fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

„Hvernig gat hann svikið mig svona?“

Ragnheiður Eiríksdóttir
Sunnudaginn 5. ágúst 2018 21:00

Ragnheiður Haralds og Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elsku Ragga

Ég skrifa til þín því ég er alveg ráðalaus og veit ekki hvað ég á að gera næst. Maðurinn minn er nýbúinn að játa fyrir mér framhjáhald og mig hefði sko aldrei í lífinu grunað að hann væri manngerðin til að gera eitthvað álíka og hélt í alvöru að við hefðum það bara fínt í sambandinu. Við eigum tvö ung börn og höfum svo sem ekki stundað mikið kynlíf síðustu þrjú árin, en fyrir mér hefur að minnsta kosti verið mikil ást á milli okkar. Á heimilinu eru líka tvö eldri börn að hluta til. Fæðingarnar voru báðar erfiðar og ég kenni því dálítið um að hafa kannski ekki sama áhuga á kynlífi og áður. Hann hefur samt aldrei kvartað og bara stutt mig og elskað. Eða ég hélt það alla vega og hann segist elska mig en ég skil ekki hvernig hann gat þá gert mér þetta. Mér líður eins og hann hafi traðkað á mér og vanvirt mig. Samt elska ég hann, eða núna elska ég og hata hann á sama tíma, og get ekki hugsað mér að missa hann.

 

Hann lofar öllu fögru og við erum búin að gráta saman, ég er búin að öskra og spyrja endalausra spurninga um hvert einasta smáatriði varðandi framhjáhaldið. Ég held að hann sé búinn að segja mér allt en ímynda mér endalaust að það sé hellingur eftir. Hvert einasta smáatriði er eins og hnífur í hjartað.

 

Hann segist hafa sofið hjá tveimur konum áður en börnin fæddust, bæði skiptin drukkinn eftir djamm, og svo er hann búinn að eiga í sambandi við vinnufélaga, gifta konu, nánast síðan eldra barnið fæddist. Fyrst segist hann hafa leitað til hennar sem vinar og það á að hafa verið í gangi í meira en ár áður en þau sváfu fyrst saman. Hann er búinn að sverja að þau hafi í mesta lagi sofið saman 10 sinnum, sem mér finnst reyndar ekkert lítið, og að hann hafi bundið enda á sambandið hálfu ári áður en hann sagði mér allt. Þau vinna ekki saman lengur, sem betur fer, en ég þurfti að krefjast þess að hann eyddi henni á Facebook. Mig langar að fara heim til hennar og hella mér yfir hana, en ég treysti mér ekki til þess vegna þess að ég gæti hreinlega ráðist á hana. Ég er svo reið.

 

Núna er daglega lífið á heimilinu ömurlegt. Við reynum að halda hlutunum eðlilegum fyrir börnin og erum að komast í einhvers konar rútínu. Hann segist vilja vinna traustið mitt aftur en ég sé ekki hvernig það á að geta orðið. Hvernig gat hann svikið mig svona?

 

Elsku Ragga hvað á ég að gera næst? Á ég að biðja hann að flytja tímabundið út? Á ég að heimta öll lykilorðin hans á samfélagsmiðlum? Þurfum við að leita til ráðgjafa? Get ég verið með manni sem sveik mig svona? Er hægt að bjarga okkur?

 

Takk fyrirfram,

Ráðalaus kona

 

 

Kæra Ráðalaus

Takk kærlega fyrir að skrifa mér svona einlæglega og opna þig um málefni sem snertir ansi marga – líklega okkur öll. Það er greinilegt að sársauki þinn er mikill, reiðin líka og allar erfiðu tilfinningarnar sem þú nefnir. Ég held að viðbrögð þín séu afskaplega eðlileg og ég er algjörlega viss um að margir lesendur geta speglað sig í skrifum þínum. Svik eins og þessi eru svo óskaplega sársaukafull. Þú áttir ekki von á neinu og hélst að þú værir í öruggri höfn þar til annað kom í ljós.

 

Ég velti fyrir mér hverju játning mannsins þíns þjónaði. Fyrst hann elskar þig svona mikið, sambandið var búið og hann ákveðinn í að halda áfram að vera hluti af fjölskyldunni. Mig grunar að hann hafi verið að létta á samviskunni sinni – flytja sársaukann yfir á þig – og ég er alls ekki viss um að það sé alltaf besta hugmyndin. En játningin kom, líf ykkar fór á hvolf og úr því þarf að vinna.

 

Ég þekki afskaplega fáa sem hafa aldrei nokkurn tíma orðið fyrir áhrifum af framhjáhaldi, beint eða óbeint. Við tengjum framhjáhald við sársauka, svik, rifrildi, angist, lygar, missi, áföll, skömm, einangrun og vonbrigði. Við lærum í uppvextinum að framhjáhald sé eitt það versta sem hægt sé að gera maka sínum eða lenda í – samt halda sjúklega margir fram hjá. Hvað er það? Sumir vilja halda því fram að í framhjáhaldi felist tækifæri til betra sambands, nýs lífs og nándar.

 

Sambandsráðgjafinn Esther Perel hefur líkt þessu við að fá krabbamein og lifa það af. Enginn velur eða vill fá krabbamein, en sú erfiða reynsla getur gefið lífinu nýja dýpt. Prófaðu að gúgla Esther, hún hefur ýmislegt gagnlegt að segja, og einnig er óhætt að mæla með bókum hennar The state of affairs og Mating in captivity þar sem hún fjallar um ýmislegt sem tengist einkvæni, framhjáhaldi og hvers vegna svona óskaplega margir stunda athæfi sem veldur þetta miklum sársauka.

 

Mér finnst líklegt að maðurinn þinn sé að segja alveg satt þegar hann játar þér ást sína og kannski hefur ástin verið söm allan tímann. Framhjáhald hefur oft ekkert með ást á makanum að gera, heldur eitthvað allt annað. Kannski var sjálfsmyndin hans það veik að hann sótti í viðurkenningu frá fleirum – kannski var það spennan og feluleikurinn sem kitlaði – stundum var hann kannski bara graður.

 

Spurningum þínum í lok bréfsins get ég ekki svarað. Fyrir suma er aðskilnaður í einhvern tíma það hárrétta – fyrir aðra alls ekki. Sumir vilja endilega hafa aðgang að lykilorðum og leyfi til að skoða síma, tölvupóst og annað fyrirvaralaust og hvenær sem er – finnst það nauðsynlegt fyrir öryggi. Ég mundi hins vegar alltaf vilja ræða rétt makans til einkalífs. Kannski getið þið haldið áfram og notað reynsluna til að styrkja tengsl ykkar, endurnýja sambandið – því get ég þó alls ekki svarað en eflaust væri mjög gagnlegt fyrir ykkur að leita til ráðgjafa. Þriðji aðili sem getur greitt fyrir samtali ykkar, kannski dálítið eins og túlkur, gæti hjálpað mikið. Í það minnsta þurfið þið að gera ráð fyrir að talsverð vinna sé framundan. Hverju vinnan skilar er svo óvíst – en vonandi verður það annaðhvort fallegt og sterkt samband, eða þolanlegur skilnaður.

 

Gangi þér vel kæra!

Ragga

Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir er hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi

www.raggaeiriks.com

Tímapantanir og spurningar: raggaeiriks@gmail.com

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum
Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Verk og vit sett með pomp og prakt

Verk og vit sett með pomp og prakt
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.