fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Gerður er á biðlista eftir gjafaeggi: „Algjör andleg brotlending“

Aníta Estíva Harðardóttir
Fimmtudaginn 1. febrúar 2018 15:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt rannsóknum eru einn af hverjum sex einstaklingum sem þráir að eignast barn að glíma við einhverskonar ófrjósemi. Það er margt sem getur haft áhrif á frjósemi fólks og algengt er að miklir andlegir erfiðleikar fylgja því að vera ófrjór.

Konur sem einhverra hluta vegna geta ekki eignast barn með sínu eigin eggi hafa þann möguleika að sækja um kynfrumugjöf. Kynfrumugjöf er þegar par eða einstaklingur þiggur gjafaegg eða gjafasæði. Stundum bæði gjafaegg og gjafasæði.

Eggjagjöf er nokkuð algeng. Eggjagjöf getur annað hvort verið nafnlaus eða undir nafni og ráða þá óskir eggjagjafa og eggþega.

Eggjagjöf hentar ákveðnum hópi para og einstaklinga sem eiga við ófrjósemi að stríða því hún gefur þeim möguleikann á að ganga með og eignast barn.

Því miður er biðlistinn eftir eggi hérlendis langur og þarf hver kona að bíða í meðaltali í tvö ár eftir gjafaeggi. Sú bið er löng og erfið þegar fólk hefur tekið ákvörðun um að eignast barn og óvissan getur farið illa með andlegu hlið margra.

Bleikt hafði samband við tvær konur, önnur þeirra er eggjagjafi en hin er á biðlista eftir eggi og ræddi við þær um þá erfiðleika og ákvarðanir sem hafa þarf í huga þegar út í þetta ferli er farið.

Alexandra Björg gaf egg fyrir tveimur árum

Alexandra Björg Eyþórsdóttir gaf egg fyrir rúmlega 2 árum síðan og segir hún að augu hennar hafi opnast fyrir vandanum þegar nákomin vinkona hennar gekk í gegnum eggheimtu ferli.

Ég hafði hugsað lengi um það að gefa egg, í raun alveg frá því að ég varð átján ára gömul. En það er nákomin vinkona mín sem hefur þurft að ganga í gegnum eggheimtu þó nokkrum sinnum fyrir sjálfa sig og opnaði það augu mín fyrir því að eflaust eru mun fleiri í vanda með eggin sín heldur en vinkona mín. Í kjölfarið ákvað ég að ég væri staðráðin í því að gefa egg,

segir Alexandra í viðtali við Bleikt.

Alexandra Björg Eyþórsdóttir

Alexandra á sjálf engin börn enn þá en ákvað að hún vildi vera opin gjafi til þess að barnið, eða börnin sem kæmu frá hennar eggjum gætu haft samband við hana þegar og ef þau myndu vilja það í framtíðinni.

Ég skil vel ef einhver vill vita uppruna sinn á litla Íslandi.

Ferlið var tilfinningarússíbani

Alexandra hafði samband við Art Medica og lét þá vita að hún hefði áhuga á því að gefa egg og var það upphafið af ferli hennar sem hún lýsir sem tilfinningarússíbana.

Ég var ánægð að hafa gefið egg og hef aldrei séð eftir því en þetta var algjör tilfinningarússíbani. Auðvitað eru allar konur mismunandi þegar kemur að hormónum svo það er kannski ekki hægt að segja að allar konur verði eins og ég var. En ég var upp og niður og út um allt, ég gat verið brosandi og hlæjandi eina stundina og hágrátandi þá næstu. Ég gekk þó blessunarlega séð ekki ein í gegnum þetta og stóðu vinir og fjölskylda með mér.

Þegar Alexandra var að gefast eggjafi þurfti hún að bíða þar sem fyrirtækið var að flytja og breyta nafni sínu yfir í IVF klíníkin en þegar ferlið hófst fékk hún lyf til þess að bæla niður kerfi líkamans.

Þetta er nefúði sem bælir niður kerfið svo að þau geti í raun tekið aðeins við og stjórnað líkamanum, það þarf að byggja upp stór eggbú með mörgum eggjum og til þess eru notaðir hormónar sem ég sprautaði mig með í 10-12 daga. Svo er tekin lokasprauta að kvöldi til og eggheimta í kjölfarið.

