fbpx
Laugardagur 16.febrúar 2019
Bleikt

Inga Hrönn var svipt sjálfræði á geðdeild – „Ótrúlega þakklát fyrir að hafa komist lifandi út úr heimi fíknarinnar“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 2. ágúst 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margar fréttir á þessu ári um ungmenni sem hafa látist vegna fíkniefna urðu til þess að vekja upp minningar og hugsanir hjá Ingu Hrönn Sigrúnardóttur, sem er 22 ára. Segist hún ótrúlega þakklát fyrir að hafa ratað til baka, það að hún sé á lífi sé ekki sjálfsagt og hún reyni að virða það og taka ekki lífinu sem sjálfsögðum hlut.

„Ég hef verið edrú síðan í október árið 2016, en ég var ein af þeim sem þurfti margar tilraunir til þess að koma mér á réttan stað í lífinu, síðustu ár hafði ég verið í daglegri neyslu fíkniefna. Neyslusagan mín er eins og hjá svo mörgum öðrum, ég byrjaði að fikta og ætlaði bara rétt að prófa, en áhrifin heilluðu mig fljótt og það tók mig ekki langan tíma að vera farin að neyta fíkniefna daglega,“ segir Inga Hrönn.

Hún náði botninum í september sama ár og segist hafa farið oftar inn á Vog en hún getur talið. Hún á eina heila meðferð að baki og óteljandi innlagnir inn á geðdeildir og spítala, og rekur hér síðustu mánuðina áður en hún varð edrú.

„Ég er ótrúlega heppin með fjölskyldu og á þeim allt að þakka, þau hafa staðið við bakið á mér allan þennan tíma, jafnvel á stundum þegar að ég átti það alls ekki skilið og það er að miklu leyti því að þakka að þau gáfust aldrei upp á mér að mér tókst að verða edrú á þessum tímapunkti.

Sjálfvígshugsanir og neysla fíkniefna fara ekki vel saman

Í lok september 2016 var lífið mitt orðið óbærilegt, ég hataði sjálfa mig, ég þoldi ekki lífið mitt, ég lifði í algjöru stjórnleysi, sjálfsvorkunin var í botni og mér fannst allt ömurlegt. Ég hugsaði mjög reglulega um það að mig langaði að deyja og brátt voru þessar hugsanir búnar að yfirtaka líf mitt. Ég fór margoft inn á geðdeild á stuttum tíma og þess á milli fór ég út og var í neyslu, lífið mitt snerist engöngu um það að ná mér í fíkniefni og mér var alveg sama hvern ég særði, hvað ég gerði eða hvern ég sveik, næsta skammt skildi ég fá sama hvað það kostaði mig.“

„Ég sá enga leið út úr myrkrinu og vanlíðanin var orðin svo mikil að mér fannst raunverulega að fólkið mitt væri betur sett án mín, ég væri búin að vera til vandræða í svo mörg ár og nú hefðu þau bara gott af því að fá smá frí.

Það segir sig sjálft að sjálfsvígshugsanir og neysla fíkniefna fara einstaklega illa saman og það var vegna þess hve góða vinkonu ég átti að ég komst inn á fíknideild Landspítalans í tæka tíð. Þegar ég hugsa til baka og rifja upp þessar minningar finnst mér eins og ég sé að hugsa um draum eða einhvern annan en mig, það er furðulegt að hugsa til þess hversu mikið ég hef breyst á stuttum tíma,“ segir Inga Hrönn.

Svipt sjálfræði á geðdeild

„Það var eitt kvöld í lok september að ég er færð með lögreglufylgd á Landspítalann í Fossvogi, þangað kom með mér ein besta vinkona sem ég hef nokkurn tímann átt og mamma hennar, en þær og þeirra fjölskylda hafa verið eins og önnur fjölskylda fyrir mig í nokkur ár.

Ég stóð á gólfinu inni í heimsóknarherbergi og tárin streymdu niður kinnarnar, móðir vinkonu minnar tók utan um mig og lofaði mér að við kæmumst í gegnum þetta saman, að finna væntumþykjuna og hlýjuna var ómetanlegt og ég verð þessari fjölskyldu ævinlega þakklát fyrir ástina og styrkinn sem þau sýndu mér á þessum tíma.

Þegar ég er búin að vera inni á geðdeild í nokkra daga fer einhver atburðarrás sem ég man ekki eftir í gang og ég missi öll tengsl við raunveruleikann, áður en ég veit af er ég hlaupandi skólaus á Hringbrautinni og veit ekkert hvert ég er að fara eða hvernig ég komst þangað. Þaðan fer ég inn á BSÍ og fæ að hringja í vinkonu mína sem kom og sótti mig.

Nokkrum dögum seinna er ég mætt aftur inn á geðdeild, ég gat ekki séð hvernig ég átti að fara að því að lifa áfram, ég var föst inn í mínum eigin veruleika og það skipti mig ekki máli hvað fólk sagði, ég vildi bara fá fíkniefni.

Ég reyndi að fá að fara út af deildinni en læknarnir voru sammála um það að mér væri ekki treystandi fyrir því að vera eftirlitslaus úti í samfélaginu, ég var á þriðja degi í fráhvörfum og mér leið ömurlega, þegar að mér var neitað um að fara út réðist ég að læknunum, hótaði þeim öllu illu og mér fannst á þessum tímapunkti að það væri verið að halda mér þarna að ástæðulausu. Ég kom virkilega illa fram við starfsfólkið sem var ekki að reyna að gera neitt annað en að hjálpa. Var ég því snúin niður og færð á lokaða deild, svipt sjálfræði og sett inn í herbergi.

