fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Sunna Rós opnar sig um fæðingarþunglyndi: „Ég vildi drepa barnið mitt“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 22. apríl 2018 11:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sunna Rós Baxter er 31 árs, einstæð móðir tveggja barna.  Á bloggsíðu sinni og Snapchat segir hún á opinskáan hátt frá móðurhlutverkinu, fæðingarþunglyndinu sem hún glímdi við eftir fyrri meðgönguna og hvernig seinni meðgangan var ólík þeirri fyrri.

Í neðangreindum pistli sem Sunna Rós gaf Bleikt góðfúslega leyfi til að birta fjallar hún um sjálfsvígshugsanir á fyrri meðgöngunni, fæðingarþunglyndi og hugsanir um að hún vildi drepa dóttur sína. Hvernig hún komst yfir fæðingarþunglyndið og ástina sem hún ber til dóttur sinnar í dag.

Sjálfsvígstilraun og misnotkun í æsku

Eftir að hafa reynt að enda líf mitt í mars 2007 komst upp um misnotkun sem ég hafði orðið fyrir á heimili mínu í æsku og hylmt var yfir. Fjölskyldan sem ég hélt að myndi skilyrðislaust standa með mér í gegnum þetta allt hvarf úr lífi mínu og stóð með ofbeldismanninum. Mér fannst ég ógeðsleg manneskja, enda hlaut ég að vera það fyrst fjölskyldan mín valdi frekar ofbeldismanninn, sem ekki var blóðskyldur þeim, fram yfir mig.


Jólin 2008 komin fimm mánuði á leið.

Glímdi við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir á meðgöngu

Árið 2008 verð ég ólétt, þá 21 árs að aldri. Álitið sem ég hafði á sjálfri mér var ekkert á þessum tíma og var ég að glíma við miklar afleiðingar af því sem hafði hent mig í æsku og því sem hafði gengið á í mínu lífi seinasta árið á undan. Ég gat samt ekki hugsað mér að fara í fóstureyðingu og allir sögðu mér að um leið og barnið myndi fæðast þá gæti maður ekki ímyndað sér lífið án þess.

Þegar líða fór á meðgönguna versnaði þunglyndi mitt til muna. Kreppan skellur svo á og fjárhagsvandamál bætast við listann í ofanálag yfir allt það sem ég var þegar með áhyggjur af. Ég hugsaði mikið um að enda líf mitt á meðgöngunni og sömuleiðis hugsaði ég um að enda líf barnsins eftir að það myndi fæðast. Ég sá ekkert athugavert við þessar hugsanir og fannst þetta ekkert sem ég þyrfti að leita mér aðstoðar við. Eins og aðrar verðandi mæður var ég í mæðravernd alla meðgönguna og hitti ljósmóður á nokkurra vikna fresti. Mér fannst ljósan mín æðisleg og elskaði að tala við hana. Hins vegar var aldrei rætt um meðgöngu- og fæðingarþunglyndi, hver einkennin væru, hvaða meðferð væri í boði og hvert skyldi leita ef grunur væri um slíkt. Ég vissi ekkert og grunaði ekki að ég væri að glíma við neitt þessu tengdu.

Um leið og dóttir mín fæðist var eins og runnið væri af mér. Ég fann fyrir miklum létti og vildi barninu ekkert illt lengur. Þá fyrst geri ég mér grein fyrir að ég hafði líklega verið með meðgönguþunglyndi sem væri sem betur fer allt farið núna. Fljótlega eftir fæðinguna þarf ég að fara í aðgerð sem tók um fjórar klukkustundir. Ég sé dóttur mína í stutta stund þegar ég kem til baka úr aðgerðinni en lognast mjög fljótt út af og sé hana svo ekki aftur fyrr en daginn eftir þegar komið var með hana inn á herbergi til mín. Ég fékk enga útskýringu á því hvernig aðgerðin á mér hefði gengið né hvað var gert og fékk þar að auki ekkert að heyra hvernig nóttin hefði gengið með dóttur mína og hvort henni hafi til dæmis verið gefin ábót að drekka eða þess háttar. Ég er svo flutt með sjúkrabíl til Keflavíkur þar sem ég er í 2-3 nætur. Þegar ég les fæðingarskýrsluna mína stendur skýrum stöfum að ég sýni ekkert frumkvæði í að leggja barnið á brjóst og hún fari aldrei á brjóst nema ljósmóðir aðstoði við það. Samt þótti ekkert mál að senda mig eina heim með barnið, ég fékk enga fræðslu, hitti ekki brjóstagjafaráðgjafa og fékk ekkert auka eftirlit.


Mæðgurnar upp á fæðingardeild.

