fbpx
Miðvikudagur 20.febrúar 2019
Bleikt

„Ég sá enga aðra leið úr þessu ástandi en að gleypa hálfan pilluskápinn og binda snöru á ljósakrónuna“

Aníta Estíva Harðardóttir
Fimmtudaginn 13. september 2018 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Silja Björk Björnsdóttir skrifaði um og birti reynslu sína af því þegar hún innbyrti hálfan lyfjaskáp heimilisins og sat yfir dimmustu krikum veraldarvefsins. Von hennar var að finna á netinu leiðbeiningar um það hvernig hún gæti svipt sig lífi.

Reynslusögu sína birti Silja Björk fyrst á alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga, þann 10. september árið 2013, en á dögunum endurbirti hún sögu sína á vefsíðu sinni í þeirri von um að vekja athygli á því hversu lítið hefur breyst í geðheilbrigðismálum á löngum tíma.

Silja Björk

Blaðakonu lék forvitni á að vita stöðu og líðan Silju Bjarkar í dag, fimm árum eftir sjálfsvígstilraun hennar og ræddi einnig við hana um skoðun hennar á geðheilbrigðiskerfinu.

„Staðan á mér í dag er sem betur fer allt önnur en mikil sjálfsvinna og agi hefur farið í það að koma minni líðan á réttan kjöl síðustu fimm ár. Lífið hefur ekki verið laust við bakslög, en sannarlega hefur ekki komið aftur til þess að ég hafi fengið svona svæsnar sjálfsvígshugsanir eða reynt sjálfsvíg aftur. Það er hinsvegar langt og strangt ferli að berjast við geðsjúkdóma og ég vil meina það, sem og margir sérfræðingar og læknar, að maður læknast aldrei að fullu af slíkum sjúkdómum heldur eru þetta sjúkdómar sem maður þarf að læra að lifa með. Það hef ég gert með stuðningi fjölskyldu, vina, maka og sálfræðinga síðustu fimm ár og eins og ég segi, hefur það kostað mikið streð, sjálfsvinnu og sálfræðiaðstoð,“ segir Silja í viðtali við Bleikt.

Að enda líf sitt er síðasta skrefið

„Sem manneskja sem glímir við þunglyndi og kvíða tekst ég öðruvísi á við ýmsar aðstæður en aðrir og er kannski viðkvæmari en annað fólk á sumum sviðum. Síðan erum við öll bara misjafnlega byggð og saman sett, það sem hreyfir illa við mér hreyfir kannski ekki jafn illa við öðrum. Þetta ferli, að lenda inn á geðdeild og ná bata, hefur kennt mér ótal margt sem ég hefði annars ekki getað lært – um sjálfa mig, mannlegt eðli, fólkið í kringum mig og forgangsröðun í lífinu.“

Silja segir mikilvægt að fólk viti af því að þrátt fyrir að einstaklingur sé kominn með sjálfsvígshugsanir eða hugmyndir um að enda sitt eigið líf, að þá þýði það alls ekki alltaf að manneskjan sé komin með hnífinn í hendina eða pillurnar í glasið.

„Það er síðasta skrefið. Ég lifði með sjálfsvígshugsunum í mörg ár án þess að láta verða af þeim. Ég fór að sofa kvöld eftir kvöld, óskandi þess að ég myndi ekki vakna aftur. Þú ferð að láta þig dreyma um það hversu miklu betra lífið væri, hversu miklu auðveldara allt væri ef þú værir bara ekki til lengur. Þær eru flóknar þessar hugsanir og geta fylgt manni lengi án þess að maður reyni sjálfsvíg. Þær geta komið upp í ótrúlegustu aðstæðum og tekið mikinn tíma og þrek í heilanum á manni, þó maður endi aldrei á spítala.“

Telur geðdeildina vera geymslu fyrir veikt fólk

Blaðakona veltir fyrir sér persónulegri reynslu Silju á geðheilbrigðiskerfinu og hvort hún finni breytingu frá því að hún gekk fyrst inn í það fyrir fimm árum síðan og í dag.

