Bleikt

Eva upplifði algjöra martröð þegar hún missti fóstur: „Ónærgætni er orð sem er mér efst í huga um heilbrigðisstarfsfólkið“

Aníta Estíva Harðardóttir
Miðvikudaginn 13. júní 2018 20:00

Eva Rún Hafsteinsdóttir segir ekkert geta lýst þeirri hamingju sem par upplifir þegar það uppgötvar þungun sem beðið hefur verið eftir. Sorgin sem tekur við þegar fósturlát á sér stað, sem hendir 10-35% kvenna, verður því óbærileg í kjölfarið.

„Mig hefur lengi langað til þess að setjast og skrifa niður um reynslu mína á því að missa fóstur, eða eins og í mínu tilfelli dulið fósturlát,“ segir Eva Rún í einlægri færslu sinni á Mæður.

Mikil hamingja þegar Eva uppgötvaði þungunina

„Ónærgætni er orð sem er mér efst í huga frá heilbrigðisstarfsfólki. Vissir þú að 10-35% kvenna missa fóstur fyrstu 12 vikurnar? Ég veit það svo sannarlega, því þetta var hér um bil það eina sem allir sögðu við mig.“

Eva segir hamingjuna hafa verið ólýsanlega þegar hún sá tvær dökkar línur á óléttuprófi.

„Þessar tvær dökku sjáanlegu línur sem skyndilega breyta lífi þínu og leyfa þér að hugsa um alla þá spennandi tíma sem fram undan eru. Maður fer ósjálfrátt í að vernda nýja meðliminn sem hefur tekið sér bólfestu í leginu.“

Þegar Eva fór í fyrsta sónarinn var var staðfest að hún væri gengin rúmlega átta vikur á leið og öflugur hjartsláttur ómaði um herbergið.

„Þetta varð allt svo raunverulegt. Ég fékk blað frá lækninum til þess að bóka mér tíma í tólf vikna sónar og komandi mæðraskoðun.“

Eva segir par sem er ný búið að komast að þungun ekki velta fyrir sér þeirri hugmynd að þau gætu mögulega lent í hópi þeirra sem misst hafa fóstur.

„Maður leyfir sjálfum sér ekki að hugsa til þess að verðandi leigjandi myndi snögglega hætta við, rifta leigusamningnum og finna sér eitthvað annað leg til þess að búa í. Allavega ekki í mínu tilfelli. Við svifum um á bleiku skýi og plönuðum komandi framtíð. Hvaða nafn skyldi passa við litla fóstrið?“

Þegar byrjaði að blæða vissi Eva strax hvað var að gerast

Daginn sem Eva missti fóstrið vissi hún strax hvað væri um að vera.

„Svo gerist það. Bara smá, varla sjáanlegt blóð og verðandi móðir veit strax hvað um er að vera. Tárin koma ósjálfrátt niður kinnarnar, hún heldur um magann og biður leigjandann um að íhuga málið vel og vandlega. Við getum pott þétt komist að niðurstöðu saman, bara ekki fara frá mér svona snögglega.“

Eva hringdi á kvennadeildina og biður um að fá að koma í skoðun vegna gruns um að hún sé að missa fóstrið.

„Ertu komin svona stutt? Það er ekkert sem ég get gert, ef þú ert að missa þá ert þú bara að missa. Farðu heim og fylgstu með blæðingunni. Fáir þú hita þá kemur þú. Þú ert bara ein af þessum 10-35% sem missa fóstur. Voru skilaboðin sem ég fékk frá kvennadeildinni.“

Eva gat ekki haldið tárunum aftur.

„Var leigjandinn ósáttur með leiguhúsnæðið?“

Eftir mikla andvökunótt, litla blæðingu en óstjórnlega verki var Evu boðið að koma í sónar til þess að skoða hvað væri í gangi.

„Ég hélt við hefðum komist að samkomulagi. Ég skyldi betrumbæta leiguumhverfið og fóstrið skyldi ekki rifta leigusamningnum. „10-35% kvenna missa fóstur einhvern tímann á lífsleiðinni, þannig virkar þetta bara stundum,“ sagði konan áður en hún skellti geli á magann á mér og skoðaði sig um. Á skjánum sást lítið fóstur sem myndað hafði lítið fallegt höfuð en tapað hafði hjartslætti sínum. Það var í svipaðri stærð og átta vikna fóstur og hafði því rift leigusamningnum 3 vikum og 2 dögum áður.“

Barnsgrátur ómaði um deildina

Pantaður var tími í aðgerð fyrir Evu daginn eftir þar sem fóstrið virtist ekki ætla að yfirgefa líkama hennar að sjálfdáðum.

„Heill dagur, þar sem við syrgðum. Hversu ósanngjarnt er það að þurfa að bíða í heilan dag, vitandi það að fóstrið er látið.“

Þegar kom að aðgerðardegi mætti parið syrgjandi með ekkasoga og enn grátandi.

„Við héldum enn í vonina um að þetta væri slæm martröð. Við fengum sér herbergi þar sem okkur var komið fyrir og svo tók biðin við. Í næsta herbergi bergmálaði hver hjartslátturinn á fætur öðrum hjá helling af ánægðum verðandi mæðrum. Ekki gat hvarflað að þeim að í næsta herbergi væri syrgjandi par sem grét sárt við hvern hjartsláttinn sem ómaði.“

 

Parið var virkilega ósátt með það að þurfa að deila rými með fólki sem var að upplifa besta tíma lífs síns á meðan þau væru að ganga í gegnum þann erfiðasta.

„Á ganginum frammi bergmálaði grátur nýfæddra barna, ásamt himinlifandi ættingjum sem streymdu inn með gjafir handa móður og barni. Það ætti ekki að láta syrgjandi foreldra sem eru nú þegar að ganga í gegnum erfiðasta tíma lífs síns hlusta á fallegan hjartslátt, heyra grátur í nýfæddu barni og sjá hamingjusama nýbakaða og verðandi foreldra.“

Ekkert annað en prósentutala

Eva segir að mikilvægt sé fyrir foreldra sem missa fóstur að fá að vera í sér aðstöðu.

„Fyrir heilbrigðisstarfsfólkinu vorum við ekkert annað en einhver prósentutala. Prósentutala sem hafði hlakkað meira til þess að eignast þetta barn heldur en allt annað. Prósentu tala sem enn þann dag í dag, rúmlega tveimur árum seinna, syrgir litla fallega leigjandann sem hefði getað átt yndislegt leiguhúsnæði í níu mánuði ef það hefði ekki þurft að gera aðra mikilvæga hluti á þessari stundu.“

Þegar parið gekk út af fæðingardeildinni hágrátandi og tómhent, gekk annað par út á sama tíma.

„Brosandi og hamingjusöm með pínu litla angann sinn í fallega heimferðarsettinu sínu og risastórum bílstól.“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út