fbpx
Mánudagur 21.janúar 2019
Bleikt

Höfuðkúpa Konnýjar söguð í sundur til að bjarga lífi hennar: „Mér finnst ég ekkert sérstaklega heppin“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 25. júlí 2018 21:30

Í febrúar síðastliðnum var Konný Björk Viðarsdóttir stödd í sálfræðitíma í Heilsuborg, þegar hún fékk allt í einu miklar höfuðkvalir frá hnakka og fram í enni. Konný féll í gólfið, fékk mikil uppköst og var mjög óttaslegin um hvað væri að gerast.

„Þarna var æð að rofna í höfðinu á mér,“ segir Konný í samtali við DV og segir Konný að fyrir þetta atvik hafi hún aldrei kennt sér meins að ráði og enginn í hennar nánustu fjölskyldu hafi lent í slíku.

Konný var sagt að hún hefði verið heppin að vera stödd á heilsustofnun, henni var komið undir læknishendur og sama dag var aðgerð reynd, með þræðingu í gegnum nára til að reyna að stöðva blæðinguna.

Þá tók næsta áfall við, blóðtappi fór af stað í heila hennar og þurfti að hætta við aðgerðina. „Þarna var mér aftur sagt að ég væri heppin,“ segir Konný. Farið var yfir stöðuna með eiginmanni hennar og systur og var ein nótt látin líða. „Þá kom í ljós að hægt hafði á blæðingunni, en hún ekki stöðvast og fór ég í aðgerð þar sem höfuðkúpan var söguð í sundur. Aðgerðin tókst sem betur fer vel og fyrst var ég á gjörgæslu og síðan á almennri deild. Síðan var ég send heim og bataferlið hófst.“

„Til að lýsa alvarleika aðgerðarinnar; höfuðleðrinu á mér var flett niður á mitt andlit. Ég er með þrjár dældir ofan í höfuðið eftir þessi átök. Þetta er ekkert grín.“

Hafnað af Tryggingastofnun

Konný segir að það fyrsta sem hún hafi upplifað var áfallið, síðan „sjokkið“ og eftir það hafi hún farið að hugsa um og upplifa hvaða áhrif aðgerðin hefði á hennar daglega líf, hennar nánustu, heilsuna og fjárhaginn. „Fjármál og bætur eru ekki það fyrsta sem maður hugsar um,“ segir Konný. Læknir hennar skilaði inn umsókn fyrir hana til Tryggingastofnunar ríkisins og sótti umtímabundnar örorkubætur. Umsókninni var hafnað, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar sinnum og á hvaða forsendum?

„Ég fæ þau svör að umsókn sé hafnað þar sem endurhæfing sé ekki fullreynd,“ segir Konný. „Tryggingarstofnun telur að sjúklingur sem var með rofna æð í höfði, fær blóðtappa í heilann og höfuðkúpan er söguð opin til að bjarga lífi hans sé ekki næg ástæða til að fá tímabundnar örorkubætur. Sjúklingurinn eigi bara að fara og finna sína endurhæfingu af sjálfsdáðum þó svo að læknirinn minn hafið vottað að það væri fullkomlega óraunhæft.“

Vísar TR þar til þess að hún var byrjuð í úrræði hjá Virk, sem er einmitt ástæðan fyrir því að hún var stödd í Heilsuborg þegar áfallið dundi yfir. „TR vill semsagt að ég klári fyrst úrræðið sem ég var komin í hjá Virk, en staðan er sú í dag að ég kemst varla fram úr rúminu, hvað þá meira. Samkvæmt læknisráði á ég að halda alveg kyrru fyrir þar til í september hið minnsta.“

„Við erum tvær í þessari stöðu núna, hin konan þurfti hins vegar ekki í aðgerð. Hins vegar fær hún sömu svör hjá TR og ég, umsókn um tímabundna örorku er hafnað. Læknirinn minn, maðurinn minn og ég höfum óskað eftir að tala við einhvern hjá TR, en fáum aldrei að ræða við neinn yfirmann. Það eru bara alltaf stúlkurnar á símanum og í afgreiðslunni sem verða fyrir svörum og þær ráða auðvitað engu. Af hverju kemur enginn sem ræður einhverju, af hverju er ferlið rafrænt, af hverju þarf alltaf að byrja upp á nýtt þegar einni umsókn er hafnað?“

Auknar fjárhagsáhyggjur og engin aðstoð í boði

Flestum þætti nóg um að vera tekjulaus og bótalaus á meðan viðkomandi er að jafna sig eftir aðgerð líkt og þá sem Konný gekkst undir. En til viðbótar leggjast ofan á fjárhagsáhyggjur, auk þess sem fjölskyldan á ekkert bakland og engin aðstoð í boði.