Efaðist aldrei um ákvörðunina

Alexandra segist aldrei hafa efast eða séð eftir ákvörðuninni sína og að hún hafi engar áhyggjur af barninu sem varð til úr eggjunum hennar.

Þegar að fólk þarf að fá gjafaegg þá er það búið að reyna í nokkur ár að eignast börn og er að borga mörg hundruð þúsund til þess að eignast barnið sitt svo ég get bara ekki trúað því að það hugsi ekki vel um barnið þegar það loksins kemur þó svo að eggið hafi tilheyrt annarri konu.

Alexandra segist vel geta hugsað sér að gefa annað egg í framtíðinni og mælir eindregið með því að heilbrigðar konur skoði þennan valmöguleika.

Það er fjölskylda sem elskar þetta barn svo óendanlega mikið og að ég hafi geta hjálpað þeim að láta draum sinn rætast gerir mig hamingjusama, þó það komi ekki nema eitt barn úr gjöfinni sem ég gaf þá gerir það mig glaða.

Gerður Ólafsdóttir er á biðlista eftir gjafaeggi

Gerður Ólafsdóttir er þriggja barna móðir sem hóf barneignir ung og tók ákvörðun þegar hún var einungis 25 ára gömul að láta loka fyrir eggjaleiðarana vegna þess hve illa hún þoldi hormónagetnaðarvarnir. Í dag, mörgum árum síðar standa Gerður og eiginmaður hennar frammi fyrir ófrjósemi vegna snemmbúna tíðahvarfa og eru þau nýlega komin á biðlista eftir gjafaeggi.

Gerður Ólafsdóttir

Læknirinn sagði mér að ef ég myndi skipta um skoðun seinna meir þá væri glasafrjóvgun alltaf möguleiki en ég þoldi hormónagetnaðarvarnir ekki vel og leið mjög illa á þeim. Ég er handviss um að það hafi verið rétt ákvörðun að hafa látið loka fyrir eggjaleiðarana á þeim tíma sem ég gerði það og ég er sátt við að hafa tekið þá ákvörðun þá. En við faðir yngri barnanna minna vorum búin að eignast þrjú börn þegar ég var bara 23 ára gömul en slítum svo samvistum nokkrum árum seinna,

segir Gerður í viðtali við Bleikt.

Létu slag standa og reyndu glasafrjóvgun

Árin líða og Gerður kynnist núverandi manni sínum, hann á engin börn en hennar börn eru komin á unglingsaldur í dag.

Við fórum að hugleiða það hvort við ættum að reyna að eignast barn og höfum samband við IVF Klíníkina og förum í ferli þar fyrir glasafrjóvgun. Þá kemur fljótlega í ljós að það væri ólíklegt að þetta myndi takast þar sem ég væri orðin lág í ákveðnum hormónum sem stjórna egglosi.

Gerður og maðurinn hennar létu þó slag standa og reyndu á glasafrjóvgun.

Ég fór inn í þetta ferli með óbilandi sjálfstraust og trúði því að þetta myndi lukkast. Það var alger andleg brotlending fyrir mig í eggheimtunni að komast að því að eggbúin mín voru öll tóm. Ekki eitt egg. Maðurinn minn var ómetanlegur stuðningur í gegnum þetta ferli og ég er ótrúlega heppin að eiga hann fyrir maka.

Greindist með snemmbúin tíðahvörf

Nýlega fékk Gerður staðfestingu á því að um snemmbúin tíðahvörf væri að ræða og að það væri ástæðan fyrir því að engin egg urðu til hjá henni.

Það var búið að undirbúa mig undir að það væri stór möguleiki á því miðað við hormónamælingar en það var vissulega áfall að heyra það svona beint út. Ég var 36 ára þegar við hófum ferlið og þetta var staðfest þegar ég verð 38 ára gömul.

Þegar þarna er komið við sögu fá Gerður og maðurinn hennar fund með félagsráðgjafa og fara þau yfir málin.

