Bleikt

Brynja fæðingarlæknir hefur miklar áhyggjur: Þetta gæti gerst ef viðvarandi skortur verður á ljósmæðrum á Íslandi – „Þetta verður mikil blóðtaka“

Aníta Estíva Harðardóttir
Þriðjudaginn 3. júlí 2018 15:15

Brynja Ragnarsdóttir, fæðingalæknir

Brynja Ragnarsdóttir hefur starfað í sextán ár sem fæðingarlæknir, þar af sjö sem sérfræðingur hér á Íslandi. Áður en Brynja hóf störf sem fæðingarlæknir hér á landi starfaði hún í Bretlandi þar sem hún upplifði með eigin augum hvað mannekla í ljósmæðrastéttinni getur verið dýrkeypt.

„Á þeim spítölum sem var mannekla og vantaði ljósmæður var mikið álag. Útkoman í fæðingum og hjá nýburum og mæðrum var verri en annars staðar. Svo ég veit hversu dýrkeypt áhrif þetta getur haft á útkomuna. Við erum að horfa á eftir fjölda reyndra ljósmæðra labba út og við vitum að svona uppsagnir eru alvarlegri heldur en verkfallsaðgerðir vegna þess að það er alveg hluti af þessum ljósmæðrum sem munu ekki koma aftur. Þær hafa tekið skrefið, sagt upp og það er ekki aftur snúið fyrir þær allar,“ segir Brynja í viðtali við blaðamann Bleikt.

Þar sem meðgöngu- og fæðingarþjónustan byggir á ljósmæðrum er útkoman betri

Brynja segist venjulega hafa verið stolt af því að vinna sem fæðingarlæknir á Íslandi en að í dag hafi hún áhyggjur.

„Ísland er einn besti staður í heiminum til að fæðast á þegar horft er á útkomu nýbura og mæðra. Það er hvorki tilviljun né tölfræði tengd höfðatölu. Því er að þakka góðu aðgengi verðandi foreldra að meðgönguvernd og fæðingarþjónustu sem hefur hingað til verið vel mönnuð af hæfu fagfólki. Ljósmæður gegna þar lykilhlutverki og eiga stóran þátt í hversu vel gengur. Flestar konur fara í gegnum meðgöngu, fæðingu og sængurlegu án þess að þurfa læknisaðstoð enda vel sinnt af sínum ljósmæðrum. Ljósmæður sjá einnig um langflestar ómskoðanir á meðgöngu og skima fyrir og greina vandamál sem geta komið upp sem sagt vaxtarskerðingu fósturs og fósturgalla.“

Brynja segir að rannsóknir sýni fram á að þar sem meðgöngu- og fæðingarþjónusta sé byggð á ljósmæðrum (með góðu aðgengi að læknisþjónustu þegar við á) fækki óþarfa inngripum og að útkoman sé betri.

„Þegar bregður útaf er góð samvinna ljósmæðra og fæðingarlækna nauðsynleg til að tryggja að allt fari á bestan veg. Í Bretlandi er greiður aðgangur að ókeypis meðgöngu- og fæðingarþjónustu eins og hér, en útkoman hefur verið mun síðri. Þar hefur víða verið viðvarandi skortur á ljósmæðrum sem komið hefur niður á þjónustu við konur á meðgöngu og í fæðingu. Þar er nú átak í gangi til að reyna að snúa við þessari þróun með því að fjölga ljósmæðrum umtalsvert.“

Tekur aðeins örfáar vikur að brjóta þjónustuna og árangurinn niður

Brynja segir það taka langan tíma að byggja upp jafn góða þjónustu og árangur líkt og tíðkast hefur á Íslandi.

„En það tekur aðeins örfáar vikur að brjóta það niður. Því þarf að bregðast skjótt við áður en það er um seinan. Þetta verður mikil blóðtaka, jafnvel þótt það verði samið fljótlega. Það er samt skaði og hann verður meiri og meiri eftir því sem líður á og fleiri uppsagnir taka gildi. Þannig að það er virkileg tímapressa á að leysa þetta mál áður en kerfið okkar hrynur.“

Brynja segir Landspítalann vera að missa mjög dýrmæta starfsmenn einungis vegna þess að ljósmæður hafa ekki notið almennilegrar viðurkenninga.

„Það tekur sex ár í grunnmenntun fyrir ljósmóður og svo er hún lengi að afla sér reynslu í starfi. Við höfum ekkert ljósmæður á færibandi sem sækja um. Við erum að útskrifa að hámarki tíu ljósmæður á ári og það eru þrjátíu búnar að segja upp. Þetta er mjög alvarlegt mál.“

Neyðaráætlun Landspítalans virkar bara í örskamman tíma

Eins og áður sagði starfar Brynja sem fæðingarlæknir á Landspítalanum í fullu starfi. Síðan ljósmæður gengu út þann 1. júlí síðastliðinn hefur Brynja staðið vaktina og orðið vitni að því hvernig reynt hefur verið að bjarga öllu fyrir horn.