„Ég hef oft talað um það og rætt opinberlega hversu illa geðheilbrigðiskerfið á Íslandi hefur reynst mér framan af. Ég hef alltaf fundið bestu hjálpina hjá einkareknum sálfræðingum en það er ekki öllum gefið að sækja slíka þjónustu, því hún er alls ekki ódýr og lítið niðurgreidd. Hefði ég ekki haft stuðning foreldra minna á þessum tíma og getað leitað til þeirra, fjárhagslega og fyrir andlegan stuðning, hefði ég örugglega endað aftur á geðdeildinni eða í gröfinni. Ég verð að vera hreinskilin með það. Auðvitað var „gott” að komast inn á geðdeildina, það er ákveðið áfall sem fylgir því að reyna að fremja sjálfsvíg og fjölskyldan mín þurfti líka smá aðlögun frá mér og tíma til að átta sig. En fyrir mér var geðdeildin bara geymsla. Þarna var maður bara geymdur í nokkra daga meðan lægði og svo sendur heim. Það var afleysingalæknir að sunnan sem sinnti mér, en ég lá á geðdeild Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar, og hann sinnti mér ekki nógu vel. Hvers vegna, veit ég ekki. Mannekla? Áhugaleysi? Ástand heilbrigðiskerfisins sem slíks? Ég fékk allaveganna ekki nægilega góða umönnun, lyfseðlar gleymdust, hann áframsendi engin gögn á sálfræðinginn minn og þegar ég fór að krafsa í þessum gögnum seinna meir komst ég að því að það eru engin gögn til um það að ég hafi legið þarna inni, aðeins komutími og brottfarartími. Það er að sjálfsögðu algjörlega óviðunandi að ekkert sé skráð í sjúkraskrá, hvaða lyf mér voru gefin og hvernig bataferli mínu var háttað,“ segir Silja sem er alls ekki sátt við heilbrigðiskerfið á Íslandi. Telur Silja geðsjúklinga alltaf lenda neðst í forgangsröðinni.

Geðsjúkdómar alveg jafn alvarlegir og beinbrot

„Heilbrigðiskerfið á Íslandi er handónýtt og geðsjúklingar lenda alltaf neðst að mínu mati. Fólki er kastað út af deildum, þeim er lokað yfir sumartímann og ekki sinnt, fólk fær ekki inngöngu eða viðunandi hjálp. Úrræðin eru af skornum skammti og eins og ég segi, geðdeildin er orðin geymsla. Öllum er hólfað saman – óháð veikindum eða þörfum og eftirfylgnin er engin. Ég segi þetta ekki aðeins af eigin reynslu heldur sé ég svona sögur daglega inn á GEÐSJÚK-hópnum sem ég stýri á Facebook. Þar koma inn sögur af vanhæfni geðheilbrigðiskerfisins á hverjum einasta degi og það er ömurlegt að upplifa sig svona máttvana og hjálparlausan. Auðvitað þarf að breyta þessu, geðsjúkdómar eru alveg jafn alvarlegir og alveg jafn mikilvægt að sinna þeim og beinbrotum eða krabbameini. Það sárvantar heilsujafnrétti á þessu landi, að andleg veikindi séu metin á sama hátt og líkamleg.“

Þrátt fyrir að Silja telji heilbrigðiskerfið standa illa að málefni geðsjúkra þá hefur hún orðið vitni að mikilli hugarfarsbreytingu almennings á geðheilbrigði.

Fólk orðið skilningsríkara í dag

„Ég hef hins vegar séð miklar breytingar á íslensku samfélagi og samhug þjóðarinnar síðan ég veiktist. Það eru að verða komin tíu ár síðan ég veiktist fyrst og þá var bara ekki í boði að vera andlega veikur nema þú hefðir lent í einhverju gríðarlegu áfalli. Áfallið sem ég lenti í, bílslys þar sem engin meiddist alvarlega eða lést, þótti ekki nógu mikið áfall og ég átti bara að „jafna mig”. Skólakerfið var ekki eins skilningsríkt og mér finnst það vera í dag sem og já, bara samfélagið í heild. Auðvitað hefur margt breyst, sérstaklega eftir að ég fór að ræða þessi mál opinberlega. Þá fannst mér eins og það opnaðist fyrir einhverja flóðgátt. Allt í einu var ég farin að fylla upp í umræðu sem enginn hafði verið að ræða og fann að það var virkileg þörf á því. Eftir 2015, sérstaklega eftir allar samfélagsmiðlabyltingarnar og #égerekkitabú sem ég stóð að ásamt Töru Tjörvadóttur og Bryndísi S. Sæunni Gunnlaugsdóttur, breyttu þessu landslagi. Nú má tala um þessi mál. Nú má vera geðsjúklingur án þess að vera í spennitreyju eða hafa lent í áfalli. Nú er fólk almennt opnara og skilningsríkara fyrir því að geðsjúkdómar og andleg veikindi eru ekki bara „aumingjaskapur” eða uppgerð – þetta eru alvöru sjúkdómar og kvillar sem fólk ræður ekkert endilega við. Það er vissulega allt orðið opnara og allskonar félagssamtök, stúdentasamtök, fovarnarverkefni og umræður sem hafa sprottið upp á síðustu 10 árum sem eru að gjörbreyta þessu landslagi. Nú er bara mál að heilbrigðiskerfið geri það sama.“