Þegar heim var komið sinnti ég öllum grunnþörfum hennar, en mikið meira var það ekki. Hún fékk að borða, það var skipt á henni, hún var böðuð og klædd. Mér leið eins og barnið hataði mig og vildi ekki vera hjá mér. Þegar hún var í fanginu hjá öðrum átti ég mjög erfitt með að biðja um að fá hana til mín því ég var hrædd um að þá myndu allir sjá að hún vildi ekki vera hjá mér. Mér fannst ég hræðileg móðir og vorkenndi henni á hverjum degi fyrir að hafa eignast mig af öllum sem móður. Að hugsa um hana og elska hana gerðist ekki náttúrlega hjá mér. Ég hermdi bara eftir því sem aðrir voru að gera. Ég passaði að hafa teppið og sængina alltaf slétt og aldrei í kuðli þegar ég lagði það yfir hana því það hafði móðir mín gert. Ég tók alltaf fullt af myndum af henni og því sem við vorum að gera og setti á barnalands síðuna því það voru allar hinar mömmurnar að gera. Ég passaði mig á að vera ekki of væmin gagnvart henni og sýna henni ekki of mikla umhyggju því það hafði ég lært í mínum uppvexti.

Ég hélt að fæðingarþunglyndi væri orð sem heilbrigðisstarfsmenn notuðu yfir mæður sem vildu ekki börnin sín og/eða vildu drepa þau. Þegar ég fór með dóttur mína í níu vikna skoðun var mér rétt blað með spurningum og nokkrum svarmöguleikum þar sem ég átti að krossa í það sem átti best við mig. Það var mjög augljóst hvaða svar var jákvætt og hvaða svar var neikvætt. Ég fékk enga útskýringu á því hvað þetta nákvæmlega væri né hver tilgangurinn væri og á meðan ég sat og fyllti þetta út sat starfsmaðurinn og var að gera eitthvað í tölvunni. Ég vissi ekki að þarna væri verið að skima eftir fæðingarþunglyndi og ef útkoman væri ekki góð myndi móðirin fá viðeigandi aðstoð. Ég hélt að þetta væri tengt barnavernd og að þarna væri verið að leita eftir því hvort maður væri hæft foreldri. Ég vildi ekki að dóttir mín yrði tekin af mér og því svaraði ég öllum spurningunum jákvætt.


Mánaðargömul í fyrstu útilegunni.


„Pabbi fór með hana út í garð. Ég man ég skildi ekki af hverju hann vildi hafa hana hjá sér út í garði þegar hann þurfti þess ekki.“

Sá í mörg ár eftir að hafa ekki farið í fóstureyðingu

Ég glímdi við fæðingarþunglyndi alveg þar til dóttir mín varð sex ára. Ég vissi ekki hvernig mér ætti að líða gagnvart henni þar sem hún var mitt fyrsta barn og hafði sjálf ekki fengið mikla ást í eigin uppvexti. Ég tengdist henni hins vegar alltaf meira og meira og taldi ég mig því alltaf vera lausa við fæðingarþunglyndið því jú ég elskaði hana núna og var meira tengd henni í dag en ég var fyrir hálfu ári svo þetta hlaut að vera búið núna. Í mörg ár sá ég samt eftir að hafa ekki farið í fóstureyðingu. Mér fannst eins og allir vissu hversu erfitt og ömurlegt foreldrahlutverkið væri en hefðu dregið upp einhverja falska glansmynd af því og platað mig til að eignast barnið. Ég hélt aldrei að mér liði eitthvað öðruvísi en öðrum sem áttu börn. Ég hélt bara að hinir væru ekki að viðurkenna sannleikann.

Árin liðu og því meira sem ég vann mig út úr því sem ég upplifði í æsku og öllum þeim áföllum sem ég hef gengið í gengum um ævina því meira gat ég tengst dóttur minni. Ég gat ekki gefið henni ást sem ég átti ekki til. Í kringum sex ára afmælið hennar gerðist eitthvað og ég fann þessa óbilandi ást til hennar. Þá vissi ég fyrir víst að hver einasta arða sem eftir var af fæðingarþunglyndinu væri farin. Ég elskaði hana meira en lífið sjálft og þessi tilfinning er sú besta sem hægt er að finna. Ég hafði ekki hugmynd um að hægt væri að líða svona.


Á Ítalíu um árs gömul.


Mæðgurnar í Tyrklandi þegar dóttirin var sjö ára.

Dagana 18.-25. apríl mun Sunna Rós tala um fæðingarþunglyndið á Snapchat: sunnabaxter og hvernig það var að ganga með og eignast annað barn seinna meir ekki með fæðingarþunglyndi. Hægt er að senda henni spurningar á Snapchat.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Haaland tæpur fyrir bikarleikinn mikilvæga á morgun

Haaland tæpur fyrir bikarleikinn mikilvæga á morgun
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Ten Hag útilokar það að Sancho spili fyrir sig aftur

Ten Hag útilokar það að Sancho spili fyrir sig aftur
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Pétur Theódór snýr aftur heim til Gróttu eftir erfið meiðsli

Pétur Theódór snýr aftur heim til Gróttu eftir erfið meiðsli