fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Er eiginmaður Guðrúnar „gay“?

Ragnheiður Eiríksdóttir
Laugardaginn 11. ágúst 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sæl Ragga

Mig langar að fá að spyrja þig einnar spurningar.
Ég er búin að vera gift/í sambúð í 14 ár. Maðurinn minn hefur alltaf sagt að hann eigi bara eina konu og líti ekki á aðrar konur. Samband okkar hefur alltaf verið mjög gott, og þó að það hafi verið hæðir og lægðir í kynlífinu í gegnum árin hefur það líka alltaf verið gott. Fyrir stuttu síðan komst ég að því hann hefur verið inni á vefnum einkamál.is og verið að tala við karlmenn. Ég fann líka tvær kynferðislegar myndir af honum í tölvunni. Hann segist ekki hafa haldið framhjá, hann hafi bara verið að leika sér og það sé betra að fíflast í karlmönnum. Mig langar að spyrja þig hvort þetta sé eðlilegt, eða getur verið að hann vilji prófa að vera með karlmanni? Hann segist aldrei hafa verið með manni og langi ekki til þess, en ég er efins því hann á sjaldnast frumkvæði að kynlífi hjá okkur. Ég fer eðlilega að spyrja mig hvort skýringin sé að hann vilji frekar menn. Ef þú getur svarað mér yrði ég mjög þakklát.

Bestu kveðjur,
Guðrún

Komdu sæl

Spurningu þinni er alls ekki auðvelt að svara – ég get sannarlega velt upp ýmsum pælingum og ástæðum fyrir áhuga manns þíns á kynferðislegum samskiptum við kynbræður sína, en lykillinn að kynhneigð hans liggur innra með honum. Ég get hins vegar spjallað almennt um áhuga karla á körlum, þá sérstaklega þeirra sem líta á sig, og lifa, sem gagnkynhneigðir.

Sumir karlmenn eru kynferðislega forvitnir um aðra karlmenn – rétt eins og sumar konur eru kynferðislega forvitnar um konur. Okkur er tamara að taka því með stökustu ró ef gagnkynhneigð kona velur að eiga kynferðislega upplifun með annarri konu, en það sama virðist ekki gilda um nákvæmlega sömu hegðun karla. Lesbísk ævintýri hafa löngum verið efni kynóra í máli og myndum – sérstaklega meðal gagnkynhneigðra karla, en það sama virðist ekki eiga við um karlana. Ef við fréttum af samkynja ævintýrum karls sem hefur fram að því birst okkur sem gagnkynhneigður fer hommabjöllukórinn umsvifalaust í gang: „Gvuð er hann gay, og hefur hann lifað í lygi öll þessi ár?“ … sem gæti alveg verið, en þarf þó alls ekki að vera sannleikurinn.

 

En gott og vel – veltum nú upp nokkrum ástæðum sem gætu legið að baki tölvubrölts karls þíns:

Forvitni

Kynferðisleg forvitni er eðlileg. Kannski er maðurinn þinn forvitinn um kynlíf með öðrum körlum og langar að velta sér upp úr þannig pælingum með öðrum körlum. Þetta þarf ekki að þýða að hann langi nokkurn tíma að stunda kynlíf með karli af holdi og blóði.

 

Fantasíur

Eflaust á maðurinn innra með sér óra um kynlíf milli karla. Kynórar eru þó þess eðlis að það sem kveikir losta þarf ekki að vera það sama og fólk vill gera.

 

Löngun til að prófa í alvöru

Kannski langar hann að prófa að vera með karlmanni. Reyndar segir þú að hann neiti því, og ég hef enga ástæðu til að halda að hann sé að segja ósatt. Það er samt ekkert að því að langa að prófa – og þarf ekki endilega að hafa neitt með kynhneigð hans að gera, hvað þá ást hans á þér.

Losti

Einhverra hluta vegna virðast margir karlmenn eiga betra með að losa um losta með nafnlausum kynferðislegum samskiptum en konur. Áður fyrr var ástæða þess talin vera meira magn hormónsins testósteróns hjá karlmönnum – hormónsins sem hvetur greddu, drift og árásargirni. Nú eru æ fleiri á þeirri skoðun að ekki sé síður um að kenna félagsmótun okkar – við gerum ráð fyrir því að karlmenn eigi að vera graðir og árásargjarnir, á meðan konur eiga að vera penar, sýna helst ekki að þær séu kynverur og verjast fimlega ef graðir karlar reyna að fá þær til lags við sig. Druslustimplun og siðferðilegan tvískinnung þekkjum við því miður allt of vel. Fullveðja karlar nútímans hafa því alist upp við þá (rang)hugmynd að þeir búi í heimi þar sem ofgnótt er af karlmannlegri greddu en skortur á þeirri kvenlegu. Kannski er það þess vegna sem maðurinn þinn hefur ákveðið að klæmast við karla á netinu – það er auðveldara og skilvirkara. Það er líka þess vegna sem sumir karlar velja að fá útrás fyrir greddu með því að stunda kynlíf með öðrum körlum – það er einfalt, menn koma sér beint að efninu, og oftast án eftirmála. Kynhneigðin kemur því ekki endilega við!

Ég vona að þið getið átt áframhaldandi samtal um þessar pælingar. Kannski vill maðurinn þinn deila með þér órum, og kannski býr eitthvað ennþá stærra undir eins og kynhneigð hans. Eina leiðin til að fá botn í málið er að fríka ekki út heldur halda samtalinu áfram með umburðarlyndi og ást að leiðarljósi.

Gangi þér vel,

Ragga

Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir er hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi

www.raggaeiriks.com

Tímapantanir og spurningar: raggaeiriks@gmail.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann

Kostar sitt að kúka í Lystigarðinum – Akureyrarbær tvöfaldar verðmiðann
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.