt að framkvæma við egglos í náttúrulegum tíðahring eða eftir væga örvun eggjastokkanna. Mikilvægt er að fylgjast vel með hvenær egglos verður svo uppsetning sáðfrumanna sé gerð á réttum tíma.
Fyrir einhleypar konur er tæknisæðing með gjafasæði kjörmeðferð. (Tekið af: http://ivfklinikin.is/)

Lestu einnig: Sigga Lena opnar sig um tæknisæðingu : Fékk boð um sæði og stefnumót

Lestu einnig: Sunna Rós upplifði fordóma eftir tæknisæðingu: „Hef lesið að ég sé að bjóða upp á að barnið mitt verði lagt í einelti“

Lestu einnig: Heidi segir frá reynslu sinni af tæknisæðingu: „Mér finnst í þessu tilfelli konur njóta forréttinda“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“

Hrafnkell telur að margir sérfræðingar hafi „prjónað yfir sig“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað

Dæmd fyrir líkamsárás á hvort annað
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið