fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Kiana notaði hugbreytandi efni til þess að gleyma misnotkun sem hún varð fyrir sem barn: „Mér var sama um allt og vildi deyja“

Aníta Estíva Harðardóttir
Miðvikudaginn 25. apríl 2018 20:00

Tv. Kiana þegar hún var í neyslu / Th. Kiana í dag

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kiana Sif Limehouse lenti í mörgum áföllum sem barn og þegar hún var einungis þrettán ára gömul hóf hún að deyfa sig með áfengi. Eitt leiddi af öðru og fljótlega var Kiana farin að misnota allskonar hugbreytandi efni til þess að losa um allar hömlur.

„Það eru mjög margar ástæður sem spila saman og gerðu það að verkum að ég leiddist út í þetta rugl. Til þess að byrja með, kenndi ég öllu og öllum um það að hlutirnir voru eins og þeir voru. Ég endurlifði misnotkun sem ég varð fyrir aftur og aftur í hausnum á mér og kenndi sjálfri mér um að maður sem ég átti að geta treyst, hafði kynferðislegan áhuga á mér,“ segir Kiana sem verður 21 árs gömul í nóvember á þessu ári.

Fannst spennandi að stela og ljúga frá því hún man eftir sér

Kiana lýsir sjálfri sér sem bullandi fjörkálfi sem hefur gaman að lífinu.

„Ég bý í Reykjavík og ólst aðallega upp hjá ömmu minni, sem er demantur lífs míns. Það er því oft sagt að ég sé gömul sál en ég starfa einmitt á hjúkrunarheimili sem er svo magnaður staður. Það ættu allir að prófa að vinna á þannig stað einhvern tíma yfir lífsleiðina, þetta starf er svo gefandi og maður lærir alltaf eitthvað nýtt.“

Kiana lítur vel út í dag og hefur hún verið edrú í tvö og hálft ár

Frá því að Kiana man eftir sér fannst henni hún alltaf vera langt frá því að vera eins og aðrir sem hún þekkti.

„Allt sem tengdist spennu og þeim hlutum sem mátti ekki gera fannst mér mjög spennandi. Til dæmis að stela, ljúga, fara út á kvöldin þegar engin vissi til og að vera með eldri krökkum svo eitthvað sé nefnt. Ég lenti í mörgum áföllum sem barn og hafa þau gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég hef bæði þurft að leita mér aðstoðar og líka þurft að taka til í lífi mínu.“

Féll niður þar sem hjartað gaf sig

Eins og fyrr sagði var Kiana einungis þrettán ára gömul þegar hún hóf að drekka áfengi.

„Áfengi var fyrst ekki alveg mitt en þar sem áfengið kom mér í annað ástand og leyfði mér að losna undan allri ábyrgð þá notaði ég það. Fljótlega var ég farin að prufa önnur hugbreytandi efni eins og kannabis, örvandi, róandi og í raun allt sem ég gat fengið. Mér fannst þetta losa um allar hömlur hjá mér og fannst ég geta verið ég sjálf. En ég var í raun að byggja upp falska grímu til þess að fólk gæti ekki brotið mig. Þessi falska gríma gerði mér ekkert gott en ég var sjálf farin að brjóta á fólki í kringum mig af því að ég vildi brjóta það áður en það hafði færi á að brjóta mig. Ranghugmyndir og siðblinda stjórnuðu mér þar sem fíknin var sterkari en ég. Vanlíðanin sem ég upplifði er ólýsanleg.“

Kiana upplifði nokkur virkilega slæm atvik þar sem hún taldi sjálfa sig vera að deyja.

„Þetta var hætt að vera gaman en ég gat ekki hætt. Ég man sérstaklega eftir einu atviki þar sem ég hélt að ég væri hreinlega að deyja. Ég var búin að vera vakandi allt of lengi á örvandi efnum, það var ekkert nema svarthol á bak við augun mín. Ég var alveg glær og næringarlaus og stóð fyrir framan spegil inni á baði með bláar varir. Af einhverri ástæðu segi ég við sjálfa mig: „Þú ert dauð“. Við það féll ég niður þar sem hjartað mitt var að gefa sig.“

Vanlíðan og þreyta var daglegt ástand Kiönu þegar hún var í neyslu

Skjót viðbrögð einstaklinga sem voru á staðnum urðu Kiönu til happs þar sem þau urðu vör við fall Kiönu og hófu endurlífgun.

