fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Magga systir Bryndísar tapaði baráttunni við heilaæxli: „Magga var komin inn á sjúkrahús – Hún mun aldrei fara heim aftur“

Aníta Estíva Harðardóttir
Miðvikudaginn 17. október 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er komið að þessu, voru orð sem ég var búin að bíða eftir með töluverðum kvíða. Rússíbana síðustu mánaða var að ljúka. Þetta hafði verið langt og erfitt ferðalag sem hófst einu og hálfu ári áður.“

Á þessum orðum hefur Bryndís Steinunn einlæga færslu sína á síðunni Amare. Þann 16. október árið 2010 var komið að deginum sem Bryndís, ásamt fjölskyldu og vinum höfðu kviðið fyrir í eitt og hálft ár.

Systurnar í 45 ára afmæli Möggu

„Systir mín, Magga var 46 ára gömul þennan laugardagsmorgun. Þetta hafði verið langt og erfitt ferðalag sem hófst einu og hálfu ári áður. Hún var nýbúin að halda upp á 45 ára afmælið sitt þar sem mikil gleði var og allir skemmtu sér konunglega í litlu íbúðinni hennar á Barónsstígnum. Nokkru síðar átti hún að fara í barnaafmæli til sonar góðra vinahjóna sinna en hún mætti ekki. Hún lét engan vita af sér sem var fremur óvenjulegt af henni.“

Kom að Möggu alblóðugri með skurð á höfði

Á mánudeginum eftir þá helgi mætti Magga, systir Bryndísar í vinnuna eins og vanalega en þann dag var hún ekki alveg eins og hún átti að sér að vera. Hún átti erfitt með að sinna hinum auðveldustu hlutum eins og að svara í símann. Tók hún því ákvörðun um að fara heim þar sem hún taldi sig vera slappa. Framkvæmdarstjóra fyrirtækisins, sem einnig var besti vinur Möggu fannst hegðun hennar skrítin og ákvað því að kíkja á hana.

„Það blasti ekki fögur sjón við honum þegar hann kom að heimili hennar. Hún hafði fengið flog og dottið á þvottavélina. Hún var alblóðug með skurð á höfði. Farið var með hana upp á sjúkrahús þar sem hún var send í allskonar rannsóknir til þess að komast að minnisleysi hennar. Hún virtist lítið muna eftir helginni og hvað hefði ollið flogakastinu. Ég var í heimsókn hjá henni með mömmu þegar læknarnir komu með mynd af höfði hennar og sýndu okkur hver sökudólgurinn væri. Á myndinni sást æxli. Hún fór í skurðaðgerð til þess að láta fjarlægja æxlið og sjá hvers kyns það væri. Það var illkynja og vegna legu þess var ekki hægt að fjarlægja það, fram undan beið hennar erfið lyfja- og geislameðferð.“

Magga systir Bryndísar í hestaferð árið 2004

Fann til hræðslu en reyndi að vera sterk

Lyfjameðferðin fór illa í Möggu og var hún mikið veik. Að sögn Bryndísar reyndi hún þó eftir bestu getu að ganga í gegnum ferlið með jákvæðnina að vopni.

„Einu sinni fékk ég að fara með henni í geislana og á meðan ég sat örugg á bak við gler hjá sérfræðingnum horfði ég á systur mína og ég fann til mikillar hræðslu. Ég hvíslaði með mér: „Þið getið læknað hana, þið getið lagað þetta,“ en ég sagði þetta svo lágt að það heyrði enginn í mér. Á sama tíma barðist ég við tárin því auðvitað varð ég að sýna systur minni að ég væri sterk og að ég trúði fullkomlega á það að hún myndi sigra.“

Tíminn leið og gekk geislameðferð Möggu vel. Fjölskyldan fékk góðar niðurstöður í kringum nóvember sem sýndu að æxli hennar hafði minnkað töluvert og var nánast horfið.

„En þrátt fyrir þetta var mikil sorg í fjölskyldunni. Málið er að systir mömmu átti dóttur sem var að klára sína baráttu við sama sjúkdóm. Þann sama dag og við fengum jákvæðar niðurstöður um heilaæxli Möggu systir, fengum við að heyra það að Brynja frænka myndi kveðja þennan heim áður en árið yrði liðið.“

Festist í flogakasti

Í desember árið 2009 útskrifaðist Bryndís sem stúdent, þá þrjátíu og þriggja ára gömul og fékk hún að vera í forsvari fyrir útskriftarnemendur og halda ræðu.

