fbpx
Bleikt

Lystarstol dró Söru Ósk nánast til dauða: „Ég skildi ekki af hverju þau vildu leggja hval inn í átröskunarmeðferð“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 22. apríl 2018 22:00

Sara Ósk Vífilsdóttir hefur, þrátt fyrir ungan aldur, gengið í gegnum ýmsar raunir. Faðir Söru er alkóhólisti og fíkill og það litaði æsku hennar verulega. Í kringum 11 ára aldur þróaði Sara með sér alvarlegt þunglyndi sem leiddi til lystarstols (e. anorexia).

„Ég vildi ekki fá vinkonur mínar heim því pabbi minn var alltaf uppdópaður heima. Ég fór að draga mig mikið úr vinahópnum og það leiddi til þess að ég fór að finna fyrir andlegum þyngslum þegar ég var 11 ára gömul. Ég var þó ekki greind með þunglyndi fyrr en ég var þrettán ára,“ segir Sara Ósk í viðtali við DV.

Neysla föður hennar varð verri með árunum

Sara er 18 ára gömul og stundar nú nám á sjúkraliðabraut við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.

„Ég bý með móður minni og tveimur bræðrum. Ég og mamma erum alveg svakalega nánar. Við erum oft eins og einhverjir aular saman hérna heima og ég er almennt með skemmtilegan húmor og mjög glaðlynd manneskja.“

Sara Ósk er í góðu andlegu og líkamlegu formi í dag. /Mynd: Hanna Andrésardóttir

Sara telur veikindi sín hafa byrjað vegna ástands föður hennar og hversu illa henni leið vegna þess.

„Þetta byrjaði allt saman vegna föður míns. Hann er alkóhólisti og fíkill og það gerði það að verkum að æska mín var svakalega erfið. Ég hafði alltaf verið með mikinn kvíða á meðan pabbi var í neyslu og hann ágerðist með aldrinum. Ég fór til barnasálfræðings og fékk aðstoð frá SÁÁ sem hjálpuðu mér rosalega mikið.“

Deyfði tilfinningarnar með mat

Sara hóf að borða mikið þegar hún var mjög ung til þess að reyna að deyfa tilfinningar sínar. Hún var fljótlega komin í mikla yfirþyngd og hafði, að eigin sögn, enga stjórn á sjálfri sér.

„Ég borðaði vegna þess að mér leið illa og mér leið betur eftir að hafa borðað helling af mat. Ég bara át tilfinningar mínar í burtu. Ég var hætt að mæta í skólann því ég var orðin svo félagsfælin og ofboðslega kvíðin. Ég gat ekki hugsað mér að allir væru að horfa á þennan feita líkama minn.“

Sara fór hægt og bítandi að hata líkamann og reyndi hvað hún gat til þess að grenna sig.

Bráðateymi BUGL fékk áfall vegna þyngdartaps Söru

„Ég vildi taka mig á af því að ég hataði hvernig ég leit út. Ég var feitasta stelpan í öllum árganginum. Ég byrjaði í líkamsrækt en ég gafst alltaf upp og át bara meira. Mér fannst það taka allt of langan tíma að sjá breytingar.“

Á þessum tímapunkti var Sara komin í meðferð hjá bráðateymi á BUGL vegna mikillar vanlíðanar og var á biðlista á legudeildina.

„Ég var ekki farin að þjást af lystarstoli á þessum tímapunkti en þetta var upphafið. Ég leitaði mér upplýsinga á netinu um hvernig hægt væri að losna hratt við aukakíló og ég fann heilmikið. Ég byrjaði á því að minnka matarskammtana mína og að fá mér bara einu sinni á diskinn.“

Fljótlega léttist Sara og hún komst í þá þyngd sem hana hafði dreymt um. Hún gat hins vegar ekki hætt.

„Þegar ég var loksins komin í þá þyngd sem ég vildi vera í þá hugsaði ég með mér, eitt kíló í viðbót. Svo þegar það var farið, þá hugsaði ég, tvö kíló í viðbót. Fyrst að ég gat þetta þá get ég gert enn þá meira og grennst heilan helling og loksins orðið eins mjó og ég vildi vera, þannig að þetta fór gjörsamlega út í öfgar.“

Leið eins og drottningu þegar hún sleppti máltíð

Sara segir erfitt að útskýra líðanina og því sem er í gangi í höfðinu á manneskju sem þjáist af lystarstoli

„Mér leið ekki vel. Mér leið ógeðslega illa. En mér leið eins og drottningu þegar ég sleppti máltíð og ég var ekkert smá stolt af mér. Mér leið eins og ég væri að sigra heiminn. Ég drakk bara grænt te og át nokkrar hnetur á dag. Fór á vigtina tvisvar til þrisvar sinnum á dag. Ég hélt þessu til streitu þar til ég var farin að borða bara einu sinni á dag, alltaf innan við 500 hitaeiningar.“

Sara grenntist hratt og missti um 20 kíló á 3 mánuðum. / Mynd: Úr einkasafni

Sara var komin vel undir kjörþyngd og hafði misst meira en 20 kíló á þremur mánuðum þegar hún var send í blóðprufur sem komu mjög illa út.

„Ég var strax lögð inn á legudeild BUGL. Mér hafði verið sagt að átröskunarmeðferðin sé ein erfiðasta meðferðin hjá þeim vegna þess að þar er verið að láta mann gera eitthvað sem maður vill ekki gera. Allt gegn vilja manns. Það er verið að láta mann borða þegar það er það síðasta sem maður vill gera.“

Þroskaðist ekki líkt og jafnaldrar hennar

Veikindi Söru höfðu verulega slæm áhrif á líf hennar og útilokaði hún sig alveg frá öllum félagsskap.

„Ég var ekki í neinu sambandi við vinkonur mínar, náði ekkert að þroskast eins og þær og byrjaði ári seinna í framhaldsskóla. Ég þekkti bara það að vera inni á BUGL og það umhverfi. Þunglyndið jókst því bara og kvíðinn líka. Foreldrar mínir og ömmur og afar voru öll skíthrædd um mig og vissu ekkert hvað þau ættu að gera.“

Vanlíðan Söru var gífurleg. / Mynd: Úr einkasafni

Sara lýsir upplifun sinni á sjúkdómnum sem algjöru helvíti.

„Mér fannst ég vera eins og hvalur þegar ég var það alls ekki. Þetta er algjört helvíti, mér fannst ég vera föst inni í þessu „fangelsi“ og ég komst ekki út. Samt langaði mig ekki út. Mér fannst eins og litla stelpan inni í mér öskraði á hjálp en svo var þessi slæma vinkona sem var alltaf við eyrað á mér að banna mér að borða og halda áfram að vera svona dugleg að svelta mig því þá yrði ég svo flott og allir myndu elska mig meira. Það þarf helvíti mikið til þess að komast úr þessu fangelsi og takast á við sjúkdóminn. Þess vegna þurfti ég hjálp.“

Skaðaði sjálfa sig ef hún borðaði

Sara taldi sér trú um að hún væri ekki nægileg góð vegna þess hvernig hún leit út og að móðir hennar elskaði hana ekki vegna þyngdar hennar.

„Hugsun mín var að ég væri ógeðslega feit og að mamma mín elskaði mig ekki ef ég væri svona. Ég vildi sjá beinin á mér og ef ég borðaði þá var ég að skaða sjálfa mig. Ég vildi deyja, það var allt ómögulegt.“

Sara sóttist eftir því að sjá bein sín standa út. / Mynd: Úr einkasafni

Sara áttaði sig í raun aldrei almennilega á veikindunum og taldi hún starfsmenn BUGL vera klikkaða að reyna að fita hana.

„Ég áttaði mig í raun aldrei á veikindunum fyrr en eftir síðustu innlögn. Þá áttaði ég mig á því að þetta er ekki lífið sem ég vil lifa. Ég vildi ekki vera inn og út af spítala og hafa ekki möguleika á að eignast börn í framtíðinni. Ég vissi bara þá að ég þyrfti að breytast og vera sterk. Ég var tilbúin, en samt ekki. En viljinn var sterkari í þetta skiptið þannig að mér tókst þetta.“

Auðvelt að halda sjúkdómnum leyndum í upphafi

Sara segir að í upphafi hafi verið auðvelt að halda sjúkdómnum leyndum en að fljótlega hafi fólk áttað sig á því að eitthvað væri að þegar hún fór að grennast óeðlilega hratt.