„Það var aldrei hringt á sjúkrabíl þar sem fólkið á staðnum brást fljótt við. Ég var orðin svo veik og öll þau mörk sem ég hafði lofað sjálfri mér að fara ekki yfir, vöru löngu horfin. Þegar ég var að verða 18 ára gömul gat ég ekki meir. Ég áttaði mig á því að ég átti við vandamál að stríða þegar ég fattaði að ég var alveg ein. Það vildi nánast enginn vera í kringum mig af því að ég laug endalaust og stal, bæði orku og hlutum. Á þessum tímapunkti var mér sama un allt. Ég vildi deyja.“

Amma Kiönu reyndi að stöðva hana

Fjölskylda Kiönu hafði lengi reynt að sýna henni hversu slæmur lífsstíllinn var sem hún var að feta en hún hlustaði ekki.

„Það sem mér finnst erfiðast við þetta allt í dag er það að ég sá ekki hvað fjölskyldan mín var að hafa það erfitt vegna mín. Allar andvökunæturnar bara út af mér. Árið 2015 sendi amma mín mér bréf í þeirri von um að hafa áhrif á mig sem hljóðar svo:

Elsku Kiana mín
Það veit Guð hvað ég elska þig mikið og veitt mér margar ánægjustundir
og þegar þú varst lítil var framtíðin björt, en núna er það í þínum höndum hvað þú ert með í huga fyrir framtíð þína.
Ert að verða kona eftir nokkra mánuði OMG það er svo stutt síðan að þú varst með bleyju og gramsa í Bónuspokum, þér fannst það svo áhugavert haha.
En fyrir stuttu særðir þú ömmu hjarta mjög mikið.
Ég held og tel mig vita að þú ert góð stúlka 
Sú fallegasta sem ég þekki.
Ekki elsku fallega stelpan mín henda þér fyrir þann lifnað sem sem þú lifir í 
þú ert svo hæfileikarík og hefur allt sem til þarf.

Gáfur,hæfni og útlit, ekki henda því fyrir ólifnað. Það er ekki þess virði. 
Elska þig 
Þín að eilífu amma H.

Hafði ég getu að stoppa eftir að hafa lesið þetta… Nei ég þurfti að taka nokkra auka mánuði í eymd og volæði.“

Erfitt að vinna upp brotið traust

Það var í október árið 2015 sem Kiana ákvað að taka sig saman í andlitinu og ganga inn í sína fyrstu meðferð einungis 17 ára gömul.

„Í dag hef ég því verið edrú í 2 og hálft ár og get loksins sagt að ég sé raunverulega hamingjusöm. Það er ólýsanleg tilfinning að fá að vera til staðar fyrir fólkið mitt en það er ekki auðvelt að vinna upp traust sem hefur verið brotið og ég hef líka tekið mörg hliðarspor í því. Á hverjum degi reyni ég að verða betri manneskja en ég var í gær.

Kiana telur sig virkilega heppna að eiga gott fólk að sem stendur við bakið á henni á hverjum degi.

„Ég á klárlega mína daga þar sem ég er langt niðri og ræð ekki við tilfinningar mínar og þá er ég svo heppin að eiga góða að. Það eru ekki allir svo heppnir en að vera með fíknisjúkdóm er ekkert grín. Fíkniefni og áfengi er tímabundin lausn en þegar fólk er komið á þann stað að geta ekki stoppað en vill það samt þá hafa þeir ömurlegu atburðir oft átt sér stað að fólk tekur of stóra skammta, líffæri gefa sig eða fólk tekur sitt eigið líf af því að það einfaldlega getur ekki meira.

Erfitt að aðstoða fólk í neyslu sem vill ekki hjálp

Kiana segir virkilega erfitt ferli að komast úr neyslu heiminum þar sem loka þarf á allt það sem hefur slæm áhrif. Bæði fólk og hegðun. En þrátt fyrir þá erfiðleika sem Kiana hefur gengið í gegnum telur hún framtíðina bjarta.

„Mig langar mest að vera fyrirmynd og að sýna öðrum að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi. Mig langar líka að geta hjálpað ungum konum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ég stefni á að reyna mitt allra besta og að gera allt það sem mig langar til þess að gera.“

Kiana segir takmarkað hægt að aðstoða einstaklinga í neyslu ef þeir leita ekki eftir aðstoðinni sjálfir.

„Það er takmarkað hægt að ráðleggja fólki sem vill ekki hjálp. En það fólk sem virkilega hefur viljastyrk til þess að koma sér á betri stað þá þarf að benda þeim á þau meðferðarúrræði sem eru hér á landi. Ég get með stútfullu hjarta sagt að ég sé þeim þakklát, þetta tekur tíma en er þess virði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Innleiða stafrænar stefnubirtingar

Innleiða stafrænar stefnubirtingar
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Elmar Örn dæmdur í 3,5 árs fangelsi fyrir nauðganir – Sendi myndbönd af glæpnum til konunnar í pósti

Elmar Örn dæmdur í 3,5 árs fangelsi fyrir nauðganir – Sendi myndbönd af glæpnum til konunnar í pósti
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.