fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Kristný reyndi fyrst að fremja sjálfsvíg fjórtán ára gömul: „Ég vildi bara deyja“

Aníta Estíva Harðardóttir
Þriðjudaginn 3. júlí 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristný Maren lenti í miklu einelti í æsku sem hefur haft áhrif á hana alla tíð. Þegar hún var einungis tólf ára gömul fór hún fyrst á barna- og unglingageðdeild þar sem reynt var að hjálpa henni.

„En ég þáði ekki hjálpina. Ég vildi bara deyja. Það skipti ekki máli hvern ég talaði við á slæmu tímunum. Sálfræðinga, vini fjölskyldu, þessar hugsanir spruttu alltaf upp aftur sama hvað,“ segir Kristný í einlægri færslu sinni á Mæður.

Fullorðna fólkið brást Kristnýju

Kristný er í dag þunglynd og kvíðin, hún hefur skaðað sig oft í gegnum tíðina og reynt að fremja sjálfsvíg.

„En er það í rauninni það sem ég vildi, vildi ég deyja? Ég á fjölskyldu sem ég vill ekki yfirgefa, ég á barn sem ég vill ekki að sé móðurlaust. Ég elska alla í kringum mig og allir elska mig en ég vill bara að þessi leiði og endalausa þunga farg fari. Ég vill bara geta sætt mig við mig og það sem ég hef lent í.“

Allt frá árinu 2010 var Kristný lögð í mikið einelti í skólanum og segir hún fullorðna fólkið í kringum sig hafa brugðist sér.

„Fullorðna fólkið sem átti að vera til staðar í skólanum fannst mjög gaman að ná út úr mér hvað væri í gangi, en svo var niðurstaðan sú að þetta væri ekki talið sem einelti.“

Kristný gekk til sálfræðings sem hún gat ekki treyst á og segir hún hann hafa verið virkilega leiðinlegur við sig.

„Ef ég sagði eitthvað var ég bara að ljúga, hann trúði ekki einu né neinu sem ég sagði. Á þessum tímapunkti hætti ég að tala við fólk, hætti að treysta fólki. Eftir þessi atvik eða áföll varð ég mjög lokuð og hafði það varla í mér að umgangast fjölskylduna.“

Reyndi sjálfsvíg fyrst fjórtán ára gömul

Kristný segir þunglyndið hafa aukist til muna við einangrunina og að kvíðin hafi fylgt í kjölfarið.

„Ég laug mig inn veika í skólann flesta daga og fengu krakkarnir í bekknum það hlutverk að koma heimavinnunni til mín. Hún endaði aldrei heima hjá mér. Ég held að blöðin mín og bækurnar hafi oftast bara flækst á víðavangi.“

Kristný segist aldrei hafa átt erindi í neinn vinahóp og að krakkarnir sem hún umgekkst hafi baktalað hana fyrir framan hana.

„Það var horft á mig eins og ég væri rugluð því ég átti mjög erfitt með að tjá mig og talaði mjög lítið.“

Þegar Kristný var einungis fjórtán ára gömul reyndi hún að fremja sjálfsvíg í fyrsta skiptið.

„Ég tók inn slatta af töflum klukkan 23:00 og sjúkrabíllinn var mættur um miðnætti. Læknirinn sem kom með gerði fátt annað en að standa þarna, horfa á mig og skamma mig. Ég hágrét og datt svo út rétt áður en ég fór inn í sjúkrabílinn. Ég var send upp á elliheimilið á Hólmavík þar sem ég var ekki talin vera í hættu. Þar átti ég að vera svo hægt væri að fylgjast eð mér ef eitthvað kæmi upp á.“

Fékk ekki að hitta fjölskyldu sína

Tveimur dögum síðar fékk Kristný að fara af elliheimilinu en var send í sveit á Hólmavík þar sem hún var í þrjá mánuði.

„Ég var á sama bæ og fjölskyldan mín bjó en ég mátti ekki hitta hana. Mér var bannað að fara til mömmu minnar. Upp á að raska eigin líðan? Á þessum tíma tók ég skólarútuna í skólann á morgnanna af því að ég þorði ekki öðru. Barnaverndarfulltrúinn sagði mér að ég yrði lengur í sveitinni ef ég hagaði mér ekki. Ég man að ég stalst alltaf úr skólanum til mömmu og hágrét svo þegar ég þurfti að kveðja hana. Þetta var brot á mínum réttindum.“

Á þessum tíma stundaði Kristný mikinn sjálfsskaða og enn þann dag í dag hugsar hún oft til þess án þess þó að framkvæma það. Vegna sjálfsskaðans er Kristný með mjög áberandi ör á höndum sem hún skammaðist sín mikið fyrir áður fyrr.

