fbpx
Fimmtudagur 21.febrúar 2019
Bleikt

Karólína gagnrýnir ungar mæður – „Þó þú getir búið til barn þá þýðir það ekki að þú getir endilega séð um það“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 26. ágúst 2018 16:30

Karólína Hrönn Hilmarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er mjög sorglegt að sjá hvað það eru margar ungar stelpur sem eignast börn án þess að vera í nokkurri aðstöðu til þess. Ungar konur sem eignast börn, hversu líklegar eru þær til dæmis til að útskrifast með stúdentspróf eða með háskólagráðu?“

Þetta sagði Karólína Hrönn Hilmarsdóttir þegar hún steig fram í viðtali fyrir þremur árum og hvatti ungar stúlkur til þess að bíða með barneignir. Ráðlagði hún ungum stúlkum að forgangsraða, byrja á því að ljúka menntun og tryggja fjárhagslega afkomu áður en barn yrði boðið velkomið í heiminn.

Í kjölfar viðtalsins varð mikið fjaðrafok. Karólína, sem er barnlaus, var harðlega gagnrýnd og varð fyrir reiðiöldu. Ungar mæður gagnrýndu hana opinberlega og varð Karólína fyrir miklu áreiti. Karólína uppskar þó líka jákvæð viðbrögð og þá helst frá eldri mæðrum en þó líka frá einstaka ungum mæðrum sem viðurkenndu að hún hefði rétt fyrir sér.

Skoðun Karólínu hefur ekkert breyst síðan og í hinu eldfima viðtali sagði hún meðal annars: „Við búum í landi þar sem það er mjög auðvelt að mennta sig. Það tel ég vera mikil forréttindi. Að nýta sér það og geta verið barnlaus á meðan finnst mér bara vera hið besta mál. Hins vegar vil ég benda stelpum á að á meðan það er frábært að geta fætt barn og verið móðir þá getur þú veitt barninu svo margfalt betra líf ef þú bara bíður aðeins, menntar þig og kemur undir þig fótunum.“

Skiptir ekki um skoðun þrátt fyrir að á móti blási

„Ég stend algjörlega staðföst á því að skoðun mín sé réttþrátt fyrir mikla gagnrýni á sínum tíma,“ segir Karólína aðspurð hvort gagnrýnin hefði haft djúpstæð áhrif á hana á sínum tíma. Bætir Karólína við að hún hafi með árunum orðið enn sannfærðari um að skoðun hennar væri sú eina rétta. Hún segir að hún hafi frá unga aldri tamið sér að standa á sínu.

„Í sannleika sagt er svolítið hræðilegt að koma berskjölduð fram á opinberan vettvang með sitt lífsviðhorf og fá síðan allan regnbogann af móttökum, bæði góðar og slæmar. Það verður þó alltaf til fólk með sært egó sem vill níðast persónulega á manni, því miður,“ útskýrir Karólína.

Karólína, sem er 26 ára gömul og starfar sem sjúkraliði í heimahjúkrun, á sjálf ekki barn í dag. Hún segist þó ekki útiloka möguleikann á barneignum í framtíðinni. Í hinu fræga viðtali sagði Karólína einnig að hún hefði orðið vör við að ungar stúlkur hefðu óraunhæfa glansmynd af móðurhlutverkinu.

„Mér finnst oft eins og stelpur sjái það bara fyrir sér að verða ung og kúl og hipp mamma sem lífið blasir við en ég held að þær sjái ekki alltaf alla myndina, og það held ég að sé að miklu leyti fjölmiðlum og bíómyndum að kenna. Það er oft eins og þessar stelpur sjái bara glansmyndina en það er ekki talað um allt strögglið sem fylgir og allt það leiðinlega sem fylgir móðurhlutverkinu.“

Vill ekki þurfa að reiða sig á barnabætur í framtíðinni

Blaðakona veltir því fyrir sér af hverju ung, barnlaus kona hafi ákveðið að tjá sig opinberlega um slíkt málefni vitandi að samfélagsmiðlar gætu logað í kjölfarið.