„Ég er 44 ára gömul og ég og maðurinn minn höfum alla tíð unnið fyrir okkur og því sem er okkar. Núna er hins vegar staðan sú að við vorum búin að koma okkur í skuldir í bankanum okkar og því er engin fyrirgreiðsla í boði þar. Maðurinn minn er verktaki og því hefur hann ekki getað tekið neitt frí til að vera með mér og aðstoða mig, þá myndu hans tekjur lækka eða vera engar. Jafnframt var ég búin með allan veikindarétt í minni vinnu og fæ því engar greiðslur þaðan. Ég er lærður tannsmiður og var bara orðin aðeins útbrunnin í vinnunni minni. Þess vegna var ég í úrræði hjá Virk og þess vegna stödd í þessum tíma í Heilsuborg.“

Heimilislæknir Konnýjar, ráðgjafi hennar hjá Virk og ráðgjafi sem sér um mál spítalans hafa verið henni til aðstoðar við að sækja bætur. Segist Konný einnig eiga góða aðstoð að  í vinkonu sinni sem er hjúkrunarfræðingur og heimsækir hana daglega. „Hún einfaldlega bætti mér við í heimsóknarúntinn sinn. Ég veit ekki hvar ég væri, ef ég hefði ekki félagsskap hennar og aðstoð. Þetta gerir hún endurgjaldslaust.“

„Dóttir mín fléttaði voða fínt yfir skurðinn,“ segir Konný.

Er orðin þreytt á að vera sögð heppin

Þess má geta að 60% einstaklinga sem verða fyrir því að æðagúlpur rofnar deyja, „við hin 40% skiptumst í tvennt; 25% sem lifa af eru með óafturkræfan skaða, eins og málleysi, föst við hjólastól eða lömun. Hin 15% gengum í gegnum sams konar erfiðleika, þó að skaðinn sé ekki jafn mikill, við getum talað og hreyft okkur,“ segir Konný.

„Ég fæ ítrekað að heyra hvað ég er heppin,“ segir Konný, „bæði þegar áfallið dundi yfir, þegar ég var send í aðgerðina, alltaf svo heppin. Mér finnst ég ekkert sérlega heppin, þegar ástandið er svona eins og það er hjá mér í dag. Óvissan er alger, skammtímaminnið er alveg, ég man stundum ekki hvað ég gerði fyrir tveimur mínútum og það kemur ekki í ljós strax, það er ekki búið að reyna á mikið meira en að ég ligg heima hjá mér. Það er ekkert í boði meðan ég er að jafna mig. Endurhæfing myndi ekki gera neitt fyrir mig að svo stöddu. Ég tek þessu sem niðurlægingu hjá TR að fólk þar sem hefur ekki upplifað þetta, skuli bara segja mér að ég eigi að klára endurhæfingu. Mér finnst lítið gert úr veikindum mínum og verið að draga úr alvarleika þeirra. Það er öllu kippt undan mér og hverdagslegustu verk þvælast fyrir mér.“

„Ég get varla staðið í lappirnar heima hjá mér. Ég sleppi að fara inn á staði ef er of langt labb inn. Ég sleppti að fara í jarðarför ömmu minnar norður í land af því að ég treysti mér ekki til að fara. Það voru einar 4 fermingarveislur sem ég fór ekki í af sömu ástæðu. Og niðurlægingin að heyra stofnun segja við mig: „Jú þú getur það víst,“ er alger. Ég pantaði ekki þessa heilablæðingu með Aliexpress, ég bað ekki um hana.“

Mikil viðbrögð eftir stöðufærslu á Facebook 

Aðspurð um hvort að Konný vilji óska eftir aðstoð almennings, þá segist hún hafa hugsað það eftir að hún skrifaði stöðufærslu á Facebook síðastliðinn þriðjudag. Fjöldi einstaklinga, meirihlutinn ókunnugur, hafi sent henni skilaboð, hvatt hana til að fara með frásögn sína í fjölmiðla, sagt frá eigin reynslu af TR og hvatt hana til dáða.

„Ég var ekkert búin að óska eftir aðstoð, en ég verð bara að játa að ég verð að gera það. Ég þarf á aðstoð að halda.“

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að styrkja Konný og fjölskyldu er bent á reikning hennar:

Reikningur: 0556-26-712

Kennitala 290474-4269

 

Ragna Gestsdóttir
Ragna Gestsdóttir er umsjónarmaður Fókus á DV. Hún hefur starfað hjá DV síðan 2014 og vann einnig á Séð og Heyrt 2016.
Ragna skrifar almennar fréttir, viðtöl, greinar um menningu, viðburði, fólk og fleira.
Hún er forvitin um menn, málefni og menningu og með minni á við bestu leitarvél.
Netfang: ragna@dv.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Tík Ingu Dóru blessuð við hátíðlega athöfn

Tík Ingu Dóru blessuð við hátíðlega athöfn
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Íslenskar konur lýsa perrum í vinnunni: „Viðskiptavinur reyndi að kyssa mig á munninn fyrir góða þjónustu“

Íslenskar konur lýsa perrum í vinnunni: „Viðskiptavinur reyndi að kyssa mig á munninn fyrir góða þjónustu“
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Margrét Gnarr birtir sláandi mynd: Þarna var hún heltekin af líkamsrækt – „Ég er á góðum stað núna“

Margrét Gnarr birtir sláandi mynd: Þarna var hún heltekin af líkamsrækt – „Ég er á góðum stað núna“
Bleikt
Fyrir 5 dögum

Hvernig túlka börn tilfinningar sínar? – „Ég elska einhvern þá vil ég knúsa“

Hvernig túlka börn tilfinningar sínar? – „Ég elska einhvern þá vil ég knúsa“