Bryndís og Magga

„Ég man hvað Magga systir var stolt af mér. Mamma hélt smá veislu en þrátt fyrir að ég væri ánægð að hafa náð þessum áfanga þá var ég líka að farast úr samviskubiti því að útskriftin hitti á sömu helgi og Brynja frænka var jörðuð fyrir norðan. Ég var búin að segja við mömmu að fara til Akureyrar en hún vildi gleðjast með mér og systir mömmu sagði líka að annað kæmi ekki til greina.“

Tíminn leið enn og aftur og fljótlega eftir áramót fékk fjölskyldan nýjar fréttir af æxli Möggu.

„Æxlið hafði stækkað aftur og önnur lyfjameðferð var sett af stað. Þetta var fyrsta áfallið af mörgum sem hrúguðust inn næstu mánuði. Mamma hringdi í mig hvítasunnuhelgina árið 2010, Magga hafði farið með vinahjónum sínum og syni þeirra í bústað. Þar hafði hún fengið flog sem hún var ekki að komast úr. Sjúkrabíll sóti hana en þurfti að stoppa á Selfossi til þess að læknir gæti hugað að henni áður en hægt var að koma henni til Reykjavíkur. Mamma og Agnes systir voru þær einu sem máttu fara niður á spítala og ég man hvað tíminn leið ógurlega hægt og síminn minn hafði aldrei verið jafn óþolandi hljóður. Við sátum saman ég og litla frænka mín og biðum heima hjá mömmu eftir fréttum. Loksins hringdi síminn, Magga hafði fengið heilablæðingu en var komin úr hættu og við máttum heimsækja hana daginn eftir.“

Hún fer aldrei aftur heim

Segir Bryndís þá heimsókn hafa gert öllum grein fyrir því hversu alvarlegt ástandið var orðið.

„Þegar okkur bar að garði voru tveir hjúkrunarfræðingar að fara með hana á klósettið. Þær spurðu hana hvort hún þekkti okkur og hún svaraði játandi. Þegar þær spurðu hvort hún vissi hverjar við værum sagði hún nei. Vá hvað það var erfitt.“

Heilablæðingin gekk fljótlega til baka og fór Magga aftur að þekkja alla en á þessum tímapunkti var fjölskylda hennar farin að sjá hvað æxlið var að gera henni.

„Hún ruglaði orðum saman og talaði oft mjög vitlaust. Hún myndi ekki hvað ég hét en kynnti mig sem bróður sinn. Sumarið leið og ég vann hjá Freyju þetta sumar á skrifstofunni. Dagamunur var á heilsu systur minnar og alltaf hélt maður í vonina. Það kom svo að því að Sara frænka hringdi í mig hágrátandi í vinnuna. Magga hafði fengið heilablæðingu og var komin inn á sjúkrahús. Hún myndi aldrei fara heim aftur.“

Sálartetrið orðið veikburða og tætt

Bryndís lokaði sig af inni á klósetti í vinnunni og grét.

„Ég þurrkaði svo tárin, beit á jaxlinn og fór fram á skrifstofu. Þar kláraði ég tvær tollskýrslur sem ég átti eftir og eitthvað smá meira af pappírsvinnu á met tíma. Gekk svo inn á skrifstofu til dóttur eigandans og lét hana vita að ég hefði klárað þetta sem þurfti að gera og hvort ég mætti fara heim. Við það brotnaði ég alveg niður. Ég gat orðið ósköp lítið lengur. Sálartetrið var orðið svo veikburða og tætt að ég skil stundum ekki á hverju ég hékk. Hvernig ég gekk í gegnum þessa daga.“

Eftir stutta legu á krabbameinsdeild Landspítalans var ákveðið að flytja Möggu á líknardeildina þar sem ekki var hægt að gera meira fyrir hana.

„Núna var bara biðin eftir endalokunum eftir. Vonleysið hafði tekið yfirhöndina og allir gengu um með gervibros og reyndu að gera sitt besta til þess að þrauka út daginn. „Það er komið að þessu,“ orðin sem mamma sagði í símann laugardaginn 16. október 2010. Ég fór með son minn í pössun og dreif mig upp á líknardeildina í Kópavogi.“

Fékk taugaáfall þegar hún sá systur sína

Móðir Bryndísar tók á móti henni uppi á líknardeildinni og hjúkrunarfræðingur settist niður með þeim til þess að úskýra fyrir þeim nokkra hluti.