„Ég hafði velt þessu fyrir mér frá því ég var táningur og fylgdist með samnemendum mínum eignast börn frekar ungir. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á þverfræðilegu greininni sem mannfræðin er og atferlisfræðinni sem býr þar að baki. Það sem kom þessu af stað var þegar ég sá fréttatíma þar sem ungar mæður stigu fram, ósáttar við barnabætur minnir mig. Þá hugsaði ég bara: „Til hvers að reiða sig á það?““ segir Karólína og heldur áfram:

„Mig langar ekki að vera móðir í framtíðinni og pirra mig yfir því hvað barnabætur séu lágar. Frekar vil ég hafa góðar stöðugar tekjur til að bæði framfleyta mér og mínu barni ef ég kýs að eignast barn í framtíðinni. Ég veit að ég er líklega ósanngjörn að setja þetta upp á svo einfaldan hátt því ég veit að það hafa ekki allir jafn sterkan félagslegan og fjárhagslegan bakgrunn, en þó að Ísland í dag sé að dragast aftur úr hinum Norðurlöndunum hvað varðar lífsgæði þá er nánast ekkert sem getur stöðvað fólk í að styrkja þessa eiginleika og skapa góða framtíð fyrir sig og sína.“

Karólína tekur fram og leggur mikla áherslu á að hún sé ekki að hvetja stúlkur til að fara í fóstureyðingu. „Slysin verða og ég geri mér fulla grein fyrir því. Málið er að átta sig á aðstæðum, beita forvörnum og gera það besta sem maður getur úr því sem maður hefur.“

Umræðan um barneignir mjög eldfim

Karólínu fannst áhugavert þegar hún fyrst tjáði sig um barneignir hver viðbrögðin voru. Kveðst hún viss um að fleiri séu á þessari skoðun en ekki allir þori að stíga fram og tjá hana á opinberum vettvangi, enda málefnið afar eldfimt. Algengasta athugasemdin að sögn Karólínu var að hún ætti ekki barn og því gæti hún ekki vitað um hvað hún væri að tala og ætti vart rétt á að tjá sig með þessum hætti. Segir Karólína fráleitt að halda slíku fram.

„Viðbrögðin voru gríðarleg og margir sem tjáðu sig um þetta. Viðbrögðin sem ég fékk voru allt frá því að vera rosalega jákvæð og út í að ég væri heimsk og vissi ekkert hvað ég væri að tala um, því ég á jú ekki börn. Þá fór þetta út í virkilega lágkúrulegt tal um persónulegt líf mitt, sem kom þessu ekkert við,“ segir Karólína. „Auðvitað stingur það þegar einhver segir við mann að maður þekki ekki sanna ást fyrr en maður eignast barn eða þegar fólk segi að maður viti ekkert um málefnið, þegar maður kemur nákvæmlega úr þeim aðstæðum sem ég einmitt tala um í þessu viðtali.“

Lítið af uppbyggilegri gagnrýni

Aðspurð hvað henni finnst um þá gagnrýni sem hún fékk svarar Karólína: „Ég tek allri gagnrýni með opnum huga svo framarlega sem hún er sett fram með rökum. Í sannleika sagt fannst mér lítið af henni uppbyggjandi, þá sérstaklega frá þeim ungu mæðrum sem létu hæst í sér heyra, sem er auðvitað frekar dapurlegt. Eins og máltækið segir; bylur hæst í tómri tunnu.“

Karólína vissi innst inni að ef hún myndi opna sig um stöðu ungra foreldra yrði hún harðlega gagnrýnd. Þrátt fyrir það ákvað hún að láta slag standa því hún taldi mikilvægt að eiga samtal um stöðu ungra foreldra og þá í ljósi þess að sýnt hafi verið fram á að ungar og ómenntaðar konur sem eignast börn séu líklegri til þess að verða þunglyndar og finna fyrir kvíða í kjölfar barneigna.

„Það getur oft haft í för með sér neikvæð áhrif á foreldrahæfni þeirra. Þær eru ólíklegri til að ljúka menntun, líklegar til að þiggja meiri aðstoð frá ríkinu, búa jafnvel við lakari skilyrði sökum fjárhagslegs óöryggis og svo er sagan líkleg til að endurtaka sig, að þeirra barn verði ungt foreldri vegna þess að félagslegur bakgrunnur þeirra er ekki nægilega sterkur og stöðugur. Mig langar hins vegar að benda á að þó að ótal rannsóknir hafa verið gerðar í sambandi við bága stéttarstöðu, fátækt og að eignast barn ungur, sé það ekki staðreynd að börn þeirra sem búa við þessi lífsskilyrði séu dæmd til þess að feta í sömu fótspor – alls ekki, það eru vissulega til undantekningar, svo sannarlega, og það er frábært, ég fagna því! Málið hins vegar er hvort þú viljir vera í þeirri litlu prósentu þar sem allt fer á besta veg og að þú verðir heppin og komist úr þeirri krísu sem vill skapast þegar ungt fólk verður foreldrar.“

Menntun – meiri tekjur – stöðugleiki – svo jafnvel barn

Þrátt fyrir mikið af neikvæðum viðbrögðum í kjölfar viðtalsins segist Karólína einnig hafa fengið jákvæð og uppbyggileg svör.

