Bleikt

Sigurveig hefur misst 59 kíló á einu ári: „Sá sjálfa mig sem sjúkling í hjólastól vegna offitu og viðurkenndi loksins að ég réði ekki við þetta“

Aníta Estíva Harðardóttir
Föstudaginn 15. júní 2018 20:00

Sigurveig Grímsdóttir hefur alla tíð glímt við það vandamál að vera í yfirþyngd. Þegar hún var einungis sautján ára gömul fór móðir hennar með hana til læknis þar sem hún hafði þyngst gífurlega mikið á stuttum tíma. Sigurveig fékk litla sem enga aðstoð á þeim tíma og hefur hún í gegnum árin reynt margt til þess að létta sig með misjöfnum árangri.

Það far ekki fyrr en Sigurveig viðurkenndi fyrir sjálfri sér að hún þyrfti á læknishjálp að halda að boltinn fór að rúlla. Í dag hefur Sigurveig lést um alls 59 kíló eftir að hún fór í magahjáveituaðgerð fyrir ári síðan.

„Ég hef alltaf verið chubby og virðist fitna auðveldar en flestir. Meira að segja á smábarnamyndum af mér er ég algjör bolla. Mamma hefur talað um að hún hefur aldrei skilið að af fjórum börnum þá var ég sú eina um að fitna svona. Þrátt fyrir að ég væri ekkert að borða annað eða meira en systkini mín,“ segir Sigurveig í viðtali við Bleikt.

Varð fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu sambýlismanni

Sigurveig í dag, 59 kílóum léttari á líkama og sál

Þegar móðir Sigurveigar fór með hana til læknis einungis sautján ára gamla í þeirri von um að hún fengi aðstoð var lítið um svör.

„Það eina sem hafðist úr því var að ég fékk afhentan alræmda Landspítalakúrinn sem fólst meðal annars í því að ég hefði þurft að byrja að drekka kaffi og borða sykurmola. Engin blóðprufa var tekin né neinar rannsóknir gerðar. Á þessum tíma kunni ég ekkert og hafði ekki netið til þess að leita til eins og í dag.“

Þegar Sigurveig var nítján ára gömul kynntist hún fyrrverandi sambýlismanni sínum.

„Því sambandi lauk svo fjórum og hálfu ári seinna þar sem ég var orðin alvarlega veik vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis sem ég mátti þola í sambandinu. Í dag er ég öryrki vegna þess en er staðráðin í því að komast yfir það einn daginn.“

Sigurveig upplifði mikið þunglyndi og fór hún fjárhagslega mjög illa eftir sambúðina.

„Ég fitnaði mikið, lifði á pasta og núðlum til þess að barnið gæti fengið almennilega að borða og hékk mikið inni.“

Féllust hendur þegar hún varð 125 kíló

Þegar Sigurveig kynntist núverandi manni sínum hafði hún fitnað svo mikið að hún vissi að hún gæti ekki náð sér á strik hjálparlaust.

„Ég reyndi margt með misjöfnum árangri. Mataræðið hefur almennt verið allt í lagi, ekkert verra en gengur og gerist hjá flestum. En það dugði ekki til að snúa við því sem orðið var. Ég komst niður í 100 kíló og varð þá ólétt að miðjubarninu mínu. Eftir að hún fæddist fór vigtin að stíga hærra og hærra sama hvað ég gerði.“

Dag einn féllust Sigurveigu hendur þegar hún steig á vigtina og sá töluna 125 kíló.

„Ég hafði aldrei viljað taka það skref að fara í neinskonar offituaðgerðir. Ég vildi gera þetta sjálf og hjálparlaust. Mér fannst aðgerð vera of stórt skref en þarna hafði ég náð einhverskonar botni. Ég sá sjálfa mig fyrir mér í framtíðinni sem sjúkling í hjólastól vegna offitu og viðurkenndi loksins fyrir mér að ég réði ekki við þetta og þyrfti hjálp. Ég elskaði líkamann minn og ég var ánægð með mig almennt. En ég hafði verulega áhyggjur af hvert þetta stefndi og þeim skaða sem ég væri að valda hnjám og hjarta af álaginu undan þunganum. Svo ég pantaði tíma hjá lækni og sótti um hjá Reykjalundi í offituprógramið hjá þeim, en það þurfti þá að fara gegnum Reykjalund til að fara í

magahjáveituna.“

Stoðkerfið fór að bregðast Sigurveigu

Þegar Sigurveig fór í blóðprufu kom einnig í ljós að hún væri með vanvirkan skjaldkirtil. Sigurveig beið lengi eftir því að komast að hjá Reykjalundi.

„Loks kom að því að byrja í ferlinu og gekk mér vel í því, þau á Reykjalund voru mjög ánægð með árangurinn minn en aftur varð ég ólétt. Þarna var ég komin með þrjú börn og þar af eitt smábarn, mann sem vann langar vaktir og ég bjó ekki á höfuðborgarsvæðinu. Svo það að sækja prógram í Reykjavík var orðið ansi snúið en ég vildi samt ekki gefast upp.“

Sigurveig fór því á námskeið í Sporthúsinu þar sem hún reyndi sitt besta upp á eigin spýtur.

„Fljótlega byrjaði ég að finna mikinn sársauka í hnjánum við allar æfingar. Læknir sendi mig í myndatöku og í ljós kom að ég er með of grunna skál fyrir hnéskelina sem gerir það að verkum að hún gengur upp úr og veldur þessum sársauka. Ég þurfti því að hætta í námskeiðinu og fór það verulega illa með mig andlega, svo illa að ég var nálægt því að gefast upp á þessu öllu. Ég varð mjög reið og svekkt yfir því að þurfa að hætta og hætti bara öllu. Ég hefði alveg geta haldið áfram í líkamsrækt og borðað holt mataræði en ég bara sá það ekki þá.“

Vildi gera þetta 100%

Þegar Sigurveig var komin langleiðina upp í 123 kíló las hún að hægt væri að fara í magahjáveituaðgerð í gegnum einkastofu.