„Hún sagði að andardrátturinn hennar væri hryglukenndur en að hún fyndi ekkert til. Hún sagði mér líka að ég þyrfti ekkert að vera hrædd við þetta. Ég hélt að hún væri eitthvað skrítin, ég meina, þetta var systir mín þetta yrði ekkert mál. Inn ganginn arkaði ég hugrökk og inn í herbergi. Um leið og ég kom þar inn fékk ég hálfgert taugaáfall. Þarna lá hún, tengd öndunarvél með morfín í æð og hljóðið sem hún andaði var hræðilegt. Ég brotnaði algjörlega saman og grét með þeim orðum: „ Ég get þetta ekki, ég get þetta ekki.“ Mamma og hjúkrunarfræðingurinn gengu með mig út úr herberginu og inn í kapelluna þar sem mér var gefin róandi tafla. Hjúkrunarfræðingurinn sendi mömmu svo aftur inn í herbergi og talaði rólega við mig.“

Stuttu síðar gekk Bryndís aftur inn ganginn að herbergi systur sinnar með hjúkrunarfræðingnum en stoppaði marg oft á leiðinni.

„Þegar við vorum komnar að dyrunum að herberginu stóðum við örlitla stund fyrir utan herbergið og horfðum inn. Allt í einu segir hjúkrunarfræðingurinn við mig: „Æjjj hún er svo þurr, það þarf að bera á hana krem. Getur þú hjálpað mér?“ Það var eins og ekkert væri eðlilegra. Ég var komin með hlutverk og allt í einu gat ég verið þarna inni stolt og ánægð bar ég krem á fæturna á fallegu systur minni. Eftir smá tíma fann ég hvernig fæturnir kólnuðu og hvítnuðu og vissi ég strax að núna væri tíminn kominn. Blóðið var hætt að renna niður í fætur hennar svo ég tók í hendi hennar og fór að bera krem á hægri handlegg hennar.“

Allra síðustu andköfin

Í kringum rúm Möggu stóð móðir hennar, faðir, kona hans, besta vinkona hennar, dóttir, systir og hjúkrunarfræðingur.

„Ég man ekki hvort fleiri voru þarna en það getur vel verið. Svo kom að því að hún dró djúpt inn andann og andaði frá sér. Svo varð allt hljótt. Við stóðum öll kyrr og hljóðlát með tárin í augunum í lengri tíma. Þetta var búið. Það liðu örugglega tíu til fimmtán mínútur þar til Magga tók allt í einu andköf en þau voru þau allra síðustu sem hún tók. Hjúkrunarfræðingurinn útskýrði að stundum gerist það eftir að fólk er látið. Eins og taugakippir. En systir mín var farin. Fallega, skemmtilega, duglega og sterka systir mín hafði kvatt þennan heim.“

Tilfinningin sem Bryndís upplifði var draumkennd. Fannst henni hún vera stödd í vondum en skrítnum draumi.

„Allt varð svo furðulegt, ég var þarna á svæðinu en samt var eins og ég væri ekki þarna. Mamma leit með grátbólgnum augum á starfsfólkið á líknardeildinni og bað þau að fyrirgefa sér það að þau fengju engar pönnukökur þann daginn. En allan tímann sem systir mín hafði legið á deildinni kom mamma með pönnukökur með rabbarbarasultu og rjóma fyrir alla deildina, starfsfólk, sjúklinga og aðstandendur, það var uppáhald Möggu. Starfsfólkið brosti og sagði: „Veistu hvað, í dag ætlum við að baka fyrir þig.““

Trúir því að þær muni hittast aftur

Bryndís er þakklát fyrir það að hafa geta verið með systur sinni þegar hún dró sinn síðasta anda.

„Ég væri að ljúga ef ég segði að ég væri ekki að þurrka tárin hérna á meðan ég rita þessi orð en ég veit að ég hitti hana aftur. Ég er mjög trúuð og trúin hefur hjálpað mér ótrúlega í gegnum þetta allt. Alveg frá þessum tíma og til dagsins í dag held ég í vonina og trúi því hundrað prósent að ég muni hita hana aftur, hlæja með henni og borða pizzu og drekka rauðvín eins og við gerðum hér í denn.“

Segir Bryndís engan geta ímyndað sér þann vanmátt sem aðstandendur finna fyrir nema að standa sjálfir í þeim sporum.

„Að reyna að brosa og segja hughreystandi orð þegar manni langar mest að öskra af reiði. Þunglyndið og kvíðinn sem lamaði mann. Gerði manni erfitt með að anda. Baráttuna við allt og alla og það að sjá vonarneistann slokkna og að lokum lífið í augum systur minnar. Orð mömmu minnar munu örugglega aldrei hverfa úr huga mínum þegar hún sagði: „Ég var hjá henni þegar hún tók sinn allra fyrsta andardrátt og ég var líka hjá henni þegar hún tók sinn síðasta.““

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum