Bleikt

Kristný varð stjúpmóðir aðeins sautján ára gömul: „Ef allir haldast í hendur í verkefninu sem það er að ala upp barn, þá endurspeglast það að sjálfsögðu í fasi barnsins“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 11. júní 2018 13:30

Kristný Maren var einungis sautján ára gömul þegar hún gekk inn í það ábyrgðarfulla hlutverk að verða stjúpmóðir.

„Ég þurfti að taka ábyrgð á því að geta veitt barni sem ég átti ekki sjálf, alla þá skilyrðislausu ást sem ég gat gefið frá mér og rúmlega það. Mér fannst mikilvægt að geta sýnt fram á endalausa hlýju til stráksins svo hann upplifði mig sem eina af hópnum, part af fjölskyldunni,“ segir Kristný í einlægri færslu sinni á Mæður.

Mun aldrei gleyma því þegar stjúpsonur hennar kallaði hana mamma

Kristný minnist þess að í upphafi hafi Arnór, kærasti hennar, verið nokkuð áhyggjufullur yfir því hvernig hún myndi takast á við þetta nýja hlutverk sitt.

„Ég og Arnór smullum saman strax frá upphafi og litli sex ára stubburinn fangaði hjartað mitt um leið, enda er drengurinn ótrúlegur sjarmur. Alveg eins og pabbinn. Þeir feðgar eiga alltaf sína heilögu stund á hverju einasta kvöldi þar sem þeir liggja uppi í rúmi fyrir svefninn og lesa, syngja, spjalla eða hafa það á einhvern hátt notalegt.“

Kristín segist muna sérstaklega eftir einu kvöldi þar sem Arnór og stjúpsonur hennar sátu og spjölluðu saman.

„Hann var að tala um hvað hann væri ánægður að eiga tvo pabba og fullt af ömmum og öfum. Svo sagðist hann að nú ætti hann mömmu og líka Kristnýju mömmu. Þarna fékk Arnór staðfestingu á hvaða hillu ég væri í lífi sonar síns. Ég hef sjaldan orðið jafn ánægð og fundið fyrir eins miklum heiðri og þegar Arnór sagði mér brosandi út að eyrum að ég væri Kristný mamma.“

Bjóst við tuði og erfiðleikum

Kristný viðurkennir að þegar hún hóf sambandið við Arnór hafi hún velt því fyrir sér hvaða drama hún væri að stökkva út í.

„Ég hélt að það væru endalausir pústar og tuð um hvað mamma hans væri erfið og svo öfugt. En það var sko aldeilis ekki. Við erum svo heppin með allt fólkið okkar og viðhorfið hefur mest með það að gera. Við tilheyrum okkar litlu kjarna fjölskyldu, við tilheyrum stórfjölskyldunni okkar og svo tilheyrum við súper fjölskyldunni sem til tengjumst í gegnum Gabríel. Það er aldrei neitt vesen, það bera allir virðingu fyrir öllum og málin eru alltaf tækluð af öllum í órjúfanlegri samstöðu og við uppskerum klárlega því sem við sáum. Ef allir eru á jörðinni og haldast í hendur í verkefninu sem það er að ala upp barn, þá endurspeglast það að sjálfsögðu í fasi barnsins.“

Kristný segir að sjálfsögðu komi upp deilur eða vangaveltur um uppeldisaðferðir en að lokum virði allir skoðanir hvor annara.

„Ég hef aldrei tekið eftir votti af afbrýðisemi eða illindum á milli okkar. Stundum erum við sammála um að vera ósammála, þá er það bara þannig og svo mætumst við á miðri leið og leysum málin.“

Auðvelt að vera afbrýðisamur

Kristný segir að hjá mörgum geti það vakið upp afbrýðisemi þegar börn byrja á því að kalla stjúpforeldri pabba eða mömmu.

 

„Þannig er það ekki hjá Arnóri, hann lítur á málin þannig að barnið hljóti að bera ómetanlegt traust til stjúppabba síns og að hann sýni honum mikla föðurást fyrst að strákurinn fyrst strákurinn er tilbúinn til þess að hleypa honum inn í þann hring að bera nafnið pabbi. Enda segir Arnór einfaldlega að hann geti seint þakkað honum fyrir það hversu traustur og frábær hann hefur verið í föðurhlutverkinu. Sérstaklega þegar Arnór var hreinlega of veikur til þess að sinna því sjálfur. Þrátt fyrir það var honum aldrei sýnd svo mikið sem arða af vantrausti til þess að sinna stráknum ekki af bestu getu. Þeir eru báðir pabbar hans og hann er ofboðslega heppin með þá.“

Kristný segir barnsmóður stjúpsonar sína hafa tekið sér opnum örmum og að þær séu góðar vinkonur.

„Hún var ein af þeim fyrstu sem mættu upp á fæðingardeild þegar Benjamín fæddist. Það skiptir miklu máli að halda tengslunum góðum, tryggum og opnum. Þannig opnar maður fyrir virðingu og virðing á milli foreldra er að mínu mati undirstaða þess að barninu farnist vel. Í stuttu máli gekk ég inn í hóp af snillingum sem leggja allt sitt undir til þess að gullmolinn okkar dafni eins vel og best verður á kosið. Hann lærir af svo mörgum og sér hlutina frá mörgum sjónarhornum. Þegar hann verður fullorðinn á hann eftir að geta tekið upp aragrúa af verkfærum sem honum hafa verið gefin í gegnum lífið til þess að búa sér til glæsta framtíð og ég efa það ekki eitt augnablik að það verði eitthvað annað en framúrskarandi persóna úr stráknum.“

Mikil byrði fyrir barn að lenda á milli foreldra

Kristný segir hugtakið „skilnaðarbarn“ vera eitthvað sem þarf að hætta að nota.

„Þótt ég sé ekki gömul þá heyrir maður enn um að óþekka barnið sé „skilnaðarbarn“. En hvað er það? Börnin endurspegla nánast undantekningarlaust umhverfi sitt. Ég get nánast staðhæft það að ekkert barn fæðist óþekkt, engin fæðist með illindi í sér, engin fæðist stressaður.“

Kristný segir fjölskyldumynstur þeirra vera forréttindi í ljósi mikillar umræðu um tálmun foreldra og réttindi feðra.

„Það að hindra umgengni án dóms og laga er hreinlega rosalegt mannréttindabrot í garð barnsins. En ég lít samt ekki á það eingöngu sem tálmun þegar umgengni er hindrunin. Margir nota þá taktík að tala niðrandi um hitt foreldrið. Mata barnið á neikvæðum hliðum annars aðilans eða tala við vinafólk á neikvæðan hátt um annan hvornaðilann í áheyrn/viðurvist barnsins. Hvað pabbinn sé mikið hitt og hann sé svo mikið þetta. Að mamman sé svo rugluð og hafi gert hitt og þetta. Getið þið ímyndað ykkur byrðina fyrir unga óþroskaða sál. Hugarangrið sem plagar það. Þetta eru ekki skilaboð sem við viljum sá í börnin okkar. Komum fram við hvort annað af virðingu, tölum saman. Gefum það frá okkur sem við viljum að krakkarnir taki upp og læri, sama hvað hefur gengið á og sama hvaða tilfinningar eru í gangi þá er í minnsta lagi hægt að sýna almenna kurteisi í garð hvors annars þó það sé ekki nema eingöngubarnanna vegna. Okkar mistök í makavali eða mistök í sambandi eru ekki á þeirra ábyrgð.“

Hægt er að fylgjast með Kristnýju á Instagram undir notandanafninu: kristnymm
Og Snapchat undir notandanafninu: kristnyyy

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út