„Ég hugsaði mig ekki tvisvar um og pantaði mér tíma hjá Aðalsteini á Klíníkinni. Viðtalið gekk einstaklega vel og sættumst við á það að það hentaði mér best að fara í hefðbundnu magahjáveituna. Ég fékk fyrirmæli um sérstakt mataræði í þrjár vikur fyrir aðgerð til þess að minnka lifrina. Ég vildi gera þetta 100% og hlýddi því öllu til hins ítrasta. Ég las allt sem ég gat, hverju ég gæti átt von á, mögulega aukakvilla, allt um mataræðið, uppskriftir og bara allt sem ég fann um þetta.“

 Sigurveig lagði fyrir pening og tók svo lán fyrir restinni af aðgerðinni.

„Loks rann upp dagurinn og ég fór loks í langþráðu aðgerðina mína. Auðvitað var þetta ekki auðvelt og þetta var enginn dans á rósum. Fyrst um sinn sá ég eftir þessu eina mínútuna og var svo ótrúlega ánægð þá næstu. Þetta er algjör rússíbani bæði andlega og líkamlega. Líkamlega hefur þetta gengið vonum framar, engir aukakvillar hafa hrjáð mig nema ég fékk smá ógleði sem ég fékk lyf við. Blóðprufur hafa komið mjög vel út hjá mér og þar sem ég var ekki komin með neina offitu tengda fylgikvilla fyrir aðgerð nema stoðkerfið að gefa sig þá hefur það allt gengið mjög vel.“

Liðið ár síðan Sigurveig fór í hjáveituaðgerðina

Nú er liðið ár síðan Sigurveig fór í aðgerðina og segir hún hlutina ganga mjög vel.

Sigurveig er ánægð með litlu sigrana

„Eftir því sem ég hef lést hef ég aukið hreyfinguna og mataræðið hefur verið stöðugt. Í byrjun borðaði maður mun minna og var svona enn að finna sig í þessu, hvað fór vel í mann og hvað ekki. Eftir því sem ég hef lést hef ég aukið hreyfinguna og mataræðið hefur verið stöðugt. Í byrjun borðaði maður mun minna og var svona enn að finna sig í þessu og hvað fór vel í mann og hvað ekki. Það er mjög einstaklingsbundið hvað fólk þolir. Ég til dæmis þoli allt kjöt og fisk sem ég hef prufað. Meðan aðrir þola til dæmis ekki rautt kjöt. Sumir fá mjólkuróþol eftir aðgerð, ég hef ekki fundið fyrir því en ég líka forðast mat sem er með hærri kolvetni en prótein og flestar mjólkurvörur aðrar en skyr og ostur t.d. er eitthvað sem ég borða lítið eða ekkert af. Ég borða sex sinnum á dag og 15 grömm af próteini í hverri máltíð að meðaltali. Ásamt því að borða grænmeti og aðrar hollar matvörur. Flestir þurfa að taka inn vítamín það sem eftir er ævinnar en ég hugsaði með mér að ég vildi frekar þurfa bætiefni út ævina heldur en lyf út ævina.“

Sigurveig segir ákvörðun sína um að fara í magahjáveituaðgerðina þá allra bestu sem hún hefur nokkru sinni tekið.

„Ég hef alltaf vitað nákvæmlega hvernig ástandið var og þess vegna var ég tilbúin til þess að taka þetta skref. Það skipti engu máli hvað vel og illa meinandi fólk sagði við mig um hvernig ég var orðin. Ef eitthvað var þá versnaði bara staðan ef fólk var að skjóta á mann eða hreint og beint særa mann viljandi.“

Ekki lengur offitusjúklingur

Í dag er Sigurveg búin að léttast í heildina um 59 kíló og heil 50 kíló síðan hún fór í aðgerðina.

„Ég er 153 sentimetrar á hæð og 125 kíló var því ansi hátt. Ég var með 53,4 í BMI þegar ég var sem þyngst, núna aftur á móti er ég ekki lengur offitusjúklingur heldur bara í ofþyngd og á einungis átta kíló eftir til þess að ná kjörþyngd. Ég er að vinna á því að koma hreyfingu á fullt hjá mér og tóna og styrkja líkamann. Ég er aftur komin á námskeið hjá Sporthúsinu og er búin að kaupa mína fyrstu hlaupaskó. Það eru þessi litlu markmið sem mér hefur þótt best að ná. Eins og til dæmis það að hlaupa upp í klifurkastala á eftir börnunum mínum eins og ekkert sé.“

Sigurveig hvetur fólk í sömu hugleiðingum að kynna sér málið mjög vel.

„Ekki láta það stoppa ykkur hvað öðru fólki finnst. Kynnið ykkur þetta vel, ekki bara það góða heldur líka það slæma. Þetta er ekki auðveld leið, hún er mjög erfið en hún kemur manni á staðinn og það hratt. Það eru verkir, og ógleði og mögulegir fylgikvillar, því það gengur ekki jafn vel hjá öllum eins og hefur gengið hjá mér. Og maður verður að spyrja sig, hvað ef? Er ég tilbúin að taka þetta skref ef það gengur svo illa. Jafnvel hjá mér sem hefur gengið svona vel hefur komið tímar þar sem ég sá eftir þessu, sérstaklega í byrjun. Góður undirbúningur er lykilatriði og gerir þetta auðveldara.“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út