Reynsla Silju af sjálfsvígstilraun

Greinilega má sjá mikla hugarfarsbreytingu hjá Silju síðan hún reyndi að enda líf sitt fyrir fimm árum síðan og er hún mikil baráttukona fyrir geðheilbrigðismálum á Íslandi. Það er því mikil vitundarvakning og getur opnað augu fólks að lesa reynslu Silju sem hún skrifaði og birti fyrir fimm árum síðan. Silja gaf Bleikt góðfúslegt leyfi til þess að birta hluta af reynslu sinni sem lesa má hér fyrir neðan:

 „Það er ömurleg staðreynd, en staðreynd engu að síður, að sjálfsvíg verða æ algengari og algengari í nútímasamfélagi en umtalið breytist því miður hægt og harla lítið,“ segir Silja Björk á bloggsíðu sinni.

Silja hefur rætt það mikið að sjálfsvíg geti ekki talist til sjálfselsku.

„Nú gæti þessi skoðun mín reitt einhverja til reiði en ég skal útskýra mál mitt. Ég þjáist af sjúkdómi. Þessi sjúkdómur sést kannski ekki utan á mér, hann hefur kannski ekki stórtæk áhrif á daglega líkamsstarfsemi mína en hann er samt til staðar. Ég tek lyf á morgnanna, ég berst allan daginn við fylgikvilla þessa sjúkdóms og ég hef þurft að takast á við verstu bakslögin sem þessi sjúkdómur bíður upp á  – sjálfsvíshugsanir og tilraunir til þess. Þessi sjúkdómur er þunglyndi.“

Sorgleg rökvilla þegar fólki finnst það eiga skilið að deyja

Segist Silja ekki myndu óska hennar versta óvini að þurfa að þjást af þunglyndi og fylgikvillum þess.

„Tilfinningar þessar, það að óska eigin dauða, eru tilfinningar sem ég óska ekki upp á mína verstu óvini. Ég óska það engum að liggja í hnipri á gólfinu, öskrandi af tilfinningalegum sársauka og vilja ekkert heitar en að þurfa ekki að vakna næsta dag. Þetta eru hugsanir sem þunglyndissjúklingar og í raun margir aðrir sjúklingar, þurfa að glíma við á hverjum degi kannski.“

Silja segir að sem betur fer sé erfitt að útskýra hugsanir sem koma upp í kjölfar þunglyndis fyrir fólk sem ekki hefur upplifað þær.

„Sem betur fer hafa ekki allir kynnst þessu sjálfshatri, þessari sjálfsásökun og þeirri gríðarlega sorglegu rökvillu að finnast maður eiga skilið að deyja. Ég hugsaði oft með mér að sem þunglyndissjúklingur væri ég byrði. Ég væri ekki einungis mín eigin byrði, ég væri byrði á fjölskyldu minni, vinum og jafnvel samfélaginu í kringum mig. Ég væri einskis virði og allir í kringum mig yrðu örugglega bara fegnir að losna við mig úr þeirra lífi. Ég hugsaði oft að mamma og pabbi þyrftu ekki annað en að borga eina jarðarför,  ég myndi bara skrifa þeim bréf sem útskýrði þetta allt saman og þau myndu með tímanum bara átta sig á því að það væri betra fyrir þau ef barnið þeirra lægi undir grænni torfu.“

Vildi frelsa fjölskyldu sína undan hlekkjum

Með sjálfsvígstilraun sinni ætlaði Silja ekki einungis að binda enda á sínar eigin þjáningar og stöðva þá erfiðleika sem fyrir henni voru, heldur ætlaði hún einnig að frelsa fjölskyldu sína.