Þar inni var ekkert nema rúm sem var boltað niður í gólfið og lítill gluggi, en hinum megin við þann glugga sat maður og fylgdist með mér, allan sólahringinn.“

Beinustu leið af geðdeild í partý

„Eftir að hafa verið eina eða tvær nætur á þessari deild kemur læknir til mín og býðst til þess að hjálpa mér að komast inn á Vog, ég hafði nú þegar verið á biðlista til að komast þar inn en það voru ennþá vikur jafnvel mánuðir í að ég fengi pláss. Ég þáði boðið, þetta var á fimmtudegi og mér var boðið pláss á Vogi á mánudagsmorgni klukkan 10.

Ég var ótrúlega þakklát fyrir þetta og ætlaði mér að vera inni á geðdeild þar til að ég kæmist að, ég vissi að það væri það skynsamlegasta í stöðunni, en svo tók fíknin yfir og mér tókst að sannfæra starfsfólkið um að leyfa mér að fara heim í millitíðinni, sagðist vilja hitta fjölskylduna og eyða tíma með dóttur minni, ég vissi auðvitað að það væri lygi. Þegar að ég kom út lá leiðin beinustu leið í næsta partý og þar var ég þangað til ég mátti mæta á Vog.

Þegar að ég kom inn á Vog var ég svo máttfarin, ég var tíu kílóum undir kjörþyngd, gat varla staðið í fæturna, það voru líklega komnar nokkrar vikur síðan að ég hafði síðast farið í sturtu eða burstað í mér tennurnar. Ég var búin að týna bílnum mínum og skuldaði háar upphæðir.

Ég var einnig búin að nota svo mikið af efnum sem ráðast á taugakerfið að ég hafði litla stjórn á höndunum og fyrstu dagana kastaði ég upp öllu sem ég borðaði. Þeir sem tóku á móti mér voru búnir að reyna allar mögulegar aðferðir við að ná hjartslættinum mínum niður en ekkert virtist ætla að ganga.

Sem betur fer er fólkið sem vinnur hjá SÁÁ algjört fagfólk og hægt og rólega fór ég að koma til baka. Eftir tveggja vikna afeitrun á Vogi fór ég á Vík og var þar í fimm vikur.

Á Vík kynntist ég yndislegum konum og lærði margt um sjálfa mig, ég fór að hafa trú á eigin getu og að ég gæti orðið edrú.“

21 mánuður edrú – Mæðgurnar hafa fengið hvor aðra tilbaka

Ég gekk inn á Vog með enga trú um að lífið gæti orðið betra, mér fannst ég einskis virði, mér fannst ég búin að reyna svo oft að þetta væri orðin tilgangslaus barátta.

Það er vegna SÁÁ, AA, stuðningi frá fjölskyldunni minni og vinum að mér hefur tekist að ná tuttugu og eins mánaða edrúmennsku. Ég hef reynt að gera allt sem ég get til að standa mig í móðurhlutverkinu eftir að ég kom úr meðferð og höfum við mæðgur fengið hvor aðra til baka og getum notið lífsins saman, það er ómetanlegt.

Ég er í dag í fullu námi og hef verið í endurhæfingu í vetur en stefni á að byrja að vinna í byrjun september, litla stelpan mín blómstrar og stendur sig vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og það er dásamlegt að fá að vera til staðar og fylgjast með henni vaxa og dafna. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa komist lifandi út úr heimi fíknarinnar og að hafa fengið tækifæri til að gera eitthvað við lífið mitt.“

 

 

Ragna Gestsdóttir
Ragna Gestsdóttir er umsjónarmaður Fókus á DV. Hún hefur starfað hjá DV síðan 2014 og vann einnig á Séð og Heyrt 2016.
Ragna skrifar almennar fréttir, viðtöl, greinar um menningu, viðburði, fólk og fleira.
Hún er forvitin um menn, málefni og menningu og með minni á við bestu leitarvél.
Netfang: ragna@dv.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 2 dögum

Kærastan sendir Rúrik einlæga ástarjátningu: „Takk fyrir að vera maður drauma minna“

Kærastan sendir Rúrik einlæga ástarjátningu: „Takk fyrir að vera maður drauma minna“
Bleikt
Fyrir 2 dögum

Kylie Jenner og Ariana Grande misstu milljónir fylgjenda í gær

Kylie Jenner og Ariana Grande misstu milljónir fylgjenda í gær
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Kristín Rut var á geðdeild með nýfætt barn: „Langaði helst að drepa sjálfa mig og hana“

Kristín Rut var á geðdeild með nýfætt barn: „Langaði helst að drepa sjálfa mig og hana“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Ásdís Rán: „Allar konur vilja gjafir og rómantík, þó þær séu rauðsokkur“

Ásdís Rán: „Allar konur vilja gjafir og rómantík, þó þær séu rauðsokkur“
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Taktu prófið: Aðeins fólk með háa greindarvísitölu nær öllu rétt

Taktu prófið: Aðeins fólk með háa greindarvísitölu nær öllu rétt
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Flugfreyja selur fallega íbúð: 66 fermetrar á 35 milljónir

Flugfreyja selur fallega íbúð: 66 fermetrar á 35 milljónir
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Þóttist hafa gengið undir róttæka lýtaaðgerð og plataði mörg hundruð þúsund manns – „Þú ættir að drepa þig“

Þóttist hafa gengið undir róttæka lýtaaðgerð og plataði mörg hundruð þúsund manns – „Þú ættir að drepa þig“
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Lára fór til lýtalæknis eftir atvik í Versló: Kennari notaði nefið sem sýnishorn

Lára fór til lýtalæknis eftir atvik í Versló: Kennari notaði nefið sem sýnishorn

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.