Bleikt

Sveina Rún vill bæta ímynd geðdeildar: „Við erum ekki alltaf jafn sterk og við höldum“

Aníta Estíva Harðardóttir
Laugardaginn 9. júní 2018 13:30

Sveina Rún var lengi vel með fordóma fyrir geðdeild, allt þar til hún þurfti sjálf að leggjast þar inn nýlega.

„Ég var með fordóma, þangað til að ég þurfti að leggjast þar inn nýlega og fljótlega sá ég að ég þyrfti að éta margt ofan í mig. Ég fór samt þangað inn fyrir 10 árum og skammaðist mín ekkert fyrir það, því jú, ég gat notað afsökunina „ég var svo ung og vitlaus“. Vissulega var það rétt en ég var mjög lasin á geði þá líka. En að fara þangað inn aftur, eftir 10 ár, tveggja barna móðir, hætt að drekka og komin á góðan stað. Hvað gerist? Þvílík skömm. Að ég hélt,“ segir Sveina í einlægri færslu sinni á Facebook.

Fékk aðstoð þegar hún var á barmi taugaáfalls

Sveinu hefur lengi langað til þess að tjá sig um geðdeildina vegna þeirra fordóma sem samfélagið hefur á henni.

„En fljótlega sá ég að ég var sterk. Ég fékk mér aðstoð áður en allt fór úr böndunum og áður en ég gerði einhverja bölvaða vitleysu, því ég var svo sannarlega nálægt því. Enda ekki með hausinn í lagi.“

Þegar Sveina var á barmi taugaáfalls heyrði vinkona hennar í henni sem kom henni að í tíma hjá sálfræðingi sem í kjölfarið lagði Sveinu inn á geðdeild.

„Þar inni var ég á mínum allra versta stað, búin að missa 5 kíló á aðeins 4 dögum, með ofsakvíða og öll líkamlegu einkennin sem því fylgir. Þvílíkur viðbjóður sem það er. Ég var komin með sýkingu í þvag sem talið var hafa komið vegna næringarskorts. Ég var vöktuð fyrstu dagana og hausinn á mér í algjöru fokki.“

Sveina segir að allir sem hún hafi kynnst á geðdeild, bæði sjúklingar og starfsfólk hafi verið alveg frábært.

„Ein vinkona mín kom í heimsókn til mín á geðdeild. Hún hefur og er að díla við erfiðleika sjálf. Henni var einu sinni boðið að leggjast inn á geðdeild og hún harðneitaði, hún ætlaði sko ekki að láta leggja sig inn með einhverjum geðsjúklingum sem þyrfti að sprauta niður á hverjum degi.“

Ímynd geðdeildar ekki góð

Meðfylgjandi myndir eru af Sveinu þegar hún var inn á geðdeild

Sveina segir þessa ímynd af geðdeild ekki óalgenga.

„Vinkona mín var í sjokki þegar hún kom og sá hversu heimilisleg þessi deild var og hvað allir voru indælir. Þetta er alls ekki eindæmi og fóru margir alveg í kerfi þegar þeir heyrðu hvar ég hefði verið. 2018 er þetta ennþá tabú hjá mörgum. Sem betur fer ekki öllum. Hvenær verður samt innlögn á geðdeild eða tímar hjá sálfræðingi á sama stalli og að leggjast inn á spítala með beinbrot? Það yrði auðveldara og jafnvel algengara að fólk myndi leita sér hjálpar og vonandi áður en fólk lendir gjörsamlega á botninum, rétt eins og gerðist hjá mér.“

Lengi vel var Sveina að gefast upp vegna svefnleysis, þunglyndis og erfiðs ungabarns.

„Ég hugsaði alltaf „ég höndla þetta alveg. Margir eiga fleiri börn og eru ekki jafn miklir aumingjar og ég.“ Einmitt Sveina. Ég ætti að vita að þolmörk hvers og eins eru misjöfn.“

En það kom að því að erfiðleikarnir bönkuðu upp á hjá Sveinu og þegar það gerðist var hún ekki í andlegu jafnvægi til þess að takast á við það.

„Ég var einfaldlega búin. Á líkama og sál. Og innlögnin inn á geðdeild Akureyrar bjargaði lífi mínu. Starfsfólkið, sérstaklega hjúkkurnar björguðu lífi mínu. Ein var í algjöru uppáhaldi en þær allar voru einstakar og pössuðu vel upp á mig. Þegar það kom að því að útskrifa mig að þá vildi ég helst ekki fara heim.“

Umræða um holdarfar annara aldrei viðeigandi

Meðfylgjandi myndir eru af Sveinu þegar hún var inn á geðdeild

Sveina vill opna umræðuna um geðdeild vegna þeirra fjölda ranghugmynda sem virðast vera um staðinn í samfélaginu í dag.

„Þetta innlegg mitt á kannski ekki eftir að breyta neinu en hver veit? Ég massaði þetta og er bilaðslega stolt af sjálfri mér, en ég þurfti hjálp. Mæli með að fleiri leiti sér hjálpar. Við erum ekki alltaf jafn sterk og við höldum. Ég er góð í dag, enda með fjölskyldu sem passar upp á mig og fullt af vinum og besta kærasta í heimi. Ég er lánsöm.“

Sveina vill líka að fólk átti sig á því að umræða um holdafar annara sé aldrei viðeigandi.

„Þá meina ég ekki að þeir nánustu megi ekki lýsa yfir áhyggjum sínum, ég er að meina að fólk úti í bæ eigi að passi sig á að ræða ekki á holdafar annara. Og með því er ég að tala um setningar eins og „Borðarðu ekkert lengur?“, „Voðalega ertu orðin horuð“ og „Þú ert bara að hverfa, sonur þinn er stærri en þú.“ En þetta eru hlutir sem ég fæ að heyra mjög oft. Ég hef fengið endalaust af svona bulli. Ég er þannig að ég borða lítið þegar mér líður illa og sumir borða alltof mikið. Á þessum tíma var ekkert sérlega skemmtilegt að hlusta á svona ræður og læt ég meðfylgjandi myndir fylgja af mér inni á geðdeild. Á mínum versta stað og gjörsamlega á kafi í sjálfshatri og allskonar öðru og þessi komment hjálpuðu bara alls ekki neitt. Hugsum og pælum smá. Og munum að við þurfum ekki að hafa skoðanir á öllu. Sérstaklega ekki því sem við ekki skiljum.“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV.
Netfang: anita@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 4 dögum

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“

Amanda hræðist framtíðina: „Ég hef áhyggjur – Ég er leið – Ég finn fyrir vanmætti“
Bleikt
Fyrir 4 dögum

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út

Ert þú að gifta þig á næsta ári? Brúðarkjólatískan fyrir árið 2019 er komin út