„Ég ætlaði líka að frelsa fjölskylduna mína frá þeim hlekkjum sem mér fannst ég vera að binda þau niður með. Ég get ekki með neinu móti reynt að útskýra það betur en svo að sársaukinn var það mikill, angistin, reiðin og vonleysið svo drífandi í mér þá stundina að ég sá enga aðra leið úr þessu ástandi en að gleypa hálfan pilluskápinn, skola honum niður með gúlsopum af líkjör og binda snöru á ljósakrónuna.“

Silja segist vona að fólk sjái og skilji að fórnarlömb séu ekki sjálfselskir aumingjar sem hafi ekki hugsað neitt út í fjölskyldur sínar og aðstandendur.

„Jú víst var ég að hugsa um mömmu, elsku fallegu mömmu mína sem hefur þurft að vaka yfir mér hágrátandi, sem hefur þurft að leggja út fyrir lyfjum og sálfræðikostnaði, mömmu minni sem hefur haft áhyggjur af mér í næstum því fjögur ár. Mömmu minni sem ég er búin að brjóta niður, mömmu minni sem ég veld vonbrigðum daglega með hegðun minni og framkomu, saklausu mömmu minni sem bað ekki um veikt barn. Ég hugsaði bara víst um hana þegar ég sat með pilluglasið í annarri og áfengið í hinni. Ég hugsaði um það hvað það væri gott fyrir hana að þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af mér, ég hugsaði hvað hún myndi spara mikla peninga á því að þurfa ekki að halda mér uppi og ég hugsaði um hvað hún hlyti að vera fegin því að vita að ég fyndi ekki lengur til sársauka.“

Enginn má vita af veikindunum

Ekki er auðvelt að sjá andleg veikindi utan á fólki. Þessi mynd er tekin stuttu eftir að Silja reyndi að enda sitt eigið líf.

Silja segir sjúkdóminn taka yfir hugsanir fólks og senda alla skynsemi á brott.

„Þær eru villur, rökleysa sem yfirtaka vit okkar og senda alla skynsemi á brott. Þarna er botninum algjörlega náð og leiðin upp á við er stórgrýtt og torfær. En það er til leið og hana má klífa.“

Þegar Silja vaknaði upp á gjörgæslunni daginn eftir að hún reyndi að fremja sjálfsmorð leið henni ennþá verr heldur en áður.

„Tilraun mín hafði mistekist og núna kæmu enn verri eftirmálar – að takast á við hlutina, eitthvað sem hefur alltaf reynst mér svo erfitt. Frá og með þeim degi hófst ný barátta fyrir mig, stríð sem ég herja við sjálfa mig á hverjum einasta degi þó ég beri það kannski ekki utan á mér. Það er brynjan okkar og sverð – leyndin og feluleikurinn. Að enginn átti sig á því að við erum veik, að við erum ekki heil og getum ekki rifið okkur upp úr lægðunum sem við lendum í eins og næsti maður virðist eiga auðvelt með.“

Breytingin sem Silja sér á samfélaginu frá því fyrir fimm árum síðan er mikil:

Silja segist harma það að samfélagið og undirliggjandi fordómar þessi skuli grafa undan þeim ömurlega sjúkdómi sem þunglyndi er.

„Þegar lítið er gert úr okkur (og öðrum sjúklingum sem þjást af geðkvillum) og við bara málaðir upp sem einhverjir aumingjar, letingjar og vælukjóar. „Hvernig getur sjálfsörugg, flott og gáfuð stelpa eins og ég sem ekkert skortir í lífinu, verið svona þunglynd? Hvernig getur svona skynsöm ung kona ekki áttað sig á því að það er ekkert að hjá henni annað en vælið í henni? Af því ég er veik. Af því ég er með sjúkdóm sem ég ræð ekkert við. Samfélagið myndi aldrei láta hafa það eftir sér að krabbameinssjúklingurinn, sem eftir áralanga baráttu kvaddi þennan heim af völdum sjúkdómsins væri bara sjálfselskur aumingji. Fólk verður ekki reitt við krabbameinssjúklinginn. Hvernig eru þá fórnarlömb sjálfsvígs einhverju frábrugðin ef þeirra sjúkdómar leiða þau einnig til dauða, burt séð frá því hvernig endalokin bar að?“

Silja áttar sig á því í dag að tilraun hennar til sjálfsvígs hafi verið misheppnað ákall á hjálp.