„Ég náði að halda þessu leyndu í einhvern tíma en það var ekki lengi. Ég sagði öllum að ég hefði fengið mér að borða rétt áðan og að ég væri ekkert svöng fyrir kvöldmatinn. Svo var mér reglulega illt í maganum og ýmislegt þess háttar. Ég gat líka klætt þetta aðeins af mér með víðum fötum. Fólk var almennt ekkert að skipta sér af mér, nema fjölskylda mín. Þau spurðu mig af hverju ég væri að gera mér þetta.“

Grannir fótleggir Söru báru hana varla. / Mynd: Úr einkasafni

Þegar Sara var lögð inn á BUGL taldi hún sig ekki þurfa á neinni aðstoð að halda og taldi aðra krakka hafa það verra en hún.

„Ég fékk hjálp en ég var ekki tilbúin fyrir hana, eða mér fannst ég ekki þurfa hana. Ég skildi ekkert í þeim, af hverju þau vildu leggja einhvern hval inn í átröskunarmeðferð. Í dag finnst mér hjálpin hafa verið æðisleg en mér fannst það ekki þá. Ég veit ekki hvar ég væri í dag ef ekki væri fyrir þetta yndislega fólk. Þau eru mér mjög dýrmæt. Ég viðheld mér mjög vel í dag, er í einkaþjálfun, borða reglulega og fer í ræktina. Ég á mína slæmu daga eins og allir aðrir og finnst ég vera feit. En ég veit að ég er það ekki og ég er fljót að grípa inn í þegar ég fer að hugsa svona og það er stór sigur hjá mér.“

Læknast aldrei alveg

Sara segist vera virkilega hrædd um að detta í sama farið aftur enda læknist maður aldrei alveg.

„Þetta er það versta sem hefur komið fyrir mig en það hefur samt gert mig að sterkari manneskju. Ég mun ekki láta það gerast að ég detti aftur í sama farið. Maður læknast aldrei alveg af þessum sjúkdómi að mínu mati og maður þarf alltaf að vera á varðbergi. Þetta er barátta á hverjum degi. Í dag er ég á mínum besta stað í lífinu. Ég sé framtíð fyrir mér. Mitt markmið var að verða sjálfsörugg, heilbrigð og sterk. Mér tókst það, ég er í heilbrigðri þyngd og er með fullt af vöðvum.“

Sara Ósk hugsar vel um líkama og sál í dag. / Mynd: Hanna Andrésardóttir

Sara ráðleggur fólki sem tengir við hugsanir hennar að leita sér hjálpar.

„Ég veit að það hljómar mjög asnalega í annarra eyrum en það er þess virði. Besta hjálpin fyrir mig var þegar það var einblínt á samband mitt og mömmu. Ég var rosalega reið út í hana því hún reyndi alltaf að láta mig borða heima. Ég talaði ekkert við hana en eftir að við leystum þetta þá blómstraði ég og mamma líka. Ég var í raun aðeins klukkutímum frá dauða en þá opnuðust augu mín. Ég vissi að eitthvað væri ekki eins og það átti að vera. Það er mikilvægt að læra að elska sjálfan sig, því um leið og það gerist þá fer allt upp á við. Að svelta sig er ekkert líf, en að vera svona hraust eins og ég er í dag er það besta sem ég gæti beðið um.“

Aníta Estíva Harðardóttir
Aníta Estíva Harðardóttir er umsjónarmaður Bleikt á DV. Hún hefur stundað nám við félagsfræði, fjölmiðlafræði, leikstjórn og framleiðslu.

Netfang: anita@pressan.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bleikt
Fyrir 3 dögum

Kynlíf undir áhrifum

Kynlíf undir áhrifum
Bleikt
Fyrir 3 dögum

Hrollvekjandi heimagerðir búningar Íslendinga á Halloween – Þorir þú að kíkja?

Hrollvekjandi heimagerðir búningar Íslendinga á Halloween – Þorir þú að kíkja?
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Aníta Rún: „Það er ekkert til sem heitir stelpu eða stráka litir – Þetta eru bara litir“

Aníta Rún: „Það er ekkert til sem heitir stelpu eða stráka litir – Þetta eru bara litir“
Bleikt
Fyrir 6 dögum

Anna girnist yngri mann: Er 23 ára aldursmunur í lagi?

Anna girnist yngri mann: Er 23 ára aldursmunur í lagi?