Bleikt

Guðlaug varð fyrir kynferðislegri áreitni á Stuðlum: „Ég vissi upp á hár af hverju hann var þarna inni – Hann vildi stunda kynlíf“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 11. júní 2018 21:00

Guðlaug Sif Hafsteinsdóttir varð tvisvar sinnum fyrir kynferðislegri áreitni á meðan hún dvaldi á meðferðarstofnuninni Stuðlum þegar hún var einungis sextán ára gömul. Segir hún starfsfólk stofnunarinnar hafa brugðist sér algjörlega.

„Þetta var ekki í svona fullorðinsmeðferð heldur gerðist þetta inni á Stuðlum, meira að segja inni á neyðarvistuninni, þegar ég var sextán ára gömul.“

Þetta segir Guðlaug í einlægri færslu sinni á síðunni Amare.

Lýsir dvöl sinni á Stuðlum við unglingafangelsi

Guðlaug dvaldi á neyðarvistum Stuðla fyrir sex árum síðan og lýsir hún dvöl sinni þar meira við unglingafangelsi.

„Þar geta verið allt að fimm unglingar í einu. Þetta er mjög lítið svæði og mikið af unglingum sem koma þarna inn í allskonar ástandi og vegna allskonar vandamála, þó aðallega fíknivanda. Það skiptir máli hvoru megin stelpur og strákar sofa og þegar ég var þarna fyrir sex árum síðan var það þannig að það voru tvö herbergi á móti baðherbergjunum og þrjú herbergi þeim megin sem setustofan og sjónvarpið voru. Á milli þessara herbergja var stór stálhurð sem aðskildi kynin á næturnar. Það skipti því máli hvert kynjahlutfallið var hverju sinni.“

Þegar Guðlaug var vistuð inni á neyðarvistun var að eigin sögn hún mjög veik andlega, í mikilli fíkniefnaneyslu og sá enga leið út.

„Við vorum þarna þrjár stelpur og tveir strákar. Ég kannaðist aðeins við einn strákinn þarna inni, hann kom inn á eftir mér í mjög slæmu ástandi og hinir krakkarnir sem voru yngri en ég voru hálf hrædd við hann. Ég var svo sem alveg vön svona látum svo á meðan hann var brjálaður sat ég í sófanum að horfa á sjónvarpið með sængina mína. Hinir krakkarnir voru settir inn í tölvuherbergið vegna hræðslu en ég kippti mér lítið upp við þetta. Hann róaðist fljótlega niður og settist við hliðina á mér. Hann reyndi ítrekað að troða sér undir sængina til mín en ég streittist á móti. Að lokum lét ég undan og gaf honum smá sæng með mér.“

Vistmaður káfaði ítrekað á Guðlaugu gegn hennar vilja

Guðlaug gerði ráð fyrir því að starfsmenn Stuðla væru að fylgjast með öllu sem á gekk.

„Þeir brugðust mér hressilega í þessum aðstæðum. Strákurinn fór að reyna að káfa á mér og fara inn á buxurnar mínar. Ég sýndi honum að ég vildi þetta ekki og sagði honum að hætta. Hann hélt áfram gegn mínum vilja en sem betur fer ekki lengi þar sem starfsmaður kom að lokum og tók sængina. Þeir brugðust mér samt, hann var búinn að brjóta á mér.“

Guðlaug á sínum yngri árum

Vegnar slæmrar andlegrar heilsu á þessum tíma velti Guðlaug sér lítið upp úr þessu og fannst þetta eðlilegt.

„Karlmenn eru nú með þarfir er það ekki?“

Þegar leið að kvöldi var Guðlaugu hins vegar farið að líða illa yfir því að þurfa að deila sama húsnæði og strákurinn.

„Mig langaði svo að komast í burtu en ég þorði ekki að segja frá. Ég hélt að enginn myndi trúa mér. Það var ekkert annað að gera en að fara bara að sofa svo ég gerði það.“

Guðlaug vaknaði upp um miðja nótt og ákvað að fara á klósettið. Til þess þurfti hún að láta opna stálhurðina sem aðskildi kynin.

„Það var enginn starfsmaður sjáanlegur og þeir komu ekki fyrr en fimmtán mínútum síðar þegar ég var búin að banka stanslaust.“

Starfsmennirnir opnuðu hurðina fyrir Guðlaugu og brá hún sér á salernið.

