Bleikt

Sigríður greindist tvisvar sinnum með sama krabbameinið: „Það skiptir máli að taka einn dag í einu“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 11. júní 2018 20:00

Í lok árs 2016 varð Sigríður Þorsteinsdóttir vör við sár sem myndast hafði við aðra geirvörtu hennar. Sigríður gerði þó ekki mikið mál úr því enda gerði hún ráð fyrir að sárið hefði myndast vegna þess að hún var á þessum tíma með dóttur sína, þriggja mánaða gamla, á brjósti. Fljótlega fór hún að taka eftir fleiri sárum um líkama sinn og um hálfu ári seinna greindist hún með sjaldgæft blóðkrabbamein sem átti eftir að breyta lífi hennar.

„Á nokkrum dögum voru sárin búin að dreifa sér um allan líkamann og líktist þetta mest hlaupabólu fyrst. Ég fór til læknis þann 27. desember og á næstu mánuðum vissu engir læknar hvað þetta var. Ég fór í fimm húðsýnatökur, nokkrum sinnum í skanna og alls konar rannsóknir en aldrei gátu þeir fundið út hvað þetta var,“ segir Sigríður, sem er aðeins 27 ára gömul, tveggja barna móðir. Hún er búsett á Akureyri með sambýlismanni sínum.

Upplifði óbærilegan sársauka

„Ég fór síðan í skurðaðgerð í handarkrika því þar var bólginn og sýktur eitill. Þá var sárið á geirvörtunni orðið ansi stórt og var farið að vaxa út úr brjóstinu. Sársaukinn var því orðinn óbærilegur en læknarnir vildu þó ekki skera það í burtu.“

Það var ekki fyrr en í skurðaðgerðinni á handarkrikanum sem skurðlæknirinn tók þá ákvörðun að það yrði að skera sár Sigríðar í burtu áður en skaðinn yrði skeður.

„Guði sé lof fyrir skurðlækninn að þetta ferlíki var skorið í burtu. Ég fór því í aðra aðgerð á innan við mánuði og mjög stutt er á milli skurða, aðeins um tíu sentimetrar. Ég er ekki með neina tilfinningu á þessu svæði ennþá,“ segir hún.

Aðgerðin á sári Sigríðar var framkvæmd þann 15. maí árið 2017 og tæpum tveimur vikum síðar fékk hún þær hörmulegu fréttir að um krabbamein hefði verið að ræða.

„Þetta heitir á íslensku húðfrumueitlakrabbamein og er einhvers konar blóðkrabbamein. Ég var svolítið reið því ég var búin að væla, tuða og skæla undan þessu ferlíki allan tímann en aldrei var hlustað á mig.“

Varð hrædd þegar krabbameinið var farið

Þann 12. júní hóf Sigríður erfiða lyfjameðferð þar sem hún mætti í sex skipti og innbyrti um tíu mismunandi tegundir af lyfjum í senn.

„Þetta var átakanlegur og erfiður tími. Ég gerði mitt besta til að sýna það ekki, en þegar ég lauk lyfjameðferðinni og var orðin laus við meinið varð ég eiginlega hræddari en áður. Ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera svo ég stökk út í lífið eins og ekkert hefði í skorist. Ég byrjaði að vinna af fullum krafti ásamt því að sinna heimilinu.“

Einungis tveimur vikum síðar fóru ný sár að myndast á höfði Sigríðar. Rannsóknir leiddu í ljós að um sams konar krabbamein var að ræða.

„Ég fór of hratt út í lífið, fagnaði of mikið og greindist svo með sama krabbameinið. En núna var ekki aftur snúið, ég fékk nýtt lyf sem er eins konar mótefni við mínu krabbameini og núna þarf ég að fara í sextán skipti í lyfjagjöf, á þriggja vikna fresti. Fyrir þessa lyfjameðferð fékk ég lyfjabrunn sem er festur í vöðva rétt neðan við viðbeinið hægra megin. Það er sömu megin og hinar tvær aðgerðirnar voru gerðar þannig að ég er alveg tilfinningalaus frá öxl og niður á síðuna á þeim helmingi líkamans, en það er ekkert annað í stöðunni, því æðarnar mínar eru eiginlega bara ónýtar eftir síðustu lyfjameðferð.“

Greindi börnunum ekki frá fyrra krabbameininu

Sigríður hefur fengið hjartsláttartruflanir vegna lyfjabrunnsins og er með stanslausa verki. Að hennar sögn eru aukaverkanirnar af lyfjunum samt það versta við veikindin. „Aukaverkanirnar eru verstu veikindin sem ég hef upplifað í gegnum þetta allt. Mér leið hræðilega af þeim en sem betur fer þá finn ég orðið minna fyrir þeim núna,“ segir Sigríður.