„Í nótt fæddust sjö börn, undir eðlilegum kringumstæðum hefðu þessir nýburar og foreldrar þeirra verið fluttir yfir á sængurkvennadeildina en vegna ástandsins er verið að reyna að útskrifa sem flesta heim. Þannig er þunganum ýtt yfir á heimaljósmæður en það er líka mjög erfitt. Það er hámark sumarleyfa í gangi núna og þær hafa ekki alltaf tíma til þess að taka á móti nýju fólki. Þannig að þessi neyðaráætlun Landspítalans virkar ekki nema bara í örskamman tíma.“

Brynja segir hljóðið í ljósmæðrum eðlilega vera virkilega þungt þessa dagana.

„Bæði er erfitt að horfa á eftir góðum ljósmæðrum og samstarfskonum hverfa burt og svo eru sífellt fleiri að hugleiða uppsagnir eða þegar búnar að því. Þannig að þetta er alvarleg staða. Auðvitað eru þetta ljósmæður sem bera hag barna og mæðra sér í brjósti og þetta eru sömu konur og eru búnar að hlaupa upp úr rúmunum endalaust á næturnar til þess að koma á vaktina þegar það er of mikið álag. Þær eru bara komnar að þolmörkum. Við stóðum á fæðingarvaktinni í morgun með fulla fæðingardeild og sem betur fer gengu allar fæðingar afskaplega vel í nótt. Það geta allir farið sáttir heim. En við stóðum og horfðum út á alla granítstaflana fyrir utan sem er klæðningin sem er verið að setja á sjúkrahótelið og við veltum því fyrir okkur hvað þessi granítklæning myndi borga mörg árslaun ljósmæðra. Það virðist endalaust vera hægt að fjárfesta í steypu en ekki í mannauðinum, starfsfólkinu sem vinnur vinnuna.“

Mikið álag á aðra starfsmenn en enginn gengur í starf ljósmæðra

Brynja segir vissulega mikið álag lenda á öðru starfsfólki spítalans vegna uppsagnanna.

„Það er talsvert aukin vinna á starfsmenn vökudeildar, meira en áður. Við, vakthafandi læknar reynum að flýta fyrir öllum útskriftum og afgreiðslum mála eins og hægt er svo vissulega er meira álag á öllum. Þó við göngum aldrei í starf ljósmæðra þá erum við að vinna við hlið þeirra og reyna að láta allt ganga upp. Þetta er í raun og veru sorglegt. Það er bara búið að ganga of nærri þeim til þess að þær geti haldið áfram við óbreytt ástand. Maður bara óskar þess og bíður og vonar að það náist samningar við þær og að komið verði til móts við þær almennilega þannig að þær geti samþykkt.“

Aðspurð um aukið stress frá foreldrum segir Brynja að starfsmenn finni mikið fyrir því.

„Það er talsvert hringt á fæðingarvaktina og það lýsa allir yfir hræðslu vegna fæðingarinnar. Þau eru hrædd um að vera vísað annað og að þau fái ekki þá bestu þjónustu sem þau eiga skilið. Við deilum auðvitað þeim áhyggjum en auðvitað eru allir fagfólk og það er aldrei gert neitt til þess að stofna neinum í hættu. En þetta er samt veruleg skerðing á þjónustu sem að er svo mikilvæg. Það vill náttúrulega enginn vekja ótta hjá foreldrum en fólk gerir sér alveg grein fyrir því hvað staðan er alvarleg og hefur áhyggjur. Eðlilega eru margir sem bera ótta og eru kvíðnir vegna fæðingarinnar og svo bætist þetta ofan á.“

Mikill stuðningur frá almenningi

Brynja segir almenning sýna ljósmæðrum mikinn stuðning þar sem fólk gerir sér grein fyrir því að uppsagnirnar séu ekki gerðar af græðgi.

„Við finnum mikið fyrir stuðningi. Enda er þetta algjört neyðarúrræði hjá ljósmæðrum. Það er enginn sem segir upp vinnunni sinni léttilega og þær hafa reynt allt. Þetta eru þær ljósmæður sem hafa alltaf verið boðnar og búnar til þess að hlaupa til þegar þess þarf. Þá hafa þær komið hlaupandi frá sínum fjölskyldum. Almenningur gerir sér grein fyrir því. Fólk er sammála því að þetta séu eðlilegar launakröfur. Fólk vill standa við bakið á ljósmæðrum og við höfum góðar og velmenntaðar ljósmæður til þess að sinna þessari vinnu. Það eru algjör forréttindi að fá að vinna við þetta starf, að fá að deila mestu gleðistundum með foreldrum og styðja vel við þau og þar eru ljósmæður í lykilhlutverki. Ég óska öllum verðandi foreldrum þess að fá umönnun góðrar ljósmóður á meðgöngu, í fæðingu og í sængurlegu til þess að besta mögulega útkoma sé tryggð.“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út