„Göng vonleysis sem ég sá ekkert ljós í en á nú von að sjá í bjartari endann. En þó mér líði betur og þó ég geti verið í kringum hnífa, lyfjaskápa og hægt sé að treysta mér fyrir sjálfri mér – læðast þessar hugsanir enn að mér. Þær ná kannski ekki sömu hæðum og þær gerðu, en þær koma samt.“

Fannst hún ekki þurfa að eyða tíma sínum á geðdeild

Eftir sjálfsvígstilraunina þurfti Silja að eyða tíma á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins og skammaðist hún sín fyrir það.

„Ég barðist á móti og vildi bara komast heim. Mér fannst algjör fásinna að ég þyrfti að vakna á morgnanna á settum tíma, borða morgunmat og lifa lífinu eftir einhverri ákveðinni dagskrá í kringum mun veikari einstaklinga en mig sjálfa. Þóttist bara vita betur og geta tekið á þessum atburði upp á eigin spýtur. En það var ekkert annað en hroki og hræðsla í mér, holdgervingur minna eigin fordóma. Svo ég vitni nú aftur í góða vinkonu mína: „Ef þú væri fótbrotin myndir þú ekki bara labba hér út. Nú ertu brotin á sálinni, það er alveg eins.“ Af hverju á ég að skammast mín fyrir að hafa legið inni á geðdeild? Af hverju á ég að skammast mín fyrir að hafa rætt við sálfræðinga, geðlækna og hjúkrunarfólk? Af hverju þarf ég að skammast mín fyrir að leita lausna á vandamálum mínum? Hvernig gerir þessi sjúkdómur mig að sjálfselskum aumingja?“

Enginn kýs það að verða veikur

Silja telur ástæðuna fyrir því að fólk skuli skammast sín fyrir andleg veikindi vera hræðsluna við umtal og slúður.

„Þess á ekki að þurfa, en við gerum það því miður samt. Við hræðumst umtal og slúður, við hræðumst að vera merkt sem einhverjir „klepparar“ og viljum ekki að skoðanir annarra á okkur breytist vegna sjúkdóms okkar. Það þurfti ég að glíma við, þessa viku sem ég lá inni; Að takast á við eigin fordóma og taka utan um þá staðreynd að ég væri veik og ég þyrfti faghjálp. Rétt eins og krabbameinssjúklingur sækir efnameðferð, rétt eins og manneskja með tannpínu leitar til tannlæknis – leitaði ég, manneskja með geðsjúkdóm, til geðlæknis.“

Hvetur Silja fólk til þess að vera meðvitað um sína eigin geðheilsu, sem og annara.

„Dæmum fólk ekki út frá þeim kvillum sem kann að hrjá það – því enginn kýs það að verða veikur. Föðmum hvort annað, verum umburðarlynd og reynum að skilja að ekki eru allir sjúkdómar sjáanlegir utan frá. Verstu baráttunnar heyjum við, við okkur sjálf innra með okkur. Munum, sama hversu óheyrilega erfitt það kann að vera, að það er alltaf ljós í enda ganganna. Það kemur alltaf jafnslétta á eftir brekku, það kemur dagur eftir þennan dag. Höldum í þetta eina stutta líf sem við fengum og reynum að gera það besta úr því. Dæmum ekki brotna fætur og dæmum ekki brotnar sálir.“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Ingibjörg: „Ég vill ekki hugsa til þess hvað hefði gerst ef ég hefði beðið í viku í viðbót með að fara upp á geðdeild“

Ingibjörg: „Ég vill ekki hugsa til þess hvað hefði gerst ef ég hefði beðið í viku í viðbót með að fara upp á geðdeild“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Katy Perry og Orlando Bloom trúlofuð

Katy Perry og Orlando Bloom trúlofuð
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Kærastan sendir Rúrik einlæga ástarjátningu: „Takk fyrir að vera maður drauma minna“

Kærastan sendir Rúrik einlæga ástarjátningu: „Takk fyrir að vera maður drauma minna“
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Kylie Jenner og Ariana Grande misstu milljónir fylgjenda í gær

Kylie Jenner og Ariana Grande misstu milljónir fylgjenda í gær

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.