„Í dag finnst mér öflugra að horfa á þau sem áminningu um hvaðan ég kem, úr hverju ég hef unnið og hvert ég stefni.“

Vildi bara deyja

Þegar Kristný var orðin fimmtán ára gömul reyndi hún aftur að fremja sjálfsvíg.

„Ég tók inn nokkur spjöld af svefnlyfjum og í þetta skipti var ég send suður. Ég var látin drekka nokkur staup af lyfjakolum sem gekk misvel að koma ofan í mig. Á þessum tímapunkti vonaði ég að tilraunin hefði virkað. Ég vildi bara deyja.“

Kristný lifði sjálfsvígstilraun sína af og var send á teymisfund hjá Bugl fljótlega eftir að hún vaknaði.

„Það eina sem mér var boðið var viðtal við sálfræðing. En mér var þó boðið það. Mér heyrist á ákalli samfélagsins í dag að það sé ekki hlaupið að því að fá aðstoð fyrir börn í vanda sem eiga virkilega erfitt. Þau sem enga bið þola.“

Sálfræðingurinn sem Kristný hitti vann sér inn traust hennar og þótti Kristnýju gott að finna loksins einhvern sem hún gat talað við.

„Ég fékk aftur smá aukna trú og ég vildi að ég gæti enn talað við hann, en svona er það að fullorðnast. Það tók teymi á móti mér á Bugl og reyndi að ræða við mig en ég átti mjög erfitt með að ræða við þau þannig að ég vann úr sama og engu. Ég var bara með móral og leiðindi, var ekki að nenna þessu og var bara unglingurinn með mótþróann.“

Kynntist fíkniefnum

Það var á þessum tíma sem Kristný kynntist fíkniefnum í fyrsta sinn.

„Loksins eitthvað sem gat tekið mig út úr þessum aðstæðum og róað mig niður, rétt á meðan ástandið varði yfir. En um leið og víman dvínaði varð vanlíðanin aftur að sama svartholinu nema oft á tíðum tvöfalt svartara en síðast. Í hvert skipti.“

Kristný hefur fjórum sinnum farið inn á Vog ásamt því að hafa eytt dágóðum tíma á Stuðlum.

„Eftir að ég fór að vinna statt og stöðugt í mér, með stöðugri leiðslu og stöðugum vilja hef ég fundið svo margt til þess að lifa fyrir. Maður gerir það ekki á leiðinni til glötunar, sem er eina leiðin sem fíknin tekur mann. Maður kemst alltaf dýpra, þangað til að lífið fjarar alveg út. Sá sem getur enn þá sagt „ég er alveg á botninum“, hann hefur ekki enn náð þessum botni. Þarna fór ég að tala í staðin fyrir að þegja. Ég fann fólk sem vildi hlusta og var tilbúið til þess að standa við hliðina á mér, tilbúið til þess að taka mér eins og ég er.“

Gott að eiga fjölskyldu til þess að tala við

Í dag er Kristný yfirleitt nokkuð hamingjusöm með líf sitt.

„En að sjálfsögðu eru dagarnir eins misjafnir og lífið. Ég veit að það er mikið talað um vandamál vegna geðheilsu unga fólksins en aldrei er góð vísa of oft kveðin. Það er alltaf til hjálp, það er alltaf einhver þarna úti með hlýja hönd sem er tilbúin að taka í ykkar. Oftast þarf ekki að leita lengi. Það er í lagi að vera feimin, og það er í lagi að stama því út úr sér. Það er í lagi að gráta á meðan og það er í lagi að vera hræddur. Hjálpin er þarna.

Kristný segist ekki fá sjálfsvígshugsanir lengur en að hugi hennar sé oft þungur.

„Ég fæ oft þungar hugsanir og mér líður oft illa. En þá er gott að eiga góða fjölskyldu til þess að tala við og ég er mjög heppin með allt mitt fólk.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Fyrrum stjóri Manchester United staðfestir viðræður

Fyrrum stjóri Manchester United staðfestir viðræður
433
Fyrir 13 klukkutímum

Mjólkurbikar karla: Valur burstaði FH – KR lenti undir en vann stóran sigur á Ásvöllum

Mjólkurbikar karla: Valur burstaði FH – KR lenti undir en vann stóran sigur á Ásvöllum
433
Fyrir 14 klukkutímum

Enska úrvalsdeildin: Liverpool fór langt með að stimpla sig út úr titilbaráttunni – United þurfti að hafa fyrir sigrinum

Enska úrvalsdeildin: Liverpool fór langt með að stimpla sig út úr titilbaráttunni – United þurfti að hafa fyrir sigrinum
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“

Arnar spurður út í ákvörðun sína – „Það er ekkert meira um það að segja“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.