Strákurinn skreið á gólfinu og fór inn í herbergi Guðlaugar

„Þegar ég kom til baka inn í herbergið mitt brá mér frekar mikið. Þar stóð þessi strákur inni hjá mér. Hann hafði skriðið á gólfinu á meðan ég var á klósettinu án þess að starfsmaður hafði orðið hans var og farið inn í herbergið mitt. Ég fraus í smá stund en svo helltist reiðin yfir mig og ég sagði honum ítrekað að drulla sér út því ég væri að fara aftur að sofa. Ég hrópaði frekar hátt á hann, það hátt að starfsmaður ætti léttilega að geta heyrt til mín en það kom enginn. Ég var farin að verða svolítið stressuð af því að ég vissi upp á hár af hverju hann væri þarna inni, hann vildi stunda kynlíf. Hann reyndi aftur að káfa á mér, bæði á brjóstunum og klofinu. Reyndi eins og hann gat að smeygja höndunum inn á mig, en ég barðist á móti og öskraði stanslaust á hann.“

Að lokum gafst strákurinn upp og yfirgaf herbergi Guðlaugar.

„Hann fór þá inn í herbergið hjá næstu stelpu. Hún fór líka að öskra og þá loksins mætti starfsmaður til þess að fjarlægja hann með látum og læsti hann inni í herberginu sínu. Starfsmaðurinn kom í tæka tíð til þess að bjarga stelpunni en hann hafði brugðist mér aftur. Tvisvar sinnum á hálfum sólarhring varð ég fyrir kynferðislegri áreitni frá sama stráknum.“

Guðlaug svaf ekkert eftir að strákurinn hafði verið fjarlægður enda var hún í miklu áfalli.

Var mjög veikur unglingur

„Dagarnir eftir þetta eru í frekar mikilli þoku og ég man lítið eftir þeim, enda margbrotin sál og það eina sem ég sá í stöðunni var að bæla þetta niður svo ég sagði engum frá. Ég sé eftir því í dag að hafa ekki sagt neitt strax en hvernig gat ég treyst þessum stað til þess að bjarga mér úr þessum aðstæðum þegar þeir voru búnir að bregðast mér harkalega tvisvar sinnum á svona stuttum tíma. Ég var mjög veikur unglingur að takast á við of mikið í einu. Ég gat ekki hugsað um sjálfa mig og það var búið að brjóta mig gjörsamlega niður. Ég hafði engan vilja til þess að segja frá.“

Guðlaug hefur velt því fyrir sér af hverju hún hefði átt að segja frá þessum atburði og hvort eitthvað hefði verið öðruvísi hefði hún gert það.

„Til þess mögulega að vera kallaður lygari, því jú allir fíklar eru lygarar. Til þess að þurfa að fara í skýrslutöku og upplifa atburðinn aftur með orðum? Til þess að reyna að kæra án vitna eða sannana, bíða í nokkur ár og tapa svo málinu? Meira að segja enn þann dag í dag, sex árum síðar hefði ég líklega ekki gert neitt öðruvísi heldur en ég gerði þá. Kerfið hérna á Íslandi er svo gjörónýtt að ég hefði ekki lagt það á mig að fara í gegnum þetta ferli. Hann hefði örugglega aldrei fengið neinn dóm og ef ég hefði orðið svo „heppin“ að vinna málið, þá hefði hann mögulega farið á skilorð hvort eð er.“

Kerfið brást Guðlaugu algjörlega

Guðlaug hvetur að sjálfsögðu öll fórnarlömb kynferðislegrar áreitni að stíga fram og segja frá til þess að fá þá hjálp sem þarf.

Guðlaug með syni sínum í dag

„Ég er alls ekki að segja að maður eigi ekki að kæra og að það sé ekki þess virði, en hvers eigum við að gjalda? Þegar við verðum fyrir svona atvikum sem sitja eftir, hvernig eigum við að ná bata ef að réttarkerfið gerir ekki annað en að bregðast okkur og standa með níðingum? Hvernig eigum við að þora að stíga fram vitandi það að það séu 5% líkur á því að útkoman verði okkur í hag? Það eru ótal margar spurningar sem mig langar að spyrja en ég veit að fingrum er bent í allar áttir og engin svör fást.“

Áreitnin sem Guðlaug varð fyrir á Stuðlum var hvorki fyrsta né síðasta skiptið sem hún hefur lent í kynferðislegri áreitni og misnotkun.

„En þarna brást kerfið mér algjörlega. Ég sat inni á meðferðarheimili, sextán ára gömul og það var ekki einu sinni tekið eftir því að það hafi verið brotið á mér og ég þorði ekki að segja neitt. Þetta gerðist inni á stofnun þar sem klósettin eru úr stáli, við borðum með plast hnífapörum, höfum ekkert einkalíf og það er myndavélakerfi út um allt. Á þessari stofnun átti ég að vera vernduð frá sjálfri mér, öðrum og umhverfinu en samt varð ég fyrir þessu, oftar en einu sinni. Það er nefnilega ekki bara dómskerfið sem þarf að breytast og lagast en þarna missti ég alla trú á kerfinu og sit eftir með djúpt ör að eilífu. Þetta er eilífðarvinna. Þetta er dómur fyrir lífstíð fyrir fórnarlömbin á meðan níðingarnir ganga um lausir þökk sé þessu æðislega kerfi. Ísland er best í heimi, ekki satt?“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út