„Það áhugaverða við það er að ég fékk aðallega jákvæð viðbrögð frá eldri og reyndari konum sem viðurkenndu að hafa viljað vera jafnvel aðeins eldri þegar þær eignuðust börn þar sem það hefði gert þeim lífið mikið auðveldara,“ segir Karólína og bætir við: „Ég fékk einnig hrós frá ungum stelpum sem sögðu við mig að þær væru sammála.“ Karólína bætir við að þær hafi þó ekki þorað að segja slíkt opinberlega af ótta við að þær yrðu skotnar í kaf af öðrum ungum mæðrum.

Karólína sagði í viðtalinu eldfima að mikilvægt væri að mennta sig og fer ekki ofan af því. Sagði hún sorglegt að verða vitni að því að ungar mæður lentu í fátækragildru sökum þess að þær fengju ekki tækifæri til að mennta sig. „Svo þurfa þær að lifa á atvinnuleysisbótum og leita ár hvert til Mæðrastyrksnefndar. Auðvitað eru til konur sem ná að klára langskólanám og eru með nokkur börn á framfæri. En það er einfaldlega þannig að hlutirnir flækjast mikið þegar þú ert komin með barn. Það eru heldur ekki allir færir um að vera foreldrar. Þótt þú getir búið til barn þá þýðir það ekki að þú getir endilega séð um það.“

Aðspurð um jákvæð viðbrögð við viðtalinu svarar Karólína:

„Ég var himinlifandi yfir öllum þeim jákvæðu viðbrögðum sem ég fékk. Mig langaði að opna á þessa umræðu, hvort það væri í alvöru svo hræðilegt að segja: „Ég einfaldlega hef ekki efni á barni núna“. Það er vissulega bæði afleiðing lélegrar forgangsröðunar í samfélaginu okkar en einnig í sumum tilfellum sjálfskaparvíti.“ Karólína bætir við: „Við erum öll fórnarlömb aðstæðna okkar en við getum reynt að breyta þeim til hins betra ef við áttum okkur á því hvaða tól við höfum til þess að ýta okkur upp á við. Svo er fólk auðvitað með mismunandi kröfur til lífsins, suma dreymir um að stofna fjölskyldu og skeyta lítið um að ná langt á vinnumarkaði eða mennta sig. Við erum jafn mismunandi og við erum mörg.“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Í gær

Valkyrja Sandra búin að fá nóg: „Hann er ekki pabbi þinn – Hættu þessu strax“

Valkyrja Sandra búin að fá nóg: „Hann er ekki pabbi þinn – Hættu þessu strax“
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Stjörnurnar minnast Karl Lagerfeld: „Þú lést mér líða eins og prinsessu“

Stjörnurnar minnast Karl Lagerfeld: „Þú lést mér líða eins og prinsessu“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Liam Hemsworth getur ekki hætt að stríða Miley Cyrus – Sjáðu bestu hrekkina

Liam Hemsworth getur ekki hætt að stríða Miley Cyrus – Sjáðu bestu hrekkina
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Stjörnuspá vikunnar: Tvíburinn slekkur á kvíðanum – Erfiðleikar hjá ljóninu – Óvænt ást hjá krabbanum

Stjörnuspá vikunnar: Tvíburinn slekkur á kvíðanum – Erfiðleikar hjá ljóninu – Óvænt ást hjá krabbanum
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Það sem stjörnurnar klæddust á Grammy verðlaunahátíðinni 2009 og 2019

Það sem stjörnurnar klæddust á Grammy verðlaunahátíðinni 2009 og 2019
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Læknirinn sagði að lykkjan hefði dottið úr henni – Annað kom í ljós tíu árum seinna

Læknirinn sagði að lykkjan hefði dottið úr henni – Annað kom í ljós tíu árum seinna

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.