Það eru ýmsar spurningar sem kvikna hjá manni þegar maður íhugar svona ferli og mjög gott að geta fengið annað sjónarhorn á þessar hugrenningar frá utanaðkomandi aðila. Svo er bara að bíða þolinmóð eftir því að röðin komi að okkur.

Gerður segir biðina erfiða og spennuþrungna

Við erum bara að bíða eftir því að fá símtal um að ferlið sé að fara af stað. Það hljómar voðalega auðvelt en ég viðurkenni fúslega að biðin er erfið. Það væri kannski auðveldara að hafa einhver ákveðin verkefni til þess að manni liði eins og maður væri að gera eitthvað annað en að horfa á dagatalið í laumi og bíða.

Gerður segir að hún hafi fengið mikið áfall þegar hún komst að því að glasameðferðin hafi misheppnast og að hún væri orðin svo gott sem ófrjó.

Það bærast innra með manni ýmsar tilfinningar. Á þetta eftir að takast, hvað ef þetta misheppnast, hvað geri ég þá? En þegar hugurinn fer með mig alveg á flug þá reyni ég að anda djúpt inn og komast á jörðina aftur. Á sama tíma finnst mér ég ekki eiga rétt á þessum tilfinningum því að ég á fyrir þrjú yndisleg og heilbrigð börn, þannig að þetta var mikil tilfinningasúpa í upphafi.

Gerður biðlar til kvenna sem hafa áhuga eða eru forvitnar um ferlið að setja sig í samband við IVF klíníkina.

Stór gjöf sem skiptir máli

Bara að sjá hvort að þetta sé eitthvað sem þær geti hugsað sér að gera. Þetta er stór gjöf sem skiptir viðtakandann miklu máli, en þetta er ekki að síður gríðarstór ákvörðun fyrir gjafann og skiljanlegt að þetta sé ekki eitthvað sem hentar öllum. Ég veit að þyggjendur eru óendanlega þakklátir fyrir gjöfina.

Gerður viðurkennir að henni hafi í upphafi fundist mjög skrítin tilhugsun að fá egg frá annarri konu en komst að þeirri niðurstöðu að þetta sé gjöf sem gefin er af miklum kærleik og hugrekki.

Mér hlýnar um hjartaræturnar að vita til þess að þarna úti eru konur sem sýna slíka gjafmildi að gefa ókunnugum konum egg sem þurfa á þeim að halda. Við sem bíðum eftir eggi erum allar jafn ólíkar og við erum margar og sögurnar okkar líka, sumar vilja um þetta og aðrar ekki. Með því að stíga fram og ræða um þetta langar mig bara að opna aðeins á umræðuna um þessi mál, hver veit nema einhver kona ákveði í kjölfarið að gefa egg. Það væri dásamlegt. Ég er bara ein af mörgum og þetta er mín saga.

Hvaða konur geta gefið egg

Blaðamaður Bleikt forvitnaðist um það hvaða konur það eru sem geta gefið egg og samkvæmt stöðlum IVF mega konur ekki vera eldri en 35 ára, ekki vera haldnar neinum þekktum arfgengum sjúkdómum, kynsjúkdómum né öðrum sjúkdómum sem aukið geta áhættuna fyrir hana við eggjagjöf.

Konur sem eru á getnaðarvörnum geta gefið egg og til þess að hefja ferlið þarf að hafa samband við hjúkrunarfræðing hjá IVF sem veitir nánari upplýsingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
433
Fyrir 11 klukkutímum

Sambandsdeildin: Framlengt í báðum leikjum – Aston Villa áfram eftir dramatík

Sambandsdeildin: Framlengt í báðum leikjum – Aston Villa áfram eftir dramatík
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Eftir vonbrigðin í gær hefur Pep ákveðið hvert aðalskotmark sitt í sumar verður

Eftir vonbrigðin í gær hefur Pep ákveðið hvert aðalskotmark sitt í sumar verður
Eyjan
Fyrir 14 klukkutímum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Ivan Toney sagður gera kröfu um að þéna meira en Bruno

Ivan Toney sagður gera kröfu um að þéna meira en Bruno