fbpx
Bleikt

Stefanía Hrund: „Það tekur innan við mínútu að spenna beltið á sig og það skiptir svo gríðarlega miklu máli“

Aníta Estíva Harðardóttir
Föstudaginn 10. ágúst 2018 11:30

Örlagaríkan dag í febrúar árið 2017 var Stefanía Hrund á leið heim úr vinnu. Var hún nýfarin að vinna hjá Íslandspósti við að bera út póst á Eskifirði en hún er búsett á Reyðarfirði og þurfti því að keyra um 15 kílómetra leið á milli bæjarfélaga.

„Ég var ekki búin að vinna þarna í viku þegar slysið gerist. Á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar liggur Hólmahálsinn. Einu megin við veginn er brött brekka niður í sjó og hinu megin er lítil brekka, þar eru klettar og grjót fyrir neðan,“ segir Stefanía Hrund í einlægri færslu sinni á síðunni Vynir.is

Fann hvernig hún missti alla stjórn á bílnum

Daginn sem slysið varð hafði verið ágætt veður. Frekar kalt og smá vindur með tilheyrandi snjófoki.

„Færðin var þannig að ísing hafði myndast á veginum og þegar ég var að keyra heim hafði bætt töluvert í vindinn svo snjófokið yfir veginn var orðið meira en áður. Þegar ég var á leiðinni upp Hólmahálsinn frá Eskifirði finn ég hvernig ég fer að missa stjórn á bílnum. Hann fer að leita töluvert yfir á öfugan vegarhelming en þeim megin er sjórinn. Ég fann hvernig ég panikkaði þegar hann var komin öfugu megin. Ég kippti í stýrið og kom bílnum yfir á réttan vegarhelming með þeim afleiðingum að hann fer að rása til í hálkunni. Þá missi ég alla stjórn á bílnum og hann fer út af veginum.“

Stefanía segist muna sérstaklega eftir því frá því hún var barn hversu þreytandi henni fannst setningin „spenntu bílbeltið“ vera.

„Ég man eftir því að hafa hugsað „æji afhverju?“ en sú hugsun hvarf fljótt og maður spennti beltið. Fljótlega fór það að vera sjálfsagður hlutur að spenna beltið þegar ég settist upp í bíl. Ég er þakklát fyrir það í dag.“

Bíllinn ónýtur eftir slysið

Bíll Stefaníu fór út af veginum og rann niður litla brekku. Þar fór hann upp á stórt grjót sem var við klettana og niður af því aftur.

„Bíllinn endar þarna fyrir neðan veg og ég byrjaði strax að gráta. Það voru þrír bílar að koma upp á móti mér sem stoppuðu um leið og þeir komu að slysinu. Ég er virkilega þakklát fyrir fólkið sem var í þessum bílum en það náði að róa mig niður. Minna en þremur mínútum eftir slys kom yndisleg kona til mín inn í bíl, athugaði hvort ég væri í lagi og kom mér út úr bílnum. Þar tóku við mér tveir karlmenn sem ég kannaðist ágætlega við en annar þeirra er mikill vinur bróðir míns. Þegar það er búið að hringja á lögregluna og tilkynna slysið og kanna hvernig ástandið á mér er var ákveðið að vinur bróðir míns keyri mig heim á Reyðarfjörð.“

Stefanía man eftir því að hafa horft á bílinn sinn og ekki séð eina einustu beyglu né skrámu á honum.

„Ég man að ég hugsaði með mér að þetta hlyti að hafa verið minna en mér fannst. Á þessum tímapunkti fann ég ekki til, ég var í sjokki og átti erfitt með að muna eðlilega hluti eins og símanúmer fjölskyldunnar minnar. Ég næ þó að hringja í pabba og segja honum hvað gerðist.“

Faðir Stefaníu og bróðir hennar fór seinna sama dag að skoða bílinn og tilkynna henni að hann sé ónýtur.

„Fljótlega eftir að þeir koma heim aftur fer mér að líða eitthvað illa og bróðir minn keyrir mig til læknis. Læknirinn var staddur á Eskifirði svo við þurftum að keyra fram hjá slysstaðnum.“

Heppin að hafa verið í bílbelti

Læknirinn sem skoðaði Stefaníu ákvað að senda hana á sjúkrahúsið á Neskaupstað til nánari skoðunar og í ljós komu allskonar minniháttar áverkar. Stefanía tognaði á þremur rifbeinum, brákaði tvö rifbein ásamt öðru viðbeininu, tognaði í öxl, hálsi og baki og þjáðist af verki í öðru hnénu.

„Það síðasta sem læknarnir sögðu við mig áður en ég fór út var að ég hefði verið heppin að hafa verið í belti því annars hefði ég ekki sloppið svona vel. Ég þakka endalaust fyrir að hafa notað bílbeltið og hef alltaf gert það eftir þetta. Ég var heppin. Ég vil ekki einu sinni hugsa þá hugsun til enda hvernig hefði farið ef ég hefði ekki nennt í belti þennan morgun.“

Stefanía vill áminna fólk að nota bílbeltið alltaf.

„Það tekur innan við mínútu að spenna það á sig og það skiptir svo gríðarlega miklu máli upp á öryggi að gera.“

Færsluna í heild sinni má lesa á síðunni Vynir.is

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV. Hún hefur stundað nám við félagsfræði, fjölmiðlafræði, leikstjórn og framleiðslu.

Netfang: anita@pressan.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Drengirnir eru fundnir

Ekki missa af

Bleikt
Í gær

6 góð ráð gegn meðgöngukláða

6 góð ráð gegn meðgöngukláða
Bleikt
Í gær

Nú getur þú kúkað glimmeri – En við mælum ekki með því

Nú getur þú kúkað glimmeri – En við mælum ekki með því
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Ósáttur faðir hefur fengið nóg og húðskammar dóttur sína – Myndbandið sem hefur vakið heimsathygli

Ósáttur faðir hefur fengið nóg og húðskammar dóttur sína – Myndbandið sem hefur vakið heimsathygli
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Tobba og Kalli telja niður í settan dag – Grenja?

Tobba og Kalli telja niður í settan dag – Grenja?