Þegar Sigríður greindist í fyrra skiptið ákvað hún að segja börnunum sínum ekki frá því að hún væri með krabbamein en þegar hún hóf seinni lyfjameðferðina greindi hún eldri stráknum sínum, sem er sjö ára gamall, frá veikindunum.

„Þegar ég greindist grét ég mjög mikið þegar enginn sá til en á endanum sætti ég mig við þetta. Aðrir í kringum mig voru eflaust í áfalli, en ég sagði við mitt fólk að neikvæðni og erfiðleikar væru ekki í boði.“

Jákvætt hugarfar Sigríðar hefur hjálpað henni að komast í gegnum þá miklu erfiðleika sem lagðir hafa verið á hana undanfarið ár.

„Ég ætla að sigra þetta. Ég hef látið eins og ég sé ekki veik, eða ég hef ekki þorað að leyfa mér það öllu heldur. Það hefur gert mér auðveldara fyrir að halda í jákvæðnina.“

Langaði að gefast upp

Á sama tíma og Sigríður komst að því að hún væri með krabbamein ákvað hún að taka mataræði sitt í gegn og fara að borða hollari fæðu.

„Aukaverkanirnar hjálpuðu til við holla mataræðið því ég gat ekki drukkið gos eða borðað þurran mat eins og brauð og svoleiðis. Ég borðaði hins vegar endalaust af ávöxtum og grænmeti. Það kom fyrir að ég féll í mataræðinu en þá kom ég mér bara af stað aftur.“

Sigríður segist í raun hafa verið búin að undirbúa sig fyrir að greinast aftur áður en að sárin byrjuðu að myndast í seinna skiptið.

„Það tók á að greinast aftur en ég var eiginlega búin að undirbúa mig fyrir það. Ég tók þessu samt á jákvæðan hátt aftur. Lyfjameðferðin gengur vel núna en það þurfti að minnka skammtinn um þriðjung, því að ég fékk svo svakalegar aukaverkanir. Sárin lokuðust fljótt eftir að lyfjagjöf hófst og ég held að horfurnar séu mjög góðar, þótt ég viti í raun ekkert um það.“

Sigríður viðurkennir að komið hafi upp tímabil þar sem hana langaði einfaldlega að gefast upp.

„Stundum vildi ég bara gefast upp og leyfa meininu að sigra mig. Ég var orðin þreytt, örmagna og búin að fá nóg. Ég held að þetta gerist hjá öllum sem berjast við krabbamein. Ég vildi samt ekki sýna alheiminum það, svo aðeins örfáir fengu að vita af því og fékk ég að heyra skammirnar fyrir að láta mér detta það í hug. Í svona bardaga við lífið er ómetanlegt að hafa fólk í kringum sig sem virðir mann og leyfir manni að berjast. Stuðningur og virðing er ómetanleg í þessu ferli sem og bataferlinu. Að hafa fólk til hliðar þegar maður snýst í hringi og veit ekkert hvernig maður á að lifa lífinu aftur.“

Ætlar að ferðast á meðan hún getur

Sigríður segist hlakka til að geta hafið störf aftur, þegar hún verður búin að jafna sig almennilega á krabbameininu, en þangað til stefnir hún á að ferðast mikið.

„Ég er nýkomin heim frá Glasgow, sem ég fór til með manninum mínum, og er á leið til Noregs með stráknum mínum í enda júní. Í júlí er ég svo að fara með vinkonum mínum til Balí þar sem við verðum  í tvær vikur og svo ætla ég á vörubílasýningu í lok ágúst með manninum og vinum okkar en ég hef starfað sem flutningabílstjóri undanfarin fimm ár.“

Sigríður segir enga tvo upplifa krabbamein á eins hátt en að mikilvægt sé að sætta sig við og viðurkenna að krabbameinið sé til staðar.

„Það má ekki láta krabbameinið taka lífið og tilveruna yfir og það skiptir máli að taka einn dag í einu.“

Sigríður opnaði Snapchat til þess að leyfa fólki að fylgjast með henni takast á við krabbameinið og er hægt að fylgjast með henni undir notandanafninu: siggaath

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út